Fara í efni

HVERS VEGNA EIGA INNVIÐIR SAMFÉLAGA AÐ VERA Í OPINBERRI EIGU? ALMANNARÉTTUR OG ORKUMÁL

            Íslendingar búa við spillta og meðvirka valdastétt. Spillingin lýsir sér í misnotkun veitingavaldsins, hvernig fólk er valið í ákveðnar stöður og embætti, jafnvel sett á svið leikrit í kringum fyrirfram gefnar niðurstöður, hvernig eigur almennings eru gefnar vinum og vandamönnum, hvernig lög eru sett til þess að þjóna sérstaklega ákveðnum þjóðfélagshópum, sem valdinu eru þóknanlegir, og svo mætti lengi áfram telja.

[Milliliðir]

Þess vegna gildir að þekkja kvarðann,

þjófa marga sé.

Ræningjar líka sér raða á garðann,

reita af þjóðinni fé.

            Meðvirknin tengist víða spillingunni. Meðvirknin sýnir sig í þjónkun við braskara og fjárglæframenn, í undirlægjuhætti gagnvart erlendu valdi s.s. Evrópusambandinu, og í miklu gagnrýnisleysi almennt. Oft mætti halda að þingmenn séu ekki með fullri meðvitund, líkjast helst svefngenglum sem virðast ekki hafa hugmynd um það hvert förinni er heitið. Gott dæmi um meðvirknina (og jafnvel spillinguna) er innleiðing orkupakka þrjú. Þeir sem tala með valdinu fá stöðuhækkun eða bitlinga að launum.

            Reynt er að halda gagnrýni úti með því að stimpla[i] hana sem „upplýsingaóreiðu“ og „hatursorðræðu“. Spillta og meðvirka fólkið innan valdaklíkunnar skilgreinir auðvitað sjálft hvað er „upplýsingaóreiða“ og hvað er „hatur“. Meirihluta almennings er síðan ætlað að gera þær skilgreiningar að sínum. Innleiðing orkupakka þrjú markar þáttaskil. Hún er stór varða á vegi markaðs- og einkavæðingar innviðanna. Um það það verður rætt í þessari grein. Eignarhald og eignaréttur skipta mjög miklu máli í þjóðfélögum á hverjum tíma en sjaldan eins og nú. Þar má t.d. nefna arð og orkuverð.

            Ekki er nóg með að fólk í valdaklíkunni sé sofandi, og mjög hikandi við að segja hvort og þá hvaða skoðun það raunverulega hefur, heldur vill það setja miklar takmarkanir á málfrelsi annara! Allt er þetta eins langt frá „lýðræði“ eins og verða má.

[In memoriam]

Málfrelsið virðist nú mikið breytt,

margur þó lítið finni.

Lýðræðið var orðið lúið og þreytt,

lifir í minningunni.

Almannagæði

            Áður er komið fram að Evrópusambandið vinnur markvisst að því koma innviðum aðildarríkja í hendur braskara. Það er beinlínis innskrifað í reglugerðir og tilskipanir. „Frjáls markaður“ og markaðsvæðing skulu ráða ferðinni í hvívetna. Þar er tónninn sleginn.

            Rök einkavæðingarsinna stangast oft á, hvað snertir hlutverk ríkisins annars vegar og borgaranna [einkaaðila] hins vegar. Fram koma misvísandi forsendur um getu stjórnvalda. Því er t.a.m. haldið fram að ekki sé hægt að endurbæta óskilvirka opinbera þjónustu, sem sé vafin í spillingu, getuleysi og pólitísk ítök. En á sama tíma er gerð krafa til ríkisvaldsins um að setja reglur, til þess að fyrirbyggja markaðsbrest, gagnvart einkaaðilum á markaði.[ii] [Enn aðrir telja að afnema beri sem flestar reglur og helst gera glæpi refsilausa með öllu].

            Sumir ræða um „einkavæðingarþversögnina“ í þessu sambandi. Bent er á það félagslega framlag sem fólgið er í nauðsynlegri þjónustu og efnahagslegar áskoranir sem fylgja því að veita sömu þjónustu af hálfu einkaaðila. Þótt vísbendingar séu um mistök í veitingu opinberrar þjónustu sé það í sjálfu sér ekki næg ástæða til einkavæðingar þjónustunnar. Skilyrði þess að geta haft áhrif á markaðsbrest séu til staðar áður en til einkavæðingar kemur. Þetta tengist varúðrreglunni svonefndu, í tengslum við nauðsynlega þjónustu og þrjá þætti  hennar.[iii]

