LAUSNIN ER Í HAFNARFIRÐI
Það ríkir einkennilegur dapurleiki í samfélaginu þessa sólarhringa. Ómar Ragnarsson hefur vakið svo rækilega athygli á því sem er að gerast við Kárahnjúka að lengi verður í minnum okkar – sem erum sandkorn og dropar þegar kemur að stórum ákvörðunum, haft. Hann hefur hrist svo rækilega upp í þjóðinni að sennilega hafa aldrei jafn margir haft jafn vonda samvisku, samtímis útaf sama málinu.
Fylling Hálslóns er einhverskonar yfirlýsing um uppgjöf. Héðan af er ekkert hægt að gera nema fylla lónið, segja þeir sem „vitið” hafa.
En Ómar hefur bent á að ýmislegt megi gera, meðal annars að hætta við allt saman, geyma mannvirkin og nota þau til margvíslegrar ferðaþjónustu sem gæti skilað okkur miklum tekjum til frambúðar, fyrir utan að með því myndum við ekki bregðast komandi kynslóðum, milljónum ófæddra íslenskra barna.
Nú blasir við að á Reyðarfirði er nálega fullbúið álver, sem á að geta framleitt hátt í 400.000 tonn af áli árlega og Landsvirkjun hefur samið um að selja verinu orku – reyndar á verði sem enginn utan innsta hrings veit hvert er. Svo mikil er leyndin að blaðafulltrúi ALCOA hefur opinberlega látið að því liggja að ekki einu sinni hinn brasilíski forstjóri fyrirtækisins viti hvað í raforkusamningnum stendur, er þó orkuverð einn þýðingarmesti kostnaðarliður í framleiðslu áls.
Auðvitað mun ALCOA-mönnum þykja fúlt ef tillaga Ómars Ragnarssonar leiddi til þess að iðjuverið yrði ekki gangsett, en eigendunum má standa á sama hvaðan rafmagnið kemur. Þar að auki gæti slíkt samningsbrot kostað þjóðarbúið einhverja milljarða ef ekkert yrði gert til að bæta skaðann.
Hugmynd Ómars hljómar vissulega dálítið galin en hún er stórfengleg um leið. Líklega eru allar stórfenglegar hugmyndir galnar í fyrstu. En hún er ekki nálægt því jafn óframkvæmanleg eins og virðist við fyrstu sín.
Suður í Hafnarfirði er ALCAN með álver, sem er á góðri leið með að verða að skrýmsli inní bænum. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja endilega stækka verið og ekki lagast ástandið í skipulagsmálum bæjarins við það. Þeir hafa jafnframt látið að því liggja að þeir geti eins lokað verksmiðjunni eins og að reka hana í óbreyttri stærð. Hótanir kallaði Ögmundur það á sínum tíma. Kostaboð segi ég.
Eins og sakir standa væri alveg upplagt að taka ALCAN-fólk á orðinu, semja við fyrirtækið um minnkun og síðan lokun álversins. Þar með losnaði feikileg orka í virkjunum á Tungnársvæðinu. Þessa orku mætti sem best selja ALCOA á Reyðarfirði. Vissulega yrði að leggja alllangan hund austur yfir öræfin á bak við Vatnajökul en síðasta hluta leiðarinnar gæti kapallinn trúlega legið í aðrennslisgöngunum frægu, eru þau ekki 60 – 70 km? Afganginn af orkunni sem vantaði mætti svo fá á Kröflusvæðinu og Þeystareykjum.
Hafnfirðingar eiga að greiða atkvæði um stækkun álversins áður en langt um líður. Þeir eiga sem sagt stórkostlegan leik í stöðunni sem myndi gagnast þjóðini til langrar framtíðar. Það er áreiðanlega komið nóg af álverum og orkufrekum iðnaði og úr því að ALCAN er til í að loka, því ekki að nota tækifærið og leysa málin fyrir austan um leið. ALCOA fengi sína orku, hugsanlega eitthvað seinna að vísu, Austfirðingar fengju álverið og allt sem því fylgdi, Hafnfirðingar losnuðu við álver úr bænum, og ALCAN þyrfti ekki að reka iðjuver sem ekkert er varið í að eiga. Þjóðin ætti síðan stífluna, göngin og síðast en ekki síst – hálendið ósnortið með öllum þeim gríðarlegu möguleikum sem í öllu þessu felst. Með öðrum orðum: Hafnfirðingar geta fljótlega lagt sitt af mörkum til að breyta þeim dapurleika sem sækir nú á þjóðina – þeir gætu lagt sitt lóð á vogarskálina þegar kosið verður um stækkun álversins í Straumsvík og þjóðin gæti tekið gleði sína á ný.
hágé.