OFURVALD SAMFÉLAGSBARÓNANNA
Hneigjum okkur fyrir nýju keisurunum: Um breytta fjölmiðlaveröld
Algengt viðkvæði við áhyggjum fólks yfir ritskoðun samfélagsmiðla og hugbúnaðarrisa á einstaklingum, pólitískum hópum og fréttamiðlum er að þar sem um er að ræða einkafyrirtæki geti þau, og megi, gera það sem þeim sýnist.
Hafi þessi röksemdarfærsla átt við áður, eru forsendurnar fyrir henni löngu brostnar. Stærstu fyrirtæki heims eru nú svo fjársterk og ítök þeirra eru svo víðfeðm, að þau halda nú í raun um stjórnartaumana og leggja línurnar fyrir ríkisstjórnirnar. Þetta á sérstaklega við um upplýsingar og fjölmiðlun. Þegar haft er í huga að stærstu fyrirtæki nútímans sérhæfa sig einmitt í upplýsingum er það einmitt sérstakt áhyggjuefni að þau eru farin að taka að sér að ritskoða og stjórna flæði upplýsinga. Í raun er jafnvel mikilvægara að takmarka ritskoðun á þessum vettvangi en hjá hinu opinbera. Sú heimsmynd sem er nú smám saman að renna upp er ógnvekjandi.
Ritskoðun er vopn hinna sterku
Ritskoðun eru hömlur sem lagðar eru á tjáningarfrelsi til að koma í veg fyrir að upplýsingar komist á framfæri. Þetta er öflugt vopn og hættulegt. Verstu ógnar- og afturhaldsstjórnir sögunnar hafa ætíð stundað öfluga ritskoðun gegn þeim sem ógnaði veldi þeirra. Þúsundáraríki kirkjunnar byggðist á slíku einræði yfir sannleikanum. Trúvillingar voru þaggaðir niður og svo pyntaðir og brenndir.
Þessi iðja er einungis á færi þeirra sem hafa mikil völd þegar. Hinir valdalausu geta ekki beitt ritskoðun gegn hinum valdamiklu. Frjálst flæði upplýsinga og fullt tjáningarfrelsi er gott fyrir hina veiku. Að biðla til yfirvalda um að beita þessu tæki er að virkja vopn sem fljótt getur snúist gegn þeim sem um biður. Um leið og við höfum samþykkt að valdið beiti einhvern hóp sem okkur líkar illa við ritskoðun og þöggun höfum við um leið gefið valdinu færi á að beita sama vopni gegn okkur þegar svo liggur við. Einungis þeir sem fylgja valdinu fá að tjá sig frjálst, aðrir verða þaggaðir niður.
Breytt heimsskipan í fjölmiðlun
Fjölmiðlaumhverfi Vesturlanda hefur gjörbreyst á síðustu áratugum. Sá veruleiki sem eldri kynslóðir þekktu fólst í að fjölmiðlar væru undir stjórn ólíkra hagsmunasamtaka sem gerðu nokkuð hreint fyrir dyrum sínum. Með tilkomu aukinnar markaðsvæðingar varð sú breyting á að fjölmiðlar fóru skyndilega að kalla sig „hlutlausa“. Þetta gerðist á sama tíma og gróðasækin fyrirtæki létu fara meira fyrir sér í beinum eignahlut í fjölmiðlum og þegar fjölmiðlar urðu alfarið háð auglýsingatekjum og hlutafé í stað áskriftargjalda og styrkja.