            Í fyrsta lagi er um að ræða hugtakið almannagæði (Public goods). Það vísar til gæða sem flestir þurfa að nota og eru fólki nauðsynleg til viðurværis. Nauðsynleg þjónusta fellur undir almannagæði, s.s. vatn, hreinlæti, rafmagn, og heilbrigðisþjónusta.[iv] Það ríkir víðtæk samstaða um það að borgararnir greiði sameiginlega fyrir þjónustu s.s. þjóðaröryggi [her], persónulegt öryggi [lögregla] og umhverfisvernd. Aldrei heyrist að taprekstur sé á slíkri þjónustu, þótt hún sé kostuð af almannafé (skattfé) enda er félagslegur ávinningur mikill af fyrirkomulaginu.[v]

            Alvarlegt rafmagnsleysi í Bandaríkjunum, árið 2003, leiddi í ljós að „fjárfestar“ hafa lítinn áhuga á fjárfestingum sem ekki skila miklum arði. Fyrir hvern dal sem fer til kaupa á rafmagni í Bandaríkjunum fara 70 sent til raforkuframleiðslunnar, 20 sent í dreifingu, og einungis 10 sent í flutning. Eftir afreglun (deregulation) raforkunnar árið 1992 og uppskiptingu þriggja þátta hennar (framleiðslu, flutnings og dreifingar) stöðvuðust fjárfestingar í flutningsmannvirkjum sem aftur gerði raforkunetið viðkvæmt fyrir yfirálagi.[vi]

            Í öðru lagi eru markaðsbrestur og öfugir hvatar. Sérstakar áskoranir fylgja því að veita nauðsynlega þjónustu með einkaframtaki. Margir telja að aukið einkaframtak í samkeppnisgreinum auki vald neytenda með því að gefa þeim val - fyrst og fremst möguleikann á að hætta. Innviðir eru ekki samkeppnissvið. Í flestum tilfellum er einungis um að ræða eitt raforkunet, eða miðstýrt vatnsveitukerfi, sem aftur dregur úr mikilvægi þess að hafa „val“. Einokunarvald gerir fyrirtækjum kleift að draga til sín óhóflegt gjald frá neytendum sem ekki hafa val um aðra þjónustu.[vii]

            Þegar mikilvæg þjónusta, sem lengi hefur verið veitt af hinu opinbera, er síðan einkavædd hefur stundum skort á regluverk og getu til þess að hafa stjórn á starfseminni eftir einkavæðingu [þekkja menn dæmi frá Íslandi?].

            Í þriðja lagi er minnkun fátæktar. Að veita nauðsynlega þjónustu er grunnforsenda þess að dregið verði úr fátækt. Þjónustan er almennt viðurkennd sem helsta leið að þúsaldarmarkmiðum[viii] Sameinuðu þjóðanna. Opinbera íhlutun þarf til þess að hindra að fátækt fólk sé útilokað frá eða neitað um aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Það á sérstaklega við þegar einkaaðilar sjá sér ekki hag í því að þjóna fólki sem ekki telst nógu vænleg féþúfa.[ix]

Þrýstingur á einkavæðingu innviðanna

            Ýmsar alþjóðlegar stofnanir hafa mjög þrýst á stjórnvöld ríkja að markaðs- og einkavæða innviði sína. Það varð einkum áberandi byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Þar má nefna Alþjóðagjaldeyrissjóðinn [IMF], Alþjóðabankann og stofnanir Evrópusambandsins. Það er sífellt algengara að Alþjóðabankinn, og svæðisþróunarbankar, fjármagni röð  „umbóta" sem leiða til þess að yfirráð yfir opinberum eignum eru færð til einkafyrirtækja.[x]

            Yfirleitt gerist þetta með „valddreifingu“, fyrirtækjavæðingu, fullum endurheimtum kostnaðar með markaðsverðlagningu, og aðgreiningu markaða, eftir því hvort þeir skila hagnaði eða tapi („unbundling“/„sundrun“), þannig að auðveldara sé að einkavæða arðbæru hlutana. Alþjóðabankinn hefur jafnvel kostað áróðursherferðir til þess að sannfæra borgara í lántökuríkjum um ágæti einkavæðingar. Þar er oftast teflt saman bestu dæmum einkareksturs við verstu dæmi opinbers rekstrar.[xi]

            Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur ríkjum margskonar skilyrði vegna lánveitinga. Hann getur krafist þess að stjórnvöld ríkjanna grípi til ráðstafana sem takmarka verulega getu sveitarfélaga til þess að veita opinbera þjónustu, þrýst á innheimtu, og reist skorður við því að skuldugum sveitarfélögum sé komið til aðstoðar. Einnig eru vísbendingar um áþekkan þrýsting frá þróunarbönkum.

