Fara í efni

HVAÐ SKÝRIR STEFNU STJÓRNVALDA UM INNLEIÐINGU ÞRIÐJA ORKUPAKKANS?

            Í ljósi þeirrar ofuráherslu sem stjórnarmeirihlutinn leggur á innleiðingu þriðja orkupakkans er mjög knýjandi að finna orsakir þess. Hér verður sett fram eftirfarandi tilgáta. Vinstri-græn leggja á það mikla áherslu að stóriðjan verði smám saman lögð niður en raforkan þess í stað seld í gegnum sæstrengi til Evrópu – sem græn raforka. Hugmyndin er þá sú að Landsvirkjun verði skipt upp, á næstu árum (og byggt á samkeppni í takti við þriðja orkupakkann) reistir verði vindmyllugarðar (í nafni grænnar orkuframleiðslu) og fjöldi smávirkjana reistur.

            Raforkan verði síðan seld úr landi um sæstrengi. Þetta sé talið nauðsynlegt svo uppfylla megi alþjóðlegar kröfur um minnkun gróðurhúsalofttegunda. Ef tilgátan er rétt skýrist margt af sjálfu sér. Þá er þetta einfaldlega stefna Vinstri-grænna, að „afskaffa“ stóriðjuna og selja raforkuna beint til Evrópu. Nú er ljóst, að Landsvirkjun hefur lagt á það áherslu að bæta samkeppnisstöðu sína gagnvart stóriðjunni hvað snertir einmitt raforkuverðið. Að hafa „annan valkost“ (sem verður vart skilið öðruvísi en sem „óbein hótun“).

            Þjóðarsjóðurinn mun síðan taka við auðlindagjöldum sem koma af þessari markaðsvæðingu allri saman. En þá ættu allar viðvörunarbjöllur að hringja kröftuglega. Hvers vegna? Svarið er augljóst. Ekki einungis hafa virkjanirnar þá þegar lent í höndum fjárglæframanna (í einhverjum tilvikum að minnsta kosti) heldur lendir auðvitað þjóðarsjóðurinn það líka! Honum verður mjög líklega stolið, í heilu lagi, eins og hann leggur sig. Margir muna hvernig Ferdinand Marcos umgekkst ríkissjóð Filippseyja.[i] Það er full ástæða til þess að ætla að eins fari um þjóðarsjóðinn. Hann verði með öðrum orðum afar nærtækur „vinum og vandamönnum“ þeirra sem honum stjórna. Á því er veruleg hætta. Öðru eins hefur verið stolið á Íslandi og hvað er einn „þjóðarsjóður“ á milli vina?

            Sé tilgátan um stóriðjuna og sæstrengina rétt er að mjög mörgu að hyggja. Hafa menn t.d. reiknað það út hvar virðisaukinn verður mestur af nýtingu íslenskrar raforku? Hvernig sjá menn fyrir sér atvinnuuppbyggingu á Íslandi eftir að þessi áform hafa náð fram að ganga? Síðan er annað dagljóst. Náttúruvernd á Íslandi lendir í algerri mótsögn við þessi áform. Orkupakkinn mun skapa mikinn virkjanaþrýsting [enda ætla nú allir að „verða ríkir“] og þá má mjög sennilega henda öllu sem nú nefnist „rammaáætlun“ og þess háttar „samkeppnishindrunum“.

            Niðurstaðan verður í stuttu máli sú, að virkjanir, dreifikerfi og afrakstur lendir í höndum fjárglæframanna; íslenskra og erlendra. Þjóðin sjálf mun bera mjög skarðan hlut frá borði, eins og gilt hefur um sjávarauðlindina og margt annað. Myndin verður svo næstum fullkomnuð þegar búið verður að einkavæða og markaðsvæða vatnið líka. En útsýnið mun koma þar á eftir – markaðsvæðing og einkavæðing útsýnisins. Að þessu vinnna umboðslausir stjórnmálamenn á Alþingi og telja hið besta mál. Eða heyrast einhverjar gagnrýnisraddir, frá öðrum en þingmönnum Miðflokksins? Það er ekki annað að skilja en að stuðningsmenn þriðja orkupakkans telji það mál fullrætt á „heilum 10 tímum“! Allt umfram það er kallað „,málþóf“.

            Mjög sennilega eru stærri rán á auðlindum og afrakstri þeirra í farvatninu en þjóðin hefur séð hingað til. Meirihluti Alþingis bregst ekki fjárglæframönnum þar frekar en fyrri daginn. En þingið mun auðvitað bregðast þjóðinni – um það eru fjöldamörg dæmi úr fortíðinni.

[i]      Sjá t.d. umfjöllun The Guardian. https://www.theguardian.com/world/2016/may/07/10bn-dollar-question-marcos-millions-nick-davies