Fara í efni

INNRI ORKUMARKAÐUR EVRÓPUSAMBANDSINS - FRAMLEIÐSLA OG DREFING Á JARÐGASI

            Það er lesendum kunnugt að innri orkumarkaður Evrópusambandsins nær til framleiðslu, dreifingar og sölu á rafmagni og gasi (jarðgasi). Ýmsir íslenskir stjórnmálamenn virðast trúa því að jafnaðarmerki sé á milli annars vegar aðgerða í loftslagsmálum og þess að Ísland verði fullgildur aðili að innri orkumarkaði Evrópusambandsins.

            Með öðrum orðum, menn tengja saman mögulegan árangur í loftslagsmálum við aðild að innri orkumarkaði Evrópu. Samkvæmt þessu getur ekkert ríki í heiminum náð árangri í loftslagsmálum nema eiga aðild að Evrópusambandinu eða að minnsta kosti innri orkumarkaði þess. Fjölmenn ríki, s.s. Kína, Indland, Rússland og Bandaríkin, verða því fyrst að ganga í Evrópusambandið áður en hægt er að grípa til aðgerða í þeim ríkjum (og ná árangri) gegn því sem ýmsir nefna loftlagsvá.

Framleiðsla á jarðgasi

            Af þekktum heildar jarðgasforða heims eru nærri 80% hans í tíu löndum. Rússar eru efstir á listanum og eiga um fjórðung af heildar gasforða heimsins, en Íran og Katar í (Mið-Austurlönd) koma þar á eftir. Upplýsingarnar sem hér koma fram eru byggðar á samantekt Hydrocarbons-technology.com. Löndum er raðað eftir framleiðslumagni. Eins og gefur að skilja er um áætlað gasmagn að ræða. Magn er í trilljónum rúmfeta [Trillion Cubic Feet].

Tafla 1 – 10 stærstu gasframleiðsluríki heims

Ríki

Ár

Framleiðsla

Fyrirtæki

Rússland

2013

1.688

Gazprom. Novatek, PSA, Lukoil og Rosneft

Íran

2012

1.187

National Iranian Oil Company (NIOC), með dótturfélögum sínum þar á meðal National Iranian South Oil Company (NISOC) og Pars Oil & Gas Company (POGC), stýrir framleiðslu og þróun jarðgassauðlinda í landinu. National Iranian Gas Company (NIGC), annað dótturfyrirtæki NIOC, ber ábyrgð á innviðum jarðgass, flutningum og dreifingu.

Katar

2012

885.3

Qatar Petroleum, ExxonMobil, Shell and Total. Qatargas and RasGas.

Túrkmenistan

2012

353.1

Turkmengaz, CNPC of China.

Bandaríkin

2013

334.07

Sjá t.d.: https://www.oilandgasiq.com/drilling-and-development/articles/natural-gas-the-top-10-biggest-players-in-the-us

Sádi Arabía

2012

290

Saudi Aramco. Lukoil, Sinopec, Eni and Respol

Sameinuðu arabísku furstadæmin

2012

215.1

ADNOC, ADCO and ADMA-OPCO. Shell, Total and Partex. Abu Dhabi Gas Liquefaction (ADGAS).

Venesúela

2012

195

Total, Statoil, Chevron and Gazprom.

Nígería

2012

182

Shell. Total, Eni, Chevron. The Nigerian Gas Company (NGC).

Alsír

2012

159.1

Sonatrach. Eni, BP, Repsol, GDF Suez and the BG Group.

Jarðgas og áhrif vinnslu á umhverfið

            Enda þótt jarðgas sé hluti jarðefnaeldsneytis (fossil fuel) er það tiltölulega umhverfisvænt við bruna. Það sést með því að skoða það [losun CO2] í samanburði við annað eldsneyti, s.s. díselolíu og kol. Hins vegar kann vinnsla þess að hafa í för með sér óæskileg áhrif á umhverfið. Þar skiptir máli hver fjögurra vinnsluaðferða er notuð:

  • lóðrétt borun;
  • lárétt borun;
  • vökvabrot (fracking)/brot;
  • vinnsla með „sýringu“ (acidizing)

            Fyrstu tvær aðferðirnar [boranir] hafi lítil áhrif á umhverfið, en  vökvabrot/brot og „sýring“ mun meiri áhrif. Með vökvabroti er framkallaður jarðskjálfti af mannavöldum til þess að losa jarðgas úr ógegndræpu bergi. Það ferli útheimtir gríðarlegt vatnsmagn sem getur truflað vistkerfi á staðnum og stundum tæmt vatnsból. Í vinnnslunni er „dælt“ vatni með sandi og öðrum efnum í jörðina með miklum þrýstingi.