            Á sviði raforkumála rannsakaði Alþjóðaauðlindastofnunin [World Resources Institute] stöðu mála í sex ríkjum. Þar kom í ljós að umbætur voru drifnar áfram af tafarlausri þörf fyrir fjármagn, sökum þess að alþjóðlegar stofnanir hætta fjárstuðningi við raforkustarfsemi í ríkjunum. Þróunarbanki Ameríkuríkja [IDB] og Alþjóðabankinn höfnuðu t.a.m. aðstoð við héruð í Argentínu nema samþykkt yrði að lúta alríkiskröfum um verðlagningu.[xii]

            Í þessu felst að alþjóðlegar stofnanir (lánastofnanir) beita ríki í þröngri stöðu þvingunum, og jafnvel ofbeldi, til þess að knýja fram pólitíska stefnu sem rekin er áfram og þjónar auðmagni heimsins. Evrópusambandið hefur ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum [hver er staða ríkja í Suður-Evrópu?]. Gagnrýni er mætt með ritskoðun, með því að leggja til bann við „hatursorðræðu“ sem er það hugtak sem valdaklíkur beita um þessar mundir til þess að drepa málum á dreif og halda frá „óþægilegum skoðunum“, jafnvel þótt þær séu oft mjög vel rökstuddar.      Það er þó vel þekkt í sögunni að þegar einræðisherrar komast til valda, t.d. í byltingum herforingja, er það meðal fyrstu verka nýrra ráðamanna að handtaka fólk sem ekki hefur „réttar skoðanir“, s.s. rithöfunda og tónlistarfólk. Tilburðirnir eru þeir sömu hvort sem um ræðir herforingja eða stofnanir Evrópusambandsins, svo dæmi séu tekin. Fólk ætti ekki að láta fána Evrópusambandsins slá glígju í augu sér og horfa framhjá innihaldinu.

            Krafan um markaðs- og einkavæðingu innviða og þjónustu, af hálfu alþjóðlegra stofnana, er auðvitað ekkert annað en ein mynd ofbeldis. Ofbeldið er notað til þess að knýja fram pólitísk markmið. Oftar en ekki er niðurstaðan afar slæm fyrir viðkomandi ríki. Fjölmiðlar og fræðasamfélög sem láta sig varða ofbeldi og „hatursorðræðu“ ættu virkilega að einbeita sér að framkomu alþjóðlegra stofnana gagnvart ríkjum í þröngri stöðu, ekki eyða tíma í vangaveltur um skoðanaskipti fólks á internetinu eða annars staðar. En hugarheimur sumra virðist ekki ná út fyrir „túnfótinn“. Rökræðan sjálf mun skera úr um það hvaða skoðanir verða ríkjandi, manna á milli, fái hún frið til þess. En að ætla sér að stýra skoðunum annara með ritskoðun er fráleitt með öllu. Ætla stjórnvöld ríkja e.t.v. að gefa út lagafyrirmæli, lista upp hvað má segja og hvað ekki? Sú þróun er þegar til  staðar t.d. innan Evrópusambandsins.

Eignarhaldið

            Þeir sem aðhyllast einkavæðingu [einkaránsvæðingu] innviða bera þyngri sönnunarbyrði þess að hún sé nauðsynleg en hinir sem aðhyllast þá stefnu að halda innviðum í opinberri eigu. Augljósasta „nýjungin“ í eignarhaldi hvað snertir orkuskiptin, að minnsta kosti í Vestur-Evrópu, er endurreisn samvinnufélaga sem skipulagsforms.[xiii]

            Valdið í samvinnufélögunum liggur í félagsgrunni þeirra og í nýjum veitum sveitarfélaga. Í samvinnufélagi hafa öll atkvæði jafnt vægi. Út frá lýðræði eru félögin því framför, miðað við venjubundið skipulag einkaframtaksins, þar sem vægi við ákvarðanir er nánast alltaf tengt þeirri fjárhæð sem bundin er í fyrirtæki[xiv] [valdahlutföll ráðast af eignarhlut, nema á Íslandi þar sem aðilar með lítinn eignarhlut geta ráðið miklu í krafti lífeyrissjóða].

            Veita (rafveita) í eigu sveitarfélags hefur ýmsa kosti. Með stuðningi stjórnmála sveitarfélaga getur hún vaxi hraðar og rekið félagslega gjaldskrárstefnu, íbúum í hag.[xv] Þar gildir þó eins og oft áður, veldur hver á heldur.