Brostnar forsendur borgaralegra réttinda
Þessi breyting átti sér stað of hratt til að menn hefðu tíma til að bregðast við þeim siðferðislegu spurningum sem óhjákvæmilega komu upp. Allar hugmyndir um borgaraleg réttindi, skyldur valdahafa og varnir almennings gegn ofríki byggðust á þeim veruleika að ríkin væru helsta valdastofnunin. Fyrirtæki unnu innan ramma þeirra. Til þess að koma í veg fyrir að ríkið, eða aðrar efstu valdastofnanir, gengu of langt í að ráðskast með fólk voru ýmsar mikilvægar stofnanir settar á laggirnar, sáttmálar um réttindi einstaklingsins voru lögfestir og stéttarfélög og mannréttindahópar voru tilbúnir á hliðarlínunni til að grípa inn í ef troðið var á réttindum almennings. Fremst í flokki var stétt blaðamanna sem opinberuðu ill áform, stungu á kýlum og færðu almenningi upplýsingar. Þeir voru „fjórða valdið“, óformlegt en ætlað að vera í þágu almennings svo innlendu valdastofnanirnar fengju aðhald.
Þessar mannréttinda- og aðhaldsstofnanir voru, að undanskildum stéttarfélögum og róttækum sósíalískum hreyfingum, ekki hannaðar á þeim forsendum að þær næðu til einkafyrirtækja. Einkafyrirtæki komust alltaf hjá því að lúta þeim kvöðum sem hið opinbera vald þurfti að lúta. Í þeim var sjaldan lýðræðisleg stjórn, litlar sem engar innri stofnanir til að tryggja að geðþóttaákvarðanir æðstu stjórnenda gengju ekki yfir velsæmismörk. Þau voru í raun einka-alræðisríki (private tyrannies) eins og Noam Chomsky komst einhvern tímann að orði. Eigendur þeirra voru í einræðisherrar í sínu litla ríki. Eftir því sem á leið tíunda áratugarins uxu þessi einkaalræði langt út fyrir öll landamæri í leit að lægri launakostnaði og stærri markaði.
Samfélagsmiðlar stjórna nú heimsmyndinni
Nú hefur enn önnur grundvallarbreyting átt sér stað í fjölmiðlaumhverfinu, og er hún svo lúmsk að við erum fyrst nú farin að taka almennilega eftir henni. Samfélagsmiðlar eru nú grunn-viðmótið á milli frétta og annarra upplýsinga og neytandans, langstærstur hluti innlita inn á fréttamiðla kemur frá samfélagsmiðlum. Það sem meira er, í hinum nýja tæknivædda heimi sjá algoriþmar forritanna um að finna “réttar” upplýsingar fyrir okkur í æ meira mæli.
Þróunin hefur verið stöðug og einsleit. Árið 2016 bentu kannanir til þess að 62 prósent innlita í fréttasíður kæmu í gegnum samfélagsmiðla, langmest í gegnum Facebook. Tveimur árum síðar, árið 2018, var þetta hlutfall komið upp í 64,5%. Samfélagsmiðlar voru þá þegar orðnir aðalfréttaveita Bandaríkjanna, og það með miklum yfirburðum (Martin, 2018). Árið 2020 má ætla að þróunin hafi einungis margfaldast í hraða. Svona er þetta um allan heim, einnig á Íslandi.
Þetta eru ekki mjög mörg fyrirtæki. Helstu samfélagsmiðlar eru Facebook, Youtube, Twitter, Instagram, Reddit, Snapchat, LinkedIn, TikTok, WhatsApp, Tumblr og Twitch. Aðrir samfélagsmiðlar hafa svo lítil áhrif að þeir hafa ekki greinst í könnunum. Þegar haft er í huga að Facebook á m.a. Instagram og WhatsApp; móðurfyrirtæki Google (Alphabet) á Youtube, Microsoft á LinkedIn og Amazon á Twitch sést að í raun ráða Facebook, Google, Microsoft, Amazon og Twitter yfir megninu af samfélagsmiðlum heimsins. Þessi fyrirtæki vinna mjög náið saman, eins og hver notandi tölva og snjalltækja getur séð á hverjum degi.
Nú er svo komið að nokkrir einstaklingar á borð við Jeff Bezos, Mark Zuckerberg og Bill Gates, geta haft afgerandi áhrif á það hvaða upplýsingar berast til fólks og hverjar ekki.
