FRELSARI ÁRSINS 2004
Einn af helstu hugmyndafræðingum íslenska hrunsins, Pétur H Blöndal, er gott dæmi um íslenskan "sérfræðing" í verðbréfaviðskiptum og fjármálum. Þjóðin hefur lengi verið svo "lánsöm" að njóta siðferðis og einstakra hæfileika þessa mikla "hirðis". Hann hefur hvergi látið sitt eftir liggja að réttlæta margs konar vafasama fjármálagerninga og nægir að nefna sparisjóðina í því sambandi. Þetta er vert að skoða nánar. Sumarið 2002 var Pétur í forystu fimm manna sem reyndu að yfirtaka og koma SPRON undir þáverandi Búnaðarbanka Íslands. Margir muna eftir fréttum af þessu í fjölmiðlum [þetta leiðir hugann að bók William K Black: Best way to rob a bank is to own one].
Þann 26. mars 2003 var haldinn aðalfundur Samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, SPRON. Þar fengu fundarmenn að heyra hugmyndir og hugsjónir Péturs Blöndal "sparisjóðahirðis" um framtíð SPRON.
"Pétur Blöndal sagði í ræðu sinni fyrir kosninguna á fundinum að SPRON væri of lítil eining, sjóðurinn stæði frammi fyrir breyttum fjármálamarkaði þar sem einkavæðing bankanna stæði upp úr. Þá færi samkeppni harðnandi og samruni og samstarf færi vaxandi. "Ég tel að í ljósi þeirra breytinga sem fjármálamarkaðurinn stendur frammi fyrir þurfi SPRON að finna samstarfsaðila. Litlar einingar þurfa að sameinast og finna samstarfsaðila annaðhvort með eignatengslum eða nánu samstarfi. Þetta þarf Sparisjóðurinn að gera." (Morgunblaðið, 26. mars 2003).
Af framnsögðu er ljóst að Pétur var mjög hlynntur "stórum einingum" á íslenskum fjármálamarkaði og notaði einkavæðingu bankanna sem rök fyrir því að breyta þyrfti rekstrarformi SPRON.
Í Bæjarins Besta er grein frá 22.12.2003. Hún ber titilinn "Lagt til að SPRON verði breytt í hlutafélag". Hugmyndin var sögð sú að "...gera SPRON að öflugasta fjármálafyrirtæki landsins í einstaklingsviðskiptum.". Sérstök nefnd var skipuð í þessum tilgangi, skipuð þeim Guðmundi Haukssyni, Pétri H Blöndal og Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni. Þá var fengið "óháð" verðmætamat frá PriceWaterHouseCoopers [sama fyrirtækinu og slitasjórn Glitnis stefndi fyrir dóm í New York vegna þátttöku í bankaráni og margir muna vel]. Síðan segir:
"Að lokinni hlutafélagsvæðingunni verður eign sjálfseignarstofnunarinnar, SPRON-sjóðsins ses., um 81% af hlutum í SPRON. Fyrir hann greiðir Kaupþing Búnaðarbanki um 6 milljarða króna með hlutabréfum í sjálfum sér og verður SPRON-sjóðurinn þá þriðji stærsti hluthafi bankans. " (Bæjarins Besta, 22. desember 2003).
Í frétt á RÚV frá 11. júní 2011 er haft eftir Pétri Blöndal að "...erfiðleikar sparisjóðanna hafi byrjað við hlutafélagavæðingu þeirra, sem hann hafi einn greitt atkvæði gegn á Alþingi." (Heimasíða RÚV: http://www.ruv.is/frett/fall-sparisjodanna-rannsakad). Það ætti að vera auðvelt að ganga úr skugga um sannleiksgildi þessara orða Péturs og kanna hvernig hann greiddi atkvæði í þessu tiltekna tilviki. Hins vegar skiptir það engu máli því Pétur er "framsóknarmaður" í sér að því leyti að hann er fjótur að skipta um skoðun eftir því sem hentar, þegar hann sér að vitleysan er algerlega komin úr böndunum. Hann lætur sig ekki muna um að halda uppi áróðri árum saman, og flytja lofræður um íslenskt fjármálakerfi [dásamaði mjög hvað fjármálabraskið á Íslandi stækkaði þjóðarkökuna og skilaði þjóðinni miklum arði], en halda jafnframt opinni útgönguleið fyrir sjálfan sig, ef illa fer. Þess vegna er það í raun algerlega merkingarlaust hvernig Pétur greiðir atkvæði á Alþingi, skiptir engu máli [getur alveg meint "já" þótt hann segi "nei"].
