Fara í efni

NOKKUR ATRIÐI SEM ÞINGMENN ÆTTU AÐ VELTA ALVARLEGA FYRIR SÉR - ORKUPAKKI 3

            Eins og mörgum er kunnugt er fyrirhuguð atkvæðagreiðsla um þriðja orkupakkann næstkomandi mánudag. Eftir að hafa horft á umræður frá Alþingi, nú í kvöld, er ljóst að of margir þingmenn eru alveg úti að aka í umræðunni og virðast ekki gera sér nokkra grein fyrir því hvað þar er um að ræða. Talsmenn Pírata eru t.a.m. í „stjarnfræðilegri“ fjarlægð frá inntaki málsins [fastir í sínu fari]. Sama á við um talsmenn VG sem greinilega eru í afneitun og hvorki geta né vilja skilja heildarsamhengi hlutanna. Það á einnig við um flesta talsmenn Sjálfstæðisflokksins og framsóknar.

            Þar er gjarnan vísað í algerlega gagnslaus „álit“ „steypuprófessora“, „lagadeildarsósenta“ og „dómara“. Öll eiga þessi álit sammerkt að draga taum valdsins og fylgja valdinu. Þau eru ekki pappírsins virði að innihaldi. M.a. er rætt um það hvort það brjóti gegn íslensku stjórnarskránni að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara sem er forsenda innleiðingar þriðja orkupakkans í íslenskan rétt.

            Það mál er hægt að afgreiða í mun styttra máli en málalengingum á 40 blaðsíðum. Þar skiptir svar við einni spurningu öllu máli. Spurningin er þessi: heimilar íslenska stjórnarskráin framsal fullveldis (ríkisvalds) til erlendra stofnana? Svarið er auðvitað: nei, hún heimilar það ekki.

            Það er ekkert ákvæði í stjórnarskránni sem heimilar það. Það átti að sjálfsögðu einnig við um upptöku EES-samningsins í íslenskan rétt árið 1993. Sá gerningur var stjórnarskrárbrot. Þeirri staðreynd verður ekki breytt eftir á með málalengingum og æfingum í 40 blaðsíðna „áliti“. Þar með er og ljóst, að allt frekara afsal verður heldur ekki rökstutt á þeim grundvelli að stjórnarskráin hafi verið brotin áður. Það er merkingarleysa. Þetta er stutta svarið við álitaefninu um stjórnarskrána. Þess má geta að t.d. í þýsku stjórnarskránni, 24. gr. er ákvæði um framsal fullveldis, með lögum, til alþjóðastofnana.

            Bjarni Benediktsson vék að einu atriði sem vert er umfjöllunar, og er nauðsynlegt að ræða, enda snýr það að EES-samingnum sem slíkum. Atriðið fjallar um það hvernig EFTA-ríkin verði að „tala einum rómi“ og þar af leiðandi hafi afstaða eins EFTA-ríkis áhrif á hin EFTA-ríkin. Þetta er umræðuhæft og ætti raunar að ræða miklu oftar. Því er hins vegar til að svara, að það er mjög umhugsunarvert hvernig ákvæði samninga, almennt, eiga að geta virkað ef beitingu þeirra fylgir „ótti“ um að samningurinn sé í uppnámi í kjölfarið. Þá er ákvæðið í raun óvirkt. Efndir samninga sem byggja á „ótta“ eru mjög á skjön við grundvallarreglur í samningsrétti (nægir að nefna samningarétt nágrannaríkja í því sambandi). Samningsfrelsið byggir á því að aðilar samninga séu ekki undir þvingun eða ótta við samningagerðina og séu frjálsir að því að binda sig við samninga. Samningar skulu byggjast á gagnkvæmu samkomulagi og frjálsu vali aðila. Utanaðkomandi þrýstingur er andstæður samningsfrelsinu. Samningsaðilar skulu einungis bundnir af þeim atriðum sem fallist er á af fúsum og frjálsum vilja.

