SAMRÆÐUSKATTAR
Indriði H. Þorláksson, ríkisskattstjóri, er einn af þeim fáu opinberu embættismönnum, (einkum í efstu lögunum) sem talar skýrt. Ævinlega skal hann setja mál sitt fram á skýran og auðskilinn hátt: Skattbyrði þegnanna ræðst af þeim útgjöldum sem valdhafarnir ákveða. Efnislega þetta sagði hann í Kastljósi sjónvarpsins 27. febrúar sl. Morgunljóst og auðskilið hverjum manni.
Hvernig þessu sköttum er skipt á milli þegnanna er allt annað mál. Í því birtist einatt skýrasti munurinn á milli hægri og vinstri manna. Núverandi ríkisstjórn, með Framsóknarflokkinn hægra megin við miðju, hefur á afar skýran hátt framfylgt hægri stefnu með þeim afleiðingum að hinir tekjulágu greiða hlutfallslega meira af tekjum sínum í skatta, en hinir tekjuháu. Þetta er meðvituð ákvörðun, vandlega úthugsuð, ekki til að niðurlægja þá tekjulágu heldur með það í huga að stækka kökuna, eins og Hannes Hólmsteinn orðar svo laglega. Með stærri köku fá allir meira:
Betur að þessi skoðun ætti stoð í veruleikanum. Því miður hefur hún það ekki. Stækkandi kaka hefur ekki minnkað bilið milli ríkra og fátækra eða aukið réttlætið í skattakerfinu - tekjulágir greiða hlutfallslega hærri skatta en hinir.
Undanfarnar vikur hefur æðstu stjórnendum landsins þótt sæmandi að koma óorði á Stefán Ólafsson háskólaprófessor fyrir að hafa sýnt þessa þróun með dæmum. Þeir, og liðsmenn þeirra, meðal annars á Netinu, hafa haft allt á hornum sér útí Stefán og reynt að sverta fræðileg vinnubrögð hans. Þeir hafa ekki farið þá leið, sem hefði verið miklu eðlilegri að segja: Elsku Stefán minn, kakan á að stækka. Það gerir hún með því að hátekjufólkið greiði minna, þá eyðir það meiru, það greiðir hærri skatta, hærri virðisaukaskatt, vörugjöld af dýrum bílum, lúxus og svo framvegis sem gefur ríkissjóði miklu hærri tekjur heldur en hátekjuskatturinn gaf eða nýtt skattþrep á hátekjur.
Frá samræðustjórnmálamönnum af vinstri kantinum kemur svo nýtt útspil. Þeir taka að sönnu undir með Stefáni Ólafssyni en hrópa eins hátt og þeir mögulega geta: Fjármálaráðherrann innheimtir hæstu skatta Íslandssögunnar! Svo finna sumir þeirra upp einföld upphrópunardæmi eins og: Stimpilgjöldin eru svívirða! Og halda um það heitar ræður á Alþingi Íslendinga en aðfluttur Skagamaður spyr sjálfan sig: er ekki allt í lagi með þetta fólk?
Ríkisskattstjórinn sagði það sem skiptir máli um innheimtuna í heild sinni – skattbyrði ræðst af því sem valdhafarnir vilja fá. Samræðustjórnmálamennirnir gera það því miður ekki. Hvað á það að þýða að atyrða hægristjórnina (þar sem Framsókn er hægra megin við miðju) fyrir það innheimta hæstu skatta Íslandssögunnar? Það er ekki vandamálið. Sem betur fer er hún ekki svo langt leidd að innheimta ekki skatta í einhverju samræmi við að tekjurnar sem hafa sjaldan eða aldrei verið hærri. Vinstri menn eiga að segja blákalt: Bærilegu mannlífi, öflugu atvinnulífi, almennri menntun og jöfnuði verður ekki haldið upp í landinu nema með sköttum sem duga til að greiða þennan kostnað.
Vandinn við skattaumræðuna er meðal annar sá að við fáum aldrei að vita hvað hver þjóðfélagshópur greiðir til samfélagsþarfa – til þess þarf að greina virðisaukaskattinn, vörugjöldin og. sv. frv. í sundur. Hve stór hluti slíkra skatta er vegna matvæla, fjárfestinga, lúxusvara og þar fram eftir götunum. Þeir sem segjast stækka kökuna leggja ekki fram neinar tölur í þessu skyni og samræðustjórnmálamennirnir eru allt of uppteknir af smáskömmtum til að sjá heildarmyndina (virðast ekki geta hugsað um marga hluti í sömu vikunni), Meðal annarra orða: er kannski til eitthvað sem heitir samræðuskattar?
hágé.