Fara í efni

UPPVAKNINGUR

Að vera framsóknarmaður þessa dagana er áreiðanlega ekkert grín. Að sögn leiðtoga flokksins hafa andstæðingarnir lagt Framsóknarflokkinn í einelti undanfarna mánuði, með þeim afleiðingum að færri kjósendur lögðu í að kjósa flokkinn í sveitarstjórnarkosningunum en framsóknarmönnum þykir hollt. Hvort flokkurinn sjálfur eigi þar einhverja sök er látið liggja milli hluta en kjósendur hafa þúsundum saman hagað sér líkt og krakkar gera stundum á skólalóð – haft flokkinn útundan.

Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart. Flokkurinn er allra flokka elstur, stofnaður 1916 þegar meira en helmingur þjóðarinnar hafði naumt skammtað lifibrauð sitt af landbúnaði, Framsóknarflokkurinn varð flokkur bænda og búaliðs. Nánast alla 20. öldina hafði flokkurinn þingfylgi og völd langt umfram kjörfylgi í krafti ranglátrar kjördæmaskipunar. Stærsta hluta sama tíma barðist flokkurinn gegn öllum breytingum sem hnigu í þá átt að jafna kosningaréttinn.

Greinilegt er að Haldór Ásgrímsson, sem nú er að yfirgefa stjórnpallinn, hefur fyrir löngu áttað sig á að Framsókn yrði aldrei langlíf sem valdaflokkur nema að styrkja stöðu sína í þéttbýli. Að búa til sæmilega stóran hægri sinnaðan miðjuflokk fyrir borgar- og þéttbýlisbúa er aftur á móti hægara um að tala en í að komast, nema að gera hann að einhverkonar glamrara á borð við norska Framfaraflokkinn.  Sjálfstæðisflokkurinn gegnir ágætlega því hlutverki (í rauninni allt of vel) að vera skjól fyrir allar mögulegar gerðir af hægri sinnuðum kjósendum. Þetta kom glöggt fram í stefnumörkun flokksins í mörgum sveitarfélögum, á kosningamatseðlinum var margt ansi bleikt, jafnvel úti rautt á sumum stöðum – allt í bláum búningi, þannig að lítið pláss reyndist vera fyrir Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn nær sem sagt yfir hina hægri sinnuðu miðju.

Ráð Halldórs og félaga til að skilja við flokkinn sem þéttbýlisflokk var að vekja upp Finn Ingólfsson og ætla honum leiðtogahlutverkið, auk þess að koma honum í formannsstólinn án þess að spyrja almenna flokksmenn. Sennilega er þetta einhver ófrumlegasta pólitíska hugmynd sem fram hefur komið lengi, enda var formaðurinn rekinn með hana út úr ríkisbústaðnum á Þingvöllum.

Hvað er það í ferli Finns Ingólfssonar sem gerir hann svo eftirsóknarverðan leiðtoga að áliti Halldórs Ásgrímssonar? Hvers vegna ættu hugsanlegir kjósendir hægra megin við miðju að kjósa flokk undir hans forystu? Hvað hefur hann sagt eða gert umfram aðra framsóknarmenn til að verðskulda slíkt traust?

Vitað er að maðurinn er hörkuduglegur og sterkur grunur um að hann sé ólatur. Í ýmsum tilvikum er hvorttveggja kostur en alvarlegur galli í öðrum. Þannig hefur Finnur síðustu misseri sveimað í þeim hópi fjáraflamanna sem stundum er kallaður S-hópurinn og á það sameiginlegt að fara nú með eignarhald í mörgum þeirra fyrirtækja sem áður tilheyrðu samvinnuhreyfingunni – n.b. í byrjun fyrir tilstuðlan Halldórs Ásgrímssonar þegar Búnaðarbankinn og Landsbankinn voru seldir á sama tíma. Dugnaðurinn og ósérhlífnin á þessu sviði hefur gert Finn Ingólfsson auðugan hestamann. Vissulega áhugaverðir kostir í sjálfu sér, en er það slíkur maður sem Framsókn hefur mesta þörf fyrir í yfirstandandi þrengingum?

Hugmyndin um að vekja upp Finn Ingólfsson og gera hann að leiðtoga hægrimiðjunnar, var glimmrandi yfirlýsing um að Framsóknarflokkurinn er orðinn þarflaus sem þéttbýlisflokkur og ákaflega ótraustvekjandi sem bændaflokkur (nema hugsanlega fyrir þá sem reka hrossabúskap). Ekki er vitað til að Finnur hafi neina þá framtíðarsýn sem get hefði hann að freistandi leiðtoga. Að sönnu er ekki mikið vitað um þá sýn nema hvað hann var ötull (duglegur/ólatur) baráttumaður fyrir stóriðjustefnunni, enda treysti Valgerður Sverrisdóttir honum prýðilega fyrir leiðtogasætinu en ekki bóndasyninum Guðna Ágústssyni. Og þar liggur hundurinn einmitt grafinn – það virtist mega kosta öllu til að girða fyrir frekari vegtyllur til handa Guðna Ágústssyni að ekki sé nú minnst á „hættuna” sem fylgir því að Siv Friðleifsdóttir taki við formannsstólnum. Um þær girðingar er nánar fjallað á http://blog.central.is

Hitt er svo annað mál að „fléttan” gekk ekki upp. Finnur Ingólfsson sá það sem allir sjá – það er miklu betri bisniss að synda um í fjármálaheiminum en að láta troða sér niður um kokið á Framsóknarflokknum!

hágé.