ORKUSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSINS OG SNJALLMÆLAVÆÐINGIN
Í síðustu grein, frá 26. júní 2022, var vakin á því athygli hversu fráleitt það er fyrir ríki sem er ótengt innri orkumarkaði Evrópu að taka upp orkustefnu Evrópusambandsins [ESB] og samræma innlenda löggjöf við hana. Í stuttu máli má segja að orkustefna ESB gangi út á braskvæðingu innviðanna og að færa eignir almennings til braskara. Krafa sambandsins um útboð á virkjunarleyfum er skýrt dæmi um það. Við það má bæta braski með upprunaábyrgðir og losunarheimildir.
Mikilvægur angi af braskinu er snjallmælavæðingin sem svo er kölluð. En slík tæki gera fært að mæla rafmagnsnotkun í rauntíma og senda upplýsingar um notkun beint til rafveitna. Það kann að líta vel út á yfirborðinu fyrir suma notendur rafmagns en annað hangir þó á spýtunni en „umhyggja“ fyrir notendum [„neytendum“]. Mælarnir gagnast fyrst og fremst seljendum en ekki kaupendum. Þeir eru kynntir eins og um „eðlilegar framfarir“ sé að ræða – séu í takti við þróun stafrænnar tækni og tölvuvæðingar almennt.
Með snjallmælum eru notendur ruglaðir í ríminu (ekki er það í samræmi við neytendarétt) enda sveiflast verðin oft hratt, einkum upp en hægar niður (sbr. Bretland). Alltof lítið hefur verið fjallað um snjallmælavæðingu í þjóðfélagsumræðunni – þar sem tekin er gagnrýnin afstaða – heldur gerist þetta á „sjálfstýringu“. Það er ævinlega versta aðferðafræði sem hugsast getur. Sú besta er að taka ákvörðun að vandlega athuguðu máli, með fullri aðkomu fjölda fólks og eftir atvikum stjórnenda fyrirtækja. Ákvörðun er þá niðurstaða af opinni og ítarlegri rannsókn máls (stundum kallað „lýðræði“).
„Sjálfstýringin“ kemur ekki á óvart. Umræða um innleiðingu orkupakka þrjú var í skötulíki hjá stjórnvöldum (villandi málflutningur og rangur) og snjallmælar eru hluti af þeim pakka. Þessi grein verður að mestu einskorðuð við snjallmælavæðinguna sjálfa og þar rýnt í erlendar rannsóknir á því hver árangurinn er af fyrirkomulaginu.
Hvað má ráða af rannsóknum?
Í nóvember árið 2017 var birt rannsókn í tímaritinu Orka og umhverfi [Energy & Environment] á snjallmælum heimila á Írlandi. Í úrdrætti rannsóknarinnar segir m.a. að greinin fjalli „... um raforkunotkun í löndum ESB og snjallmæla sem njóta vaxandi vinsælda og eru mikið notaðir af heimilum og fyrirtækjum til að mæla orkunotkun og hjálpa til við að lækka orkukostnað.“[i] Stuðst var við opinber gögn sem safnað var á árunum 2009–2011. Beitt var aðferðum tölfræðinnar, m.a. dreifigreiningu [analysis of variance; ANOVA] við úrvinnslu gagnanna. Niðurstöður voru í stuttu máli þær að miðað við þáverandi aðstæður benti ýmislegt til þess að meirihluti almennra notenda létu snjallmæla sér óviðkomandi.
Það er helst talið stafa af því að kostnaður við uppsetningu og rekstur snjallmælanna verði meiri í huga margra notenda en ávinningurinn af mælunum. Afleiðingin verður þá sú að flestir notendur láta sig mælana engu skipta. Bent er á það að snjallmælar hafi almennt ekkert sérstakt aðdráttarafl fyrir notendur. Ekki nægi að höfða til „sparnaðar“ og „umhverfisvitundar“. Meira þurfi til að kerfi sem þetta geti virkað, þ.e. beinan fjárhagslegan ávinning af frumkvæði notenda [sbr. hugtakið pro-active prosumers].
Þessar niðurstöður eru mjög í samræmi við það sem áður hefur komið fram og rætt á þessu vefsvæði. Rannsóknir í Bandaríkjunum og Bretlandi vísa t.a.m. mjög í sömu átt. Ávinningur af snjallmælum, umfram aðra stafræna mæla, sýnist því í besta falli lítill fyrir notendur. Öllum kostnaði t.d. vegna mæla er velt yfir á notendur sem greiða fyrir bruðlið í hærra orkuverði. Skoðum því næst aðra rannsókn.
