Fara í efni

STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ - FRAMHALDSUMRÆÐA FJÖGUR - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 ESB - ORKUPAKKI 4

            Verður nú tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið og haldið áfram að rekja ákvæði raforkutilskipunar 2019/944 ESB. Í 33. gr. tilskipunarinnar er fjallað um samþættingu rafhleðslustöðva við raforkukerfin (Integration of electromobility into the electricity network).

            Í 1. mgr. 33. gr. segir að með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins 2014/94 ESB, skuli aðildarríkin setja upp nauðsynleg regluverk til að auðvelda tengingu einkahleðslustöðva,[i] sem eru almenningi aðgengilegar, við dreifikerfin. Aðildarríkin skulu sjá til þess að dreifikerfisstjórar[ii] hafi samstarf, án mismununar, við öll fyrirtæki sem eiga, þróa, reka eða hafa umsjón með endurhleðslustöðum fyrir rafknúin ökutæki, þar með talið vegna tenginga við raforkunetið.

            Samkvæmt 2. mgr. skulu dreifikerfisstjórar ekki eiga, þróa, stjórna eða reka endurhleðsustöðvar fyrir rafknúin ökutæki, nema þegar dreifikerfisstjórarnir eiga einkahleðslustöðvar eingöngu til einkanota.

            Í 3. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. geti aðildarríki heimilað dreifikerfisstjórum að eiga, þróa, stjórna og reka endurhleðslustöðvar að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

(a) að öðrum aðilum hafi ekki verið heimilað að eiga, þróa, stjórna eða reka endurhleðslustöðvar, fyrir rafknúin ökutæki, eftir opið og gagnsætt útboðsferli, án mismununar, sem er háð endurskoðun og samþykki eftirlitsstofnunar (Landsreglara) eða aðrir geti ekki veitt þessa þjónustu tímanlega á sanngjörnu verði;

(b) eftirlitsstofnunin hefur fyrirfram (ex ante review) skoðað skilyrði útboðsferlisins skv. a-lið og veitt samþykki sitt;

(c) dreifikerfisstjóri rekur endurhleðslustöðvarnar á grundvelli aðgangs þriðja aðila [sbr. third party access[iii] í samkeppnisrétti] í samræmi við 6. gr. og mismunar ekki á milli kerfisnotenda eða hópa kerfisnotenda, einkum í þágu tengdra fyrirtækja.

Eftirlitsstofnun er heimilt að semja leiðbeiningar, eða innkaupaákvæði, til hjálpar dreifikerfisstjórum við að tryggja sanngjarnt útboðsferli.

            Hafi aðildarríkin innleitt skilyrðin sem kom fram í 3. mgr. skulu þau, eða tilnefnd lögbær yfirvöld þeirra, hafa opinbert samráð, reglulega, eða á að minnsta kosti fimm ára fresti, til að endurmeta hugsanlegan áhuga annarra aðila á að eiga, þróa, reka eða stjórna hleðslustöðvum fyrir rafknúin ökutæki.

            Ef samráðið bendir til þess að aðrir aðilar séu færir um að eiga, þróa, reka, eða stjórna slíkum stöðvum, skulu aðildarríkin sjá til þess að dregið sé úr starfsemi dreifikerfisstjóra á þessu sviði, með fyrirvara um árangursrík lok á útboðsferli sem vísað er til í a-lið 3. mgr. Sem hluta af skilyrðum þeirrar málsmeðferðar geta eftirlitsyfirvöld (Landsreglari[iv]) heimilað dreifikerfisstjóra að endurheimta afgangsverðmæti fjárfestingar sinnar vegna innviða til endurhleðslu. (4. mgr. 33. gr.).

            Í 34. gr. eru skilgreind verkefni dreifikerfisstjóra við gagnastjórnun. Þar segir að aðildarríki skuli tryggja að allir viðurkenndir aðilar hafi aðgang að gögnum, án mismununar, samkvæmt skýrum og jöfnum skilmálum, í samræmi við viðeigandi gagnaverndarreglur. Í aðildarríkjum þar sem snjallmælakerfi hafa verið sett upp í samræmi við 19. gr., og þar sem dreifikerfisstjórar taka þátt í gagnastjórnun, skulu samræmingaráætlanir, sem um getur í d-lið 2. mgr. 35. gr., fela í sér sérstakar ráðstafanir til þessa að útiloka mismunandi aðgang að gögnum viðurkenndra aðila eins og kveðið er á um í 23. gr. Þegar dreifikerfisstjórar falla ekki undir 1., 2., eða 3. mgr. 35. gr. skulu aðildarríkin gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að lóðrétt-samþætt fyrirtæki (vertically integrated) hafi ekki aðgang umfram aðra að gögnum vegna sinnar veitustarfsemi.

