Fara í efni

"ALGJÖR SNILLD"

Af því bárust fréttir í dag að Björgólfsfeðgar hefðu verið svo vinsamlegir við ríkisbankann Kaupþing að bjóðast til að borga svo sem helminginn af eftirstöðvum láns sem þeir tóku þegar þeir voru svo elskulegir að losa ríkið við Landsbamkann, þetta hundrað og tuttugu ára fyrirtæki, fyrir heila ellefu milljarða. Þetta var sannarlega vel boðið fyrir bankastofnun sem hafði starfað, oftast farsællega með þjóðinni í rúma öld. Var sannarlega kominn tími til að góðhjartaðir auðmenn afléttu þessum bagga farsældar af þjóðinni og breyttu honum í auðsupprettu fyrir sjálfa sig.

Þegar þeir feðgar voru metnir „hæfir" til að kaupa bankann höfðu þeir um nokkurt skeið sýnt Rússum þá einstöku velvild að brugga fyrir þá bjór. Veitti sannarlega ekki af að bjóða hrjáðri þjóð uppá heilsusamlegan mjöð, úr því að hún var allra þjóða drykkfeldust fyrir hvort eð var. Þeir feðgar voru síðan svo artarlegir við bruggfélagið Heineken að selja því verksmiðju sina á nokkra milljarða, svo hollenskir eigendur gætu af enn meiri krafti dælt ölinu í lífsleiða Rússa til að létta þeim lífsbaráttuna.

Eftir söluna áttu feðgarnir ásamt viðskiptafélaga sínum, Magnúsi Þorsteinssyni, (Magnús þessi mun flúinn gjaldþrota til Rússlands aftur) nokkra milljarað í handraðanum að sögn. Þessa milljarða buðust félagarnir til að brúka Íslendingum til gottgjörelsis, losa þá undan banka sem sannarlega mátti muna fífil sinn fegri og hafði um allangt skeið látið valinkunna sæmdarmenn veiða lax á kostnað bankans. Var það virkilega vonum seinna að þjóðinni byðust þvílk koataboð, enda kominn tími til að einkaframatið sýndi hvað í því bjó. Kaupverðið á bankanum var ellefu milljaraðar - les og skrifa ellefu milljarðar - og skyldi greiðast sem skjótast.

Án þess að mikið væri um það talað röltu þeir feðgar eftir Austurstræti í Reykjavík og heilsuðu uppá forsvarsmenn annars ríkisbanka og sögðu sem svo: Væri ekki rétt, þó ekki væri nema uppá kunningsskapinn, að Búnaðarbankinn lánaði okkur fyrir kaupverði Landsbankans, kannski að svona tveim þriðju, þá mætti nota bjórpeningana í önnur þarfleg fyrirtæki.

Þetta fannst forsvarsmönnum Búnaðarbankans þjóðráð, skynsamleg ráðstöfun á peningum ríkisins og hafa líklega nefnt svona í framhjáhlaupi að annar hópur, mestan part framsóknarmenn og kenndir við Samvinnugreyfinguna sálugu, hefðu hug á að fá lán í Landsbankanum til að kaupa Búnaðarbankann. Þetta hvorttveggja hefði verið rætt við seljanda bankanna, sem hefði talið þessa fyrirgreiðslu bankanna sjálfsagða, enda væru menn ekki með milljarða í vasanum til að kaupa banka, bara rétt si sona, það segði sig sjálft.

Gengu nú kaupin eftir, en óvart gleymdist að segja almenningi frá því að Björgólfsfeðgar ætluðu bjórpeningana í annað og hefðu fengið lánað fyrir kaupverði Landsbankans í Búnaðarbankanum. Nú hafa þessir sömu feðgar verið svo elskulegir að koma þjóðinni á kaldan klaka, milljarðarnir sem fengust í Búnaðarbankanum, og áttu að vera greiðsla fyrir Landsbankann, eru nú orðnir að skuld íslenska ríkisins uppá mörg hundruð milljarða í útlöndum og er áreiðanlega leitun að jafn seinheppnum sölumönnum. Ekki nóg með það: Björgólfsfeðgar, en annar þeirra hefur verið talinn einn af 500 ríkustu mönnum heimsins, hafa af lítillæti sínu boðist til að borga arftaka Búnaðarbankans, Kaupþingi, helming þeirrar skuldar sem eftir stendur í bankanum eins og áður segir, og bjóða um leið uppá þau kostakjör að fella niður afganginn. Samkvæmt þessu var söluverð Landsbankans ekki ellefu milljarðar, heldur fimm eða jafnvel minna og engin furða að fjármálaráðherra kalli þá dýrustu milljarða Íslandssögunnar.

Bankamennirnir kalla gerðir sínar aftur á móti „tæra snilld". Einhverra hluta vegna er þjóðin þeim ósammála.

Skrýtin þjóð Íslendingar.

hágé.