DÓPNEYSLA Á EKKI ERINDI HJÁ ÞEIM SEM HAFNA DÓPINU
Illa áttað fólk á Alþingi og utan þess sér lausn í því að afglæpavæða eiturlyf og vill jafnvel gera þau lögleg. Þar eru menn augljóslega á rangri braut. Það er merkilegt að á sama tíma og tóbaki er víða úthýst[i], m.a. vegna áherslna innan Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna, virðast sumir telja að eitthvað allt annað eigi að gilda um eiturlyf. Þar vilja sumir ganga í þveröfuga átt.
Þó er alveg ljóst að skaðsemi eiturlyfjanna er almennt mun meiri en tóbaksins sem þó er ærin. Sumir virðast ganga með þær grillur að eiturlyfjaneysla sé sárasaklaus „tómstundaiðkun“. Verulega dómgreindarbrenglun þarf til að komast að þeirri niðurstöðu. Kannabis-bræla er engin undantekning.[ii]
Hið rétta í málinu væri að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu alþjóðlegan sáttmála þar sem bann er lagt við vörslu og neyslu eiturlyfja í íbúðarhúsnæði. Það verði hluti af „bakgrunnstékki“ vegna faseignaviðskipta hvort fólk neytir eiturlyfja eða ekki. Þar verður að áskilja staðfestingu frá heilbrigðiskerfinu áður en kaup á íbúð/raðhúsi/parhúsi geta farið fram. Falli menn á því prófi verður að leita annara lausna [sbr. sérstök búsetuúrræði].
Það segir sig sjálft að ekki er hægt að bjóða eigendum hefðbundins íbúðarhúsnæðis upp á reyk og brælu alla daga. Víða um heim er t.a.m. reynt að takmarka útblástur bifreiða einmitt vegna skaðlegra áhrifa útblástursins. Hið sama á að sjálfsögðu að gilda um þá sem bræla eiturlyf í íbúðarhúsnæði. Bræluna má hiklaust fella undir „nuisance“ [óþægindi].
Öll hegðun sem veldur öðru fólki ama, og jafnvel tjóni, er ævinlega, í meira lagi, vafasöm. Er það enda í fullkomnu samræmi við frelsisreglu John Stuart Mill sem taldi frelsi manna ná að þeim mörkum að það skerði ekki frelsi annara. Frelsi frá kannabis [eiturlyfjum] fellur tvímælalaust þar undir. Það er ekki nægjanlegt að telja sig hafa „rétt“ til einhvers. Aðrir kunna að eiga rétt frá sama fyrirbæri. Frelsið hefur ævinlega að minnsta kosti tvær hliðar.
Sérstök búsetuúrræði
Þeir sem hæst tala um meintan „rétt“ eiturlyfjaneytenda til þess að stunda iðju sína ræða sjaldnar um rétt hinna sem ætlað er að þola afleiðingarnar! Þó verður að ætla að þarna sé stórlega brotið á rétti mikils meirihluta fólks sem ekki notar eiturlyf en er hins vegar þolendur hinna sem það gera.
Ef alþingismenn [sem væntanlega vilja ekki hafa eiturlyf eða kannabis-brælu í alþingishúsinu] feta þá ólánsbraut að slaka á vörslu og neyslu eiturlyfja verður jafnframt að ráðast í sérstök búsetuúrræði (og ætti raunar að gera hvað sem öðru líður). Ráðast verður í byggingu blokka (húsnæðis) sem eingöngu verður ætlaðar þeim sem nota eiturlyf. Þar getur fólk í þessari stöðu lifað í samneyti við annað fólk í sömu stöðu. Þetta húsnæði þarf að byggja í sérstökum götum, þannig að aðrir verði ekki fyrir óþægindum af eiturlyfjaneyslunni. Jafnframt þarf að styrkja mjög úrræði til afeitrunar og meðferðar með það að markmiði að koma fólki úr viðjum fíknar og ógæfu.
Með því að eiturlyfjaneytendur búi á sama stað verður allt utanumhald til mikilla muna auðveldara. Slík blokk væri í raun eitt samfellt „neyslurými“ og um leið hefði viðkomandi eiturlyfjaneytandi tryggt húsnæði. Gæsla og heilbrigðiseftirlit verða að vera í forgangi við reksturinn, enda fylgja neyslunni margskonar vandamál sem bregðast þarf við eftir þörfum. En að eiturlyfjaneysla eigi samleið með fólki (og íbúðarhúsnæði) sem ekki neytir efnanna næri ekki nokkurri átt. Hugmyndin er heldur ekki ný af nálinni. Á Íslandi voru t.a.m. rekin berklahæli og raunar hæli fyrir holdsveika, enda þótt því verði ekki jafnað saman að öðru leyti.
Þeir sem telja eiturlyfjaneyslu vera heilbrigðisvandamál (sem hún er öðrum þræði) geta örugglega stutt þessar hugmyndir. Sjúkrahús er staður þar sem þeir sem þar dvelja, til skemmri eða lengri tíma, eiga það sameiginlegt að stríða við veikindi. Á sama hátt væru sérstök búsetuúrræði ætluð eiturlyfjaneytendum til til skemmri eða lengri tíma. Allir sjá að bræla eiturlyfjaneytenda fer ekki saman með hefðbundinni starfsemi inn á spítölum.