            Afleiðingin verður eitrað afrennslisvatn sem getur lekið niður í jarðveginn og drepið plöntur og dýr. „Sýring“ hefur sömu afleiðingar. Það er tækni sem leysir upp berg, þannig að vinnsla gass verði auðveldari.[i] Vinnslan hefur í för með sér mögulegar neikvæðar afleiðingar, þótt ekki sé það óhjákvæmilegt. Lóðrétt borun er þó öruggasta aðferðin sem þekkist.[ii]

Mynd 1- Samanburður á losun í kílóum af CO2 á kílóvattstund.[iii]


Nord-Stream verkefnið

            Nord Stream er nafn á tvöfaldri gasleiðslu til flutnings á rússnesku jarðgasi um Eystrasalt til Þýskalands. Framkvæmdir hófust þann 9. desember 2005 og hófst gasflutningur eftir fyrri (fyrstu) gasleiðslunni 8. nóvember 2011.

            Gasleiðslan liggur út frá Vyborg í Rússlandi og kemur á land í Greifswald í Þýskalandi. Nord Stream AG á og rekur gasleiðsluna. Þótt stjórnvöld í Rússlandi og Þýskalandi styðji verkefnið hefur það verið umdeilt af ýmsum ástæðum. Sumir telja að Evrópa verði of háð Rússlandi um orku. Aðrir benda á möguleg umhverfisspjöll. Önnur gasleiðslan [samhliða] var lögð 2011-2012 og vígð 8. október 2012. Hún er 1.222 kílómetrar (759 mílur) að lengd og er lengsta neðansjávarleiðsla heims.[iv] Leiðslan er hönnuð fyrir hámarksþrýsting 220 bör.          Hún er gerð úr hágæða stáli (DNV Offshore Standard OS-F101). Veggþykktin er á bilinu 27-41 mm. Þá er leiðslan fóðruð bæði að utan og innan. Að utan með 4.2 mm. lagi, sem ver gegn tæringu, og að innan með sérstöku 0.06 mm. lagi gegn núningi.[v]

            Í Rússlandi var ráðist í lagningu gasleiðslu [feeding pipeline] þann 9. desember 2005 í bænum Babayevo í Vologda Oblast.[vi] Framkvæmdum lauk árið 2010. Sú leiðsla er eingöngu rekin af Gazprom. Hún er hluti af samþættu gasflutningsneti Rússlands og tengir núverandi net í Gryazovets við þjappstöðina í Vyborg. Lengd þessarar leiðslu er 917 kílómetrar (570 mílur), þvermál hennar er 1.420 millimetrar (56 tommur) og vinnuþrýstingur er 10 MPa (100 bör) sem er tryggður með sex þjappstöðvum.[vii] Slíkar þjappstöðvar gegna því hlutverki að viðhalda flæði og þrýstingi jarðgass. Það er gert með því að taka gas frá leiðslu, auka þrýsting þess [með þjöppun] og veita því aftur inn á gasleiðsluna.

Lagaleg álitamál

            En þótt Nord-Stream 2 leiðslan sé tæknilega tilbúin eru ýmsar lagalegar (og pólitískar) hindranir í vegi hennar. Þar er ekki hvað síst í veginum orkustefna Evrópusambandsins og reglur orkupakkanna sem mynda innri orkumarkað Evrópu. Vert er að skoða vel mál Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gegn Sambandslýðveldinu Þýskalandi, Case C-718/18. (Dómur frá 2. september 2021). Í dóminum er m.a. fjallað um brot þýskra yfirvalda á lögum og reglum um innri orkumarkaðinn og lóðrétta samþættingu fyrirtækja, að ekki sé minnst á hlutverk Landsreglara[viii] [„Landstjóra“ ESB í orkumálum].

            Kvörtunarefnin snúa öll að rangri innleiðingu í landsrétt á ákvæðum tilskipana Evrópusambandsins. Þær eru tilskipun 2009/72 og 2009/73. Dómstóllinn staðfesti fyrstu kvörtunina, þar sem framkvæmdastjórnin heldur því fram að Sambandslýðveldið Þýskaland hafi ekki innleitt hugtakið „lóðrétt samþætt fyrirtæki“ („VIU“) rétt í landslög. Brotið felist í því að takmarka skilgreiningu hugtaksins við starfsemi sem fer fram innan ESB. Þetta ætti að vera mörgum Íslendingum mikið umhugsunarefni! Spurningin er þá þessi: hvar liggja valdmörk Evrópusambandsins og stofnana þess?