            Því má bæta við þetta, að í lögum alþjóða viðskiptastofnunarinnar [GATT-samningunum, DSU] eru ítarleg ákvæði um það hvernig leysa skuli deilur milli samningsríkja (dispute settlement). Á þau ákvæði hefur oft reynt og þykir ekki tiltökumál.[i] Frá árinu 1995 hafa 500 deilumál komið til kasta alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) og meira en 350 úrskurðir verðir kveðnir upp.[ii]

            Í þessu ljósi er það í besta falli „sérkennilegt“ ef beiting einstakra ákvæða EES-samnings hefur það mögulega í för með sér að samningurinn sjálfur sé í uppnámi. Ákvæði um það hvernig skuli leysa ágreiningsmál eru skrifuð inn í EES-samninginn. Um það er ekki deilt. Þeim ákvæðum á að beita, án þess að einhver „ótti“ um afdrif samningsins sjálfs eigi að fylgja beitingu þeirra. Ef svo væri, í raun, þá er samningurinn hvort eð er ekki gerður á eðlilegum forsendum og þá hefur farið fé betra. Almennt á ótti ekki að vera drifkraftur samninga og efnda á þeim.

Fullveldisafsal getur aldrei merkt styrkingu fullveldis

            Því var m.a. haldið fram af einum fulltrúa VG á þingi að afsal á fullveldis (EES) fæli í sér styrkingu á fullveldinu. Þarna birtist enn og aftur rökleysan sem t.d. hefur heyrst frá sumum fulltrúum Samfylkingar að það að „deila fullveldi“ merki sterkara fullveldi sömu ríkja, hvers um sig. Þá var því einnig haldið fram að ríki sem afsalar sér hluta fullveldis sé áfram fullvalda.

            Hvort tveggja er auðvitað rangt og auðhrakið í tiltölulega stuttu máli. Skoðum fyrst skilgreiningu á hugtakinu fullveldi: hugtakið má skilgreina þannig að það innihaldi hið æðsta og algera vald sem sjálfstætt ríki lýtur og sem allt pólitískt vald byggir á; sjálfstæði þjóðar og vald til þess að stjórna innri málum án erlendra afskipta.

            Fullveldi er vald ríkis til að gera allt sem þarf til að ríkinu verði stjórnað, svo sem að setja, framfylgja og beita lögum; leggja á og innheimta skatta; ákveða stríð og frið; gera sáttmála eða eiga viðskipti við erlendar þjóðir.[iii]

            Orkupakka 3 má síðan máta inn í skilgreininguna og kanna hvernig þetta tvennt, fullveldi og orkupakki, fellur saman. Í stuttu máli má segja að það tvennt falli engan veginn saman. Reglugerðir og tilskipanir orkupakka 3 ganga þvert á nefnda skilgreiningu á fullveldi. Þær skerða „vald til þess að stjórna innri málum án erlendra afskipta“, það vald á sviði orkumála færist til evrópskra stofnana. Þær [reglugerðir, tilskipanir] skerða vald íslenska ríkisins til þess að „...setja, framfylgja og beita lögum“ í sama málaflokki, enda gilda ákvæði Evrópuréttarins ef upp koma árekstrar á milli landsréttar og Evrópuréttar [supremacy of EU law]. Það þarf ekkert „keypt álit“ upp á 40 blaðsíður til þess að sjá það. Þetta hefur lengi legið fyrir í Evrópurétti. Eða allt frá árinu 1964, í máli nr. 6/64 Flamino Costa v ENEL.

            Því má bæta við þetta, að ef Ísland væri nú þegar aðili að ESB þá mætti sleppa þarna enn öðru atriði; nefnilega valdinu til þess að gera samninga við önnur ríki. Um þau atriði er fjallað í bálki V í Lissabon-sáttmálanum [TFEU] í gr. 216-219. Þar kemur skýrt fram í 216. gr. að ESB [The Union] gerir samninga við þriðju ríki (ríki utan ESB) eða alþjóðlegar stofnanir. Slíkir samningar eru bindandi fyrir stofnanir ESB og aðildarríki þess sbr. 2. mgr. 216. gr.

