Fara í efni

LYKILLINN AÐ LAUSNUNUM ER AÐ KJÓSA RÉTT

            Það er gott að hugsa í lausnum, sérstaklega ef lausnirnar gagnast þjóðinni sem heild. Allmörg dæmi má þó finna um að „lausnir“ á Alþingi séu sniðnar sérstaklega að hagsmunum braskara og fjárglæframanna. Þetta gerist vegna þess að fólk sem fengið hefur umboð kjósenda („látið kjósa sig“) misfer með umboð sitt og missir öll tengsl við umbjóðendur sína. Segist að vísu í viðtölum oft vera í „góðu sambandi“ við kjósendur sína. En eitt er að þiggja kaffibolla í kjördæmi sínu og annað að gæta hagsmuna almennings á þingi.

            Fyrrum þingmaður, Margrét Tryggvadóttir, lýsti vel í viðtali hvernig þetta virkar í raun. Þar sagði hún efnislega að það væri vissulega sterk lífsreynsla að sjá „heilu þingnefndirnar leka niður“ þegar á fundi þeirra koma fulltrúar „auðvaldsins“ (s.s. útgerðar). Þetta er afar góð lýsing og Margrét örugglega ekki sú eina sem hefur þessa sögu að segja. Margir kjósendur upplifa þetta einmitt svona.

            En við þessi orð Margrétar vakna fjölmargar spurningar. Hvernig í ósköpunum má það vera að inn á löggjafarsamkundu þjóðar rati fólk sem sýnir af sér slíkan undirlæguhátt? Hvað veldur því? Hvað óttast þetta sama fólk sem skipar þingnefndirnar? Er það þingsætið sem gæti verið í hættu? Er það fylgi viðkomandi stjórnmálaflokks? Var þetta fólk í svokölluðum „öruggum þingsætum“ vegna spillingar og flokkadrátta sem komu því í efstu sætin í prófkjörum?

            Er ekki annars kominn tími til þess að leggja niður prófkjör? Er þetta ekki ákaflega ólýðræðislegt fyrirkomulag við val á lista? Er uppstilling það ekki líka? Hverjir stilla upp og hvað ræður uppstillingunni? Væri ekki ágætt að kjósandinn sjálfur raði „á lista“ um leið og hann kýs? Vissulega meiri fyrirhöfn fyrir kjósandann en virkt lýðræði útheimtir fyrirhöfn, jafnvel mikla fyrirhöfn. Kjósandi sem hyggst kjósa ákveðið framboð/flokk hefði þannig úr að velja ákveðnum fjölda frambjóðenda sem hann sjálfur raðar á listann.

            Til þess að einfalda málið væri „mengi frambjóðenda“ auglýst með góðum fyrirvara í fjölmiðlum, þannig að kjósandinn geti áður gert upp við sig hvernig hann vill raða. Röðun á lista færi svo fram samhliða kosningunni sjálfri. Þessi eina breyting myndi strax hafa í för með sér virkara lýðræði. Val á lista á ekki að vera einkamál stjórnmálaflokka – af og frá. Kjósendum sjálfum er best treystandi til þess að ákveða röð frambjóðenda.

Beint lýðræði

            Beint lýðræði er eitur í beinum þeirra sem tilheyra íslensku valdaklíkunni og verja hana. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru taldar flóknar í framkvæmd (sem er vitleysa) og síðan fengnir „fræðimenn og dómarar“ til þess að staðfesta það. Allt er þetta gert af hálfu valdaklíkunnar til þess að halda óbreyttum valdahlutföllum og tryggja sérhagsmuni. „Fræðimennirnir og dómararnir“ eru auðvitað virkir þátttakendur í því. En ekki hvað?

            Þegar Alþingi kappkostaði innleiðingu orkupakka þrjú heyrðust efasemdaraddir um gildi þjóðaratkvæðagreiðslu sem lausnar á málinu. Rétt er að víkja aðeins að því. Rökin voru þau helst að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi skilja eftir sig „sár“ þeirra sem færu halloka, fólk myndi skiptast í hópa, með og á móti, og atkvæðagreiðslan myndi því ekki leysa neinn vanda. Við þetta er ýmislegt að athuga! Um hvað snýst lýðræði almennt? Um hvað snúast kosningar? Á ekki lýðræði að snúast um að meirihlutavilji ALMENNINGS nái fram að ganga við ákvarðanir sem þann sjálfa almenning varða?

            Sjaldan er það svo að allir verði sammála um ákveðin mál, að fólk sé einróma í afstöðu sinni (hver sem hún er). Atkvæðagreiðslur/kosningar eru einmitt leiðin til þess að velja ákveðinn valkost fram yfir annan og skera úr ágreiningi. Önnur leið er sú að fela dómstólum þetta hlutverk. En það er ekki víst að það sé lýðræðislegasta form ákvarðanatöku almennt. Auk þess hafa dómarar alveg nóg að gera þótt þeir þyrftu ekki líka að taka ákvarðanir um mál sem í raun eiga heima hjá almenningi.

            Eftir stendur það að þjóðaratkvæðagreiðslur eru tilvalin leið til þess að leiða mörg mikilvæg mál til lykta. Ágreiningurinn og óánægjan sem sprottið hefur af orkupakkamálum liggur ekki hvað síst í því hversu ólýðræðislegt allt ferlið var. Það blasti við öllum hversu freklega Alþingi gekk erinda sérhagsmunaaflanna – gegn almenningi á Íslandi.