Ef það var einhver vafi áður þá sýndi atburðarásin kringum Capitol-upphlaupið í Washington að ef eigendur samfélagsmiðlanna vilja þagga niður í einhverjum þá geta þeir það. Meira að segja ef um er að ræða sitjandi forseta Bandaríkjanna. Þetta var bara byrjunin. Tengd fyrirtæki, eins og Apple, Patreon og Microsoft hafa tekið þátt í að koma í veg fyrir fjárstreymi til aðila sem dæmdir eru með rangar skoðanir. Tilraunir hægrisinna til að fjölmenna á nýjan vettvang, Parler, var bara eitt af ótal dæmum um það að stórfyrirtækin hreinlega fjarlægðu möguleika þessara fyrirtækja að ógna veldi samfélagsmiðlarisanna. Ótal notendur hafa verið lokaðir frá samfélagsmiðlum, oftast fyrir að dreifa meintum „fölskum upplýsingum“ eða „hættulegum áróðri“. Hverjir það eru sem dæma hvað er rétt og hvað er rangt er að mestu hulið og þeir sem beita þessu þöggunarvopni þurfa að jafnaði ekki að svara fyrir ákvarðanir sínar. Nú er jafnvel farið að bera á því að heilar greinar og setningar eru að hverfa af alnetinu. Verið er að skrifa söguna upp á nýtt.
Breyttir tímar
Þessi gríðarlega aukning umsvifa og áhrifa samfélagsmiðlanna hefur gjörbreytt fjölmiðlaumhverfi heimsins. Mjög táknræn birtingarmynd þess hversu breyttir tímarnir hafa orðið kom upp 23. janúar þegar sjálfur Rupert Murdoch lýsti yfir áhyggjum sínum af ritskoðun og skoðanakúgun sem ætti sér stað hjá samfélagsmiðlunum. Það eru ekki mörg ár síðan Murdoch taldist áhrifamestur allra fjölmiðlakónga. Nú eru málin þannig að fjölmiðlar hans eru algerlega háðir því hvort greinar og fréttir fjölmiðla hans verði dreift á samfélagsmiðlum. Eiginlegir fjölmiðlar eru orðnir dvergar í ríki samfélagsmiðlarisanna og vilji þeir lifa af, þá verða þeir að spila eftir leikreglum risanna.
Eigendur samfélagsmiðla eru nú efnaðasta og valdamesta fólk heims
Upplýsingaveitur á borð við samfélagsmiðla eru mikil gullkista og árið 2020 var algert ævintýri fyrir eigendur þessara samfélagsmiðlarisa. Jeff Bezos, eigandi Amazon, er verðmetinn á 190 milljarða Bandaríkjadala (jafnvirði 24700 milljarða íslenskra króna) og jók hann auð sinn um 74 milljarða Bandaríkjadala á árinu 2020. Til samanburðar voru heildartekjur hins opinbera á Íslandi 1213 milljarðar króna allt árið 2019. Fjórði ríkasti maður heims er Bill Gates er verðmetinn á 132 milljarða Bandaríkjadala. Hann jók eignir sínar um 18 milljarða dala á árinu. Eignir Marks Zuckerbergs, eiganda Facebook, eru verðmetnar á um 104 milljarða dala, og telst hann fimmti ríkasti maður heims. Hann jók eignir sínar um 27 milljarða Bandaríkjadala árið 2020. Eigendur Google, Larry Page og Sergey Brin, eiga sameiginlega 127 milljarða Bandaríkjadala.
