Ismail Haniyeh – minning
Ismail Haniyeh, leiðtogi Íslömsku andspyrnuhreyfingarinnar, Hamas, var myrtur í nótt með sprengjuárás í Teheran sem enginn efast um að Netanyahu, forsætisráðherra hryðjuverkastjórnarinnar í Tel Aviv, beri ábyrgð á.
Ég kynntist Ismail persónulega 10. október 2010 og átti við hann langt, upplýsandi og ánægjulegt samtal. Ismail var einstaklega kurteis, hlýr og viðræðugóður. Ég hafði þá um árabil eignast að vinum og kunningjum menn úr hinum ólíku flokkum og vildi reyna að skilja hvað stæði í vegi fyrir samvinnu þeirra. Ég hitti Ismail stuttu síðar í garðveislu sem haldin var til heiðurs alþjóðlegum hópi sjálfboðaliða, Viva Palestina, sem komið höfðu í 150 sjúkra- og sendibílum, hlöðnum hjálpartækjum og lyfjum. Ismail var stjarna samkvæmisins.
Haniyeh var maðurinn sem leitt hafði lista Hamas til sigurs í kosningum 2006, þannig að samtökin fengu yfir 60 % þingmanna á Löggjafarþinginu. Þessar kosningar fóru fram við erfiðar aðstæður, hernám Ísraels á öllum svæðum Palestínumanna. Engu að síður tókst framkvæmdin vel að mati erlendra eftirlitsaðila, þar á meðal Stofununar Jimmy Carter. Niðurstaðan var að kosningarnar hefðu þrátt fyrir allt verið frjálsar og lýðræðislegar. Fylgi Hamas var ekki 60% heldur 44% greiddra atkvæða en Fatah undir forystu Abbas, nýkjörins forseta í stað Arafats, fékk 41%. Kosningakerfið var blanda af einmennings kjördæmum (líkt og á Bretlandi) og landskjörnum fulltrúum. Þannig nýttust 44% í stóran meirihluta á þingi og Abbas fól Haniyeh að mynda ríkisstjórn.
Haniyeh var öflugur leiðtogi andspyrnuhreyfingar, en ofar öllu var hann maður sátta og friðar. Hann reyndi að mynda þjóðstjórn og lagði sig alla tíð fram um að fá hinar ólíku stjórnmálafylkingar til samstarfs. Haniyeh var þannig friðarins maður, réttláts friðar og líkt og forveri hans, Sheik Yassin stofnandi Hamas-samtakanna, var hann reiðubúinn að viðurkenna Ísrael innan landamæranna frá 1949-1967, sem eru einu alþjóðlega viðurkenndu landamærin. Þau afmarka Ísrael með 78% af sögulegri Palestínu en Palestínumenn halda 22%. Sheik Yassin beið svars við vopnahléstilboði til Ísraelsstjórnar 2004, sem fól í sér að Ísrael yrði að hætta árásum á palestínskar byggðir og hætta að taka forystymenn af lífi í morðárásum.
Svarið kom eftir hálft ár með stýriflaug sem miðað var á hjólastól Sheik Yassins þegar hann var koma út frá guðsþjónustu í heimamosku sinni í Strandbúðunum á Gaza. Sheik Yassin, sonur hans og fjöldi annarra vina og aðstandenda fórust.
Illvirki Ísraelsstjórna virðast óendanleg. Það eru ekki margir mánuðir síðan tveir synir Ismails og tvö barnabörn sem voru í leið í jólaboð til frænku sinnar voru sprengdir í loft upp.
Haniyeh hélt áfram að þjóna sinni þjóð til síðasta dags þrátt fyrir áföll sem þessi og fleiri sem hann sjálfur varð fyrir.
Hugur hans var greinilega bundinn við örlög alþýðu manna á Gaza, þar sem um 40 þúsund manns hafa nú verið myrt af Ísraelsher, að lang stærstum hluta börn og mæður. Þá hafa yfir yfir 90 þúsund manns verið særð og margir örkumla fyrir lífstíð.
Haniyeh lagði sig allan fram í friðarumleitunum í því skyni að stöðva mætti blóðbaðið á Gaza. Nú hefur hann fallið fyrir hendi þeirra sem vilja ekki varanlegt vopnahlé, vilja ekki réttlátan frið, og sætta sig ekki við minna en yfirráð yfir allri Palestínu, frá ánni Jórdan til Miðjarðarhafs.
Dauði Haniyeh er mikið áfall fyrir friðarumleitanir á svæðinu.
En einsog segir í yfirlýsingu Hamas í morgun: „Morðið á Haniyeh mun aðeins efla okkar styrk“.
Sveinn Rúnar Hauksson læknir,
Heiðursborgari í Palestínu