            Annað umkvörtunarefnið snýr að sjálfstæði starfsmanna og stjórnenda flutningskerfisstjóra. Þar staðfestir dómstóllinn kvörtun framkvæmdastjórnarinnar sem heldur því fram að þýsk lög takmarki beitingu ákvæða tilskipana um aðlögunartímabil, sem varðar einstaklinga sem skipta um stöðu innan lóðrétt-samþætts fyrirtækis, við þá hluta hluta fyrirtækisins sem starfræktir eru á sviði orkumála (energy sector[ix]).

            Í dóminum er bent á það að ákvæði tilskipana sem um ræðir feli ekki í sér slíka takmörkun. Þannig ákvæði væru andstæð markmiðum um „virka aðgreiningu“ sem sé nauðsynleg til þess að tryggja virkni innri orkumarkaðarins og öryggi í veitingu orku. [Þessa staðhæfingu á fólk ekki að taka sem gefna. Aðgreiningin er einmitt engin trygging fyrir afhendingaröryggi!].

            Dómstóllinn staðfesti einnig þriðja umkvörtunarefnið. Þar hélt framkvæmdastjórnin því fram að ákvæði nefndra tilskipana sem banna eignarhald á tilteknum hlutum í lóðrétt-samþættu fyrirtæki, eða viðtöku fjárhagslegs ávinnings frá einhverjum hluta þannig fyrirtækis, hefðu einungis verið innleidd að hluta í þýskan rétt. Þau giltu heldur ekki um hlutabréfaeign starfsmanna flutningskerfisstjóra, enda þótt ljóst sé af orðalagi ákvæðanna að bannið taki einnig til starfsmanna.

            Þá staðfesti Evrópudómstóllinn fjórða umkvörtunarefnið. Þar hélt framkvæmdastjórnin því fram að Sambandslýðveldið Þýskaland hafi virt að vettugi vald sem einvörðungu er áskilið Landsreglara, samkvæmt tilskipunum og ætlað sambandsstjórninni vald eftir þýskri löggjöf til þess að ákveða aðferðafræði sem notuð er til þess að reikna út og setja skilyrði fyrir aðgangi að landsnetum, þ.m.t. gildandi gjaldskrár.

            Dómstóllinn tekur fram að valdið sem Landsreglara er áskiliðframkvæmdavald sem byggist á tæknilegu og sérfræðilegu mati. Það veiti stjórnvöldum ekki svigrúm sem gæti haft í för með sér pólitíska ákvarðanatöku. Ríkin sem hafa Landsreglara séu háð meginreglum og reglum sem settar eru með ítarlegum lagaramma á vettvangi Evrópusambandsins.[x]

Orkupakkar Evrópusambandsins

            Nord-Stream[xi] verkefnið er ekki einungis undirorpið málaferlum heldur er það auðvitað hápólitískt[xii] líka. Þar kemur m.a. til sögunnar viðskiptabann á Rússland, þrýstingur frá Bandaríkjastjórn og ágreiningur innan Evrópusambandsins. Eftirfarandi atriði er nauðsynlegt að hafa í huga hvað snertir Nord-Stream verkefnið (og aðrar millilandatengingar við innri orkumarkað ESB). Greinarhöfundur er þó ósammála ýmsu sem hér kemur fram, .s.s um valdsvið og lögsögu orkupakkanna [þ.e. „útþenslustefnuna“ og miðstýringuna sem í þeim felst]:

  • afstaðan til Nord Stream 2 (NS2) skapar fordæmi fyrir aðrar nýjar leiðslur sem flytja inn gas frá þriðju ríkjum til ESB [hægt að fallast á þetta];
  • sumir benda á það að ESB-hluti NS2 ætti að fylgja reglum þriðja orkupakkans og sá hluti NS2 sem er utan ESB gæti annaðhvort fallið undir ESB rétt með framlengdri lögsögu (sbr. einnig extraterritorial jurisdiction) eða ætti að stjórnast af samningi ESB og Rússlands um alla leiðsluna. Hið síðarnefnda þyrfti þá að vera í samræmi við ESB-sáttmálana, sem beinlínis leggja þá skyldu á ESB að „tryggja afhendingaröryggi orku“ og tryggja virkni orkumarkaðarins [þeir sem á annað borð fallast á hina sameiginlegu orkustefnu ESB eru vafalaust ánægðir. Hinir hljóta að gera alvarlegar athugasemdir, s.s. um það hversu langt sumir vilja teygja lögsögu orkupakkanna];
  • gasmarkaðstilskipun ESB ætti að gilda um þann hluta NS2 sem er staðsettur á yfirráðasvæði ESB. Það krefst „fulls frjálsræðis“ og enn er óljóst hvort undanþágur frá fyrirkomulaginu eru mögulegar. ESB-hlutinn og hluti NS2, sem er utan ESB, eru lagalega tengdir og stjórnun á öðrum hlutanum hefur áhrif á hinn. Án alþjóðasamnings á milli ESB og Rússlands gæti sá hluti NS2 sem er utan ESB fallið undir ESB rétt með framlengdri lögsögu sem er útbreidd í ESB rétti [það er ákveðin „útþenslustefna“ innbyggð í umrætt regluverk ESB. Í þessu tilviki er hún sérlega óheppileg þegar orkuskortur ríkir í Evrópu. Eftirspurn er meiri en framboð á orku];

