Fara í efni

TIL HVERS AÐ TALA OG TALA?

Enda þótt Jón Magnússon lögmaður og Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður séu ekki endilega heppilegustu mennirnir til að hefja umræður um „útlendingavandamálin”, vegna þess að óneitanlega örlar á óæskilegri þjóðrembu hjá þeim, þá er alveg ástæðulaust fyrir „virta” stjórnmálamenn” eins og Steinunni Valdísi óskarsdóttur, að fara á límingunum þótt þeir taki til máls um efnið. Það er að minnsta kosti alveg á ystu mörkum að kalla mennina rasista þótt þeir kunni að komast óheppilega að orði.

Hvert mannsbarn veit að undanfarin misseri hafa mörgþusund útlendingar komið hingað til lands í atvinnuleit. Sumir halda því meira að segja fram að þenslan og allt það sé þeim að kenna, þótt hver skynug manneskja hljóti að sjá að eftir þessu vinnuafli hefur verið kallað til þess að koma því í verk sem hefur skapað þensluna. Þjóðartekjur af 10.000 vinnandi útlendingum, eru engir smáaurar, þetta er u.þ,b. helmingi fleira fólk en vinnur við fiskveiðar og vinnslan í landi er að stórum hluta rekin með fólki af erlendum uppruna. Það sem er rangt í málflutningi þeirra félaga, eins og hann hefur komið mér fyrir eyru, er að erlent fólk hópist hingað fyrst og fremst að eigin frumkvæði og skapi þensluna.

Í byggingariðnaði, þar sem erlendu verkamannanna (faglærðra og ófaglærðra) gætir mest er yfirgnæfandi meirihlutinn karlmenn, sem ekki eru með fjölskydlur sínar með sér. Þeir munu að öllum líkindum flestir hverfa af landi brott þegar mannvirkjafárið er gengi yfir í bili. Viðtökur atvinnurekenda við þessu mönnum hafa í mörgum tilfellum verið til stórskammar – sem betur fer ekki öllum. Byggingaverkamenn eru í mörgum tilfellum látnir búa í gámum eða óskráðu íbúðarhúsnæði og fá ekki kennitölu eða lögleg dvalarleyfi. Eru þannig utan við lög og rétt á vinnumarkaði og engin tilraun er gerð til að gera þeim lífið auðveldara meðan á dvöl þeirra stendur. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt því ofan á allt annað fylgja svo undirboð, þeir fá lægsta kaup sem mögulegt er að bjóða þeim, sem er þó miklu hærra en í heimalandinu.

Hinn hópurinn (svo málið sé einfaldað) karlar, konur og fjölskyldur af afar fjölbreyttu þjóðerni hefur í hyggju að setjast hér að og ef ég mætti spyrja:  Hvað er að því? Ef Íslendingar haga sér eins og asnar, geta margvísleg vandræði skapast af þessum búferlaflutningum, en ef þeir taka á málum eins og menn má draga stórlega úr þeim vandamálum sem þessu kunna að fylgja og nýta kostina. Núverandi ríkisstjórn hefur því miður sett of lítið fé í að auðvelda þessu fólki aðlögunina (nú stendur víst til að setja hundrað milljónir í íslenskukennslu) með þeim afleiðingum að fyrr en varir verður hér vaxandi fjöldi barna af erlendum uppruna sem lærir íslensku en eiga foreldra sem kunna hana ekki eða illa.

Í þessu er fólgin mikill vandi fyrir börnin og ekki síður foreldrana. Reynslan sýnir að börn af erlendum uppruna eru miklu líklegri til að falla út úr skólakerfinu áður en kemur að langskólanámi. Hvers vegna er þetta: Líklega vegna þess, m.a., að foreldrarnir eru að stærstum hluta í láglaunastörfum þannig að þau hafa ekki efni á að koma börnunum til lengra náms og svo hins að börnunum líður ekki jafn vel í skóla og þeim infæddu, lenda til að mynda oftar í einelti og sv.frv. og velja því af báðum ástæðunum að fara að vinna eins fljótt og þau geta: n.b. í láglaunastörfum eins og foreldrarnir.

Viðbrögðin við ummælum Jóns Magnússonar og Magnúsar Þórs hafa verið tvennskonar: annarsvegar að saka þá um rasisma (og vissulega höggva þeir í þann knérunn) og hinsvegar að segja að „umræðan sé af hinu góða” svo gripið sé til margofnotaðs frasa. Ég læt orðin um meintan rasisma þeirra félaga liggja milli hluta, en spyr: hvaða gagn er að umræðu sem leiðir ekki til neins? Til hvers að tala og tala, skrifa og skrifa ef ekkert annað gerist. Innflytjendurnir halda áfram að glíma við sín vandamál, lág laun og félagslega einangrun og við njótum ekki þess menningarlega auðs sem þeir flytja með sér. Þeir eignast húsnæði í þeim hverfum Reykjavíkur sem ódýrust eru og áður en við er litið eru komin upp gettó fólks af erlendum uppruna á lágum launum í ódýrasta húsnæðinu sem býðst.

Hvað ber þá að gera: Í fyrsta lagi að létta á þrýstingnum af hagkerfinu með því að hætta við þau stórfelldu áform sem uppi eru um álver og virkjanir. Milda mætti þá aðgerð (ef menn endilega vilja)með því að Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík og því verði lokað í framhaldinu, eins og eigendur þess hafa haft á orði (svo ég nefni það einu sinni enn). Orkuna sem þannig losnar mætti nota í annað. Í öðru lagi að mennta innflytjendurna með öllum tiltækum ráðum, ekki bara í íslensku heldur líka í sögu og menningu. Það er eina raunhæfa leiðin til að þeir geti skilið bæði mál og menningu og komist upp úr því að vinna verst launuðu störfin. Þetta er líka hagsmunamál hinna infæddu, því að á meðan nóg framboð er af fólki í láglaunastörf, með takmarkaða þekkingu á íslensku samfélagi, verður erfitt að hysja launataxtana upp. Í þriðja lagi verður að leita allra leiða til að börn innflytjenda hrökklist ekki úr námi í miklu meira mæli en innfæddir. Ef þörf er sérstakra ráðstafana, til dæmis með enn auknum fjárveitingum til skólanna, þá verður að grípa til þeirra. Í fjórða lagi verður að gera innflytjendur betur sýnilega í samfélaginu og sýna fram á að þeir eru fólk með svipaðar þarfir og langanir og við hin, þótt uppruninn sé annar. Þess vegna ætti til dæmis að ráða þuli og fréttamenn af erlendum uppruna, með hinum infæddu, (sem tala þá íslemsku fyrir utan önnur mál) í sjónvarp, þannig að landsmenn venjist við að sjá „annarskonar fólk” á skjánum í bland við það venjulega. Í annan stað er það hvatning fyrir innflytjemdur að sjá að komast megi langt í þessu samfélagi.

Þetta eru aðeins fáeinar aðgerðir af mörgum, sem grípa mætti til í því skyni að innflutningur erlends fólks leiði ekki af sér vandamál í náinni framtíð á borð við þau sem hvað eftir annað blossa upp í Danmörku. Lausnin felst með öðrum orðum í því að hjálpa innflytjendum að ná fótfestu, þar sem við virðum uppruna þeirra og menningu og þeir okkar. Við eigum ekki að búa til samfélag vaxandi misréttis og stéttaskiptingar, eins og þróunin hefur verið undanfarin ár. Þar hafa ekki eingöngu innflytjendur orðið undir, misréttið meðal hinna infæddu vex sem aldrei áður líka. Um einn anga þess má lesa á http://blog.central.is/hage

hágé.