Fara í efni

Megum við þýða Harry Potter?

Eins og sakir standa er allt útlit fyrir að verkfall grunnskólakennara standi í nokkurn tíma enn – hinir svartsýnustu nefna vikur. Af tilefnum sem þessum upphefjast alltaf einhverjir spekingar og halda því fram að verkföll séu úrelt, rétt eins og samningar um lífskjör séu bara tækinlegt úrlausnarefni sem skynsamir, jafnvel utanaðkomandi, menn geti leyst yfir kaffibolla í eftirmiðdaginn. Sú aðferð er hugsanlega nothæf í stórviðskiptum nútímans – menn hittast á hóteli í útlöndum, í laxi eða golfi og komast að því að þeir geti gert samninga sín í milli ,,sem báðir hagnast á” eins og vinsælt er að segja. En þegar kemur að því að launafólk semji um söluna á vinnuafli sínu, snarfellur það í verði ef ekki er skapleg aðstaða til að segja nei takk, eða hingað og ekki lengra.

 Drífa Snædal skrifar grein um kennaraverkfallið hér á síðuna þann 20. 9. sl. og bendir réttilega á að verkföll séu ekki úrelt, heldur nauðsyn. Ályktar hún að verkföll eigi að bitna á sem allra flestum, því þannig valdi þau mestum þrýstingi á atvinnurekendur að semja.

Sjálfur tók ég á sinni tíð þátt í mörgum verkföllum um nálega 30 ára skeið, sem óbreyttur liðsmaður og verkfallsvörður, þátttakandi í stjórnum verkfalla eða samningamaður og forystumaður stéttarfélags. Eitt af því sem Eðvarð heitinn Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, kenndi okkur ungu mönnunum var að ekki væri nóg að hafa góða stemningu meðal þeirra sem í verkfalli væru. Einn mesti vandinn við verkfall væri að tryggja að verkfallsmenn hefðu svo mikla almenna samúð með málstað sínum og hægt væri. Verkfall í fjandsamlegu andrúmslofti, eða rekið á þann hátt að það skapaði úlfúð og ergelsi hjá fólki sem mikilvægt væri að hafa með sér, gæti reynst afar erfitt og hreyfingunni jafnvel hættulegt. Þannig benti hann á að Dagsbrúnarmenn hefðu gert mikil mistök á sínum tíma þegar þeir hindruðu dreifingu mjólkur í verkfalli með öllum ráðum. Á þeim tíma (á 6. áratug síðustu aldar) var mjólk talin gríðarlega mikilvæg fyrir börn og mat- og drykkjarvöruúrval miklu minna og einfaldara en nú á dögum.

Mér finnst kennarar reka verkfall sitt af þarflausum ótta við að missa þrýsting á viðsemjendur. Ef marka má fréttir eru þeir eins og gráir kettir út um allt að gæta þess að enginn uppfræði börn meðan á verkfallinu stendur. Síðasta sem ég sá í fjölmiðlum af þessu tagi er að kennarasamtökin hafi komið í veg fyrir að krakkar úr grunnskóla á Egilsstöðum æfðu með leikfélaginu á staðnum á þeim tíma sem sem þau hefðu annars verið í skólanum. Og rökin voru þessi: það er verið að kenna börnunum eitthvað í tónlist! Kennarar neituðu um undanþágu fyrir fjölfötluð börn með þeim rökum að ekki væri komið neyðarástand og allir hafa heyrt að samtök kennara eru ósátt við að foreldrar og/eða fyrirtæki skipuleggi sameiginlega gæslu fyrir krakkana og telja það verkfallsbrot.

Drífa Snædal telur að draga muni úr þrýstingi á sveitastjórnarmenn að semja, ef kennarar eru ekki nógu harðir á svona hlutum. Þetta held ég að sé misskilningur. Þrýstingur foreldra á sveitarstjórnir er mjög mikill og eykst með hverjum deginum. Hann kemur að sönnu ekki fram í fjöldamótmælum eða öðru slíku en hann blasir eigi að síður við. Sveitarstjórnarmenn vita ósköp vel að þeir bera ábyrgð á menntun grunnskólabarna og að þeir fá yfir sig allskonar klúður á heimavelli ef verkfallið dregst á langinn. Haldi kennarar ekki skynsamlega á málum úti í samfélaginu, kemur það á hinn bóginn harkalega í bakið á samtökum þeirra, jafnvel í mörg ár. Foreldrar, sem verða að skipuleggja tíma sinn og barnanna uppá nýtt, geta ósköp einfaldlega snúist gegn þeim en ekki sveitarstjórnarmönnum, þótt þeir skilji annars mæta vel mikilvægi þess að launa kennara vel og fá þannig gott fólk í skólana. Ef skilningur kennarasamtakanna, um að ekki megi uppfræða börn meðan á verkfallinu stendur, er réttur þá er ég – sem hef heilmikla reynslu af verkfallsvörslu! - augljóslega verkfallsbrjótur. Við feðginin (dóttir mín er 11 ára) höfum nefnilega keypt Harry Potter á ensku og hugsum okkur að nota tímann til að lesa bókina og jafnvel þýða. Ég hef aðstöðu til að taka stund og stund á skólatíma í þetta uppfræðandi verkefni. Í ljósi þess sem að framan er rakið hlýt ég því að spyrja: Megum við þýða Harry Potter þegar kennarar eru í verkfalli?

hágé.