Fara í efni

LÁTUM VERKIN TALA

 Einhver einkennilegasti borgarstjórnarmeirihluti sem um getur hefur nýlega tekið við lyklavöldum í ráðhúsi borgarinnar, greinilega í óþökk mikils meirihluta borgarbúa. Meirihluti borgarstjórnar er sérkennilegur fyrir þá sök að hann er myndaður af tveimur „flokkum" og hefur annar flokkurinn ekki mannskap til að manna allar þær stöður í nefndum sem að öllu eðlilegu ætti að koma í hans hlut. Þar að auki fylgja fyrstu varamenn ekki borgarstjóranum og er það líklega einsdæmi að borgarfulltrúi geti ekki bent á varamann sem hann treystir til að mæta á borgarstjórnarfundi fyrir sig.

Borgarstjórinn, Ólafur F. Magnússon, hefur tjáð sig um það litla fylgi sem hann og meirihlutinn nýtur meðal borgarbúa og sagt að óvægin gagnrýni ráði mestu um hvernig staðan er og eru fjölmiðlarnir að sjálfsögðu í stóru hlutverki á því sviði að hans mati. Hann var í viðtali á einhverri sjónvarps- eða útvarpsstöðinni mánudaginn 4. febrúar og endurtók í sífellu að ástandið myndi lagast - á að giska tíu sinnum sagði hann að meirihlutinn myndi láta verkin tala og þá myndu kjósendur kunna að meta hann að verðleikum.

Hvaða verk áttu að tala máli meirihlutans var aftur á móti ekki ljóst. Gerður hefur verið „málefnasamningur" í nokkrum upptalningum sem sýndust í sjónvarpi komast fyrir á einu A-5 blaði. Í þessum einfalda og „skýra málefnasamningi" sýnist ýmislegt rekast illilega saman. Borgarstjórinn hefur hingað til viljað láta líta á sig sem mikinn umhverfisverndarsinna, hreint loft og mengunarlaust umhverfi er því ofarlega á hans óskalista. „Meirihlutinn" samdi um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni, nokkuð sem borgarbúar voru búnir að fella í almennri atkvæðagreiðslu, jafnframt að vernda skyldi 19. aldar götumynd Laugavegar (hvað svo sem það nú merkir?) og reisa mislæg gatnamót við Miklubraut og Kringlumýrarbraut.

Nú vita allir sem vilja vita að gert er ráð fyrir flugvellinum í Vatnsmýri til 2016, þangað til eru tvennar kosningar. „Umhverfisverndarsinninn" og borgarstjóri í sama manninum, hefur því ekki samið um eitt né neitt í flugvallarmálinu. Satt best að segja er harla ólíklegt að flugvöllurinn muni verða í Vatnsmýri til frambúðar og ef borgarstjórinn heldur að hann hafi „bjargað" flugvellinum er hann glámskyggnari en svo að verkin tali honum til framdráttar. Þótt ekki megi nefna það nú, er langlíklegast að borgarbúar og landsbyggðim öll muni að lokum sameinast um að koma vellinum út á Löngusker, þó dýrt verði, og sameina þannig tvennskonar hagsmuni - að hafa völlinn innan seilingar miðborgarinnar, til hagsbóta fyrir landsbyggðina, og koma honum þar fyrir sem hann getur verið til frambúðar.

 „Umhverfisverndarsinninn" vill líka mislæg gatnamót við Kringluna, þrátt fyrir eindregin mótmæli íbúa á svæðinu. Þegar verkin „fara að tala" á þeim slóðum mun undir eins koma í ljós að þau þurfa líka að tala við Lönguhlíð, sennilega einnig við Sóleyjargötu að ekki sé minnst á ósköpin sem gerast munu við Suðurgötu og Hringbraut. Eitt A-5 blað dugir nefnilega ekki til að greina þann vanda sem óheyrileg einkabílaumferð hefur í för með sér vestur alla Miklubraut og Hringbraut.          „Umhverfisverndarsinnuðum flokki" borgarstjórans hefur sýnilega ekki dottið neitt í hug sem verða mætti til þess að minnka umferðina, draga úr losun óæskilegra efna og þar fram eftir götunum. Honum dettur það eitt í hug að auka bílaumferðina og halda flugumferðinni á sama punktinum, og má örugglega fullyrða að leitun sé að jafn „frumlegri" lausn til að hreinsa andrúmsloftið.

Þá hefur borgarstjórinn sagt að hann vilji halda í 19 aldar götumynd Laugavegarins og lét byrja á því að kaupa tvö gömul „hús" fyrir fimm hundruð milljónir eða svo. Vel má taka undir það að haldið sé í gömul hús og þeim gert það til góða sem þarf til að þau geti haldið áfram að þjóna tilgangi sínum. En væri frekt að spyrja borgarstjórann: Hvar er 19. aldar götumynd Laugavegarins? Er hún á laugavegi 77, Kjörgarði eða í steinsteyptu lengjunni sem liggur niður eftir götunni norðan megin með nokkrum skörðum í? Er hún í bílastæðahúsinu þar sem Stjörnubíó stóð í eina tíð? Er hún í húsi Máls og Menningar, Dressmanversluninni eða Skífunni?

 Það má vel kalla það óvægna gagnrýni fyrir mér, en 19. aldar götumynd er ekki til á Laugaveginum. Þar eru hins vegar allmörg nógu merkileg hús til að þau eigi að fá að standa og hljóta verðugt viðhald og hlutverk. Það dugir ekki nýjum borgarstjórnarmeirihluta að oddviti hans tali í innantómum frösum sem rekast meira og minna á það sem hann segist standa fyrir. Hvernig höfuðborginni er stjórnað og hvernig hún er skipulögð varðar alla landsmenn. Hugmyndum þar um verður ekki komið fyrir á einum A-5 miða, jafnvel þótt menn þylji 10 - 20 sinnum í hverju viðtali að verkin muni tala - og væntanlega segja það sem ekki stendur á miðanum. Hvort þau muni lofa meistarann er aftur allt annað mál.

hágé.