Fara í efni

HVAÐ Á AÐ KOMA Í STAÐINN?

Stundum verður maður kjaftstopp þegar fréttamenn leggja spurningar fyrir viðmælendur sína, ekki síst stjórnmálamenn. Ein vinsælasta spurningin um þessar mundir beinist að forystumönnum VG. - Þið eruð á móti stóriðju. Hvað á að koma í staðinn?

Þetta er alveg kostuleg spurning og áreiðanlega komin beint út úr kú. Samkvæmt henni mætir álver, sem hefur 4 - 600 starfsmenn í sinni þjónustu allri þörf Íslendinga fyrir ný störf að mati spyrjandans. Menn sem spyrja svona eru annað hvort úti að aka eða afspyrnu vondir í reikningi. Þótt byggt yrði eitt álver á ári á meðan orkan í landinu endist, eða þá eitt á ári í 10 ár þá myndu þau öll ekki útheimta nema hluta af þeim mannafla sem kemur á vinnumarkaðinn á ári hverju og verður að fá eitthvað að gera.

Gaman væri að vita hvort þessir sömu spyrjendur hafa velt því fyrir sér hvað Danir gera, sem eiga enga möguleika á að reisa álver. Hvað skyldu eiga "að koma í staðinn" hjá þeim?" Þeir sem eitthvað þekkja til í Danmörku vita að þar í landi er byggt á gríðarlegum fjölda smárra og stórra fyrirtækja af öllu mögulegu tagi. Hugvit þeirra og útsjónarsemi er miklu meiri en nokkurn tíma kemur fram á Íslandi. Þannig er t.d. hverskyns endurvinnsla og framleiðsla sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum orðin öflugur atvinnuvegur og nægir í því sambandi að nefna að þeir eru meðal fremstu framleiðenda á vindmyllum sem framleiða rafmagn.

Fylgist maður með dönskum fjölmiðlum á netinu sér maður nánast aldrei spurningar í "íslenska" veru. Hver vegna? Örugglega vegna þess að Danir hafa ekki trú á að stjórnmálamenn færi þeim atvinnutækifæri eins og enn er lenska hér á landi. Atvinnulíf á að dafna af sjálfu sér, sjálfsprottin fjölbreytni skilar mestum verðmætum, verkefni stjórnmálamanna er að skapa umgjörð til að það geti gengið. Í Dannmörku er vissulega deilt um skatta, og hvernig eða hvort á að nota þá til tejkujöfnunar og ýmis önnur atriði sem vissulega koma atvinnulífinu við. (Að ógleymdu rifrildi um innflytjendur.) Hin íslenska spurning gæti aftur á móti hljómað svona í Danmörku: Þið eruð á móti 1000 kúa búi á Norður-Sjálandi. Hvað á að koma í staðinn? Margur Daninn yrði kindarlegur af að sjá slíka spurningu í sjónvarpi.

Önnur spurning er geysi vinsæl hér á landi, einkum til vinstri flokka: Þið lofið að hækka þetta og hitt. Hvað kostar það og hvar á að taka peningana? Þegar svona spurningar fara í loftið veltir maður fyrir sér hvort spyrlarnir séu svona illa að sér eða detti ekkert skárra í hug. Vita þeir kannski ekki að ríki og sveitarfélög ráðstafa geysi háum upphæðum í gegnum skatta? Vita þeir ekki að eitt afdrifaríkasta deilumál stjórnmálanna er annarsvegar hvað skattar eiga að vera háir og hins vegar hvernig þeim er skipt í mismunandi verkefni - menn velja eitt en fresta öðru?

Vinstri sinnaður stjórnmálamaður telur að skattkerfið eigi að vera til tekjujöfnunar og blekkir ekki með því að segja að lækka eigi skatta stórlega um leið og útgjöldin eru aukin. Þegar talað er um að lagfæra stöðu öryrkja og aldraðra um 10 - 15 milljarða er upphæðin ekki hærri en svo að hún er nánast innan skekkjumarka við fjárlagagerð.

Hvað á að gera "í staðinn" í Noregi, þegar almenn samstaða hefur náðst um að snerta ekki virkjunarmöguleika á verðmætum svæðum, eins og Ómar Ragnarsson hefur bent á. Og svarið liggur beint við: Leggja niður álver í Noregi og fá að reisa ný á Íslandi. Hvað gerir Alcoa í staðinn fyrir það sem er að gerast á Reyðarfirði og við Kárahnjúka? Jú, leggur niður álver í Bandaríkjunum vegna þess að þeir fá ekki að virkja á svæðum sem eru verðmæt með tilliti til náttúruverndar.

Kannski næsta spurning til forystumanna VG verði þessi: Þið eruð á móti olíuhreinsunarstöð sem rúsnneskir "athafnamenn" vilja reisa á Vestfjörðum. Hvað á að koma í staðinn?.

Það vekur með öðrum orðum einatt mikla furðu hvernig fréttamenn eiga til að spyrja. Það skal þó tekið fram að þetta á miklu fremur við um sjónvarpsmenn en útvarps. Maður fær sterklega á tilfinninguna að þeim þyki meira um vert að vera "harðir" en athugulir, meira töff að vera "haukar" en spyrja skynsamlegra spurninga sem eiga að leiða til upplýsandi svars. Fréttamenn eru fulltrúar almennings, og þeir geta vissulega átt von á að svörin sem þeir fá séu ekki mikils virði. Sumir stjórnmálamenn hafa mikla hæfileika til að svara annað hvort út úr, eða teygja lopann svo enginn skilur - stundum jafnvel hvorttveggja. Þá reynir á fréttamennina, að toga raunverulegt svar út úr viðmælandanum. Því miður vill það stundum misheppnast hrapallega.

hágé.