Fara í efni

MERKINGARLAUS PÓLITÍK

Bé-listamenn í höfuðstaðnum (sem halda því reyndar þokkalega leyndu að þeir séu í framboði fyrir Framsóknarflokkinn) hafa tilkynnt þjóðinni að hún sé sátt við að hafa flugvöll á Lönguskerjum. Þjóðin hefur að vísu ekki verið spurð um málið, sem er vissulega galli, ef hún á að sættast, en gerir kannski ekki svo mikið til fyrir þá Bé-listamenn. Þjóðarsátt er þjóðarsátt ef aðstoðarmaður forsætisráðherra (oddviti listans) segir það og hana nú.

Þetta fyrirbæri, að allir eigi að vera sáttir við alla skapaða hluti, tekur stundum á sig skringilegar myndir. Þannig hefur einhverjum dottið í hug orðið samræðustjórnmál, sem virðist þýða að menn og flokkar eigi að ræða saman þangað til allir eru sáttir. Nú ætti flestum reyndar að vera ljóst að íslensk stjórnmál eru einmitt samræðustjórnmál, menn beita ekki vopnavaldi til að koma fram vilja sínum, heldur ræða málin, jafnvel hnakkrísfast, takast á með orðum. Að samræðan eigi alltaf að leiða til sameiginlegrar niðurstöðu er allt annað mál – ósköp einfaldlega tóm della.

Hverskonar stjórnmál eru það eiginlega þar sem allir eru sammála og sáttir? Stjórnmál eiga ekki að leiða til þess að allir séu sáttir. Þvert á móti leiða lifandi pólitískar umræður (samræður ef menn endilega vilja) til þess að ólík sjónarmið, sem mótast næstum alltaf af mismunandi hagsmunum og stundum af hugsjónum, koma í ljós.

Það hefur með öðrum orðum enga merkingu og er í rauninni makalaust bull að reka heila kosningabaráttu á „þjóðarsátt” um mál sem engin ástæða er til að allir séu sáttir við. Engu breytir þótt undirrituðum finnist hugmyndin um innanlandsflugvöll á Lönguskerjum býsna góð (ég er kannski svona veikur fyrir flottum vídeómyndum eftir Hrafn Gunnlaugsson!), Hjálmari Árnasyni þingmanni Framsóknar á Suðurnesjum finnst að innanlandsflugið eigi að flytjast til Keflavíkur. Á sama tíma vill Kristinn H. Gunnarsson þingmaður sama flokks af Vestfjörðum að völlurinn verði kyrr í Vatnsmýrinni. Þótt tillaga Hjálmars sé arfavitlaus, og hugmynd Kristins vafasöm til lengdar þá hljóta þeir – hagsmunanna vegna – að halda við sín sjónarmið þótt Bé-listinn í Reykjavík haldi fram sáttri þjóð. Slagorð bésins í Reykjavík er þeim mun kostulegra, sem flestum er ljóst að samflokksmenn foringjans vítt og breytt um landið eru á allt annarri skoðun, að ekki sé nú minnst á ólíkar skoðanir allra hinna.

Innihaldslaus slagorð af þessu tagi, þjóðarsátt um mál sem engin sátt er um annars vegar, og samræðustjórnmál hins vegar koma svipuðu óorði á pólitík og rónar á brennivín. Kjósendur horfa uppá stjórnmálamenn eyða mikilli orku, miklum peningum og ómældum tíma í málflutning sem hefur enga raunverulega merkingu. Það skiptir hinsvegar máli þegar menn deila um mál, ekki deilnanna vegna, heldur vegna málefna og hugmynda. Hvernig á að skattleggja þjóðina? Ætlast Lönguskerjapólitíkusar til að um það verði sátt? Eiga „samræður” um pólitík að leiða til þess að stórum þjóðfélagshópum er haldið á ósæmilegum lífskjörum meðan aðrir maka krókinn sem aldrei fyrr? Þannig mætti endalsust halda áfram að telja upp mál sem engin ástæða er til að allir séu sáttir við. Stjórnmál snúast meðal annars um að menn reyni að koma einhverju í verk, eins þótt einhverjir – jafnvel margir – séu fullkomlega ósáttir. Er þá reyndar komið að framlagi Einars Odds Kristjánssonar í fjölmiðlum 12. maí en hann sagði nokkurn veginn þetta þegar hann lýsti áhyggjum sínum af verðbólgunni. „Engin verkefni eru svo þýðingarmikil að ekki megi fresta þeim.” Um það er fjallað á öðrum stað http://blog.central.is/hage.
hágé.