Og þetta eru einungis verðmæti einstaklinganna sjálfra. Fyrirtækin eru langtum stærri. Móðurfyrirtæki Google, Alphabet, er verðmetið á rúmlega þúsund milljarða Bandaríkjadala eins og Microsoft, Facebook á 530 milljarða og Amazon er talið hvorki meira né minna en 1700 milljarða Bandaríkjadala. Tölurnar sem um ræðir eru í raun svo stórar að það er erfitt að ná utanum þær. Það sem við vitum þó er að þau gnæfa hátt yfir heildartekjur flestra ríkja heims og hafa nánast engar þær skuldbindingar sem ríkin hafa. Einkafyrirtækin þurfa ekki sjálf að reka heilbrigðisþjónustu, lögreglu, velferðarþjónustu eða standa í tímafrekum kosningum um hver leiðtoginn er. Þau geta haldið áfram að vaxa án nokkurrar raunverulegrar hindrunar.
Á árinu 2020 settu þessi fyrirtæki vöxt sinn í fluggírinn. Þann 18. mars 2020 námu samanlagðar eignir milljarðamæringa Bandaríkjanna 2,95 trilljónum Bandaríkjadala. Í lok árs hafði sú tala hækkað um meira en trilljón dala og við lok ársins áttu þessir einstaklingar 4 trilljónir Bandaríkjadala. Allt þetta á meðan efnahagur hinna verra settu hefur hrunið svo mjög að útlit er fyrir gríðarlega kreppu hjá meirihluta heimsbyggðarinnar.
“Sá sem stjórnar fortíðinni stjórnar framtíðinni, sá sem stjórnar nútímanum stjórnar fortíðinni”
Raunverulegur máttur einmitt þessara fyrirtækja liggur samt ekki í peningunum sjálfum, heldur í því sem fyrirtæki þeirra sérhæfa sig í – dreifingu upplýsinga, mótun almannaálits, aðgengi að persónuupplýsingum og áður óþekktum tökum á því að rannsaka og hafa áhrif á huga og hegðun fólks. Þótt fyrirtækin sjálf ráði ekki yfir valdatækjum á borð við lögreglu og her, geta þau haft úrslitaáhrif á það hverjir komast til stjórnar og hvernig ríkin beita valdi. Þeir sem hafa ekki kynnt sér sögu fortölulistarinnar gætu átt erfitt með að átta sig á því hversu mikið vopn aðgengi þeirra að upplýsingum er og tækin sem þeir ráða yfir.
Eitt merki um ótrúlegt vald þeirra yfir þróun áróðurs sést samt best á því hversu auðvelt það er fyrir þá að stunda umfangsmiklar rannsóknir á hegðun og atferli risastórra hópa. Enginn háskóli gæti staðið að baki þvílíkum rannsóknum. Félagsvísindamenn þurfa að fá samþykki siðanefndar og afla sér styrkja til að geta framkvæmt einstaka rannsóknir. Þessar tímafreku rannsóknir voru áður undirstaða rannsókna á áhrifum hinna og þessara fortöluboða og sú tækni var þrátt fyrir það gríðarlega öflug. Samfélagsmiðlar geta framkvæmt slíkar tilraunir daglega án nokkurrar hindrunar og safnað upplýsingum um hvernig má móta hegðun fólks á sem skilvirkastan máta á augabragði. Þetta gríðarlega öfluga vopn nota þeir óspart.
Það var einmitt Amazon, undir stjórn ríkasta manns heims, sem var frumkvöðull í því að láta tölvuforrit greina hegðun fólks til þess að sjá sem best fyrir um framtíðarhegðun almennings, í þeim tilgangi að auka sölu fyrirtækis síns. Í þessu liggur einmitt grunnurinn að gríðarlegum völdum, auði og umsvifum Amazon og þeirra fyrirtækja sem nú tróna á toppnum yfir verðmætustu fyrirtæki heims. Tölvukerfi eins og þau sem greina þessa hegðun fólks vinna stöðugt og þeir sem stjórna þessum tækjum geta nú valið nákvæmlega þau skilaboð sem eru líklegust til að skila þeim árangri sem þeir vilja. Þetta er öflugasta áróðursvél heims.
