Fara í efni

EINKA- VÆÐINGAR- ÓPERAN

Óperan
Óperan

Í ljósi „góðrar reynslu" af einkavæðingu á Íslandi, ekki síst einkavæðingu bankakerfisins, er nú kannað hvort ekki sé tímabært að setja upp einkavæðingaróperu. Fjallar óperan um einkavæðingu Landsvirkjunar. Þykir það nauðsynlegt þar sem margir Íslendingar eru orðnir leiðir á gömlu einkavæðingarleikritunum, og leikurunum, sem verið hafa á „fjölunum" um árabil. Sérstaklega hefur mörgum leikhúsgagnrýnendum þótt leikritin fyrirsjáanleg og ekki endurspegla nægjanlega vel þann mikla kraft einstaklingsframtaksins sem er á Íslandi. Þykir óperuformið ná betur hylli áhorfenda og höfða betur til ljóðrænna þátta í fari þjóðarinnar.

Rætt er um að fá þekkta erlenda söngkennara til raddþjálfunar íslenskra söngvara í nýju óperunni. En mjög þykir skorta á söngkunnáttu þeirra. Hefur Morgan Stanley tekið að sér milligöngu um ráðningu raddþjálfara og vænta menn mikils af samstarfinu. Stefnt er að flutningi óperunnar að lokinni eignartilfærslu á Landsvirkjun til lífeyrissjóða en sýningar munu þó halda áfram eins lengi og þurfa þykir. Eftir að sýningum lýkur á Íslandi verður óperan sett á svið erlendis.

(Heimild: http://www.bayreuth-wilhelmine.de/deutsch/opernh/index.htm)

Lög um eignartilfærslu á Landsvirkjun

2015 nr. 502 26. janúar

 

I. kafli. Gildissvið, skilgreiningar, markmið og kaupverð

   1. gr. Gildissvið.

   Lög þessi taka til eignartilfærslu á Landsvirkjun.

   2. gr. Skilgreiningar

   Í lögum þessum hafa hugtök eftirfarandi merkingu:

  • 1. Eignartilfærsla: merkir breytingu á eignarhaldi þar sem eigur Íslendinga (almennings) eru færðar á silfurfati bröskurum, og gráðugum fjárglæframönnum, með aðkomu Alþingis.
  • 2. Braskari: ágjarn einstaklingur sem svífst einskis í viðskiptum og hættir fé annara í braski sínu.
  • 3. Fjárglæframaður: maður sem gerst hefur stórtækur braskari og jafnvel hlotið dóm/dóma fyrir athæfi sitt.
  • 4. Sala ríkiseigna: eignartilfærsla þar sem braskarar hirða eigur og arð en skilja skuldir eftir hjá almenningi.
  • 5. Dreifð eignaraðild: eignarhald þar sem fáeinir útvaldir fara með allt eignarhald í fyrirtæki og almenningur hefur engin áhrif.
  • 6. Lokakaupandi: fjárglæframaður/menn sem eignast viðkomandi fyrirtæki almennings að lokinni eignartilfærslu frá lífeyrissjóðum.
  • 7. Fjárfestingarkostur: eign almennings sem er skotmark braskara og fjárglæframanna.
  • 8. Arðsemi: merkir arðsemi nýrra eigenda og tap almennings eftir eignartilfærslu.

  3. gr. Markmið.

 Markmið laga þessara er hagsmunagæsla fyrir braskara og fjárglæframenn og „breytt eignarhald" á Landsvirkjun. Svo ná megi þeim markmiðum gegni lífeyrissjóðir landsmanna hlutverki milliliðar við eignartilfærslu á Landsvirkjun frá almenningi til lokakaupenda.

  Lokatakmarkið er að Landsvirkjun verði að öllu leyti (100%) í eigu fjárglæframanna sem þá geti greitt sjálfum sér ríflegan arð og okrað á almenningi, í skjóli einokunaraðstöðu. Lokatakmarki verði náð með tali og skrifum um „dreifða eignaraðild", fólki talin trú um að það njóti ávinnings af eignartilfærslunni, að „sælla sé að gefa en þiggja", sérstaklega ríkisfyrirtæki.

   4. gr. Kaupverð.

  Kaupendur Landsvirkjunar skulu njóta sömu kjara og boðin voru við eignartilfærlu Búnaðarbankans, Landsbankans og Símans. Ekki er gert ráð fyrir háu eiginfjárframlagi kaupenda, heldur skal tekinn „snúningur" í viðskiptalífinu og hugtökin „öl- og símapeningar" lögð til grundvallar verðlagningunni.