            NS2 lýtur öðrum lagalegum forsendum en NS1, þar sem Nord Stream 1 kom til sögu áður en þriðji orkupakkinn tók gildi.[xiii]

Tafla 2 – Lögsaga ríkja sem Nord-Stream 2 heyrir undir[xiv]

Lögsaga ESB (Þýskaland, Danmörk)

140 km

Lögsaga Rússlands

120 km

Efnahagslögsaga - EEZ (Þýskaland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland)

950 km

            Þarna birtist einfaldlega staða sem oft kemur upp þegar ákveða skal hvaða lög skuli gilda þegar framkvæmdir snerta lögsögu nokkurra ríkja. Með öðrum orðum, þetta snertir innlendan rétt, Evrópurétt og alþjóðarétt. Ekki er allt sem sýnist. Þarna togast nefnilega á hagsmunir allra þessara þriggja sviða. Eins og komið hefur fram í fyrri skrifum þarf að skoða dóma Evrópudómstólsins og afstöðu hans til alþjóðaréttar.

            Enda þótt á yfirborðinu virðist sem svo að alþjóðaréttur ráði um lagnir sem þessar, þann hluta sem er innan efnahagslögsögu, er ekki þar með sagt að Evrópudómstóllinn komist að sömu niðurstöðu! Hann stendur fyrst og fremst vörð um Evrópuréttinn þegar ákveða þarf forgang. Málið er því alls ekki klippt og skorið eins og ætla mætti af skrifum sumra [sbr. t.d. skrif þeirra Dudek og Piebalgs].

Að lokum

            Eins og sjá má af málaferlum tengdum Nord-Stream gasleiðslunni, telur Evrópusambandið lögsögu sína ekki takmarkaða við það sem gerist innan sambandsins heldur nái hún einnig til ríkja utan þess. Fyrrum „héraðsdómara“, „steypuprófessor“ og „lagadeildardósent“ brást illilega bogalistin síðast, í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú. Þeir ættu að hafa það í huga næst, þegar þeir veita stjórnvöldum pöntuð „álit“ um orkupakka fjögur.

            Hið sama ættu þeir þingmenn að gera sem hæst töluðu um að ekkert væri að óttast. Sumir þeirra eru sem betur fer hættir á þingi en aðrir verða áfram við sama heygarðshornið og stunda „málfundaræfingar“ á Alþingi. Fullyrðingar um fullt forræði Íslendinga í orkumálum verða ekki hvað síst hjákátlegar séu þær rýndar í samhengi við áðurnefndan dóm Evrópudómstólsins [C-718/18].

            Nýlega var rætt við nýjan Landsreglara ESB á Íslandi í Kastljósi RUV. Það sem vakti einna mesta athygli, verður að segjast, var hversu illa þáttastjórnandinn, spyrjandinn, var að sér um orkumálin almennt. Ræddi m.a. um það hvort hætta væri á að íslensk stjórnvöld yrðu „þvinguð“ til þess að leggja sæstreng. Ekkert bólaði á skilningi eða samhengi hlutanna.

            Þetta er í stuttu máli svona: þegar ríki hafa innleitt reglugerðir/tilskipanir sem m.a. fela í sér samtengingu ríkja á innri orkumarkaði Evrópu, sem aftur felur í sér samþykki á orkustefnu Evrópusambandsins, eru einstök ríki í ákaflega þröngri stöðu á eftir að neita samtengingu, t.d. með sæstreng, komi fram beiðni um að leggja slíkan streng. Þegar búið er að segja A verða menn að segja B. Þar að auki verður ekki gengið framhjá vilja Landsreglara [sem aftur endurspeglar vilja ESB] í þessum efnum, hvernig sem hann kann að birtast í framtíðinni. „Þvingunin“, sem fréttamaðurinn skilur augljóslega ekki, snýst þannig fyrst og fremst um „neikvæða skyldu“, að koma ekki í veg fyrir að vilji annara [„rafgreifa“ og ESB] nái fram að ganga [t.d. að leggja streng]. Fréttamaðurinn einblíndi hins vegar á „jákvæða skyldu“, hvort lögð yrði „jákvæð skylda“ á stjórnvöld að leggja sæstreng.

