Fara í efni

Hannesk vísindi

Þá hefur hið háa Alþingi samþykkt fjölmiðlafrumvarpið. Stjórnarandstaðan hélt því fram að handjárnin/hlekkirnir hefðu haldið á stjórnarliðum. Þar á urðu að sönnu tvær undantekningar, Kristinn H. á móti og Jónína B vildi að stjórnarskráin nyti vafans, hvað svo sem það merkir. Aftur á móti nefndi engin hvaða járn hefðu haldið stjórnarandstöðunni saman, þar brást enginn, og ekki nóg með það – einhverra hluta vegna sáu beinlínis grunsamlega fáir vinstri sinnar ástæðu til að taka undir með ríkisstjórninni í fjölmiðlum. Er þá svo komið að vinstri mönnum sé sama um að einn eða sárafáir ráði lunganum af fjölmiðlun í landinu fyrir utan allt annað? Því er reyndar erfitt að trúa – en einhver ,,járn” hafa haldið aftur af þeim. Í kappi augnabliksins getur verið gott að muna að stóru orðin geta hitt menn sjálfa fyrir.

En nú er þetta að baki og fleiri spennandi dagar í uppsiglingu því Ólafur Ragnar ku vera að velta fyrir sér að beita málskotsrétti forsetans til að spyrja þjóðina um hin nýju lög. Það er vissulega mjög freistandi að slást í hóp þeirra sem biðja forsetann um að skjóta málinu til þjóðarinnar, einfaldlega vegna þess að af kosningum um þetta efni mætti hafa stórgaman. Þær myndu hleypa feikilegu lífi í samfélagið, og stappar nærri að reikna megi með einhverskonar uppreisn – að minnsta kosti gegn Davíð og Halldóri og má reyndar segja að Íslendingar séu seinþreyttir til vandræða. Það væri svo til marks um sérstaka kímnigáfu þjóðarinnar ef uppreisn hennar birtist í því að samþykkja að þeir sem selja henni kartöflur, klósettpappír og kjötfars fái líka að ráða hverjir matreiði ofan í hana stóran part af efni fjölmiðla (annarra en ríkisútvarpsin).  Sagt er að Ólafur Ragnar hafi hugleitt að skrifa ekki undir lög gegn öryrkjum, sem alræmd voru á sínum tíma. Hugleitt – en ekki meir. Fjölmiðlarnir, sem nú risu gegn lagasetningu gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, steyptu ekki stömpum yfir því að ríkisstjórnin skyldi gera allt sem hún gat til að svíkjast aftan að öryrkjum, og henni hefur ítrekað tekist það. Ekki hefði verið ónýtt að fá alla umrædda fjölmiðla í lið öryrkja í sama ham og þeir hafa verið í að undanförnu. Og satt best að segja hefði verið ,,gaman” að þjóðin hefði fengið tækifæri til að segja álit sitt á þessari hegðun með því að greiða atkvæði um lög stjórnarmeirihlutans – en það fékk hún því miður ekki.

Nú er kominn upp nýr flötur á þessu máli, sem gerir það enn meira spennandi, með því að Davíð Oddsson segir að það muni koma í hans hlut að ,,úrskurða” um hvort forsetinn hafi heimild til að synja lögunum staðfestingar. Forsætisráðherran telur falla í sinn hlut að ,,úrskurða” í máli sem varðar löggjafarvaldið en það er í höndum þings og forseta, samkvæmt stjórnarskránni. Enda þótt Davíð Oddson langi í duggunarlítið dómsvald þegar mikið liggur við verður ekki séð hvernig í ósköpunum oddviti framkvæmdavaldsins ætti að ,,úrskurða” í deilu af þessu tagi. Hér er ráðherrann augljóslega  að seilast inn á svið dómsvaldsins og hefur Svanur Kristjánsson sagt þetta stappa nærri valdaráni. Á mannamáli þýða orð ráðherrans að hann geti hugsað sér að ákveða uppá sitt eindæmi hvort forseti hefur rétt til að skjóta máli til þjóðarinnar. Rök hans eru þau að ,,færustu vísindamenn” deili um rétt forseta – úr því svo er þá er best að ég ákveði!

Ráðherrann hefur haft stór orð um að forseti sé vanhæfur til að beita valdi sínu vegna tengsla við fyrirsvarsmenn Norðurljósa. En ef forsetinn er vanhæfur (sem hann er hugsanlega siðferðilega hvað sem líður lagabókstafnum) hvað má þá segja um hæfi forsætisráðherra til að ,,dæma” í málinu? Getur verið að ráðherrann sé svo blindur á það sem hann hefur áður sagt að hann átti sig alls ekki á því hvað kann að vera við hæfi þegar hann sjálfur er annars vegar? Já, það getur áreiðanlega verið! Hann flutti fjölmiðlafrumvarpið með þeim fyrirgangi og dæmalausu ofboði að hann varð í meira lagi tortryggilegur í augum þjóðarinnar. Þótt skynsamlegt sé að setja reglur um takmörkun á eignarhaldi á fjölmiðlum, og þjóðin sé líklega sama sinnis ef út í það er farið, þá hélt hann þannig á málinu að fjölmargir þeir sem gætu verið honum sammála kusu að berjast af hörku á móti. Honum tókst svo vel upp í að búa sér til fjandaflokk að nú er í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins raunhæfur möguleiki á að þjóðin verði kölluð til atkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög, og forsætisráðherran mun að líkindum koltapa þeirri atkvæðagreiðslu. Til að koma í veg fyrir það virðist hann geta hugsað sér að setjast í ,,dómarasæti” sem gæti komið í veg fyrir atkvæðagreiðsluna – einfalt en varla viðeigandi svo ekki sé fastar að orðið kveðið.

Í framhaldi af hinni skörpu ,,dómgreind” ráðherrans á eigið hæfi má svo búast við að til verði kallaðir virtir hanneskir vísindamenn til að leiðbeina honum – vísindamenn sem fyrir einhverjar undarlegar ,,tilviljanir” eru næstum alltaf sammála Davíð Oddssyni, sama á hverju gengur. Vinnulag hanneskra vísindamanna er ákaflega praktískt, en ekki endilega að sama skapi vandað. Kannski er það í hreinu vinnuhagræðingarskyni að hanneskir vísindamenn hafa niðurstöðuna yfirleitt á hreinu áður en rannsókn hefst og sést á augabragði að þannig má spara mjög mikla vinnu og væntanlega líka peninga. Í anda hanneskra vísindaaðferða hafa lögfróðir menn komist að því að forsetinn sé núll og nix, hann hafi ekkert sjálfstætt vald enda þótt það standi í stjórnarskránni hvaða vald hann hefur – að hann fari með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og geti meira að segja synjað þinginu um lagasetningu nema þjóðin verði spurð. Hannesk lögfræði segir að þessu valdi geti hann ekki beitt nema spyrja ráðherra fyrst um leyfi! Venjulegt fólk, sem ekki hefur svona ,,vísindi” á valdi sínu spyr aftur á móti: Hvers vegna er sagt í stjórnarskránni að forseti geti synjað lögum staðfestingar ef hann má það svo ekki?

Er nema von að fólk með óbrenglaðan skilning á íslensku máli og illa að sér í hanneskum vísindum – spyrji?
hágé.