  Greiða ber kaupverð í íslenskum krónum en arður til nýrra eigenda greiðist í bandarískum dollurum.

II. kafli. Dreifð eignaraðild, millileikir og lokakaupendur.

   5. gr. Dreifð eignaraðild.

  Svo undirbúa megi sem best og tryggja eignartilfærslu Landsvirkjunar, frá almenningi til lokakaupenda, skal hamrað í fjölmiðlum á „dreifðri eignaraðild". Markmið þess er að knýja fram hugarfarsbreytingu hjá almenningi og telja fólki trú um að það sjálft muni njóta ávinnings af eignartilfærslunni. Skulu ráðnir sérstakir spunameistarar er tryggi að almenningur fái ekki ranghugmyndir um eignartilfærsluna.

  Heimilt er að kaupa umfangsmiklar blaða-, útvarps- og sjónvarpsauglýsingar svo halda megi almenningi vel upplýstum um kosti dreifðrar eignaraðildar.

  Eignaraðild má aldrei verða svo dreifð að lokakaupendur fái ekki ráðandi eignarhlut í Landsvirkjun, eftir færslu eignarhlutanna frá lífeyrissjóðum til lokakaupenda.

   6. gr. Millileikir.

  Eignartilfærsla Landsvirkjunar frá almenningi skal framkvæmd með tilstuðlan lífeyrissjóða. Með því móti er almenningur látinn trúa því að hann sé í raun að færa sjálfum sér Landsvirkjun, enda sé lokakaupenda hvergi getið á því stigi máls. Áfram verði tekið „...mið af reynslu fyrri útboða og lögð áhersla á dreifða eignaraðild."[i]

  Í fyrsta áfanga verður heimilt að selja allt að 25% af heildarhlutafé Landsvirkjunar til lífeyrissjóða, eftir að „losað hefur verið um eignarhald" almennings á fyrirtækinu. Hlutfallið verði síðan hækkað jafnt og þétt, í samræmi við árangur spunameistara, enda sé almenningur þá orðinn nægjanlega meðvirkur og hlynntur eignartilfærslunni.

  7. gr. Lokakaupendur.

 Þegar verk spunameistara, og skoðanakannanir, sýna ótvírætt að almenningur hefur tileinkað sér jákvætt viðhorf til eignartilfærslunnar skal „losað um eignarhald" lífeyrissjóða á Landsvirkjun og lokakaupendum þannig tryggt framtíðareignarhald.

  Stjórnmálamönnum sem standa að og styðja eignartilfærsluna á Alþingi skulu tryggð störf stjórnenda hjá Landsvirkjun Hf. eftir að þingmennsku lýkur og eignarhald almennings hefur „verið losað" að fullu og öllu.

III. kafli. Fjárfestingarkostir, arður og skuldir

   8. gr. Fjárfestingarkostir.

 Innlenda og erlenda fjárglæframenn skortir sárlega arðsama fjárfestingarkosti. Eftirspurn eftir auðlindum jarðar er almennt meiri en framboð. Á það ekki síst við um orkulindir hvers konar. Landsvirkjun er því líkleg til þess að skila mikilli arðsemi um langan tíma. Nauðsynlegt er að tryggja að sá arður lendi ekki í vösum almennings, og íslenska ríkisins, heldur skili sér að fullu til traustra fjárglæframanna. Mjög æskilegt er að íslenskir fjárglæframenn stofni til samstarfs við erlenda fjárglæframenn, og glæpabanka, við eignartilfærslu Landsvirkjunar. Skal í því sambandi sérstaklega horft til reynslunnar af „einkavæðingu" íslensku bankanna.

  Sæstrengur til Bretlands mun opna aðgang að erlendum raforkumarkaði og tryggja kaupendum arðsemi í tengslum við eignartilfærsluna.

   9. gr. Arður.

  Lífeyrissjóðum er óheimilt að taka arð út úr Landsvirkjun Hf. eftir fyrstu eignartilfærslu. Þess í stað skal arður greiddur í sérstakan sjóð sem verði aðgengilegur lokakaupendum. Með því móti er tryggt enn frekar að almenningur njóti ekki arðs í gegnum lífeyrissjóðina, heldur renni arðurinn til þeirra sem tilkall eiga til hans, eftir að endanlegt eignarhald er komið í fastar skorður. Skal að því stefnt að þetta fyrirkomulag verði almennt ráðandi við tilfærslu ríkiseigna.