Árið 2019 birtist grein um snjallmæla í Frakklandi, eftir konu að nafni Aude Danieli[ii]. Í inngangi greinarinnar segir m.a.: „Rafmagnsmælar skilgreina og sýna viðskiptatengsl á milli viðskiptavina og orkuveitenda[iii] og gegna mikilvægu hlutverki við útreikninga og greiðslur. Hingað til eru mjög fáar rannsóknir á hlutverki mæla í þessu sambandi. Rannsóknir í tæknisögu sýna að vatns- og rafmagnsmælar, sem þróaðir voru seint á nítjándu öld, voru hannaðir til að ákvarða notkun, eins nákvæmlega og hægt er, og til þess að hamla gegn misferli.“[iv]
Tilkoma snjallmæla tengist nýjum hugmyndum um hlutverk mælinga sem aftur tengjast opnun orkumarkaða. Þannig fá mælar margvísleg önnur hlutverk. Þar kemur stafræna tæknin enn til sögunnar. Frá árinu 2005, og æ síðan, hefur verið rætt um snjallmæla í Frakklandi [þyrfti ekki að ræða þetta meira á Íslandi?] og áætlað að setja upp 35 milljónir slíkra mæla á næstu tíu árum [frá 2019].[v]
Frá sjónarhóli veitandans eru snjallmælar sífellt gagnlegri tæki til að draga úr munnlegum og skriflegum kvörtunum og til að tryggja að reikningar séu greiddir. Rétt stjórnun mælis og höfuðrofa [circuit breaker] er mikilvæg til að ná þessum markmiðum. Þau hafa hins vegar lítið sem ekkert með að gera markmiðin um að móta skynsaman og móttækilegan notanda [neytanda].
Greining Danieli á tilraunum með snjallmæla (2010–2015) leiðir til tveggja niðurstaðna. Í fyrsta lagi að tilraunir hönnunarverkfræðinga og fulltrúa neytenda (stéttarfélaga, orkusamtaka, o.fl.) til þess að endurskilgreina virkni rafmagnsmæla hafa skilað takmörkuðum árangri. Eftir því sem skoðað er nánar samband veitna og viðskiptavina kemur æ betur í ljós að þeir sem reka rafmagnsveitur líta á snjallmæla sem tæki sem þjónar þeim, til þess að hafa betri sýn á viðskiptavini, en síður sem tæki sem gagnast geti „neytendum“ til þess að stýra notkun sinni.
Í öðru lagi bendir greining Danieli til þess að þrátt fyrir opinbera umræðu [official rhetoric] séu snjallmælar fyrst og fremst mikilvægir sem tæki til þess að stýra og stjórna samningum, s.s. til þess að aftengja notendur, uppgötva misferli, fylgjast með búnaði og halda erfiðum viðskiptavinum í ákveðinni fjarlægð frá þeim sem reka rafveiturnar [menn þekkja stofnanir á Íslandi þar sem aldrei næst í nokkurn mann og enginn er ábyrgur fyrir einu né neinu. Ísland er greinilega á „réttri braut“].