            Í þessu felst að aðildarríki ESB hafa ekki sjálfstætt vald til þess að gera samninga við þriðju ríki [Indland, Kína, ...]. Vald til slíkrar samingagerðar er framselt til ESB. Er það skerðing á fullveldi sömu aðildarríkja? Já, að sjálfsögðu. Nægir að skoða skilgreininguna hér að framan. Þá liggur það í augum uppi. Er hægt að „blaðra sig“ frá þeirri staðreynd í 40 síðna „áliti“? Svar: menn geta reynt en það breytir engu um staðreyndir máls. Alþjóðasamvinna þarf ekki að fela í sér framsal fullveldis (ríkisvalds). Nægir þar að nefna fjölmörg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.[iv] 

            Hvað snertir framsal ríkja á fullveldi þá þarf ekki að fara mörgum orðum um þá staðreynd að sama ríki heldur að sjálfsögðu þeim hluta fullveldis sem ekki hefur verið framseldur til erlendrar stofnunar. Viðkomandi ríki hefur þannig skertan fullveldisrétt eftir framsalið, hversu mikið fer auðvitað eftir atvikum.

            Með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES) var framseldur [ranglega] ákveðinn hluti fullveldis (ríkisvalds). Fyrir því var engin lagastoð í stjórnarskrá eins og komið er fram. Þau mistök verða hins vegar ekki leiðrétt með því að halda áfram á sömu braut, án lagastoðar. Það er meiriháttar rökvilla. Umrætt framsal tekur m.a. til frjáls flæðis vara (free movement of goods). Engar hömlur virðast í raun vera á fullveldisframsali, almennt. Enda er stjórnarskráin höfð að engu og því engar stjórnskipulegar hömlur til staðar á framsali. Nú á enn að bæta um betur með innleiðingu þriðja orkupakkans. Aftur á að framselja hluta fullveldis án lagastoðar í stjórnarskrá, til evrópskra stofnana. Beitt er „skapandi lögskýringum“ og framsal hluta fullveldis sagt jafngilda styrkingu fullveldis. Það er enn ein afbökunin í þessu mikla klúðri sem fyrirhuguð innleiðing þriðja orkupakkans er. Fengið er „já-fólk“ sem setur fram lagatúlkanir sem virðast eiga rætur á öðrum hnöttum.

            Komi menn með rétt rök [eins og Arnar Þór Jónsson] sem hrekja alla vitleysuna bregðast fulltrúar valdsins í þingnefndum við með dónaskap. Enda kom vel í ljós í dag að þeir sömu þingmenn hafa engin málefnaleg rök – hvorki skilja málin né skynja sinn eigin vitjunartíma. Eru alveg úti á þekju – bókstaflega. Um það má segja, að „oft er viss í sinni sök sá, er ekkert skilur.“

            Kjósendur hljóta að vera alvarlega hugsi yfir því hvernig sumt fólk getur endað inn á löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Eitt er að gæta hagsmuna fjárglæframanna, annað að skilja hvorki upp né niður í þeim málum sem um ræðir. En þótt fólki hafi ekki ásetning um slíka hagsmunagæslu [fyrir fjárglæframenn] þá veldur þekkingarleysið og skilningsleysið því oft að sú verður niðurstaðan. Það er verulega slæmt. Sumt af þessu fólki telur alveg nóg að ræða „smámál“, eins og opnun fyrir braskara inn í auðlindir þjóðarinnar, í fjóra og hálfa klukkustund, enda hafi Norðmenn látið það nægja!

            Það má fullyrða að fjölmargt fólk í þjóðfélaginu, utan þingsins, hefur miklum mun betri skilning og þekkingu á orkumálum þjóðarinnar en sumir þingmenn sem telja sjálfa sig bærasta til þess að taka ákvarðanir um þau. Enginn vafi á því. Grunnreglan við ákvarðanatöku ætti ætíð að vera eftirfarandi: leiki minnsti vafi á lögmæti, eðli eða afleiðingum gerða, skal fara mjög varlega og alls ekki láta embættismenn og hagsmunaaðila ráða för. Þjóðin hefur ekki kosið þá til verksins.

Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna kemur ekki til álita

            Það er alveg ljóst af umræðu þessa dagana á Alþingi að stjórnarþingmenn sem styðja þriðja orkupakkann hafa ekkert kynnst sér raunverulegt innihald pakkans og afleiðingar hans. Segjast ekki nenna að ræða málið, „að ekkert nýtt hafi komið fram“. Allt er þetta á sömu bókina lært. Sá sem ekkert sér og sá sem ekkert skilur, sér auðvitað „ekkert nýtt“. Ari Trausti Guðmundsson er einn þeirra manna sem er alveg úti að aka í málinu.

            Hann vitnaði í ræðu sinni í „steypuprófessorinn“ við Háskólann í Reykjavík sem stendur í þeirri barnalegu trú að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gangi framar Evrópurétti sem hann gerir að sjálfsögðu ekki! Eins og áður hefur komið fram þá er alþjóðaréttur réttarheimild í Evrópurétti. En alþjóðaréttur stendur neðar að vægi en frumlöggjöf (primary law) Evrópusambandsins. Þannig að það er algerlega ljóst og hafið yfir allan lögfræðilegan vafa að Evrópusáttmálarnir og regluverk ESB er ráðandi.[v] Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins sést þetta mjög glögglega.

            Menn verða að reyna að skilja það að alþjóðakerfið er veikt í samanburði við lagakerfi Evrópusambandsins. Ágætur japanskur prófessor í lögum, og doktor í alþjóðarétti, orðaði þetta þannig við greinarhöfund að jafnvel alþjóðleg mannréttindi hefðu lítið vægi í kerfi Sameinuðu þjóðanna, sökum þess hve kerfið allt og eftirfylgni væru veikburða. Helsta undantekningin í alþjóðakerfinu er Evrópuráðið. Undir það heyra mannréttindasáttmáli Evrópu og Mannréttindadómstóll Evrópu [ekki hluti af ESB].

            Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hefur t.a.m. fyrst og fremst „sannfæringargildi“ [persuasive authority], ekkert lagagildi. Virkni mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna byggist á skýrslugjöf ríkjanna, um það hvernig þau hafi uppfyllt ákvæði þeirra. Þannig að mannréttindakerfi Evrópuráðsins er almennt talið mun öflugra en mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna. Um virkni ákveðins réttar er t.a.m. horft til þess hvort til staðar er dómstóll á viðkomandi sviði. Í tilfelli hafréttarsáttmálans er svarið já. Þar er til staðar Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna.

            Kemur þá að mikilvægu atriði. Sá dómstóll hefur enga lögsögu í málefnum innri markaðar Evrópu! Fari menn í gegnum dóma Evrópudómstólsins sjá þeir fljótlega að dómstóllinn vísar stundum til alþjóðaréttar en hann telur sig ekki bundinn af honum og beitir t.d. ekki ákvæðum Vínarsamningsins[vi] við túlkun í Evrópurétti. Eru þá enn ótaldir ad hoc dómstólar Sameinuðu þjóðanna á sviði stríðsglæpa. En það svið fellur undir alþjóðlegan refsirétt (International criminal law). Þar er um að ræða dómstóla sem stofnaðir hafa verið vegna stríðsglæpa[vii] í ákveðnum ríkjum [International Criminal Tribunal for Rwanda, International Criminal Tribunal for the Former Yugoslavia (ICTY)]. Eins og menn þekkja úr fréttum, hafa menn verið handteknir og yfir þeim réttað fyrir nefndum dómstólum. En þannig eftirfylgni er ekki reglan í alþjóðakerfinu.

Evrópurétturinn er algerlega ráðandi

            Vínarsamningurinn[viii] frá 1969 hefur nákvæmlega ekkert vægi í þessu samhengi. Alþjóðasamningar eru ekki þýðingarmikil réttarheimild í Evrópurétti þótt stundum sé vísað til þeirra í dómum Evrópudómstólsins. Sama er að segja um hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur lítið raunverulegt vægi í lagakerfi ESB. Þá benda rannsóknir til þess að Evrópurétti verði beitt í efnahagslögsögu aðildarríkjanna[ix] (og EFTA-ríkja). Sumir menn virðast ekki skilja það að eftir innleiðingu þriðja orkupakkans er vald íslenska ríkisins í málaflokknum stórlega skert og sú þróun mun halda áfram verði fjórði orkupakkinn innleiddur.