            Lausnin er ekki að segja sem svo að „nóg sé búið að ræða málið“ og að finna verði „millileið“. Að flokka gagnrýni á stjórnmálamenn sem „hatursorðræðu“ er heldur engin lausn [og hvar eiga þá þau mörk að liggja og að mati hverra?]. Lausnin er sú að bera umdeildar, fyrirhugaðar ákvarðanir undir þjóðaratkvæði! Það er lýðræðislegasta aðferð sem hægt er að finna til þess að skera úr ágreiningnum. Mun það skilja eftir hópa með og á móti?

            Svar: ekkert frekar en í öðrum málum sem kosið er um! Almennt sættir fólk sig við niðurstöður sem fengnar eru með því að leiða vilja þjóðarinnar í ljós, annað væri líka óeðlilegt. Deilan hér snýst hins vegar um það að sá sami þjóðarvilji var kæfður af hálfu Alþingis – fékk aldrei að koma fram. Það má kalla valdníðslu og í raun ofbeldi meirihluta þingsins.

            Þó mátti öllum ljóst vera að djúp gjá væri á milli þings og þjóðar í málinu. En einmitt þess vegna hræddist þingið þjóðarviljann og barði hann niður með ofbeldi. Það er sannleikur málsins. Þingið gat samþykkt þingsályktun eða sett sérstök lög um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og bundið sjálft sig[i] til þess að hlíta niðurstöðunni. Löggjafarvaldið er á Alþingi. Til framtíðar er þó heppilegra fyrirkomulag að binda í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur eins og hér um ræðir.

            Núverandi valdaflokkar munu ekki breyta þessu. Þeir vilja sjálfir hafa völdin og kæra sig ekkert um að almenningur sé að skipta sér af málum sem „hann hefur ekkert vit á“ [að mati valdaklíkunnar].

Hvar á að byrja?

            Byrjunin er að losna við sem flesta svokallaða „atvinnustjórnmálamenn“. Menn eiga að hætta á Alþingi áður en bera verður þá út á líkbörum, eftir áratuga setu á þinginu. Fátt er óheilbrigðara en löng seta á Alþingi. Löng þingseta gerir menn ekki einungis geðvonda og viðskotailla heldur einnig gerspillta. Spillingin verður hluti af persónuleika manna – þeir hugsa á forsendum spillingar.

            Til þess að hægt sé að breyta núverandi fyrirkomulagi - leggja af prófkjör og uppstillingar - þarf algerlega nýtt Alþingi. Jafnvel þarf að ganga svo langt að sótthreinsa (dauðhreinsa) sjálft Alþingishúsið að innan áður en nýtt fólk kemur þar inn fyrir dyr. Það er nauðsynlegt til þess að eyða anda spillingar og andlýðræðis sem svo lengi hefur loðað við húsið. Þessu má að hluta líkja við aðgerðir gegn riðuveiki þar sem grípa verður til fjölþættra aðgerða til þess að vinna bug á prótíni sem kallast príon[ii] og veldur riðuveikinni. „Niðurskurðurinn“ er þó engan veginn sambærilegur. Kjósendur sjá um hann - við kjörborðið.

            Í næstu Alþingiskosningum geta kjósendur breytt miklu. Þeir geta kosið burt fólk valdaflokka sem lítur á stjórnmál sem persónulegan frama en ekki þjónustu við almenning. „Áhættan“ er öll í plús fyrir kjósendur. Þeir vita, oft af langri reynslu, hvernig ákveðnir flokkar og fólk hefur gengið bak orða sinn. Það getur ekki versnað – einungis batnað. Til þess þarf þó að endurnýja algerlega eins og komið er fram [og dauðhreinsa þinghúsið]. Þegar því takmarki er náð má síðan ráðast í lýðræðisumbætur, beint lýðræði og fleira.

            Málamynda stjórnarskrárbreytingar, þar sem hrært er saman löggjafar- og dómsvaldi með því að fá „héraðsdómara“ (sem sjálfur hefði átt að vísa verkinu frá sér vegna stöðu sinnar) til þess að hanna „breytingar“ sem engu skipta í raun sýnir vel hvernig þetta virkar. Fólk í núverandi stjórnarflokkum vill ekki og mun ekki breyta neinu sem lýtur að beinu lýðræði og virkri þjóðareign auðlinda. Það er einmitt á þingi til þess að tryggja að fyrirkomulagið haldist óbreytt!

            Að kjósa með spillingu og auðlindaráni, í von um að geta sjálfur/sjálf orðið hluti af spillingunni og fá aðild í auðlindaráninu, er afar vond „hugmyndafræði“. Meðvirknin verður að víkja fyrir upplýsingu, innsæi og heilbrigðri skynsemi. Næstu kosningar geta breytt til batnaðar ef vilji kjósenda stendur til þess. Forðumst „gamalt vín á nýjum belgjum“ og „nýtt vín á gömlum belgjum“. Forðumst „vín“ yfirleitt – kjósum með fullri rænu. Látum ekki stela lýðræðinu fyrir framan augun á okkur! Góðar stundir.

[i]      Sjá enn fremur: Kjartansson, K., 2014. Þingmenn geta bundið sjálfa sig. Fréttablaðið, [online] Available at: <https://www.visir.is/g/2014140309437> [Accessed 8 February 2021].

[ii]    Sjá afar gott yfirlit: Sigurður Sigurðarson. „Hvað er riðuveiki í sauðfé?“ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2003. Sótt 8. febrúar 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=3628