Fara í efni

Hæfileikar á síðustu stundu

 

- Forsetakosningar -

(Sykurhúðun sundrungar)

Sykurhúðun sjáum flest,

setta með í gerðum.

Sundrunguna sannar best,

í sínum mörgu ferðum.

Það er merkilegt oft í aðdraganda kosninga þegar nefndir eru til sögu sérstakir hæfileikar og mannkostir ákveðinna frambjóðenda sem aldrei hefur áður orðið vart við.
Sumir eru jafnvel sagðir hafa barist fyrir „mannréttindum“ en virða þó ekki sjálfan lífsréttinn og berjast fyrir rýmkun á meintum „rétti“ til þess að binda enda á líf annara. Réttur ófæddra barna er að engu hafður og þau afmennskuð. Sama fólkið og telur það rétt manneskju að ákveða líf og dauða ófæddra barna ræðir síðan hátíðlega um „mannréttindi“, sérstaklega í öðrum ríkjum. Einhvern tímann hefði það verið kallað tvöfalt siðgæði. Það væri þó nær að spyrja: hefur þetta fólk eitthvert siðgæði yfirleitt?

Leyndir hæfileikar

Fleira er áberandi í umræðunni. Sumir frambjóðendur eru sagðir svo „reynslumiklir“, kom svo vel fyrir, vera „elskulegar manneskjur“ og jafnvel færa svo „góð rök fyrir máli sínu“. En er vitglóra í svona framsetningu? Skoðum þetta betur. Afstöðu sem hér um ræðir má skipta gróflega í annars vegar huglæga afstöðu og hins vegar hlutlæga afstöðu.

Hvað merkir það að vera „reynslumikill/reynslumikil“? Einstaklingur sem hefur setið t.d. 15-20 í sæti ráðherra er hann þar með, sjálfkrafa, orðinn „reynslumikill“? Hvernig lýsir sú „reynsla“ sér? Kemur hún fram í vandaðri ákvörðunum viðkomandi einstaklings?

Er líklegt að viðkomandi sem nægan tíma hafði á Alþingi til þess að taka réttar ákvarðanir, þjóðinni til heilla, en gerði það ekki (sbr. t.d. orkupakka þrjú) byrji síðan á því eftir að vera orðinn forseti á Bessastöðum? Þarf ekki að skoða þessar röksemdafærslur betur?

Hvað merkir það að „koma vel fyrir“. Er það ekki í besta falli mjög huglæg afstaða sem ræður mati fólks á því? Hvernig verður manneskja „elskuleg“? Er það gert með því að segja eitt og gera annað eða verður fólk sjálfkrafa „elskulegt“ ef það myndar meirihluta með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki? Hvernig skilgreinir fólk „elskulegheit“?

Þá um það að „færa rök fyrir máli sínu“. Frambjóðendur sem eru hluti af valdaklíkunni og koma beint úr henni eru aldrei spurðir gagnrýnna spurninga, séu þeir í sérstöku uppáhaldi starfsfólki opinberu áróðurveitunnar, RUV. Það sýndi sig í kappræðum þann 3. maí síðastliðinn.

Þegar frambjóðandi hugðist ganga eftir svörum gagnvart öðrum frambjóðanda stoppuðu stjórnendur þáttarins hann af. Meðal annars þannig lýsir undirlægjan sér gagnvart ákveðnu fólki og ákveðnum málefnum, s.s. orkupakka þrjú. Reynt er að þegja mál í hel ef þau hafa mikla þjóðfélagslega þýðingu til langs tíma. Þess vegna verður fróðlegt að sjá afstöðu RUV til orkupakka fjögur og alla meðvirknina þar.

Líklegt er að sérstök málpípa RUV í Brussel verði látin segja nokkur orð um meint mikilvægi orkupakka fjögur, og alla þá neytendavernd sem í honum felist, og þar með verði málið afgreitt af hálfu RUV! Það gleymist oft að langbesta neytendaverndin felst í því að markaðsvæða ekki framleiðslu og dreifingu á raforku. En í hópi frambjóðenda til forseta er fólk sem barðist hvað mest fyrir innleiðingu orkupakka þrjú, með tilheyrandi verðhækkunum á rafmagni, stórlega auknu flækjustigi, fjölgun milliliða sem stórhækka verð.

Er líklegt að manneskja sem aldrei hlustar á vilja almennings sem þingmaður og ráðherra vendi sínu kvæði í kross sem forseti og taki þá upp þann sið að hlusta og virða vilja almennings? Að hafa unnið með frambjóðanda, þegar hann var um tvítugt, hlegið og brosað með honum, eru það rök fyrir því að kjósa viðkomandi 25-30 árum síðar? Hvað með feril viðkomandi frambjóðanda meðan hann sat sem þingmaður og ráðherra? Fortíðin er einhver allra besti mælikvarði sem til er á framtíðina. Fortíðinni verður ekki breytt. Það eina sem þarf að gera er að rifja hana vel og vandlega upp, tengja saman orð og athafnir.

Að lokum

Mjög mikilvæg mál eru í farvatninu sem varða langa framtíð allra Íslendinga. Þar má nefna fullveldismálin, hvort Ísland verður yfirleitt í aðstöðu til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Haldi afsal fullveldis áfram kann svo að fara að að erlendar stofnanir geta að vild ráðið og ráðskast með íslenska hagsmuni eftir sínum hentugleikum. Afsal íslensks fullveldis, í andstöðu við stjórnarskrána, er mjög alvarlegt mál. Það stórminnkar lýðræði á Íslandi, með því að ákvörðunarvald sem með réttu ætti að vera innanlands er flutt úr landi. Það á eftir að verða Íslendingum dýrkeypt t.d. á sviði orkumála.