Séð í þessu ljósi auka snjallmælar fjarlægðina á milli viðskiptavina (notenda) og rafveitnanna. Viðmót mælisins er orðið algert aukaatriði enda mælarnir „fjarstýrðir“ og gera m.a. kleift að takmarka framboð.[vi]
Það sem þarna er lýst er í raun hert tök seljanda á kaupanda. Seljanda er falið meira vald yfir kaupanda. Aðgangur þriðja aðila að upplýsingum sem fengnar eru með snjallmælum eru síðan atriði sem þarf að skoða sérstaklega. Þar hefur Hæstiréttur Spánar komist að þeirri niðurstöðu, samkvæmt evrópskum persónuverndarrétti, í málinu 12/07/2019, Iberdrola Distribucion Electrice v. Red Electrica de Espana, að gögn sem aflað er með snjallmælum séu persónugögn.[vii]
Þessi þróun er í samræmi við margt annað. Má þar nefna upplýsingar um neysluhegðun fólks í gegnum greiðslukort. Greiðslukort [hvað þá „app“] er ekki einungis tæki til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu, kortið er einnig staðsetningartæki (hvar og hvenær fólk verslar) fyrir hversu háar upphæðir o.s.frv. Greiði fólk ekki reikninginn á tilætluðum tíma lokast kortin sjálfkrafa [nema áður hafi verið samið]. Áþekku kerfi er komið á með snjallmælum. Með rafrænu kerfi sem stjórnað er og stýrt úr fjarlægð (remotely) er hægt að „klippa“ á notandann.[viii] Virðist þægilegt fyrir seljanda raforku en kann að koma illa við kaupendur. Ekki skal gert of mikið út þessum möguleika, enda er það á valdi veitufyrirtækis að rjúfa straum séu reikningar ekki greiddir í tæka tíð, hver sem aðferðin er við straumrofið. Hinu verður varla mótmælt að það er mun hentugra fyrir orkuveitu að rjúfa straum úr fjarlægð en þurfa að senda mann í eigin persónu heim til fólks í sama tilgangi. Ávalt þarf að gæta að lögum gagnvart viðskiptavinum sé gripið til slíkra ráðstafana, senda greiðsluáminningu, og gefa nægan fyrirvara.[ix]
Margir þekkja líka af eigin raun að yfirleitt er auðvelt að opna viðskipti við rafveitur t.d. í Frakklandi. En það getur reynst þrautin þyngri að hætta í viðskiptum. Mikið er lagt upp úr því að hafa enga skrifstofu eða aðgang að aðilum sem geta gert eitthvað í málum. Sími og internet eru gjarnan einu leiðirnar. Símaþjónustan er þannig að bíða verður langtímum saman eftir því að einhver mannvera sjái sér fært að svara.
„Vefþjónustan“ er á hinn bóginn þannig að skrá verður ævisögu sína [helst lengri gerðina] áður en nokkuð er hægt að gera. Allt er þetta mjög stirt í vöfum og afskaplega fráhrindandi á allan hátt. Orðið „þjónusta“ er að minnsta kosti ekki það fyrsta sem kemur í hugann! Að auka fjarlægð og firringu virðist helsti tilgangurinn. Þýska fyrirkomulagið er mun þægilegra að þessu leyti, afgreiðsla opin á skrifstofutíma og þjónustulundað starfsfólk.
Í sænskri rannsókn frá 2016 [Västerås] eru dregin sú ályktun að þótt snjallmælar geri fært að veita viðskiptavinum ítarlegri upplýsingar um eigin orkunotkun og aðgang að samningum um breytileg verð [variable pricing contracts] hafa þessir möguleikar ekki nýst að fullu hjá rafveitunum [distribution system operators] sem aftur merkir að tilætlaður orkusparnaður, vegna aukinnar þekkingar, hefur ekki náðst.[x]
Þegar þess var vænst að 80% notenda í Evrópu hefðu fengið snjallmæla fyrir árið 2022 væri ljóst að meira þyrfti til ef markmiðin ættu að nást. Upplýsingar um notkun og breytileg verð dygðu ekki til þess að ná fram bættri orkunýtni sem mörg ríki hafa stefnt að. Læra verði af reynslu viðskiptavina, þegar tæknin tók að breiðast út í Svíþjóð. Rannsóknin leiðir í ljós að mögulega aukin orkunýtni á heimilum, fyrir tilstilli upplýstra viðskiptavina, og upplýsinga frá snjallmælum, hefur enn ekki komið fram.[xi] Þetta merkir á mannamáli að kerfið virkar ekki eins og lagt var upp með.
Er það ekki annars næsta galin ályktun að telja fólk almennt helst vilja verja tíma sínum í það, oft eftir langan vinnudag, að bera saman síbreytileg verð á rafmagni?! Á það að verða einskonar fjöldskylduleikur [eins og t.d. Útvegsspilið] að foreldrar og börn leiti lægstu rafmagnsverða eftir kvöldmatinn og skiptist á upplýsingum fram að háttatíma?
