ÚTI Á TÚNI
Útvarpsstjóri hefur ráðið sér fréttastjóra að hljóðvarpinu. Að sjálfsögðu liggur í hlutarins eðli að hann fór að skipunum stjórnarflokkanna um ráðninguna – við öðru var ekki að búast. Maður sem stýrir þjóðarstofnuninni „farsællega” í milljón krónu tap á dag hann hlýtur að vera trúr sannfæringu sinni og stjórnarflokkanna. Í stað þess að fela starfið einhverjum af þrautreyndum starfsmönnum fréttastofunnar völdu stjórnarflokkarnir og útvarpsstjórinn mann sem hefur reynst býsna seigur að selja vélar til að flokka kjúklingabita og fiskflök, en takmarkaða reynslu af vinnu á fréttastofu, að minnsta kosti í samanburði við þá sem hafa unnið hjá RÚV í nokkra áratugi og unnið traust þjóðarinnar. Þetta er þeim mun frumlegra sem hinn nýráðni er ekki einu sinni flokksbundinn framsóknarmaður, í besta falli náinn vinur þeirra sem spinna pólitískan vef fyrir Halldór Ásgrímsson,
Markús Örn hefur nú tíundað helstu rökin sem gerðu starfsmenn Útvarpsins vanhæfa í samanburði við sölumann Marels. Þeir eru um fimmtugt og þar með of gamlir! Mikilli starfsreynslu fylgir vissulega sá augljósi galli að menn eldast en ekki er víst að allir skilji það sjónarmið stjórnarflokkanna og Markúsar Arnar að aldurinn sé miklu verri en sú reynsla og þekking sem hann hefur í för með sér. Að meira vit sé í að ráða ungan mann úr allt annarri átt þar sem reynsla af starfinu sem hann á að sinna er víðsfjarri en unglingssvipurinn augljós er vert frekari umhugsunar. Við þurfum að ná til ungs fólks sagði útvarpsstjórinn í Kastljósþætti. Þetta hlýtur að þýða að nýja fréttastjóranum sé ætlað að poppa upp fréttirnar til að „ungt fólk” taki eftir því sem er að gerast í heiminum. Þetta er satt að segja alveg makalaus röksemdafærsla hjá manni sem á starfs síns vegna að vita hvað fer fram á þeim útvarpsstöðvum sem ná til „unga fólksins” og hljóma allar eins. Á nýi fréttastjórinn virkilega að fara með ríkisútvarpið í sama farveg? Satt best að segja er útvarpsstjórinn dálítið eins og úti á túni í röksemdafærslu sinni.
Markús Örn getur þó huggað sig við það að hann er ekki einn á túninu. Þar eru líka þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar í útvarpsráði, tveir fultrúar Samfylkingarinnar og einn fulltrúi Frjálslynda flokksins. Þeir tóku ekki afstöðu til umsækjenda með þeim rökum að stjórnmálamenn ættu ekki að fást við mannaráðningar. Við þessa staðhæfingu er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi er til þess ætlast með útvarpslögum að útvarpsáð sé umsagnaraðili um ráðningu fréttastjóra. Hvernig í ósköpunum stendur á að þessir fulltrúar almannavaldsins taka upp á, að því er virðist upp úr þurru, að víkjast undan þeim merkjum sem þeir eru kjörnir til – og láta ráðninguna afskiptalausa? Hitt atriðið, sem er miklu alvarlega, lýtur að tengslum við þá flokka sem kjósa þá í ráðið. Minnihlutinn er alveg á sama báti og meirihlutinn að því leyti að hann er eins og púlshestur fyrir viðkomandi flokka og lítur ekki á sig sem fulltrúa almennings heldur flokkanna. Sem fulltrúar almennings, en ekki flokkanna, bar minnihlutanum að benda á þann eða þá sem þeir teldu hæfasta til starfsins hvaða skoðun sem flokkar þeirra hafa á nauðsynlegum breytingum á stjórn Ríkisútvarpsins. Niðurstaðan varð sú að starfsmenn Útvarpsins, fólkið sem hefur gert fréttastofuna að því sem hún er, fær hvergi stuðning í fulltrúum almannavaldsins. Þetta er alveg makalaust! Er nema von að Markús Örn þykist hafa pálmann í höndunum og
hágé.