Það má fullyrða að kvartanir bærust fljótlega (og það réttilega) ef almennt væri tíðkað að bræla kannabis á sjúkrasofum og göngum spítala. Þessi efni eiga einfaldlega ekkert erindi þar, ekki frekar en í íbúðarhúsnæði. En málflutningur þeirra sem styðja bræluna tekur aldrei mið af rétti annara, eins og komið er fram, og gengur allur í eina og sömu áttina.
Lokaorð
Alþingi Íslendinga hefur á sér yfirbragð afgreiðslu- og stimpilstofnunar. Hræðslan við álit annara veldur því að engin sjálfstæð stjórnmál eru lengur stunduð þar. Það er meira áberandi eftir efnahagshrunið haustið 2008. Hugsanlega má rekja það til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði línur um efnahagsstjórnina í kjölfar hrunsins. Þá stóðu íslenskir stjórnmálamenn eins og berskjaldaðir krakkar í barnaskóla, sem hafa orðið uppvísir að skammarstrikum, eru sendir til skólastjórans, og verða að taka afleiðingunum.
Munurinn er þó sá að íslenskir stjórnmálamenn, þvert á flokka, öxluðu enga ábyrgð. Aðrir rifu kjaft, þóttust verða einhverjir „heimsfrelsarar“ og reyndu jafnvel að innleiða femínisma í Íslam. Fíflaganginum var með öðrum orðum haldið áfram erlendis, eftir að naumlega tókst að forða þjóðargjaldþroti.
Óhæft fólk á Íslandi biður ekki þjóðina afsökunar. Það heldur uppteknum hætti og flytur út „færni“ sína svo önnur ríki megi „njóta“ hennar líka. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var mannfjöldinn 376.248 þann 1. janúar 2022.[iii] Er það ekki merkilegt að fólk í stjórnmálum sem ekki ræður við einföldustu verk hjá jafn fámennri þjóð skuldi telja sig efni í „heimsfrelsara“ og það eftir að hafa klúðrað öllu sem hægt var að klúðra? Fámenni gefur hins vegar færi til framfara sem ekki gefast í stærri samfélögum. Það á t.d. við um félagsleg vandamál. Að vandamál verði útbreidd á Íslandi (hver sem þau eru) er óviðunandi.
Ef uppgjöfin gegn eitrinu verður að lögum á Alþingi, með opnun á svokallaða „neysluskammta“ [sem væri slæm ákvörðun], er ljóst að það eitt og sér leysir engan vanda. Áður þurfa, eins og komið er fram, að vera tiltæk bæði meðferðarúrræði og ekki síður sérstök búsetuúrræði, enda ekki hægt að bjóða fólki almennt upp á eiturlyfjabrælu og fleira sem neyslu tengist.
Alþingi ætti að setja sérstök lög um um þetta, heildstæð, þar sem bann er lagt við neyslu og brælu eiturlyfja í íbúðarhúsnæði. Brælan verði einungis leyfð í sérstöku húsnæði sem byggt verði fyrir það fólk sem þarna á við vanda að stríða. Þiggi það meðferð, sem skilar árangri, sé það hins vegar velkomið í húsnæði hinna sem ekki bræla, sem gestir, leigendur eða eigendur. Það er með öðrum orðum ekki fólkið sjálft sem þarna er vandamálið heldur „lífsstíll“ þess. Hann samræmist engan veginn lífsháttum meirihluta fólks, enda væri illa komið ef svo væri!
Hugarfar hrunsins er því miður enn ríkjandi á Alþingi. Vanhæfnin blasir víða við; í samgöngumálum, í heilbrigðismálum, við stjórnun landamæranna, í bankamálum [sjálftaka og ofurhagnaður], í orkumálum og síðast en ekki síst í málefnum eiturlyfjaneytenda. Þar sýnist „stefnan“ helst vera sú að gefast upp í baráttunni gegn eitrinu og leggja árar í bát. Hrunið virðist m.a. hafa gert það að verkum ákvarðanafælni bættist við vanhæfnina, enda alltaf sú hætta fyrir hendi að fólk taki rangar ákvarðanir. Þá er talið betra að aðhafast ekki.
Íslenskir stjórnmálamenn, sem t.d. láta sig varða málefni í Íran, ættu að flytja um það tillögu (og afla fylgis áður) um sáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem bann væri lagt við eiturlyfjaneyslu í íbúðarhúsnæði, en jafnframt kveðið á um sérstök búsetuúrræði fyrir þá sem nota eiturlyf. Góðar stundir!
[i]Það þekkist t.d. vart lengur að fólk reyki [eða drekki áfengi] í viðtalsþáttum í útvarpi eða sjónvarpi. Í viðtalsþætti frá 17. nóvember 1971 ræddi Richard Alva Cavett við leikkonuna Bette Davis. Þar er komið víða við, m.a. rætt um alvarleg mál eins og lyfja- og áfengisneyslu. Viðtalið er bæði stórskemmtilegt og stórfróðlegt. Bette Davis on The Dick Cavett Show 1971, Nov 17th [complete] https://www.youtube.com/watch?v=jsKGXFuXbbo
[ii]Sjá t.d.: SAMHSA. Know the Risks of Marijuana. https://www.samhsa.gov/marijuana
[iii]Hagstofa Íslands. (22. mars 2022). Landsmönnum fjölgaði um 2,0% á milli ára. https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/mannfjoldinn-1-januar-2022/