Hér verða lögð til eftirfarandi nöfn á nýja spilið: „Lægsta verðið“; „Rafmagnsspilið“; „Lokað fyrir rafmagnið“; „Rafveitustjórinn“; „Aldrei sami taxtinn“; „Einokun og einkaframtak“; „Gjaldþrot orkufyrirtækis“; „Almenningur borgar“. Eins og áður hefur komið fram þarf „neytendavænn“ snjallmælir að vera þannig útbúinn að hann leiti sjálfkrafa lægstu verða og skipti ávalt á lægstu verð hverju sinni. Þannig hefðu neytendur að minnsta kosti lágmarksvörn gegn mögulegu okri og svindli seljenda.
Síðan þyrftu notendur að hafa val um að eiga sjálfir rafmagnsmælana. Það væri að nokkru sambærilegt við það þegar internet-fyrirtæki bjóða notendum annað hvort að eiga eða leigja beini [router]. Að sjálfsögðu á fólk einnig að hafa val um að hvort það notar snjallmæli eða ekki. Þannig er það víða. Á heimasíðu Citizens Advice í Bretlandi segir t.d.: „Þú þarft ekki að þiggja snjallmæli ef þú vilt hann ekki. Sé þér tjáð hjá rafveitu að setja verði upp slíkan mæli, hafðu þá samband við hjálparlínu neytenda.“[xii] Á heimasíðu Ofgem [Office of Gas and Electricity Markets] kemur þó fram að „rafveitum ber að setja upp snjallmæli ef:
- skipt er um mæli;
- mælir er settur upp í fyrsta skipti, svo sem í nýrri eign.
Hægt er að hafna tilboði um snjallmæli. Einnig er hægt að óska eftir uppsetningu mælis síðar án þess að greiða fyrir það. Að hafna snjallmæli gæti þýtt minna val úr verðum. Sum „snjallverð“ gætu verið lægri.“[xiii]
Árið 2020 kom út bók eftir Jacopo Torriti, prófessor í orkuhagfræði og stefnumótun, við háskólann í Reading [University of Reading]. Bókin nefnist: Appraising the economics of smart meters: costs and benefits. Gæti útlagst: Mat á hagkvæmni snjallmæla: kostnaður og ávinningur. Þar bendir höfundur m.a. á það að í fræðaheimi orkuhagfræðinnar hafi eftirspurn eftir orku yfirleitt verið tengd lítilli teygni [sbr. Inelasticity of Demand]. Það merkir að þótt verð hækki dregur lítið sem ekkert úr eftirspurn.[xiv]
Það má ljóst vera að snjallmælar einir og sér leiða ekki til minni eftirspurnar rafmagns. En tækin færa notendum og rafveitum upplýsingar um raforkunotkun. Það liggur samt ekki fyrir að hvaða marki snjallmælar, og upplýsingarnar sem þeir veita, nýtast til þess að breyta orkunotkun og álagi í raforkukerfum.[xv]
Sé þetta skoðað í samhengi við raforkumarkaðinn er almennt ekki við því að búast að miklar taxtahækkanir leiðir til minni notkunar. Það hefur m.a. í för með sér að braskarar geta blóðmjólkað almenning sem mun halda áfram að greiða sína reikninga, þrátt fyrir hækkanir. Þessi þróun er fyrirsjáanleg á Íslandi og má „þakka“ (íslenskum) stjórnmálamönnum og orkustefnu ESB. Slagorðið gæti verið: „Orka í boði braskaranna og fulltrúa þeirra á Alþingi!“.
Snjallmælarnir munu reynast gagnslausir, sem vopn í höndum notenda, sem greiða kostnaðinn sem af mælunum hlýst. Fólk er lokkað í gildru, sem lokast eins og skot, og engin leið til baka. „Beitan“ eða „agnið“ er aukin „neytendavernd“ og meiri „samkeppni“. Fólki er talin trú um að það sjálft muni græða á markaðsvæðingu raforkunnar. Allt eru það öfugmæli. Okur, græðgi og fákeppni (einokun) verður afleiðingin, þvert á allan fagurgalann. Skömm þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með þriðja orkupakkanum mun lengi uppi.
Lokaorð
Margir hafa fylgst undanfarin misseri með þróun orkumálanna á meginlandi Evrópu. Miklar verðhækkanir á orku einkenna ástandið. Hækkanirnar ýta undir verðbólgu.