            Tökum stutt dæmi: Íslensk stjórnvöld gera samning við bandarísk yfirvöld sem heimilar uppsetningu eldflaugaskotpalla á Íslandi. Þegar fram kemur bandarískt einkafyrirtæki og hyggst nýta sér þennan rétt þykjast íslenskir ráðherrar, og margir þingmenn, ekkert skilja í þessu, hvernig það megi vera að komin sé fram umsókn um uppsetningu eldflaugaskotpalla á Íslandi. Þetta hljóti allt að vera einhver misskilningur! Með öðrum orðum, efndir samningsins eru algert aukaatriði. Ráðherrar koma í viðtöl í sjónvarpi og segja að aldrei hafi nein alvara búið að baki samningsgerðinni, af þeirra hálfu, enda hljóti allir að sjá og hafi mátt vita að engum kæmi til hugar að reisa eldflaugaskotpalla á Íslandi.

            Hugmyndin hafi að vísu borist í tal meðal manna á Artic Circle ráðstefnunni en það hafi allt verið í gríni og menn verið við skál. Þetta skipti engu máli. Grínið hafi einfaldlega farið úr böndunum og síðan leitt til þess að íslenskir ráðamenn hafi skrifað undir eitthvað fyrir hönd Íslands sem aldrei hafi verið ætlunin að standa við. Aðrir segjast „fyrst vera að heyra af þessu núna“ og kannast ekkert við málið.

            Að nokkrum dögum liðnum kemur forsætisráðherra í Kastljós og lýsir því yfir þar að þetta sé allt einn allsherjar misskilningur og að ríkisstjórn Íslands hafi þegar ákveðið að senda harðorð mótmæli til bandarískra stjórnvalda, vegna fyrirhugaðrar uppsetningar eldflaugaskotpallanna. Íslendingar séu enda friðsöm þjóð og vilji ekkert með eldflaugar hafa, hvorki í friðsamlegum tilgangi né hernaðarlegum. Hvernig halda menn að „sæstrengsleikritið“ verði?

[„Þetta skiptir engu máli“]

Upp með fjörið allir skáli,

yfrið nóg af víni.

Efndir skipta engu máli,

allt er sagt í gríni.

[Viðhorf sumra stjórnmálamanna]

Orkupakkarnir opna hlið,

eins og græðgin torgar.

Ekkert kemur okkur við,

almenningur borgar.

[i]      Sjá einnig: Government of Western Australia. Department of Mines, Industry Regulation and Safety. https://www.dmp.wa.gov.au/Petroleum/Natural-gas-from-shale-and-19998.aspx

[ii]    MET Group. (2021). https://group.met.com/fyouture/is-natural-gas-environmentally-friendly/65

[iii]   Ibid.

[iv]    Werner, S. (2021). Nord Stream. http://www.wermac.org/nordstream/nordstream_part1.html

[v]     Nord Stream: Secure gas supply for Europe. Meeting of the Energy Charter Trade and Transit Group –Amsterdam, 14 May 2009. https://www.energycharter.org/fileadmin/DocumentsMedia/Presentations/CBP-NordStream.pdf

[vi]    https://vologda-oblast.ru/en/

[vii]  Werner, op. cit

[viii] Sjá einnig: White & Case LLP. (2021). European Court of Justice on Independence of German Energy Regulator. https://www.whitecase.com/publications/alert/european-court-justice-independence-german-energy-regulator

[ix]    Orðið „geiri“ er ekki góð þýðing á enska orðinu „sector“.

[x]     C-718/18. European Commission v Federal Republic of Germany. https://curia.europa.eu/juris/liste.jsf?num=C-718/18

[xi]    Nord Stream. (2021). https://www.nord-stream.com/

[xii]  Sjá t.d.: Wettengel, J. (2021). Gas pipeline Nord Stream 2 links Germany to Russia, but splits Europe. Clean Energy Wire. Retrieved from: https://www.cleanenergywire.org/factsheets/gas-pipeline-nord-stream-2-links-germany-russia-splits-europe

[xiii] Dudek, J. and Piebalgs, A. Nord Stream 2 and the EU regulatory framework: challenges ahead, Policy Briefs, 2017/26. Florence School of Regulation, Energy, Gas. Retrieved from Cadmus, European University Institute Research Repository, at: http://hdl.handle.net/1814/48386

[xiv]  Ibid.