  • Aðgreining dreifikerfisstjóra

            Í 35. gr. tilskipunarinnar er rætt um aðgreiningu (uppskiptingu) dreifikerfisstjóra. Þar segir í 1. mgr. að þegar dreifikerfisstjóri er hluti af lóðrétt-samþættu fyrirtæki þá skuli hann vera sjálfstæður, eða að minnsta kosti að lögformi, skipulagi og ákvarðanatöku, frá annari starfsemi sem ekki tengist dreifingu. Reglurnar skulu ekki skylda aðgreiningu eigna dreifikerfisstjóra frá lóðrétt-samþættu fyrirtæki.

            Í 2. mgr. segir að til viðbótar kröfunum sem settar eru fram í 1. mgr., þegar dreifikerfisstjóri tilheyrir lóðrétt-samþættu fyrirtæki, skuli það vera óháð, hvað snertir skipulag og ákvarðanatöku, annari starfsemi sem ekki tengist dreifingu. Til þess að svo megi verða skulu eftirfarandi lágmarksviðmið gilda:

(a) þeir sem ábyrgir eru fyrir dreifikerfisstjórnun mega ekki taka þátt í fyrirtækjaskipan samþætts raforkufyrirtækis, hvorki beint né óbeint, sem ábyrgt er fyrir daglegum rekstri, framleiðslu, flutningi eða afhendingu á raforku;

(b) gera skal viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að tekið sé faglegt tillit til hagsmuna þeirra sem ábyrgð bera á stjórnun dreifikerfisstjóra, þannig að þeir njóti sjálfstæðis í störfum sínum;

(c) dreifikerfisstjóri skal hafa skilvirkan rétt til töku ákvarðana, óháð samþættu raforkufyrirtæki, hvað snertir eignir sem nauðsynlegar eru til reksturs, viðhalds eða þróunar raforkunets. Til þess að ná þessum markmiðum skal dreifikerfisstjóri hafa til ráðstöfunar nauðsynlegar bjargir, þar með talinn mannauður, tæknilegar, efnislegar og fjárhagslegar bjargir. Þetta ætti ekki að hindra að tiltækar séu viðeigandi samhæfingarleiðir sem tryggja efnahagslegt og stjórnunarlegt eftirlit móðurfyrirtækis með eignum dótturfélags, hvað snertir arðsemi eigna, sem óbeint er stjórnað í samræmi við 7. mgr. 59. gr. Sérstaklega skal þetta gera móðurfélaginu fært að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða hvaða annan sambærilegan gerning, dreifikerfisstjóra og að setja alþjóðleg takmörk fyrir skuldsetningu dótturfyrirtækisins. Þetta skal hvorki heimila móðurfyrirtækinu að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur, né með tilliti til einstakra ákvarðana sem snerta uppsetningu eða uppfærslu á dreifilínum sem ekki fara framúr fjárhagsáætlun, eða hvaða hvaða öðrum sambærilegum gerningi; og

(d) dreifikerfisstjóranum ber að koma á fót fyrirkomulagi regluvörslu, þar sem mælt er fyrir um ráðstafanir sem útiloka hegðun sem felur í sér mismunun, og tryggja nægjanlegt eftirlit með því. Fyrirkomulag regluvörslunnar skal innihalda  sérstakar skyldur starfsmanna til þess að ná því markmiði. Ársskýrsla, þar sem fram koma þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið, skal lögð fram af þeirri persónu eða stofnun sem ábyrgð ber á regluvörslunni, regluverði dreifikerfisstjóra, til eftirlitsyfirvalda sem um getur í 1. mgr. 57. gr. og skal birta. Regluvörður dreifikerfisstjóra skal njóta fulls sjálfstæðis og skal hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum dreifikerfisstjóra, og öllum tengdum fyrirtækjum, til þess að sinna verkefnum sínum.