            Það sem Miðflokksmenn segja um fáránleika þess að hægt sé að innleiða regluverk ESB, en þurfa samt ekki að framfylgja því, er rétt. Það er sannarlega „hliðarveruleiki, svo vísað sé í orð þingmanns VG sem er einn margra annara þingmanna sem augljóslega hafa ekki hugmynd um hvað þeir ætla að samþykkja. Það sem liggur alveg ljóst fyrir er það að stuðningsmenn þriðja orkupakkans lifa í „hliðarveruleika“ miðað við veruleika meirihluta þjóðarinnar. Það er einmitt meginástæða þess að sama fólk ætti allt að hverfa af þingi sem allra fyrst. Að því væri lítil eftirsjá.

            Í stefnumarkandi máli Evrópudómstólsins nr. 26/62 Van Gend & Loos varð niðurstaðan sú að einstakar lagagreinar Rómarsáttmálans gætu haft það sem kallast á lagamáli „bein réttaráhrif“ (direct effect). Það merkir að einstaklingar og lögaðilar geta sótt rétt og beitt ákveðnum greinum sáttmálans (eftir nánari skilyrðum þess að lagagrein geti haft bein réttaráhrif) fyrir dómstólum heimaríkja. Hið sama getur og átt við um tilskipanir [sbr. mál Van Duyn v Home Office]. Frumforsendan er sú að Evrópuréttur sé sérstakt lagakerfi, sérstakrar gerðar (sui generis).

            Í dómi Evrópudómstólsins C-61/94 Commission v. Germany, kemur m.a. fram að afleidda löggjöf ESB (secondary law) skuli, eftir því sem hægt er, túlka í samræmi við ákvæði alþjóðasáttmála. Samt sem áður, Evrópudómstóllinn hefur þetta á valdi sínu. Honum verður ekki skipað fyrir verkum um það hvort og hvernig hann túlkar alþjóðasamninga.

            Tvö mál er vert að skoða í þessu samhengi. Það eru mál Evrópudómstólsins C-103/12 og C-165/12, European Parliament and Commission v. Council („Venezuelan Fishers“).[x] Málin snérust um ákvörðun Ráðsins (the Council) um að heimila skipum frá Venesúela veiðar í efnahagslögsögu Frönsku Gvæana (Guyane française). Í framhaldinu sendi ESB út yfirlýsingu sem beint var til Venesúela, þar sem erfiðlega hafði gengið að gera tvíhliða samning við Venesúela um veiðirétt. Þá vaknaði sú spurning hvort ætti að gilda; gr. 62(2) í hafréttarsáttmálanum (UNCLOS) eða, 6. mg. 218. gr. Lissabon-sáttmálans (TFEU). Evrópudómstóllinn tók þá afstöðu, í samræmi við afstöðu framkvæmdastjórnar ESB, að 218. gr. ætti að gilda. Þetta styður enn og aftur það sem áður hefur verið haldið fram í fyrri skrifum, að Evrópudómstóllinn fer „eigin leiðir“ og telur sig „hóflega bundinn“ af alþjóðarétti. Hann beitir fyrst og fremst Evrópuréttinum sjálfum.

Nokkur mikilvæg atriði að lokum

            Tal þingmanna, t.d nú í kvöld um gildi Vínarsamingsins frá 1969, um túlkun alþjóðasaminga, virðist byggjast á rangri „heimsmynd“ „steypuprófessors“ við Háskólann í Reykjavík. Það á t.a.m. við um þá þingmenn framsóknar sem rætt hafa málið. Einungis einn þingmaður Pírata virðist skilja hvað orkupakki 3 snýst raunverulega um og heildarsamhengi hans. Þar er átt við Jón Þór Ólafsson. Aðrir Píratar eru staddir á „annari plánetu“ í málinu. Það á og við um forsætisráðherra og flesta í hennar flokki sem og þingmenn Viðreisnar.

