LÝÐRÆÐI TIL ÞRAUTAVARA
Eitt af því sem einkennir íslenskt samfélag er ákaflega lítil lýðræðisást innan íslensku valdaklíkunnar. Sú skoðun er útbreidd meðal klíkunnar að þjóðin sæki vald sitt og umboð til stjórnmála- og embættismanna en ekki öfugt. Flestar kenningar í stjórnlagafræðum ganga þó út frá þeirri reglu að þjóðin sé uppspretta valdsins – að þjóðþing starfi í umboði þjóðar.
Sir William Blackstone (1723-1780) var þekktur fræðimaður á sviði lögfræði og auk þess dómari. Hann var talsmaður náttúruréttar. Að mati Blackstone er maðurinn skepna sem hlýtur endilega að lúta lögum skapara síns, því hann [maðurinn] er algjörlega háð vera (dependent being).[i]
Íslenska valdaklíkan er allt annarar skoðunar. Hún telur þjóðina, almenning, hóp af „skepnum“ sem ekki þurfi að taka tillit til. Á sama tíma telur klíkan sjálfri sér allt heimilt, enda sé hún nánast guðsútvalin til þess að deila og drottna. Valdaklíkan gefur eignir þjóðarinnar, stundar sjálftöku á launum (t.d. í gegnum kjararáðið forðum) og virðir ekki kosningaúrslit sbr. þjóðaratkvæðagreiðslu frá 2012 um nýja stjórnarskrá. Þetta er ekki nýtt viðhorf. Valdaklíkan hefur lengi verið þessarar skoðunar og nýjir þingmenn, flestir, ganga inn í þetta viðhorf, sem sjálfgefinn veruleika, þegar þeir setjast á þing.
Í huga valdaklíkunnar er lýðræðið punt. Það er fyrirbæri sem vitna má til á 17. júní eða við þingsetningu, en hefur enga, raunverulega merkingu þess utan. Það sést t.d. vel þegar valdaklíkan (djúpríkið) kemur saman í „reykfylltum bakherbergjunum“ og fiktar þar við breytingar á stjórnarskránni. Þetta fólk lætur sem engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi nokkurn tíma verið haldin um sama mál og hundsar vilja þjóðarinnar. Eitt kjaftæðið í því sambandi er það að kjörsóknin hafi verið svo slök [haustið 2012]. En sömu rök hljóta þá að gilda um kosningar almennt. Ef t.d. kjörsókn í Alþingiskosningum væri einungis 40% þá hlýtur það að merkja í hugum sama fólks að niðurstaðan hafi enga merkingu og beri að hundsa.
Þrískipting ríkisvaldsins, í löggjafar- dóms-, og framkvæmdavald, er höfð að engu og héraðsdómari („Raspútín“) talinn rétti maðurinn til þess að gefa ráð og móta stjórnarskrárbreytingar, þannig að falli sem best að hagsmunum „djúpríkisins“. Margir hljóta að vera alvarlega hugsi yfir þessu. Þetta er einfaldlega aðferðafræði sem gengur ekki upp og stríðir gegn öllum reglum um nútímalega stjórnskipun. Rökrétt næsta skref forsætisráðherra væri það að leggja fram stjórnarfrumvarp, um sameiningu löggjafar- og dómsvalds og breyta um leið 2. gr. núverandi stjórnarskrár sem geri þetta fært. Greinin myndi þá t.d. hljóða svo: „Alþingi og dómendur fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur og stjórnvöld fara saman með dómsvaldið.“ Raunar finnast þeir íslensku „fræðimenn“ sem telja það hlutverk dómara í íslensku réttarkerfi að setja þjóðinni lög. Það eru þó afar umdeildar kenningar, svo ekki sé meira sagt, enda almennt ekki litið svo á í germönskum/norrænum rétti að dómarar setji lög heldur beri að dæma eftir lögum. Á því tvennu er grundvallarmunur.
Í ríkjum sem kenna má við fordæmisrétt (Common law[ii]) hafa dómarar þó hvort tveggja á sinni hendi, að dæma eftir lagareglum/lögum og setja nýjar lagareglur. Frakkland er meðal þeirra ríkja sem sækja tilurð síns réttarkerfis í Rómarétt (Roman law). Innan þess kerfis er því hafnað að dómarar setji lög. Þeir hafa hins vegar skyldu til þess að túlka lög.[iii] Enn fremur er þrískipting ríkisvaldsins álitin mjög mikilvægt grundvallaratriði í franskri stjórnskipun.
Lýðræðið er að mati íslensku valdaklíkunnar einungis til þrautavara, þegar enginn lögfræðilegur útúrsnúningur gerir fært að fara á svig við stjórnarskrána (sbr. þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave). Flest „lögfræðiálit“ „íslenskra fræðimanna“, um túlkun á stjórnarskránni, snúast um það hvernig hægt sé að fara á svig við ákvæði hennar, þannig að valdaklíkan sé sátt. Þetta vita álitsgjafarnir fyrirfram og semja „álit“ sín auðvitað í samræmi við það.
Nauðsynlegt er að koma á beinu lýðræði á Íslandi með líku sniði og tíðkast í Sviss. Í því væri fólgin vörn íslenskrar þjóðar gegn valdaklíkunni sem lengi hefur komist upp með það að virða hvorki lög né reglur, hvað þá vilja almennings. Annað er vert að nefna í þessu sambandi.
Jafn nauðsynlegt og það er að setja alvöru auðlindaákvæði og ákvæði um beint lýðræði í stjórnarskrá, þá er ýmislegt sem vekur upp spurningar hvað snertir hið fyrr nefnda. Það ætti öllum að vera ljóst að stærstu auðlindir á Íslandi, s.s. auðlindir hafsins, eru þjóðareign (og ekki bara að nafninu til eins og sumir virðast halda). Það er eðlilegt, nauðsynlegt og sjálfsagt að setja skýr ákvæði um það í stjórnarskrá.
Það sem flækir málið einna helst (fyrir utan forherðingu valdaklíkunnar) er Evrópurétturinn. Ef t.d. auðlindaákvæði, eftir orðalagi auðvitað, væri talið stangast á við reglur Evrópuréttar, þá eru fyrir því dómafordæmi að ekki einungis er Evrópuréttur ofar almennum lögum í landsrétti heldur nær það og til stjórnarskráa aðildarríkjanna. Þessi atriði eiga þó alls ekki að vera nein hindrun fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem heldur og stenst Evrópurétt, né heldur rökstuðningur fyrir „undanrennuákvæði“ sem er haldlaust með öllu. En ljóst er að vanda þarf til verka. Núverandi fikt við stjórnarskrána er eins ólýðræðislegt og mest er hægt að hugsa sér. Margt bendir til þess að stór hluti þjóðarinnar (og þjóðin er stjórnarskrárgjafinn, ekki Alþingi) sé eðlilega mjög ósáttur við það hvernig farið er framhjá öllum leikreglum „lýðræðis“ í málinu. Enda gildir „lýðræði“ einungis til þrautavara á Íslandi.
[i] Blackstone, W. (1859). Commentaries on the Laws of England: in four books; with an analysis of the work. Philadelphia. J.B. Lippincott & Co, p. 26.
[ii] Sjá t.d. THE COMMON LAW AND CIVIL LAW TRADITIONS. https://www.law.berkeley.edu/wp-content/uploads/2017/11/CommonLawCivilLawTraditions.pdf
[iii] Sjá t.d.: The French legal system. Edited by Ministry of Justice/2012. http://www.justice.gouv.fr/art_pix/french_legal_system.pdf