Í skýrslu Deutsche Bank, frá 24. janúar 2022, kemur fram að orkuverð var helsti drifkraftur neysluverðshækkana [consumer price inflation] árið 2021 í Þýskalandi. Nam hækkunin að meðaltali 10.4% sama ár.[xvi] Þá segir í skýrslunni að það versta fyrir heimilin sé líklega enn ekki komið fram, hvað snertir hækkanir á jarðgasi og rafmagni. Árið 2022 geti gas hækkað að meðaltali um 20% og rafmagn um meira en 15%.[xvii]
Snjallmælar eru ein af mörgum birtingarmyndum markaðsvæðingar [og einkavæðingar] á rafmagni og gasi. Með mælunum er leitast við að gera almenna notendur að bröskurum og flækja þá í glæpinn sem aftur beinist gegn notendum sjálfum [rán á eigum almennings]. Notandinn fær að þessu leyti áþekka stöðu og braskari í kauphöll, er ætlað að hafa puttann (bókstaflega) á púlsi raforkumarkaða í gegnum snjalltæki.
Baráttan um orkuna er rétt að byrja, enda þótt forsætisráðherranefnan virtist telja málið útrætt í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú. Um gríðarlegt hagsmunamál almennings er að ræða sem ekki verður drekkt í vinsældarsamkeppni (eða jafnvel „fegurðarsamkeppni“) stjórnmálamanna og fjölmiðla sem þeim fylgja að málum.
Skortur á pólitískum myndugleika er þó ekki séríslenskt vandamál heldur einkennir mjög stjórnmál víða um heim. Kyn og útlit virðist skipta meira máli en innihald og réttar ákvarðanir. Oft mætti halda að tími alvöru stjórnmála og stjórnmálamanna sé liðinn.
Kona sem fer út í búð og verslar hefur þar val t.d. um mismunandi mjólk. Hún getur keypt fituminni mjólk og jafnvel undanrennu – verðið ræðst af því. Með öðrum orðum, það er raunverulegur munur á vörum sem keyptar eru í sama vöruflokki. En á það sama við um „vöruna“ rafmagn? Er ekki rafmagn frá dreifiveitum „sama varan“? Rafmagn til notenda á Íslandi (og Evrópu) er riðstraumur (einfasa og þriggja fasa) nálægt því að vera 225 Volt[xviii] [220 volt, spennumæling greinarhöfundar gefur 235 Volt þegar þessi orð eru skrifuð] og 50 Hz. Þetta er samhæft á raforkunetum [s.s. spenna og tíðni] enda raftæki framleidd í samræmi við þetta. Ef samlíkingin er tekin við mjólkina væri þetta álíka og bjóða sama innihaldið [sömu mjólkina] einungis í mismunandi umbúðum!
Aðdáendur „samkeppni“ á raforkumarkaði myndu vafalaust grípa það hálmstrá að segja framleiðslukostnaðinn[xix] mismunandi. Í fyrsta lagi breytir það engu um kjarna málsins, áfram er um sömu „vöru“ að ræða. Í öðru lagi er munur raforkuverðs á ársgrundvelli, til almennra notenda, oft hverfandi lítill á milli veitna.
En leiðir mismunandi framleiðslukostnaður til þess að um raunhæfa samkeppni geti verið að ræða? Er hann næg ástæða? Þetta skiptir miklu máli vegna þess að ef mismunandi framleiðslukostnaður er óverulegur þáttur í verðmyndun rafmagns er tómt mál að tala um samkeppni í þessu samhengi. Spurningin snýst þá um það hvað þættir geti yfirleitt réttlætt það að raforkuframleiðsla sé gerð að viðfangi braskara.
Hér verður því hiklaust haldið fram að þá fyrst lendi neytendur í vandræðum þegar búið er að „siga“ hinum „frjálsa markaði“ á þá. Ekki er heldur raunhæft að tala um mismunandi „framleiðslukostnað“ þegar t.a.m. tvær rafveitur (dreifiveitur) kaupa báðar rafmagnið af sama heildsala (t.d. Landsvirkjun).
Þegar eiginleikar „vöru“ eru þeir sömu má ljóst vera að menn keppa ekki um hylli neytenda á þeim grundvelli. Ekki er hægt að vísa til þess að „gæði“ ákveðins rafmagns séu svo miklu meiri en „gæði“ keppinautanna eða að rafmagnið „endist lengur“ en það sem aðrir selja. Raunhæft samkeppni verður þá að byggjast á öðrum forsendum.