            Hvar nákvæmlega orsakir þessa er að finna verður ósagt látið að sinni. Sjálfhverfa og dómgreindarskortur eiga þar vafalaust hlut að máli. Engin neytendavernd felst í þriðja orkupakkanum, innleiðing hans mun þvert á móti hafa í för með sér miklu hærra raforkuverð fyrir Íslendinga, enda mun raforkuverðið ráðast af raforkuverði í Evrópu. Eftir innleiðingu pakkans er það einungis tímaspursmál að leggja sæstreng og innsigla þannig aðildina að sameiginlegum orkumarkaði Evrópu.

            Varðandi völd „landsreglara“ er það að segja að Orkustofnun mun hafa embættið á sinni könnu. Hann starfar að sjálfsögðu í umboði ACER, með milligöngu ESA gagnvart EFTA-ríkjunum. ACER leggur línurnar. EFTA er ekki sjálfstætt lagakerfi, það er hluti Evrópuréttar og ber að fylgja honum. Sumir halda því fram að íslensk lög muni ráða framhaldinu, lagningu sæstrengs og fleiri atriðum. Þá virðist mönnum sjást yfir það að evrópska valdið og lagaverkið mun ráða ferðinni. Eins og sumir hafa réttilega sagt, einkaaðilar munu „sprengja sér leið“ inn á íslenskan orkumarkað með MÁLAFERLUM ef á þarf að halda. Þá verður gott fyrir sömu aðila að hafa bakland þriðja orkupakkans.

            Það verður að segjast að af ræðum, í gær og kvöld, bar ræða Brynjars Níelssonar af mörgum öðrum. Hann sýndi að hann skilur þýðingu rökræðunnar! Greinarhöfundur er ekki efnislega sammála öllu sem fram kom hjá Brynjari en virðir nálgun hans og framsetningu sem góðra gjalda verðar. Brynjar vék m.a. að mjög mikilvægu atriði, nefnilega IV. viðaukanum við EES-samninginn og nauðsyn þess að ræða hann sem slíkan. Brynjar segir það sína skoðun, sem fulltrúi Íslands innan sameiginlegu EES-nefndarinnar, að ESS samningurinn verði í uppnámi verði þriðja orkupakkanum vísað aftur inn í nefndina, enda liggi niðurstaðan úr nefndinni fyrir. Þá verður aftur að vísa til þess sem hér var sagt að framan, um eðli samninga sem stjórnast af „ótta“. Svo virðist sem sumir þingmenn hafi einfaldlega „selt sannfæringu sína“ [og undanskil þá Brynjar] til þess að halda ríkisstjórninni saman. Þeir virðast hafa myndað bandalag gegn þjóðinni, um hagsmuni sem ganga gegn hagsmunum hennar. Vont er að horfa upp á það.

[i]      Sjá t.d.: Dispute Settlement Body. https://www.wto.org/english/tratop_e/dispu_e/dispu_body_e.htm

[ii]    Dispute settlement. https://www.wto.org/english/tratop_e/dispu_e/dispu_e.htm

[iii]   Sjá t.d.: Sovereignty. https://legal-dictionary.thefreedictionary.com/sovereignty

[iv]    Sjá einnig: Definition of an independent state. https://www.nationsonline.org/oneworld/states.htm

[v]     Sjá grein höfundar frá 3. ágúst um sama mál: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/kari-skrifar-thunn-og-sjoblondud-steypa-professors-thridji-orkupakkinn

[vi]    Ibid.

[vii]  Sjá t.d.: https://research.un.org/en/docs/law/courts

[viii] Sjá grein höfundar frá 3. ágúst um sama mál: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/kari-skrifar-thunn-og-sjoblondud-steypa-professors-thridji-orkupakkinn

[ix]    Ibid.

[x]     Affaires jointes C-103/12 et C-165/12. Parlement européen (C-103/12) et Commission européenne (C-165/12) contre Conseil de l’Union européenne. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/FR/TXT/HTML/?uri=CELEX:62012CC0103&from=EN