Í fullu samræmi við þetta þarf því ekki að koma á óvart að árið 2006 fékk Pétur flest "frelsisstig" frá skoðanabræðrum sínum. Í Morgunblaðinu, 18. ágúst sama ár er frétt um þetta:
"Þingmönnum voru gefin stig fyrir að leggja fram og styðja þingmál sem dómarar töldu í anda hugsjóna ungra sjálfstæðismanna eða ef þeir greiddu atkvæði gegn þingmálum sem ekki voru í anda þessara sömu hugsjóna. Eins voru dregin stig frá þingmönnum ef þeir greiddu atkvæði með málum sem ekki voru í anda hugsjónanna eða gegn þeim málum sem voru í anda þeirra." (Morgunblaðið, 18. ágúst 2006).
Þess má og geta að Pétur var árið 2004 einnig kosinn "Frelsari ársins", minna mátti það ekki vera (Morgunblaðið, 17. apríl 2004). "Frelsið" í þessu sambandi virðist helst lúta að því á hvaða takka er stutt í atkvæðagreiðslukerfi Alþingis. Það merkir að þingmaður getur auðveldlega talað árum saman fyrir einum málstað en greitt síðan atkvæði með öðrum. Þetta er auðvitað hið "fullkomna frelsi" - að geta skipt um skoðun, og jafnvel talað þvert um hug sinn, þegar það hentar og þurfa þá ekki að axla neina ábyrgð á því sem sagt hefur verið áður. Hver segir líka að menn þurfi að vera samkvæmir sjálfum sér? Slíkt er augljóslega krafa um frelsisskerðingu. Pétur sagði líka í viðtali að hann hefði boðið sig fram til þingmennsku til að elta skattana sína [geta haft áhrif á það í hvað sköttunum væri varið]. Það er ákaflega göfug hugsjón frjálshyggjumanns. Sérstaklega á þetta þó við ef viðkomandi skattgreiðandi aflaði þess fjár sem hann greiðir á heiðarlegan og helst lögmætan hátt.
Frelsari mannkyns viðhafði gerólíkar aðferðir samanborið við "Frelsara ársins". Sá fyrrnefndi "hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna", þegar honum ofbauð, en "Frelsari ársins" studdi [og styður] "víxlara" með ráðum og dáð og hefur í raun lengi verið þar í góðra vina hópi [ekki má heldur gleyma afstöðu Péturs til einkavæðingar almennt, sem oft er eitt form þjófnaðar, og Íslendingar þekkja svo vel].
Þjóðin hefur nú fengið að sjá, á eftirminnilegan hátt, hvernig staða sparisjóða á Íslandi er. Þökk sé "Frelsara ársins 2004" að hún er jafn glæsileg og raun ber vitni.
En hvers vegna er verið að rifja upp fortíð "Frelsara ársins 2004"? Hafa ekki hann og aðrir álíka lagt áherslu á það að horfa til framtíðar - gleyma fortíðinni? Nú vill svo til, að þessi "sparisjóðahirðir" er ævinlega fullur heilagrar vandlætingar þegar rætt er um atvinnulaust fólk á Íslandi og atvinnuleysisbætur sem svo eru nefndar. Þá sér hann djöfulinn í öllum hornum og á ekki orð yfir ósvífni fólks sem þiggi atvinnuleyisbætur og jafnvel án þess að þurfa þess. Nýlegar fréttir í fjölmiðlum staðfesta það. Mætti halda að Pétur sjái þetta sem eitt mesta böl þjóðarinnar, fyrr og síðar. "Maður líttu þér nær" var einhvern tíma sagt. Þetta tal verður í meira lagi ótrúverðugt í ljósi viðskipta- og stjórnmálaferils Péturs.
Oft mætti ætla að Pétur telji sig greiða fólki atvinnuleysisbætur, af sínu eigin sparifé. Slík er hugsjón hans og umhyggja fyrir "réttlætinu". "Frelsari ársins 2004" gæti sjálfsagt haldið því fram að hann geri það einmitt með skattfé sínu. En þá er rétt að víkja aftur að því sem að framan var sagt um það hvernig skattfjárins var aflað. Má ekki allt eins halda því fram að viðkomandi skattgreiðandi sé að endurgreiða fé sem honum bar ekki með réttu? Eða halda menn að einhver sérstök gjaldeyrissköpun eða verðmætasköpun sé fólgin í verbréfabraski undanfarinna ára? Er ekki þar ýmislegt til skoðunar hjá sérstökum saksóknara? Hvarflar það að einhverjum að Pétur Blöndal hafi með skattgreiðslum sínum bætt einhverju við þjóðarbúið sem það ekki átti áður? Ætli reyndin sé nú ekki sú að "Frelsari ársins 2004" hafi valdið þjóðinni meiri skaða, fjárhagslegum og siðferðilegum, en hann verður nokkurn tíma maður til að bæta fyrir. "Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?" [Lúk 6:36-42].