LAUNALÆKKUN ÆÐSTU EMBÆTTIS-MANNA
Ríkisstjórn þeirra Geirs og Ingibjargar hefur boðað lagasetningu svo hægt sé að lækka laun æðstu embættismanna ríkisins „tímabundið," þ.e. þeirra embættismanna sem taka laun samkvæmt úrskurði Kjaradóms. Þetta virðist vanhugsað eins og svo margt annað sem frá þeim hefur komið þessa haustmánuði, enda aðallega ætlað sem einhvers konar sykur á þá beisku pillur sem landsmönnum er ætlað að gleypa á næstunni, tilraun til að telja fólki trú um að ríkisstjórnin ætli að láta þá efnameiri bera sínar byrðar eins og lýðinn. En hér er þó ýmislegt að athuga.
Í fyrsta lagi nær þessi „launalækkun" aðeins til frekar fámenns hóps. Ekki er hreyft við öðrum auðmönnum í þjóðfélaginu og virðast ekki neinar áætlanir hafðar upp í þá veru.
Tekið er fram að lækkunin sé tímabundin, gildi kannski í tvö til þrjú ár. Þá verða laun þeirra „æðstu" hækkuð aftur. Ekki er ljóst hvort þeir muni þá fá fullar bætur fyrir væntanlega skerðingu þetta árabil en væntanlega er það hugsunin. Það er sum sé ekki verið að leiðrétta neitt misrétti heldur fresta fríðindagreiðslum um tveggja eða þriggja ára bil og síðan heldur misréttið sem hálaunin fela í sér áfram.
Kjaradómur sýnist manni hafa fylgt þeirri stefnu, að halda ákveðnu, og það nokkuð ríflegu, launabili milli einhvers konar meðallauna og launakjara æðstu embættismanna. Það hefur því verið ákveðið samræmi í úrskurðum hans, réttlætt með þjóðfélagslegu gildi starfanna og þeirri ábyrgð sem þeim fylgir. Stundum hefur nokkur tími liðið á milli þessara „leiðréttinga" Kjaradóms og þá orðið smáhvellur í þjóðfélaginu yfir mikilli hækkun en fljótt fennir nú yfir slíkt. En miðað við stefnu Kjaradóms er spurning hvort launalækkun æðstu embættismanna sé réttmæt nú, jafnvel þótt tímabundin sé. Ætla mætti að ábyrgðin við að gegna þessum vandasömu störfum sé jafnvel meiri þegar kreppir að en í góðæri. Vandamálin sem við er að fást flóknari og stærri í sniðum en í góðærinu, neyðin sem þarf að mæta erfiðari viðfangs en alsnægtirnar í góðærinu. Út frá því sjónarmiði ætti kannski frekar að hækka þessi laun, vegna aukins vanda og aukins vinnuálags, heldur en lækka þau!
Ekki hefur heyrst orð frá þeim skötuhjúum um að ætlunin sé að jafna kjörin eða leiðrétta mismun milli hæstu launa og lægstu. Þau hafa ekkert sagt um að launabilið milli þessara hálaunahópa og almennings sé of mikið. Þau eru sum sé ekki að lagfæra neitt óréttlæti. Eins og oft hefur verið bent á er mjög einfalt að létta Kjaradómi lífið, eða gera hann óþarfan, með því að setja einfaldlega þær reglur að laun æðstu embættismanna væru þrisvar eða fjórum sinnum hærri en lægstu laun verkamanna, mætti t.d. miða við einhvern tiltekinn launataxta Eflingar.
Tillöguflutningur þeirra Geirs og Ingibjargar er ábyrgðarlaus og hættulegur, þótt á yfirborðinu sé þetta aðeins liður í að reyna að sýna sig í ögn jákvæðu ljósi, ekki veitir nú af fyrir parið. En verði frumvarpið að lögum er um leið opnað á möguleika til lækka laun hjá almennum ríkisstarfsmönnum. Þá verður hægt að benda á fordæmi þeirra betur settu, að nú verði allir að standa saman og því eðlilegt að lækka laun allra til að spara. Laun þeirra hæstlaunuðu eru nefnilega ekki svo ýkja stór hluti af ríkisútgjöldunum, þó há séu, því það er ekki stór hópur sem fær svona há laun og svo eiga þau þrátt fyrir allt aðeins að lækka um 5-10 % sem skiptir svo sem ekki miklu fyrir ríkissjóð. Það munar svo miklu meira um það þegar verður almenn launalækkun hjá þúsundum manna. Þannig er það hættulegasta við þennan tillöguflutning skötuhjúanna fordæmið sem er gefið gagnvart launum annarra ríkisstarfsmanna.
Það er líka spurning hvort breytilegir launataxtar opinberra starfsmanna hafa valdið mestu um aukna misskiptingu í þjóðfélaginu. Breytingarnar á skattkerfinu hafa hér haft miklu meiri áhrif. Skattastefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar undanfarinn hálfan annan áratug hefur stórlega dregið úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Hátekjuskattur hefur verið lagður af, eignarskattur og skattur á fjármagnstekjur verið lækkaður verulega, eins og þeir peningar séu eitthvað allt annars eðlis en þeir peningar sem menn fá í laun. Hér þarf að snúa við blaðinu og gjörbreyta skattheimtunni. Hækka persónuafslátt, sem kemur þeim tekjulægri best, setja á tvö eða þrjú skattþrep og hátekjuskatt til að ná til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar, hækka fjármagnstekjuskatt til að ná til eignamannanna. Slíkar skattabreytingar eru réttlætismál og færa líka ríkissjóði nýjar tekjur.
Sum sé, hreyfum ekki við launakerfi ríkisstarfsmanna til lækkunar. Það getur orðið hættulegt fordæmi. Heldur breytum skattkerfinu til tekjujöfnunar.