            Í 3. mgr. 35. gr. segir síðan að þegar dreifikerfisstjóri tilheyrir lóðrétt-samþættu fyrirtæki skulu aðildarríki tryggja að fylgst sé með starfsemi dreifikerfisstjóra af hálfu eftirlitsyfirvalda, eða öðrum lögbærum stofnunum, svo þeir geti ekki nýtt sér lóðrétta-samþættingu til þess að raska samkeppni. Sérstaklega skulu „lóðrétt-samþættir dreifikerfisstjórar“, í samskiptum sínum og vörumerkjastjórnun, ekki skapa rugling hvað snertir aðgreiningu á auðkennum útibús rafveitu sem tilheyrir lóðrétt-samþættu fyrirtæki [þ.e.a.s það þarf að koma skýrt fram að um útibú sé að ræða].

            Í 4. gr. segir síðan að aðildarríki geti ákveðið að beita ekki 1., 2. og 3 mgr. þegar um ræðir samþætt raforkufyrirtæki sem þjóna innan við 100.000 tengdum viðskiptavinum, eða þjóna litlum afskekktum kerfum.

  • Eignarhald dreifikerfisstjóra á orkugeymslum

            Í 36. gr. tilskipunarinnar er útlistað eignarhald á orkugeymslum.[v] Þar segir í 1. mgr.  að dreifikerfisstjórar megi ekki eiga, þróa, stjórna eða reka orkugeymslur. En þó má víkja frá þessu ákvæði samkvæmt 2. mgr. Aðildarríki geta heimilað dreifikerfisstjórum að eiga, þróa, stjórna eða starfrækja orkugeymslur, þegar þær eru að fullu samþættar við raforkunet og eftirlitsyfirvaldið hefur veitt samþykki sitt, eða þar sem öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

(a) aðrir aðilar hafi ekki fengið rétt til þess að eiga, þróa, stjórna eða reka slíka starfsemi, eftir opið útboðsferli, án mismununar, sem háð er endurskoðun og samþykki eftirlitsyfirvalda, eða geta ekki veitt slíka þjónustu [orkugeymslu] tímanlega á sanngjörnu verði;

(b) búnaðurinn er nauðsynlegur fyrir dreifikerfisstjóra til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun fyrir skilvirkan, áreiðanlegan og öruggan rekstur dreifikerfisins og búnaðurinn er ekki notaður til þess að kaupa eða selja raforku á raforkumarkaði; og

(c) eftirlitsyfirvöld hafa metið nauðsyn undanþágunnar og metið útboðsferlið, þar með talin skilyrði útboðsins, og veitt samþykki sitt.

            Eftirlitsyfirvöldum er heimilt að semja leiðbeiningar eða innkaupaákvæði til að hjálpa dreifikerfisstjórum að tryggja sanngjarnt útboðsferli.

            Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. skulu eftirlitsyfirvöld hafa reglulega opinbert samráð, á að minnsta kosti fimm ára fresti, um orkugeymslur sem til staðar eru, í þeim tilgangi að meta möguleika og áhuga á slíkum búnaði. Þegar opinbert samráð bendir til þess að að þriðju aðilar geti átt, þróað, stjórnað eða rekið slíka starfsemi á hagkvæman máta, skulu eftirlitsyfirvöld tryggja að starfsemi dreifikerfisstjóra sé felld úr gildi á þessu sviði innan átján mánaða. Eftirlitsyfirvöld geta heimilað dreifikerfisstjóra að þiggja sanngjarnt eftirlitsgjald, sérstaklega til þess að endurheimta afgangsverðmæti fjárfestingar í orkugeymslum.

            Í 4. mgr. segir að ákvæði 3. mgr. eigi ekki við um fullkomlega samþætta nethluta eða venjulegan afskriftartíma nýrra rafgeymslustöðva með endanlegri fjárfestingarákvörðun fram að 4. júlí 2019, að því tilskildu að slík rafgeymsla sé:

(a) tengd við netið í síðasta lagi tveimur árum síðar;

(b) samþætt við dreifikerfið;

(c) einungis notuð til þess að endurheimta netöryggi, í þeim tilvikum þegar um ófyrirséða atburði er að ræða á raforkuneti, þegar endurheimtin hefst strax og lýkur þegar raforkuframleiðsla er komin í eðlilegt horf; og

(d) ekki notuð til kaupa eða sölu á rafmagns á raforkumarkaði, þar á meðal til jöfnunar (balancing).

