BOÐBERAR VONDRA TÍÐINDA
Einu sinni var sagt að pólitík væri undarleg tík, gott ef ekki ólíkindatól hið versta. Nú um stundir, eins og reyndar oft áður, verður maður að taka undir þessa einföldu skilgreiningu, en ekki endilega að sama skapi viturlega. Þannig hefur á undanförnum mánuðum komið í ljós að landsþekktur geðprýðismaður að nafni
Þannig bárust af því fréttir á dögunum að þeir starfsmenn Tryggingastofnunar, sem gerst þekkja frumskóg sjúklingagjalda og bóta, hafi bent á að ekki sé allt með felldu. Sumir sjúklingahópar fari betur út úr gerningaþoku tryggingakerfisins en aðrir; og ekki nóg með það: Þeir leiddu líkur að því að þeir hópar sem eru haldnir sjúkdómum sem eigi öfluga málsvara, fari betur út úr kerfinu en aðrir.
Nú hefði hver skynsamur maður haldið að ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála hefði átt að vera þakklátur því fólki, sem best þekkir til, að benda á það sem væri að, svo ráða mætti bót á því sem betur þarf að fara. Nei, ráðherrann varð grautfúll og var á honum að skilja að fólk þetta hefði annað og betra við tímann að gera en að bulla um hluti sem enga stoð ættu í veruleikanum. Framsóknarráðherrann reyndist með öðrum orðum skotgrafahermaður af fullkomnustu sort: datt manni fyrst í hug að VG eða SF hefði verið að skaprauna ráðherranum með langhundum eða jafnvel sannleikanum um verk þeirrar ríkisstjórnar sem hann situr í. Honum rynni blóðið til sinnar pólitísku skyldu og yrði því að svara með pólitískum frösum að hætti Framsóknar.
Hvað sagði fólkið í Tryggingastofnun í skýrslu sem ekki er búið að birta enn svo mér sé kunnugt? Ekki annað en það sem allir vita. Í fyrsta lagi: Skógur komugjalda (eins og sjúklingaskattarnir eru kallaðir af ráðamönnum) er svo þétt vaxinn að ekki einu sinni færustu sérfræðingar gætu séð fyllilega út úr honum. Í öðru lagi: Sjúklingar sitja ekki allir við sama borð. Það gilda ekki sömu reglur um alla sjúkdóma. Í þriðja lagi: Á þessu þarf að ráða bót.
Ef maður sagði gömlum framsóknarmönnum fyrir austan í gamla daga að gera þyrfti við girðinguna þá hummuðu þeir að sönnu dálítið til að byrja með og sögðu: „Ekki er það gott.” Síðan fengu þeir manni naglbít, vírspotta, lykkjur og hamar og sögðu: „Gerðu við.” Ef maður sagði þá: „Jú, jú, það er allt í lagi að gera við einu sinni enn, en girðingin er meira og minna ónýt á stórum köflum. Það dugir ekkert minna en ný girðing.” Þá áttu þeir til að aka sér í öxlunum og segja: „Það var og.” Síðan fóru þeir í Kaupfélagið og tóku út nýtt girðingarefni og létu mann í að girða uppá nýtt. Með öðrum orðum: Þeir sögðu ekki: „Farðu til fjandans. Girðingin er víst heil!” Þeirra hyggjuvit var ekki flókið en framúrskarandi skynsamlegt: Þeir sáu rollurnar í túninu og vissu að þó féð væri rekið út fyrir girðinguna mörgum sinnum á dag þá leysti það engan vanda en skapaði leiðindi og fyrirhöfn. Þeir sáu ekki lausn í því að hengja boðbera illra tíðinda.
Hér með kem ég þessu ráði á framfæri við
hágé.