Opnun og myndun raforkumarkaða byggist á hugmyndinni um að samkeppni sé uppspretta hagkvæmni. Samkeppnismarkaðir veita ákveðin merki (signals) um framleiðslu og fjárfestingu fyrir neytendur og fyrirtæki. Aukin hagkvæmni á sviði raforku er grundvallaratriði til að takast á við þær áskoranir sem framboð og hagvöxtur setja.[xx]
Það að auka „frelsi“ á raforkumarkaði tengist tilhneigingu til einkavæðingar á sama vettvangi. Reynslan erlendis frá, einkum frá Bretlandi, sýnir að boðuð „samkeppni“ er grundvallaratriði svo einkavæðing nái tilgangi sínum um „hagkvæmni.“ Lítill eða enginn ávinningur næst með því að hverfa frá ríkiseinokun til einokunar í einkarekstri.[xxi] Þetta ættu menn að hafa í huga hvað snertir Landsvirkjun og kröfu ESB um uppboð á virkjunarleyfum í Frakklandi. Þakka þeim sem lásu. Góðar stundir!
[i] Rausser, G., Strielkowski, W., & Štreimikienė, D. (2017). Smart meters and household electricity consumption: A case study in Ireland. Energy & Environment, 29(1), 131–146. https://doi.org/10.1177/0958305x17741385
[ii] Sjá: https://latts.fr/chercheur/aude-danieli/
[iii] Svartletrun mín.
[iv] Danieli, A. The French Electricity Smart Meter: Reconfiguring Consumers and Providers. Elizabeth Shove, Frank Trentmann. Infrastructures in Practice. The Dynamics of Demand in Networked Societies, Routledge, pp.155-167, 2018, 978-1-138-47604-2. hal-01960544. https://hal.archives-ouvertes.fr/hal-01960544/document
[v] Ibid.
[vi] Ibid.
[vii] Domenico, O. & Vandevelde, W. (2021). Smart meters’ roll out, solutions in favour of a trust enhancing law in the EU. Journal of Law, Technology and Trust. 2. 10.19164/jltt.v2i1.1071. https://www.researchgate.net/publication/350148676_Smart_meters'_roll_out_solutions_in_favour_of_a_trust_enhancing_law_in_the_EU
[viii] Sjá enn fremur: Veitur. https://www.veitur.is/spurningar-og-rad/innheimtuferli-orkureikninga-fyrirtaeki
[ix] Sjá t.d.: Government of the Netherlands. https://www.government.nl/topics/sustainable-energy-at-home/contract-to-supply-your-home-with-electricity
[x] Vassileva, I & Campillo, J. (2016). Consumers’ Perspective on Full-Scale Adoption of Smart Meters: A Case Study in Västerås, Sweden. Resources. 5. 10.3390/resources5010003.
[xi] Ibid. Cost of Production
[xii] Citizens Advice. https://www.citizensadvice.org.uk/consumer/energy/energy-supply/your-energy-meter/getting-a-smart-meter-installed/
[xiii] Ofgem. https://www.ofgem.gov.uk/information-consumers/energy-advice-households/getting-smart-meter
[xiv] Torriti, J. (2020). Appraising the Economics of Smart Meters: Costs and Benefits (1st ed.). Routledge, p. 122. https://doi.org/10.4324/9780367203375
[xv] Ibid, p. 156.
[xvi] Heymann, E., & Becker, S. (2022, January 24). Energy price inflation – this time is different. Deutsche Bank Research. Retrieved July 14, 2022, from https://www.dbresearch.com/PROD/RPS_EN-PROD/PROD0000000000521682/Energy_price_inflation_%E2%80%93_this_time_is_different.PDF
[xvii] Ibid.
[xviii] Sjá einnig: Voltage Converter Transformers, 2022. World Electricity Chart for All Countries. https://www.voltage-converter-transformers.com/pages/world-eleworld-electricity-conversion-htmlctricity-conversion
[xix] Sjá einnig: CFI. Cost of Production. https://corporatefinanceinstitute.com/resources/knowledge/finance/cost-of-production/
[xx] Vives, X. “The Challenge of Competition in the Electricity Sector”, in Energy Regulation in Spain: From Monopoly to Market, Madrid: CNE, 2010, p. 219. http://blog.iese.edu/xvives/files/2011/09/The-challenge-of-competition-in-the-electricity-sector.pdf
[xxi] Ibid, p. 220.