            Samvinnuhreyfingin á Íslandi beið ekki skipbrot vegna galla samvinnustefnunnar sem slíkrar, heldur vegna innbyrðisátaka og þess að græðgi einkaframtaksins keyrði allt í þrot. Með öðrum orðum: menn týndu samvinnuhugsjóninni. Þetta er dregið mjög vel saman í kjallaragrein frá 1993 eftir Gunnar Hilmarsson fyrrv. formann Atvinnutryggingasjóðs. En hann segir m.a.: „Lítum svo á samvinnuhreyfinguna. Þessi hugsjón sem var, einn maður eitt atkvæði, er úrelt í viðskiptum í dag. Nú fara atkvæðin eftir peningaeign.“[xvi]

            En Gunnar segir fleira í sömu grein sem vert er að staldra lengi við. Er hér eindregið mælt með lestri hennar [má nálgast á timarit.is]. Undir millifyrirsögninni „Hið nýja Ísland“ segir Gunnar m.a.: „Allt er þetta samkvæmt áætlun. Það er mikill misskilningur ef menn halda að þetta sé bara svona. Áætlun arkitekta hins nýja íslenska ríkis er í grófum dráttum þessi: A eignatilfærsla. B hreinsun í atvinnurekstri. C sala ríkiseigna og fyrirtækja. D innkoma hins samþjappaða fjármagns. Keyptar upp eignir, (ódýrt). "Nýtt ríki er fætt, frelsi er fjármagn," gæti hið nýja slagorð verið."[xvii] Í framhaldi af þessum orðum má spyra: hver er áætlunin í dag? Hvenær er „akurinn“ fullplægður? Eru menn ekki núna reynslunni ríkari?

Að lokum

            Í samfélagi manna virðist það blasa við að vandamál séu leyst með félagslegum lausnum, á félagslegum grundvelli. Eða er á sama tíma hægt að lifa í samfélagi en jafnframt ástunda taumlausa sérgæsku og síngirni? Hvernig má það fara saman? Einstaklingar þurfa nauðsynlega sitt rými og sín frelsisréttindi, .s.s tjáningarfrelsi. En það er líka margt sem hreinlega verður að reka á samfélagsformi. Þar er áhugaverð endurkoma samvinnuhugsjónarinnar. Hana mætti gjarnan innleiða t.d. í fjármálakerfinu (bankakerfinu), og að nokkru á sviði orkumála, sem andsvar við gróðahyggju braskaranna.

            Norðurorka er fyrirmynd sem vert er að skoða en „Eigendur félagsins eru sex sveitarfélög, Þingeyjarsveit, Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Eyjafjarðarsveit, Akureyrarbær og Hörgársveit.“[xviii]

            Það er hið besta mál að sveitarfélög eigi og reki virkjanir. Það sem þarf hins vegar að tryggja, með öllum ráðum, er að slík félög lendi ekki að hluta, og jafnvel að öllu leyti, síðar í höndum braskara [hvað gerist í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili?] og að lokum í höndum fjárglæframanna. Það er alltaf versta niðurstaðan. „Hugmyndafræði“ orkupakka Evrópusambandsins þarf að hrinda með öllum ráðum og tryggja um langa framtíð félagslegt eignarhald innviðanna.[xix] Góðar stundir.

[i]      Sjá t.d.: Nickerson, C. (2021, October 8). Labeling theory. Simply Psychology. Retrieved August 11, 2022, from https://www.simplypsychology.org/labeling-theory.html#:~:text=Definition,change%20their%20behavior%20once%20labeled.

[ii]    Kessler, T., & Alexander, N. (2004, October). Assessing the Risks in the Private Provision of Essential Services. United Nations – unctad.org, p. 2. Retrieved August 12, 2022, from: https://unctad.org/system/files/official-document/gdsmdpbg2420047_en.pdf

[iii]   Kessler, loc. cit.

[iv]    Kessler, loc. cit.

[v]     Kessler, loc. cit.

[vi]    Kessler, op. cit., p. 3.

[vii]  Kessler, op. cit., p. 3.

[viii] Sjá einnig: https://www.un.org/millenniumgoals/

[ix]    Kessler, op. cit., p. 3.

[x]     Kessler, op. cit., p. 5.

[xi]    Kessler, op. cit., p. 5.

[xii]  Kessler, op. cit., p. 5.

[xiii] Kunze, C., & Becker, S. (2014). Energy Democracy in Europe: A Survey and Outlook. Rosa Luxemburg Foundation Brussels Office, p. 48. Retrieved August 13, 2022, from: https://www.researchgate.net/publication/282336742_Energy_Democracy_in_Europe_A_Survey_and_Outlook

[xiv]  Kunze, loc. cit.

[xv]   Kunze, loc. cit.

[xvi]  Gunnar Hilmarsson. Auðgildi – manngildi. Dagblaðið Vísir – DV – 258. tölub. 12. nóvember 1993.

[xvii] Ibid.

[xviii]       Aðalfundur Norðurorku hf. 2019. https://www.no.is/is/um-no/frettir/adalfundur-nordurorku-hf-2019

[xix]  Sjá einnig: What Is Critical Infrastructure Protection (CIP)? 2022. Forcepoint. https://www.forcepoint.com/cyber-edu/critical-infrastructure-protection-cip