Víða má greina djúpstæðan misskilning á þýðingu alþjóðlegra viðskipta annars vegar og hins vegar afsali fullveldis og lýðræðis. Sumir virðast gefa sér að ef þjóð/ríki tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi sé það eðlilegt gjald að greiða að sama ríki afsali sér stórum hluta fullveldis síns. Það er mesti misskilningur. Þetta tvennt er í raun alveg ótengt. Það að leggjast t.a.m. gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið merkir ekki þar með andstöðu við alþjóðleg viðskipti! Viðskiptasambönd á að byggja upp sem víðast. Íslensk þjóð þarf á því að halda og er mjög háð utanríkisverslun. Það merkir hins vegar ekki að til þess að ná því markmiði verði að framselja og afsala íslensku fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti.

Að blanda saman viðskiptum og stjórnmálum hefur gefist illa á mörgum sviðum sem snerta EES-samninginn. Þar er oft gengið freklega á íslenskan fullveldisrétt, með innleiðingu Evrópugerða; reglugerða og tilskipana, sem síðan valda ómældum skaða á Íslandi. Gott dæmi um það er sá hrikalegi farvegur sem orkumálin stefna í. Hættan á niðurbroti og eyðileggingu Landsvirkjunar er þar alltumlykjandi. Allt eftir forskrift orkupakkanna, enda segir sig sjálft að markaðskerfi með raforku byggir á einkarekstri en ekki opinberum rekstri. Það liggur einfaldlega í sjálfu hugtakinu „markaðskerfi“.

Þegar kemur að einhverju allra stærsta ráni Íslandssögunnar, ráninu á Landsvirkjun, með öllu sem henni fylgir (virkjunum, vatnsréttindum og landi) verður gott fyrir valdaklíkuna að hafa þægan forseta á Bessastöðum sem sjálfur barðist fyrir markaðsvæðingu á rafmagni í tíð sinni sem þingmaður og ráðherra. Auðindaránið er rétt að byrja.

Ætlar þjóðin að láta þetta yfir sig ganga? Væri ekki rétt að nota tækifærið í næstu forsetakosningum og andmæla öfugþróuninni kröftuglega? Það gerði þjóðin í Icesave-málinu. Þá var sama fólk við völd og nú sækist eftir kjöri til embættis forseta Íslands. Hversu oft getur ein þjóð látið ræna sig? Sumir ræða mikilvægi þess að fá „sameiningartákn“ á Bessastaði. Vonandi er þá ekki átt við sameiningu þjóðarinnar með ofríki valdaklíkunnar á Íslandi eða sameiningu hennar gegn þjóðinni.

Ef vísað er til sameiningar þjóðarinnar væri nær lagi að kalla suma stjórnmálamenn „sundrunartákn“ en „sameiningartákn“. Þeir sem hvað mest hafa þar sundrað sækjast nú eftir embætti forseta Íslands. Hælisleitendamálin, orkumálin, auðlindamálin, Evrópumálin og loftslagsmálin eru t.d. allt mál sem hafa sundrað þjóðinni og myndað mikla óeiningu. Þjóðin hefur aldrei verið spurð um vilja sinn í þeim efnum.

Skautun í umræðu, og oft er vísað til, er þessum stjórnmálamönnum sjálfum um að kenna. Hún myndast vegna þess að forhert fólk ryðst áfram með stefnu í fjölmörgum málum sem borgararnir vilja ekki styðja en er troðið upp á þá – næstum að segja með ofbeldi. Með öðrum orðum, „skautun“ er önnur mynd á „gjá á milli þings og þjóðar“ eins og fyrrum forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, kallaði svo.

Annað er vert að nefna að lokum. Fjölmiðlar verða nauðsynlega að krefja fyrrum forsætisráðherra svara um tengsl sín við efnahagsráðstefnuna í Davos í Sviss og hlutverk sitt innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar – WHO. Það sem þar þarf að fá alveg á hreint er eftirfarandi: hver er forsaga þess, í smáatriðum, að fyrrum forsætisráðherra Íslands var gerður að „fulltrúa“ WHO? Hvaða ástæður lágu þar að baki?

Í öðru lagi: telur fyrrum forsætisráðherra það samræmast trúnaðarskyldu sinni gagnvart íslenskum kjósendum að gegna hlutverki hjá nefndri undirstofnun Sameinuðu þjóðanna? Í þriðja lagi: ef og þegar koma upp árekstrar á milli hagsmuna WHO og íslenskra hagsmuna hvaða hagsmunir verða þá ráðandi? Í fjórða lagi: er um launað starf að ræða hjá WHO?

Nákvæm svör við þessum fjórum spurningum þarf nauðsynlega að fá fram sem fyrst og áður en gengið verður til kosninga. Fréttamenn á Morgunblaðinu hafa spurt frambjóðendur ýmissa nauðsynlegra spurninga að undanförnu. Væri ekki ráð að spyrja fyrrum forsætisráðherra um þessi atriði? Er ekki kominn tími til þess að rifja vel upp fortíðina og nota hana sem leiðarvísi næst þegar landsmenn ganga til kosninga og velja sér forseta? Góðar stundir og lifið heil!