Það er ekki síður ógnvekjandi að hugsa til þess að þessi fyrirtæki; Amazon og samfélagsmiðlarnir, hafa aðgang að persónuupplýsingum sem alræðisstjórnir fyrri tíma gátu bara látið sig dreyma um. Þessi fyrirtæki vita hverjir vinir okkar eru, hvert við höfum ferðast, hvað við höfum sagt, hvað okkur líkar við og hvað okkur líkar ekki við, ótta okkar og væntingar. Þau eiga innihaldið sem við höfum viljandi sett inn á síður okkar og hafa aðgang að persónulegum samskiptum okkar við vini og vandamenn, hvar og hvenær sem er. Haldi menn að þessi fyrirtæki séu ekki valdamikil hafa menn ekki hugsað dæmið til enda.
Áróðursvélin: Hönnun sannfærandi skilaboða
Í fortölufræðum sálfræðinnar, fræðigrein sem á sér meira en 100 ára sögu og er nú ein stærsta grein sálfræðinnar, eru ýmis módel notuð til að mæla hvers konar skilaboð eru líklegust til að sannfæra einstakling, hópa eða almenning allan. Þetta eru ákaflega gagnleg vísindi fyrir alla þá sem hafa hag af því að móta almannaálitið, ekki síst stórfyrirtæki og stjórnmálaflokka.
Það er ekki ætlunin hér að greina ítarlega frá þessari miklu fræðigrein, en hafa þarf í huga að fjöldi fólks vinnur að því að greina hvaða aðferðir eru best til þess fallnar, þessar aðferðir eru notaðar af sérfræðingum og þessi iðn er í stöðugri þróun. Eitt mest notaða módelið, svo dæmi sé tekið, sem notað er í þessa iðju er kallað “elaboration likelyhood model”, sem kannski mætti íslenska sem “líkanið fyrir því hversu líklegt er að skilaboð séu rannsökuð gaumgæfilega”. Í módelinu er gert ráð fyrir því að manneskjan fari aðra af tveim leiðum í leið sinni að því að taka ákvörðun um það hvort hún samþykki og trúi skilaboðum eða ekki. Meginleiðin (central route) er sú að skoða gögnin og röksemdafærsluna sem liggur að baki skilaboðunum gaumgæfilega, ígrunda þau og taka ákvörðun um réttleika skilaboðanna í krafti þessarar ígrundunar. Þessi leið er tíma- og orkufrek fyrir einstaklinginn, en augljóslega betri og réttari í þeim skilningi að hún leiðir til réttari niðurstöðu. En í flestum tilfellum grípur manneskjan til hinnar leiðarinnar, peripheral route. Þar beitir manneskjan einföldum þumalfingursreglum og styttir sér leið í átt að dómnum yfir því hvort skilaboðin séu rétt eða ekki.
Í þessari leiðarstyttingu gilda allt aðrar reglur en þær sem gilda í meginleiðinni. Hér skiptir miklu meira máli hver segir skilaboðin, hvernig og hvort þau séu sett í glæsilegan búning, heldur en hvert innihald þeirra er. Gjarnan skoða menn nokkur stikkorð, sjá umbúðirnar og draga svo eigin ályktanir um restina af innihaldinu, í krafti fyrirfram ákveðinna forsendna. Trúanlegur flytjandi skilaboða verður að virðast vera sérfræðingur, hann verður að koma vel fyrir og tengjast réttum hópum. Skilaboðin verða að ríma við sannleik sem hefur fengið blessun réttu stofnananna. Í þessum heimi skiptir öllu að vísa í rétt kennivald og koma úr réttum hópi. Hér eru rökvillur á borð við „bandwagon“ (það sem flestir segja er rétt), „testimonials“ (þessi trúanlegi aðili segir eitthvað sem styður þetta, eða andhverfan, þessi ógeðfelldi einstaklingur segir svipaða hluti og þessi og þar með er það rangt), glityrði og fúkyrði, strámenn og aðrar sannfærandi gildrur. Menn geta sér svo einfaldlega til um sjálft innihaldið á augabragði og halda áfram með líf sitt.