            Kveðið er á um þagnarskyldu dreifikerfisstjóra í 37. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að með fyrirvara um 55. gr., eða aðrar kröfur um upplýsingagjöf, skuli dreifikerfisstjóri halda trúnað um viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar sem hann aflar í starfi sínu. Hann skal og koma í veg fyrir að upplýsingar um eigin starfsemi, sem geta haft viðskiptalega þýðingu, séu birtar, þannig að feli í sér mismunun.

            Í 38. gr. er fjallað um lokuð dreifikerfi. Þar segir í 1. mgr. að aðildarríki geti kveðið á um það að eftirlitsyfirvöld, eða önnur lögbær yfirvöld, skilgreini kerfi sem dreifa raforku innan lokaðra iðnaðar-, verslunar- eða sameiginlegra þjónustusvæða. Enda veiti kerfin heimilisnotendum ekki rafmagn, með fyrirvara um 4. mgr., sem lokuð dreifikerfi ef:

(a) stjórnun kerfanna, eða framleiðsluferli, er af sérstökum tæknilegum ástæðum eða af öryggisástæðum notenda kerfanna, samþætt; eða

(b) kerfin dreifa raforku fyrst og fremst til eiganda sinna eða rekstraraðila kerfanna eða tengdra fyrirtækja þeirra.

            Lokað dreifikerfi telst dreifikerfi hvað snertir þessa tilskipun. Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um að eftirlitsyfirvöld geti undanþegið rekstraraðila lokaðra dreifikerfa frá:

(a) kröfum samkvæmt 5. mgr. 31. gr. og 7. mgr. 31. gr. um að afla orkunnar sem hann notar til að standa straum af orkutapi og viðbótarþjónustu sem ekki fellur undir „tíðniþjónustu“ (non-frequency ancillary services) í kerfinu í samræmi við gagnsæi, án mismununar, og markaðsbundnar aðferðir;

(b) kröfum skv. 1. mgr. 6. gr. um að gjaldskrár, eða aðferðafræðin sem liggur til grundvallar útreikningi þeirra, séu samþykktar í samræmi við 1. mgr. 59. gr. áður en þær taka gildi;

(c) kröfum skv. 1. mgr. 32. gr. um kaup á sveigjanleikaþjónustu[vi] og samkvæmt 3. mgr. 32. gr. um þróun kerfis rekstraraðila á grundvelli áætlana um uppbyggingu raforkunets;

(d) kröfum samkvæmt 2. mgr. 33. gr. um að eiga ekki, þróa ekki, stjórna ekki eða reka endurhleðslustöðvar fyrir rafknúin ökutæki; og

(e) kröfum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. um að eiga ekki, þróa ekki, stjórna ekki eða reka orkugeymslur.

            Í 3. mgr. 38. gr. segir að ef undanþága er veitt skv. 2. mgr. skuli viðeigandi gjaldskrár, eða aðferðafræðin sem liggur til grundvallar útreikningum á þeim, endurskoðaðar og samþykktar í samræmi við 1. mgr. 59. gr. að beiðni notanda lokaða dreifikerfisins.

            Í 4. mgr. 38. gr. segir að þegar um er að ræða tilfallandi notkun fáeinna heimila sem tengast eigendum dreifikerfa, í gegnum atvinnu eða annað álíka, og eru staðsett á svæði sem þjónað er af lokuðu dreifikerfi, skuli það ekki útiloka undanþágu samkvæmt 2. mgr.

  1. gr. tilskipunarinnar fjallar um sameinaðan rekstraraðila. Þar segir að 1. mgr. 35. gr. skuli ekki hindra starfsemi sameinaðs flutnings- og dreifikerfisstjóra, að því gefnu að stjórinn uppfylli ákvæði 1. mgr. 43. gr., 44. og 45. gr., eða 3. hluta VI. Kafla, eða stjórinn falli undir 3. mgr. 66. gr.

            Er þá komið að V. kafla. Þar er rætt um almennar reglur sem gilda um flutningskerfisstjóra.

