Jón Bjarnason: ÞAÐ ÁTTI ALDREI AÐ EINKAVÆÐA LANDSÍMANN
Sæll og blessaður Ögmundur.
Einkavæðing Símans hittir nú landsmenn enn á ný. Nú er það öryggiskerfið. Eins og við þingmenn Vg bentum á þá er grunnfjarskiptakerfið hluti öryggismála og átti alls ekki að einkavæða. Vinstri grænir einir flokka á þingi börðust hart gegn einkavæðingu og sölu Símans.
Í kjölfar sölu Símans fylgdu uppsagnir á starfsfólki og lokun starfsstöðva víða um land, hækkað verð og skert þjónusta. Þetta gerðist á Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki Siglufirði, já hringinn í kringum landið hefur þjónustustöðvum verið lokað og íbúarnir bera skarðan hlut.
Nú í gær varð bilun í ljósleiðara á Norðurlandi með þeim afleiðingum að öryggiskerfi sjófarenda fyrir öllum Vestfjörðum og Norðurlandi féll út svo og útsendingar útvarps og sjónvarps á mörgum stöðum sem einnig eru hluti öryggiskerfis landsmanna. Bilunin stóð í 15 klukkustundir.
Svör fulltrúa bæði Landhelgisgæslu og Neyðarlínu voru þau að eftir einkavæðingu Símans væri öll viðskipti á markaðsgrunni. Viðskitavinir tækju ákveðnar línur á leigu. Bili þær þá er ekkert samband. Vilji viðskiptavinir auka öryggið verði þeir að kaupa sér sérstaka tryggingu gagnvart slíkum bilunum og leigja aðgang að varaleiðum. Fram kom að slíkir aukamöguleikar kosturðu stórfé. Einkavæðing Símans og útboð á öryggisþáttum sjófarenda sem og annarra landsmanna hefur leitt til mun dýrari þjónustu en áður og minna öryggis. Meðan Síminn með grunnetinu var í opinberri eigu var það þjónustan sem var veitt og Landsíminn nýtti alla sína sameiginlegu tækni til að veita þá bestu þjónustu sjálfkrafa, líka í bilanatilfellum.
Allt þetta bentum við þingmenn Vg á og vöruðum við einkavæðingunni. Skoðanakannanir sýndu ávallt mikla andstöðu við sölu Símans. Þingflokkur Vg krafðist síðast þjóðaratkvæðageiðslu um sölu Símans. Einkavæðingarflokkarnir höfnuðu því auðvitað. Þorðu ekki að heyra dóm landsmanna í þeim efnum.
Nú láta menn eins og uppákomur í dag komi þeim á óvart. Einkavæðingaræði ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á almannaþjónustu á eftir að verða okkur dýrkeypt. Ekki aðeins Síminn heldur einnig Rafmagnið sem fer þar sömuleið, svo dæmi sé tekið.
Að selja öryggismál landsmanna undir lögmál arðsemiskrafna og græðgi fjármagnsins hvort sem er á sjó, í landi eða lofti, ætti að vera óheimilt og slíkt bundið í stjórnarskrá. Nú þarf að fara strax ofan í öll fjarskipta- og öryggismál og leita allra leiða til að ná grunnfjarskiptabúnaði landsins aftur í þjóðareign. Og stöðva verður einkavæðingu öryggismála og grunnþátta almannaþjónustu í fjarskiptum. Það var lán í óláni að sú bilun sem varð í grunnneti Símans í dag bar upp á einn mesta góðviðrisdag ársins.
Eitt er víst að þjóðin hefur þegar fengið sig fullsadda á einkavæðingunnu og græðginni sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur sleppt lausri í almannaþjónustu landsmanna.