Að þagga niður umræðu er æ einfaldara. Ein besta leiðin er að búa til ímynd hins ótrúverðuga. Með því að tengja þann sem segir skilaboðin við rétta arkitýpu getur lesandinn kastað skilaboðum hans eða hennar án þess að nota mikla orku eða tíma til. Í hernaði er það „einræðisherra“ og í róttækri umræðu eru það „samsæriskenningar“ og „álhattar“, eða eitthvað að þeim stimplum sem komið er í deigluna hverju sinni (Trumpisti, kóviti o.frv.). Þetta eru hentugir sleggjudómar til að koma í veg fyrir að þurfa að greina rök og heimildir nokkuð nánar. Í þessum slag sigra þeir sem hafa mest fé og sterkust ítök yfir dreifingu upplýsinga. Í dag eru það samfélagsmiðlar.
Hræið af Assange dregið eftir götunum
Hreinsanir á óæskilegu efni hófust auðvitað löngu áður en Donald Trump var lokaður úr samfélagsmiðlum. Skýrustu og birtingarmyndir þeirrar ritskoðunar og skoðunarstjórnar sem ríkir í raun sést á þögguninni og umræðuleysinu sem ríkir í málefnum Julians Assange og Edwards Snowdens. Í raun er verið að dingla hræinu af Julian Assange fyrir framan augun á fólki, okkur öllum til varnaðar. Skilaboðin eru skýr: Ef við beygjum okkur ekki undir meginstrauminn í hlýðni getur endað svona fyrir okkur. Ekkert ríki hefur rétt honum hjálparhönd, engin stærri mannréttindastofnun hefur tekið það ábyrgðarhlutverk að vinna í þessu bæði táknræna og raunverulega mannréttindabroti sem framið er fyrir framan augun á okkur. Assange er í þessari stöðu einungis fyrir eitt: Að dreifa upplýsingum sem henta valdamiklu fólki illa. Snowden er enn í útlegð frá Bandaríkjunum fyrir að hafa ljóstrað upp um alvarleg lögbrot bandarískra leynistofnana. Raddir þeirra hafa smám saman þagnað í fjölmiðlum. Assange og Snowden eru að hverfa úr umræðunni, smátt og smátt, eins og þær upplýsingar sem þeir komu á framfæri. Við vitum öll innst inni hvert stefnir. Breytingin frá því sem var þegar Watergate-málið kom upp er sláandi: Bob Woodward og Carl Bernstein urðu þjóðhetjur; Assange og Snowden , eins og aðrir uppljóstrarar og gagnrýnir blaðamenn (Chelsea Manning t.a.m.) eru hundeltir. Assange er beinlínis pyntaður daglega. Munu menn þora að tjá sig í framtíðinni?
Af hverju ekki bara að berast með fjöldanum?
Það borgar sig líklega til skamms tíma fyrir hvern og einn að láta sig berast með fjöldanum, skera sig ekki úr og ekki kalla yfir sig reiði samfélagsmiðla og þá sem völd hafa. Freistingin til að slökkva á gagnýnni hugsun og játa sig sigraðan er sterk. Er það þess virði fyrir einstaklinginn að fara gegn straumnum og eiga í hættu á að missa öll félagsleg tengsl?
En ef við missum allar raunverulegar gagnrýnisraddir í þetta hyldýpi óttans er samfélagið komið langt frá þeim gildum sem fyrri kynslóðir börðust fyrir og við eigum í hættu á að missa það frelsi og þau réttindi sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut. Við getum endað á sama félagslega stað og Evrópumenn miðalda undir stjórn kirkjunnar, því það er ekkert sem segir að þessi þróun endi á þægilegum stað. Villutrúarmenn og gagnrýnendur voru fjarlægðir mjög hressilega úr umræðunni á miðöldum. Á dögum hins starfræna verður hægt að fjarlægja fólk mjög fljótt; það er einfaldlega hægt að skrúfa það af. Við verðum algjörlega undir valdi stórkapítalisins komin; förum við gegn þeim vitum við hvað verður um okkur; Assange er víti til varnaðar.
