Fara í efni

EF ÉG VÆRI RÍKUR?

Fyrir sextán árum eða svo hætti Jóhannes í Bónus að vinna hjá Sláturfélagi Suðurlands og stofnaði sína eigin búð – BÓNUS  að sögn ásamt rúmlega tvítugum syni sínum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Ekki væri þetta í frásögur færandi, (fólk er jú alltaf að stofna búðir), ef ekki væri fyrir þá sök að af þessari einu búð er sprottið stórveldi með eignir og rekstur í mörgum löndum, hafandi mörg þúsund starfsmenn í sinni þjónustu og veltu uppá hærri tölur en hægt er að skilja. Á sextán árum eða svo hefur þeim feðgum tekist með sínu fólki að öngla saman auði sem talinn er í óímunnberanlega mörgum milljörðum.

Eins og gefur að skilja sýnist sitt hverjum um um þessa þróun. Venjulegt fólk áttar sig ekki á hvernig farið er að því að byrja blankur en eignast jafnvel milljarð á mánuði til jafnaðar og það árum saman. Til þess hlýtur að þurfa gríðarlega útsjónarsemi svo ekki sé meira sagt. Handlaginn smiður sem hefði slík laun yrði að borga um 400 milljónir á mánuði í skatta, eða álíka mikið og ríkissjóður greiðir íbúðaeigendum í vaxtabætur skv. upplýsingum Einars K. Guðfinnssonar nýskipaðs sjávarútvegsráðherra í grein sem hann skrifaði nýlega.

Nú stendur svo einkennilega á að veldi þetta, Baugsveldið og þeir feðgar, hafa mátt sæta rannsóknum, bæði á skattamálum og ýmsu öðru, og þurfti ekki lakari ráðgjafa en Styrmi Gunnarsson ritstjóra Moggans og Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokkssins til að velja réttan lögmann, Jón Steinar Gunnlaugsson, til að hrinda málinu af stað. Einhverra hluta vegna fer þessi ráðgjöf saman við undarlegt ergelsi Davíðs Oddsonar – maður fær á tilfinninguna að honum finnist Baugur og allt það hafurtask runnið undan rótum andskotans, gott ef ekki til höfuðs Sjálfstæðisflokknum og góðum siðum. Hann hefur ekki sparað við sig fullyrðingar um að Baugsveldið misnotaði fjölmiðla sína til að reka áróður fyrir sinn hatt.

Og er ég þá loks kominn að því að svara spurningu sem börn haft oft spurt mig í gegnum tíðina – hvað ég myndi gera ef ég yrði allt í einu rosalega ríkur.

Ég myndi stofna fjölmiðla og byrja á dagblaði (þó nú væri, fyrrverandi ristjóri Þjóðviljans!). Ef vel gengi myndi ég sennilega færa út kvíarnar, en látum það liggja á milli hluta. Hverskonar blað myndi ég stofna og hverjir fengju vinnu á því blaði og á hvaða forsendum? Til að einfalda skilgreiningarnar myndi ég stofna vinstri sinnað blað, gagnrýnið á misréttið sem viðgengst í samfélaginu og heiminum öllum – en um leið skemmtilegt blað með fjölbreyttu innihaldi. Á þessum forsendum myndi ég ráða ritstjóra sem síðan réði sér samstarfsmenn á ritstjórnina og framkvæmdastjóra til að sjá um fjármálin og annað starfslið. Myndi ég ráða Styrmi Gunnarsson, Hannes Hólmstein, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur eða Ingu Jónu Þórðardóttur sem ritstjóra? Eða Kjartan Gunnarsson sem framkvæmdastjóra? Að sjálfsögðu ekki. Ég myndi ekki ráða hægri mann til að ritstýra vinstri sinnuðu blaði, ekki frekar en Árvakur myndi ráða Steingrím J. og Ögmund til að ritstýra Mogganum. Þetta skilja allir. Ég myndi segja ritstjóranum að „misnota” blaðið alveg miskunnarlaust gegn fátækt og misrétti. Blaðið ætti að fara í saumana á því af hverju fáir verða stjarnfræðilega ríkir á meðan aðrir lepja dauðann úr skel og komast ekki útúr fátæktargildrunum. Það ætti að setja fram hugmyndir um hvernig skynsamlegt sé að skipta þjóðarauðnum í anda jafnréttis fremur en ójafnaðar. Í fáum orðum sagt: blaðið ætti að hafa skýra pólitíska afstöðu.

Nú segir auðvitað einhver: Þú færð engan til að ritstýra svona blaði, og engan til að vinna á því vegna þess að það verður svo leiðinlegt. Ég er því að vísu ósammála – held að mörgum sýnist eins og mér að fjölmiðlarnir séu nokkuð einsleitir, marglofuð „fjölbreytni” takmörkuð og skemmtunin í þynnri kantinum. Blaða- og fréttamenn eru einlægt að tala hver við annan um það að eigendurnir horfi ekki yfir öxlina á þeim uppá hvurn dag – þeir vinni bara faglega en ekki fyrir eigandann. Ekki dreg ég í efa að þeir hafi vinnufrið fyrir eigendunum en – og það er kjarni málsins: Eigandinn setur leikreglurnar. Svo lengi sem ekki er farið að marki út fyrir þær getur fjölmiðlafólk unnið í friði. Og það sem meira er: Þetta er réttur eigandans. Langalvarlegast er þegar fjölmiðlar reyna að villa á sér heimildir eins og Mogginn gerir með því að segjast vera blað allra landsmanna, en er auðvitað í liði með Sjálfstæðisflokknum eins og dæmin margsanna. Hægri menn, sem greinilega láta Fréttablaðið fara í taugarnar á sér tala oft um pólitíska misbeitingu blaðsins gegn ríkisstjórninni og sérstaklega Davíð Oddssyni. Felst þá tjáningarfrelsið í því að að lofa ríkisstjórn og þá sértaklega oddvita hennar á hverjum tíma – einkum ef hún er hægri sinnuð? Er annað misbeiting?

Þá nýtist tjáningarfrelsið best þegar rúm er fyrir ólíka fjölmiðla, pólitíska og „ópólitíska” en því miður vantar raunverulega pólitíska miðla í flóruna. Það er þess vegna fagnaðarefni að ysta hægrið kemur nú fram með nýtt tímarit, Þjóðmál heitir það víst, en að sama skapi leitt að vinstrið er óduglegt við fjölmiðlun nú á dögum.

En meðal annarra orða: Hverju myndi ég annars svara nýja ritstjóranum mínum ef hann spyrði mig: Hvar fékkstu þær 400 milljónir sem þú ætlar að setja í nýja blaðið?

Gæti verið að mig setti hljóðan eða snéri talinu að öðru?

hágé.