DÓNAR VIÐ ÍSLENSKU KÚNA
Eins og allir vita er það ekki á færi nema hæfustu manna að vera boðlegir dónar. Til að ná árangri á því sviði er þar að auki öruggara að vera sæmilega efnaður og eiga vini á réttum stöðum. Sem dæmi um vellukkaðan dónaskap má taka skrif háskólaprófessors um Halldór Laxness, þar sem hann hefur tekið texta skáldsins og vikið til orði af lítilli smekkvísi og gert að sínum. Þetta væri væntanlega meinlaust ef gert hefði verið í litlum mæli, til að mynda í misheppnaðri 10. bekkjar ritgerð úr grunnskóla. Háskólaprófessorinn hefur aftur á móti gefið út heilan doðrant (kannski fleiri en einn) þar sem úir og grúir af þessum tilraunum til að betrumbæta texta Halldórs Laxness. Þetta er virkilega kúltiveraður dónaskapur, framkvæmdur af manni sem mætti að skaðlausu vera vandvirkari og jafnvel betur að sér, er ekki auðugur svo vitað sé, en á rétta vini á réttum stöðum. Þar að auki er maðurinn einatt orðhagur ef hann ruglar ekki sínum eigin textum við annarra, lætur sjálfur gamminn geisa.
Annað dæmi um velheppnaðan dónaskap eru margvísleg ummæli utanríkisráðherrans á meðan hann var forsætisráðherra. Þá sparaði hann ekki að senda hinum og þessum tóninn, ef þeir voru honum ósammála (sem hefur komið grunsamlega oft fyrir undanfarin ár) og var jafnvel allmiklu orðheppnari en háskólaprófessorinn vinur hans.
Miklu fleiri dæmi um vel heppnaðan dónaskap mætti nefna, sem ýmist kemur fram í orðum eða athöfnum og stundum hvorutveggja. Þannig hafa stjórnvöldin oftar en einu sinni gengið ógætilega um dyr kurteisinnar, meðal annars með því að undirbúa ekki á réttan hátt álversframkvæmdir á Reyðarfirði, eins og Hjörleifur Guttormsson hefur réttilega sýnt fram á með árangursríkum málaferlum. Þá má auðvitað ekki gleyma þeirri sérstöku tegund af dónaskap sem ríkisstjórnin hefur oft sýnt öryrkjum og hlotið dóma fyrir og er þá fjarri því allt talið sem ástæða væri að geta. (Stjórnarandstaðan er til dæmis ekki mjög kurteis við forsætisráðherrann um þessar mundir.)
Á dögunum komu nokkrir valinkunnir jakkafataklæddir menn hingað og þangað að úr heiminum í lýðræðislegan fund til að ræða lýðræðislega hugsjón sína um framleiðslu á áli. Þeir sátu prúðbúnir og framúrskarandi kurteisir á Nordica hóteli í Reykjavík, áttu sér einskis ills von, og hafa líklega verið að ræða umhverfisspjöll, ný atvinnutækifæri, lágt raforkuverð og hagvöxt, allt saman – að sönnu mishollir – ávextir af stóriðjustefnunni. Þá gerist það að þrír dónar koma inn í salinn og sletta grænu skyri á fundarmenn, að sögn einkum þá sem hafa eitthvað með Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð að gera. Það þarf nú ekki mikla skarpskyggni til að sjá að svona dónaskapur er ekki vel lukkaður, því grænt skyr fer ekki vel við teinótt jakkaföt. Þar að auki voru þremenningarnir auðvitað boðflennur og samkvæmt fréttum og upplýsingum lögreglunnar og hótelhaldaranna ollu þeir gríðarlegu tjóni. Hreinsa þurfti föt gestanna, blettur mun hafa komið í teppið (samkvæmt margsýndri frétt Sjónvarpsins) í fundarsalnum, skjávarpi kann að hafa skemmst og jafnvel einstöku ferðatölva hikstað. Samtals á tjónið að hafa numið mörgum milljónum og munu engin dæmi um að þrír lítrar af skyri hafi valdið öðrum eins skaða. Sér hver skynugur maður að svona má ekki gera, og alls ekki við langt að komna gesti. Er því sjálfsagt að biðjast afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar – það er annað en gaman af fá á sig jafn hroðalega soppu og skyr.
En meðal annarra orða: Hvaðan kemur sá dónaskapur gagnvart íslensku kúnni að lita skyrið grænt!? Er verið að gefa í skyn að að hún mjólki myglaðri mjólk?
hágé.