Fara í efni

ORÐIN SEM ENGIN TEKUR EFTIR

Fjölmiðlar nútímans eru skrýtin fyrirbæri, skrýtnust fyrir það sem ekki er sagt og ekki spurt um. Þar að auki flytja þeir í sífellu allir sömu fréttirnar án þess að nokkur þeirra bregði nýju eða skiljanlegra ljósi á umfjöllunarefnin. Ofan á þetta er minni þeirra á söguna svo stutt að undrum sætir. Jónas Kristjánsson ritstjóri kallar vinnubrögðin á fjölmiðlum „kranablaðamennsku" og fjölmiðlana sjálfa „letifjölmiðla".

Enda þótt blæmunur sé á fjölmiðlunum, þá líkjast þeir svo hver öðrum að oftast er nóg að fylgjast með einum. Morgunblaðið hefur þó þá sérstöðu að þar er hægt að lesa minningargreinar og allir vita að það er málgagn Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjunnar.

Um þessar mundir eru fjölmiðlarnir allir uppteknir af bönkunum og þeirri ógn sem þjóðinni stafar af því að þeir þykja ekki jafn traustar hvelfingar í útlöndum og fyrir ári. Orðið „skuldatryggingarálag" gengur eins og rauður þráður í gegnum „fréttir" fjölmiðlanna af þessum fyrrum þjóðareignum. Enginn miðill sýnist ætla að kanna hvernig á því stóð að „virtar" erlendar fjármálastofnanir voru óðfúsar að lána þessum bönkum stórfé á lágum vöxtum fyrir einu ári eða svo en ku nú vera ýmist lokaðar bönkunum eða bjóða í besta falli okurlán. Afleiðingn verður sú að bankarnir muni kafna úr „súrefnisskorti" fyrr eða síðar eins og Jón Ásgeir Jóhannesson orðaði það svo prýðilega.

Undirritaður hefur áður sagt að skýringin á því að bankarnir gátu fengið öll þau lán sem þeir vildu erlendis eftir einkavæðinguna, og það á hagstæðustu kjörum, hljóti að hafa legið í því að hinir erlendu bankar hafi séð að ríkisbankarnir fyrrverandi hafi verið miklu traustari stofnanir en söluverð þeirra gaf til kynna. Kaupendurnir hafi fengið bankana á lýgilega hagstæðum prísum og „viðskiptamódel" nýju eigendanna verið trúverðugt.

Hvernig þetta módel var eða er getur leikmaður naumast skilið en það virðist hafa byggst á því að taka óhemjustór lán erlendis, meðal annars til þess að taka þátt í „skuldsettum yfirtökum" á ýmsum fyrirtækjum innanlands og utan. Upp úr þessu módeli varð til ótrúlega trylltur dans. „Viðskiptajöfrarnir" (sem vel að merkja eiga stóra hluti í bönkunum) keyptu og keyptu, allt það sem draumar þeirra stóðu til.

Svo gerist það einn daginn, líklega á síðasta ári, að dönsk blöð fara að efast um að allt sé með felldu og það sem meira var: Den danske bank hélt því blákalt fram að hinn nýji dans í kringum gullkálfinn myndi enda með ósköpum. Eins og gefur að skilja urðu Íslendinar upp til hópa stórmóðgaðir og fullyrtu að dönum gengi öfundin ein til að álykta í þessa veru. En nú er öldin önnur. Þessa dagana berast vondar fréttir frá „matsfyrirtækjum", lánshæfismat er lækkað en þá skýtur um leið upp kollinum lítil klausa sem getur hugsanlega „róað" markaðinn: ríkið og Seðlabankinn hafa styrk til að koma bönkunum til bjargar ef illa fer.

Bíðum nú aðeins við. Voru bankarnir ekki seldir einkaaðilum sem reka sín fyrirtæki, þar með talda bankana, í samkeppnisumhverfi og sumum gengur vel en öðrum illa? Og nú væri gaman ef fjölmiðlarnir (sem eru, fyrir ótrúlega tilviljun, margir í eigu sömu aðila og eiga bankana) hefðu dulítið sögulegt minni. Eða er það misminni mitt að mikilsverð rök fyrir bankasölunni hafi einmitt verið þau að ríkið ætti ekki að vasast í bankastarfsemi, miklu eðlilegra væri að bankar væru reknir af einkaaðilum eins og hver önnur fyrirtæki. Þeir yrðu að standa sig og með sölunni hyrfi ríkisábyrgðin?

Hvernig í ósköpunum stendur á því að enginn fjölmiðill skyggnist á bak við þessa litlu klausu: ríkið og Seðlabankinn hafa styrk til að koma bönkunum til bjargar ef illa fer.

Voru bankarnir kannski seldir með einhverskonar dulinni ríkisábyrgð? Hvernig væri að spyrja þá sem seldu og keyptu, hvað þessi klausa merki í raun og veru? Er reiknað með því að ríkið leysi bankana til sín aftur, eða mun það veita þeim stórlán þegar útlendir bankar og sjóðir segja hingað og ekki lengra. Hvaða áhrif hefur það á íslenskt hagkerfi og svo framvegis og framvegis?

Önnur lítt áberandi setning fór í loftið á föstudaginn var, sem ætti að gefa blaðamönnum tilefni til frekari viðbragða. Stjórnarformaður Kaupþings sagði eitthvað á þessa leið: Það er gott að eiga lífeyrissjóðina að þegar svona stendur á. Hvað merkir þessi staðhæfing nákvæmlega? Gerir stjórnarformaðurinn ráð fyrir að sjóðirnir láni bönkunum stórfé þegar aðrar dyr lokast? Hvað þýðir að eiga að í þessu samhengi? Fyrir okkur, sem eigum lífeyrissjóðina skiptir svarið miklu máli.

Einhverra hluta vegna fara litlu setningarnar, sem ástæða er til að taka eftir, fram hjá fjölmiðlamönnum nútímans, að minnsta kosti þegar bankar eru annars vegar. Af hverju skyldi það vera?

hágé.