ILLA FENGIÐ FÉ?
Í Þorvalds þætti víðförla segir svo frá því þegar Þórdís spákona á Spákonufelli á Skagaströnd tók Þorvald í fóstur. Er fróðlegt að sjá í þættinum að hún gerði sér nokkurn „fémun." Svo segir í þættinum að hún mælti til Koðráns: „Það legg eg til ráðs með þér að þú sýnir meira manndóm héðan af Þorvaldi syni þínum en þú hefir gert hér til því að eg sé það með sannindum að fyrir margra hluta sakir mun hann verða ágætari en allir aðrir þínir frændur. En ef þú hefir á honum litla elsku að sinni þá fá þú honum kaupeyri og lát hann lausan ef nokkur verður til að sjá um með honum meðan hann er ungur."
Koðrán sá að hún talaði slíkt af góðvilja og sagðist víst mundu fá honum nokkuð silfur. Lét hann þá fram einn sjóð og sýndi henni.
Þórdís leit á silfrið og mælti: „Ekki skal hann hafa þetta fé því að þetta fé hefir þú tekið með afli og ofríki af mönnum í sakeyri."
Hann bar þá fram annan sjóðinn og bað hana þar á líta. Hún gerði svo og mælti síðan: „Ekki tek eg þetta fé fyrir hans hönd."
Koðrán spurði: „Hvað finnur þú þessu silfri?"
Þórdís svarar: „Þessa peninga hefir þú saman dregið fyrir ágirndar sakir í landskyldum og fjárleigum meirum en réttlegt er. Fyrir því heyrir slíkt fé þeim manni eigi til meðferðar er bæði mun verða réttlátur og mildur."
Síðan sýndi Koðrán henni digran fésjóð og var fullur af silfri. Vó Þórdís þar af þrjár merkur til handa Þorvaldi en fékk Koðráni aftur það er meira var.
Þá mælti Koðrán: „Fyrir hví vildir þú taka heldur af þessum peningum fyrir hönd sonar míns en af hinum sem eg færði þér fyrr?"
Hún svarar: „Því, að þú hefir að þessum vel komist er þú hefir tekið í arf eftir föður þinn."
Hér kemur fram mat á peningum, sumt fé er illa fengið og ekki sæmandi að nota það til góðra verka. Mér kom þessi stutta frásögn í hug þegar fréttist af því að íslenska ríkisstjórnin ætli að veita einum útrásarvíkingnum tugi eða hundraða milljóna styrk til að setja á stofn gagnaver á Suðurnesjum eins og iðnaðarráðherran tilkynnti í vikunni.
Maður hélt satt að segja að þjóðin væri búin að gefa björgúlfunum nógu mikla peninga. Það liggur í augum uppi að slíkar fúlgur fjár, sem björgúlfarnir hafa haft handa á milli, er sumt dregið saman fyrir ágirndar sakir í fjárleigum meir en réttlegt er og sumt með afli og ofríki.
Ef sonurinn á einhverja peninga aflögu væri nær að hann greiddi gjaldþrot föður síns, íslensku þjóðinni kæmi betur að fá eitthvað upp í þessa tæpu 100 milljarða sem gjaldþrotið nam heldur en að gefa honum ennþá meiri ívilnanir.
En kannski er svona siðferði og svona viðhorf aðeins gömul saga sem ekki á heima í hinu „nýja" Íslandi sem allir þykjast keppast við að koma á fót.