Þegar viðkvæði nútímans er: Þeir sem tala gegn “sérfræðingunum” eða yfirvaldinu eru ekki bara vitleysingar, samsærissinnar og besservisserar, heldur hættulegt fólk sem þarf að fjarlægja er kominn tími til að staldra við. Við stöndum á hættulegum krossgötum.
Nýjir upplýsingabarónar eru ekki “hlutlausir”
Andvaraleysi almennings gagnvart vaxandi völdum hinna nýju baróna orsakast sennilega af því að við gerum ráð fyrir því að eigendur þessara fyrirtækja hafi engin önnur áform en að græða pening og að því leyti séu þessar stofnanir „hlutlausar“. Þetta hlutleysi tryggi að samfélagsmiðlar og fjölmiðlar séu einungis tæki, en hefðbundin pólitík nái annars yfir stærstu samfélagslegu spurningarnar. En þessi forsenda er fölsk. Eigendur þessara fyrirtækja eru langt frá því að vera hlutlausir. Á bakvið fyrirtækin sjálf er djúp pólitísk áhersla. Til að þau nái sem bestum árangri þarf lagaumhverfi hvers ríkis og einnig alþjóðastofnana að vera þeim í hag. Öllum hindrunum fyrir framgangi þeirra verður að ryðja úr vegi. Stjórnmálamenn sem standa í vegi fyrir áformum þeirra geta ekki átt von á neinum vettlingatökum frá þessum fyrirtækjum. Þau geta styrkt stjórnmálamenn sem eru þeim hliðholl og skemmt fyrir þeim sem eru það ekki. Sem einstaklingar eru svo menn eins og Gates, Zuckerberg, Paige, Brin og Bezos í þeirri stöðu að hvaða duttlunga sem þeim dettur í hug geta þeir komið í verk, miklu skilvirkara en nokkur stjórnmálamaður. Þeir eru ofurmenni nútímans, þeir vita það og þessi völd stíga þeim til höfuðs.
Aftur að ritskoðun og réttindum
Stærstu fyrirtæki heims eru nú í þeirri stöðu að þau geta stjórnað athöfnum ríkja frekar en öfugt. Ef við teljum að ritskoðun sé hættuleg samfélaginu, ógni lýðræðinu og stefni borgaralegum réttindum í hættu, þá getum við ekki lengur gert stórfyrirtækin stikkfrí. Ef við setjum ekki sömu kröfur, og jafnvel meiri kröfur, á svo öflugar stofnanir sem Amazon, Facebook, Google og Microsoft eru, þá erum við í raun að gefa þessum fyrirtækjum völd sem aldrei áður hafa sést í sögu mannkyns. Við erum þá algerlega háð því hvort þessi fyrirtæki og einstaklingar sem stjórna þeim hafi markmið sem samræmast markmiðum almennings í heild, og við vitum að svo er ekki. Við höfum fyrir löngu skilið það að engum stjórnmálamanni er treystandi fyrir slíkum völdum. Hið sama gildir um eigendur einkafyrirtækjanna. Nú, þegar samruni ríkisvaldsins og einkafyrirtækjanna, er að verða algjör með áformum um endurstillinguna miklu, eigum við í hættu á því að standa aftur á byrjunarreit með öll borgaraleg réttindi. Öll spilin eru nú í höndum eigenda fyrirtækjanna.
Ef við stöndum ekki gegn ritskoðun og árásum á borgaraleg réttindi núna, og líka þegar þau beinast gegn einhverjum sem okkur kann að mislíka við hér og nú, munum við kannski aldrei endurheimta tjáningarfrelsið. Völd einkarekinna alræðisríkja á borð við Amazon, Google og Facebook verða óhugnanleg og algjör.