Fara í efni

AF MEINLOKU

Hallgrímur Helgason rithöfundur skrifar um ritstjóra Morgunblaðsins í Morgunblaðinu 23. mars. Ekki nefnir hann ritstjórann á nafn, líklega til þess að ítreka huldumannshlutverkið sem hann gefur honum. Svo það fari ekki á milli mála: Ritstjóri Moggans heitir Styrmir Gunnarsson.

Hallgrímur er hnyttinn, eins og stundum, áður og kemst að þeirri niðurstöðu að fólk þori ekki að vera frjálst undan Mogganum og ristjóra hans, sem velji á að kvöldi það sem þjóðinni sé hollt að lesa og hvað ekki. „Sjálf höfum við engu áorkað fyrr en við sjáum mynd af okkur í Morgunblaðinu. Fyrr en Morgunblaðið hefur fjallað um okkur” segir Hallgrímur og kallar Styrmi Litla Guð í fyrirsögn. Hann minnir á að oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi séð sig tilneyddan að verja sig fyrir Staksteinum Morgunblaðsins og sjálfur viðskiptaráðherrann hafi svarað „ritstjóranum fullum hálsi” en á heimsíðu sinni segir Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra m.a. þetta:

„Skömmu eftir að ég tók við embætti ráðherra barst mér boð ritstjóra Morgunblaðsins um að eiga með honum fund. Við hittumst á skrifstofu hans í Morgunblaðshúsinu og snæddum saman hádegisverð. Á þeim fundi gagnrýndi ég ritstjórann fyrir það hve nátengdur hann væri Sjálfstæðisflokknum og hvernig hann, að mínu mati, beitti blaðinu í þágu flokksins. Ritstjórinn lagði áherslu á að við gætum átt reglulega einkafundi í framtíðinni. Ég hafði hins vegar ekki áhuga á því og höfum við ekki átt slíkan fund síðan.”

Satt er það að í gegnum tíðina hafa margir óttast Morgunblaðið, sumir gera það kannski enn eins og Hallgrímur heldur fram. Ástæðan er ekki ritstjórinn einn og sér, þótt hann heiti Styrmir Gunnarsson, og hafi ráðið ferðinni á Mogganum svo lengi sem elstu menn muna. Ástæðan er auðvitað hið gríðarlega póltíska vald sem hefur alla tíð staðið á bak við blaðið. Við sem höfum glímt við það vald í gegnum tíðina (með misjöfnum árangri) hvort sem við höfum starfað á pólitíska sviðinu eða innan verkalýðshreyfingarinnar erum aftur á móti nokkuð undrandi á því að viðskiptaráðherra skuli gagnrýna Styrmi fyrir að vera of tengdur Sjálfstæðisflokknum og að beita blaðinu í þágu flokksins. Forystumenn Framsóknarflokksins vita jafn vel og aðrir að blaðið er fyrst og fremst gefið út til að gagnast flokknum, þótt tónninn hafi vissulega breyst í tímans rás. Menn geta verið ósammála Morgunblaðinu og ritstjóranum um allan fjandann, en að gagnrýna hann fyrir að vera of tengdur Sjálfstæðisflokknum er eins og að tala við steinvegg – algjör steypa, eins og sagt er nú á dögum. Morgunblaðið er bæði „alvöru fjölmiðill” og pólitískt málgagn hægri manna.

Hallgrímur kallar óttablandna virðinguna fyrir Mogganum „seigustu meinloku íslensks samfélags”. Hér sýnist hann tala út frá þeirri meinloku sem nú ríður húsum í landinu að fjölmiðlar nútímans hljóti að vera alveg óháðir eigendum sínum. Fjölmiðlar verða aldrei lausir við „ok” eigandans hversu góðir sem starfsmennirnir kunna að vera sem blaða- og fréttamenn. Þótt nú sé risið fjölmiðlaveldi, þar sem sömu eigendur reka marga fjölmiðla af ólíku tagi, þá á reynslan eftir að skera úr um það hvernig vald eigendanna birtist í þeim. Miðlar Dagsbrúnar (365) verða ekki góðir eða lélegir af því einu að þeir eru ekki tengdir Sjálfstæðisflokknum eins og Mogginn, en enginn þarf að halda að stjórnendur þeirra þurfi ekki að velja og hafna, til þess er ritstjórn. Hvað fer í skúffurnar, eða hvers vegna, fáum við aldrei að vita – ekki frekar en á Mogganum.

Morgunblaðið er bæði gott og vont. Það hefur í gegnum tíðina haft burði til að gera ýmislegt það best sem gert er á blöðum, á sama tíma sem það hefur verið ósvífinn og miskunnarlaus andstæðingur að kljást við. Þetta liggur beinlínis í hlutarins eðli og fjölmiðlar verða ekki marklausir vegna þess að þeir eru pólitískir. Að allir fjölmiðlar flytji stöðugt meinlaust froðusnakk er beinlínis hættulegt lýðræðinu og varla skárra til lengdar en pólitísk einokun fjölmiðla. Gallinn við Moggann er ekki að hann skuli vera málgagn hægri manna, heldur sá að hann reynir í sífellu að telja lesendum trú um annað eins og lesa má út úr orðum Valgerðar Sverrisdóttur. Hitt er svo ein meinlokan enn: Hvers vegna lætur ráðherra í ríkisstjórn lýðveldisins bjóða sér það að vera boðaður á einkafund með Styrmi Gunnarssyni?
hágé.