   Arður greiðist í erlendum gjaldeyri sbr. 2. mgr. 4. gr.

  Flækja skal eignarhald lokakaupenda þannig að arðgreiðslur komist að mestu fram hjá íslenskum skattayfirvöldum.

  Landsvirkjun Hf. ber að hafa á sínum snærum sérstaka lögfræðistofu sem sér um tengsl við skattayfirvöld og gætir hagsmuna fjárglæframanna í hvívetna.

  10. gr. Skuldir.

  Skuldir Landsvirkjunar ber að skilja frá við eignartilfærsluna. Til þess verði stofnað sérstakt félag um skuldirnar, í eigu ríkisins. Ber almenningi á Íslandi að greiða af þeim og er heimilt að hækka skatta í þeim tilgangi.

   Að lokinni eignartilfærslu til lokakaupenda er heimilt að skuldsetja Landsvirkjun Hf. allt að 300% umfram eignir. Skulu þær skuldir bætast í félag ríkisins sbr. 1. mgr.

IV. kafli.  Eignartilfærsla og einkavæðingarnefnd.

   11. gr. Eignartilfærsla.

   Stefnt skal að frekari eignartilfærslu og sölu ríkiseigna. Reynslan hefur sýnt að almenningur kýs þá stjórnmálaflokka sem hvað mest ganga erinda fjárglæframanna, sem aftur sýnir að kjósendur á Íslandi eru því síður en svo mótfallnir að eigur þeirra séu færðar frá þeim og „losað um eignarhald" ríkisins.

 Eignartilfærsla skal ætíð undirbúin í smáum skrefum, þannig að almenningur verði sem minnst var við mikilvægar breytingar. Skal Viðskiptaráð gera út af örkinni áróðursmenn sem „þreifi samfélagið", kanni hugarástand kjósenda, og undirbúi jarðveg fyrir eignartilfærslu. Skal næsti sporgöngumaður vera fjármálaráðherra, því næst heilbrigðisráðherra og síðan hver af öðrum. Ber þeim að nota hvert tækifæri sem gefst til þess að upplýsa almenning um nauðsyn þess að hann afsali sér að fullu og öllu eignarhaldi sínu á Landsvirkjun og öðrum fyrirtækjum í almannaeigu. Þá ber LÍÚ og Samtökum atvinnulífsins að knýja á um eignartilfærslu og upplýsa almenning eftir þörfum.

  Stjórnmálamönnum er heimilt að grípa til ósanninda, þyki sýnt að það sé nauðsynlegt í áróðursstríði þeirra gegn almenningi, sbr. og 1. mgr. 5. gr. enda krefjist miklir hagsmunir þess að ósannindum sé beitt.

   12. gr. Einkavæðingarnefnd.

  Einkavæðingarnefnd skal skipuð traustum fulltrúm stjórnmálaflokka og fjárglæframanna. Ber þeim að sverja þess eið, áður en þeir hefja störf, að þjóna af fullum heilindum í þágu stjórnmála- og fjárglæframanna og gæta algers trúnaðar.

 Nefndarmenn í einkavæðingarnefnd hafa engar skyldur gagnvart almenningi og njóta fulls sjálfstæðis í störfum sínum. Á það m.a. við um fréttaöflun fjölmiðla og annara sem sýna óþarfa forvitni um störf einkavæðingarnefndar. Ber að svara spurningum fjölmiðla út í hött og afvegaleiða blaðamenn eftir þörfum.

  Einkavæðingarnefnd, í samvinnu við stjórnmálamenn, skal semja leikrit um eignartilfærsluna, sem opinbera skýringu á rás atburða. Leikritið ber að setja upp í Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu og bjóða almenningi til leiksýninga. Verður stúkusætum leikhúsanna úthlutað til ráðherra, þingmanna, spunameistara og nefndarmanna í einkavæðingarnefnd. Aðgöngumiðar greiðast úr ríkissjóði.

  Einkavæðingarnefnd er heimilt að semja óperu í stað leikrits skv. 3. mgr. og skal hún þá flutt í Hörpu. Óperan beri heitið „Einkavæðingaróperan".

V. kafli. Gildistaka o.fl.

   13. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2015.

  14. gr. [Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um  framkvæmd laga þessara.]

[i]     http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/utgafa/frettir/eldri-frettir/i