KYNSKIPT EÐA STÉTTSKIPT?
Konur hafa sem betur fer færst nær jöfnuði við karla með hverju árinu sem líður. Áköfum femínistum finnst auðvitað að hægt gangi, til að mynda vanti enn mikið á að fullum launajöfnuði sé náð að ekki sé minnst á völd í efnahagslífi og pólitík. Svo vel hefur talsmönnum kvenna tekist upp í að halda jafnréttisumræðunni vakandi að því er líkast að þjóðfélagið sé ekki lengur stéttskipt heldur kynskipt. Þannig urðu til að mynda talsmenn Odda, stærstu og virðulegustu prentsmiðju landsins, eins og barðir hundar, þegar femínistar urðu óánægðir með birtingu þeirra á gömlum málsháttum í dagbók sinni. Þeir báðust afsökunar á að hafa ætlað að segja þjóðinni frá því hvernig menn hugsuðu í gamla daga og stofnuðu þegar til nýtísku bókabrennu.
Fjölmiðlar halda fram þeirri mynd að ójöfnuðurinn í samfélaginu sé allur á milli karla og kvenna en ekki á milli stétta. Þar að auki mætti ætla að allir karlar standi með pálmann í höndunum á kostnað kvenna. Því til viðbótar dynja stöðugt á landsmönnum fréttir af allskonar voðaverkum karla eins og kynferðislegri misnotkun á börnum. Svo langt gengur þetta að ekki alls fyrir löngu var sýnd frétt í sjónvarpi af kennara sem brýndi fyrir ungum nemendum sínum að tala aldrei við eldri menn á gangi – góðlegir afar á heilsubótargöngu voru settir á bekk með glæponum af verstu tegund. Drengir alast upp við það að karlar séu vondir (meðal annars við konur og börn) en konur góðar en kúgaðar.
Þegar blöðin eru lesin, horft á sjónvarp, eða hlustað á útvarp verður fljótt ljóst að þeir sem láta í sér heyra hafa alls ekki tekið eftir því að þjóðfélagið er þrátt fyrir allt stéttskipt – skipt eftir efnahag og aðstöðu. Innfæddum Íslendingum í lægst launuðu stéttunum hefur vissulega fækkað eitthvað, í staðinn eru komnir erlendir þegnar, karlar og konur, þar af fjöldi karla í byggingariðnaði sem vinna fyrir miklu lægri laun en samið hefur verið um. Atvinnurekendur þeirra eiga þannig sinn þátt í að brjóta niður árangurinn sem verkalýðsstéttin hefur náð með samtökum sínum í fjölda ára. Lágstéttirnar, það fólk sem verst er launað og minnst heyrist í, eru af báðum kynjum og blanda af aðfluttu fólki og heimafæddum Íslendingum – ekki síst körlum sem hrökklast hafa úr námi.
Nýlegar upplýsingar um brottfall úr framhaldsskólum segja að um það bil þriðjungi fleiri strákar falli úr skóla en stúlkur, árangur þeirra í grunnskólum er lakari en stúlkna. Allar tölur um aðsókn að menningarlegum uppákomum benda til að þær sæki fyrst og fremst konur. Hvað karlarnir eru að gera á meðan er ekki ljóst, kannski eru þeir að passa börnin, eða bara að hvíla sig. Í háskólum eru miklu fleiri konur en karlar, sömuleiðis sækja miklu fleiri konur en karlar hverskonar fullorðinsfræðslu og tómstundanám.
Hvað verður um alla þá karlmenn sem ekki sækja sér langskólanám? Í hvaða störf fara þeir? Vitað er að einungis lítill hluti þeirra fer í iðnnám og er það reyndar eitt alvarlegasta menntunarvandamálið um þessar mundir og á með öðru sinn þátt i því að nú eru nokkur þúsund útlendingar ólöglega við störf í landinu og sæta afarkostum af hálfu atvinnurekenda. Þeir sem falla úr skóla eru væntanlega í allskonar erfiðisvinnu, á sjó, í byggingariðnaði og verktakastarfsemi, á lagerum og svo framvegis. Þeir geta margir náð sæmilegum tekjum með gríðarlega löngum vinnudegi og útivistum – en það heyrist nánast aldrei í þeim í fjölmiðlum og sjaldan er spurt hvort þeir vilji endilega haga lífi sínu eins og þeir verða að gera. Greinarhöfundar í blöðum eru nánast undantekningarlaust með háskólamenntun. Á þessu er ein undantekning – alþýða manna skrifar minningargreinar í Morgunblaðið til jafns við háskólamenn!
Nýlega heyrðust raddir úr verkalýsðshreyfingunni um að tími væri kominn til að breyta 1. maí úr baráttudegi í fjölskylduhátíð. Gott og vel. Ekki er nein sérstök ástæða til að hafa á móti því að börnum þyki nokkuð til þessa dags koma. Reyndar er það svo að áratugum saman hefur eitthvað verið gert fyrir börn á 1. maí í fjölmörgum byggðarlögum. Á hinn bóginn lyktar þessi tillaga af því að einhverjum hluta verkalýðsforystunnar þyki ekki ómaksins vert að huga sérstaklega að lágstéttunum á baráttudegi verkalýðsins. Það er einhver smáborgaralegur millistéttarblær á þessari hugmynd – æ verum ekki að vasast í leiðindamálum á 1. maí, leikum okkur heldur!
Í Alþýðusambandinu og BSRB eru nálega 100.000 manns, þar af er um helmingurinn (eða kannski fleiri) með grunnskólamenntun eða minna og heyrst hafa tölur um að nálega helmingur allra sem á vinnumarkaði eru hafi ekki farið í framhaldsskóla. Í þessum fjölmenna hópi er fólk með lág laun og langan vinnudag, karlar og konur. 1. maí er dagurinn til að minna á kjör þess og blása í lúðra til að eitthvað verði gert til að bæta kjörin. Það má vel gera með börnum og fjölskyldum. Rétt eins og umræður um mörg feimnismál síðustu aldar eru nú orðnar sjálfsagðar (meira að segja við börn) er sjálfsagt að þau viti öll af því að margir eru illa settir á grundvelli stéttar en ekki bara kyns – að ekki sé nú minnst á þá sem misst hafa heilsuna um lengri eða skemmri tíma.
hágé.