  • Verkefni flutningskerfisstjóra

            Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skal sérhver flutningskerfisstjóri[vii] vera ábyrgur fyrir því að:

(a) tryggja langtímagetu raforkukerfis til þess að mæta sanngjörnum kröfum um flutning raforku, rekstur, viðhald og þróun, eftir efnahagsástæðum, öruggt, áreiðanlegt og skilvirkt flutningskerfi, þar sem tilhlýðilegt tillit er tekið til umhverfis, í nánu samstarfi við nærliggjandi flutningskerfisstjóra og dreifikerfisstjóra;

(b) tryggja fullnægjandi bjargir (úrræði) til þess að standa við skuldbindingar sínar;

(c) stuðla að afhendingaröryggi með fullnægjandi flutningsgetu og áreiðanleika kerfisins;

(d) að stjórna raforkuflæði í kerfinu með hliðsjón af skiptum við önnur samtengd kerfi. Í því skyni skal flutningskerfisstjóri bera ábyrgð á því að tryggja öruggt, áreiðanlegt og skilvirkt raforkukerfi og í því samhengi að tryggja framboð á allri nauðsynlegri stoðþjónustu, þ.m.t. þeirri sem veitt er með eftirspurnarstýringu (demand response) og orkugeymslum, að svo miklu leyti sem slíkt er óháð öðrum flutningskerfum sem kerfið er samtengt við;

(e) veita rekstraraðilum annara kerfa, sem tengjast kerfi flutningskerfisstjóra, fullnægjandi upplýsingar, til þess að tryggja öruggan og skilvirkan rekstur, samhæfða þróun og samhæfingu hins samtengda kerfis;

(f) tryggja að kerfisnotendum, eða hópum kerfisnotenda, sé ekki mismunað, sérstaklega ekki í þágu tengdra fyrirtækja;

(g) veita kerfisnotendum þær upplýsingar sem þeir þurfa vegna skilvirks aðgangs að kerfinu;

(h) innheimta greiðslur vegna tregðu í kerfi (congestion) og greiðslur samkvæmt uppbótakerfi dreifikerfisstjóra, í samræmi við 49. gr. reglugerðar ESB 2019/943, veita og stýra aðgangi þriðju-aðila og gefa rökstudda ástæðu þegar slíkum aðgangi er hafnað, sem skal háð skoðun eftirlitsyfirvalda. Þegar þau sinna verkefnum sínum samkvæmt þessari lagagrein skal flutningskerfisstjóri fyrst og fremst auðvelda samþættingu markaða;

(i) afla sér viðbótarþjónustu til að tryggja rekstraröryggi;

(j) setja umgjörð um samvinnu og samhæfingu á milli svæðisbundinna samhæfingarmiðstöðva;

(k) taka þátt í stofnun evrópsks og innlends auðlindamats samkvæmt IV. kafla reglugerðar (ESB) 2019/943;

(l) „stafræningu“ (digitalisation) flutningskerfis;

(m) gagnaumsýslu, þ.m.t. þróun gagnaumsýslukerfa, netöryggi og gagnavernd, með fyrirvara um viðeigandi reglur og með fyrirvara um valdheimildir annarra yfirvalda.

            Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um það að skyldur, ein eða fleiri, sem taldar eru upp í 1. mgr. 40. gr. verði faldar öðrum flutningskerfisstjóra en þeim sem á flutningskerfið sem skyldurnar myndu annars taka til. Flutningskerfisstjórinn, sem skyldurnar eiga við um, skal löggiltur eftir líkani „eigendaaðgreiningar“ (ownership unbundling[viii]) sjálfstæði kerfisstjóra eða sjálfstæðs flutningskerfisstjóra og uppfylla þær skyldur sem kveðið er á um í 43. gr., en þess skal ekki krafist að hann eigi flutningskerfið sem hann ber ábyrgð á.

            Flutningskerfisstjóri sem á flutningskerfið skal uppfylla kröfurnar sem kveðið er á um í VI. Kafla og vera löggiltur í samræmi við 43. gr. Þetta á við með fyrirvara um möguleika flutningskerfisstjóra, sem löggiltir eru samkvæmt líkani „eigendaaðgreiningar“, sjálfstæðis kerfisstjóra eða flutningskerfisstjóra til þess að framselja, að eigin frumkvæði og undir þeirra yfirumsjón, ákveðin verkefni til flutningskerfisstjóra sem löggiltir eru  samkvæmt líkani „eigendaaðgreiningar“, sjálfstæðis kerfisstjóra eða flutningskerfisstjóra þegar framsal verkefnanna ógnar ekki  virkum og sjálfstæðum ákvörðunarrétti þess flutningskerfisstjóra sem verkefnin framselur.

            Flutningskerfisstjórar skulu, vegna verkefna sem um getur í 1. mgr., taka mið af tilmælum sem gefin eru út af svæðisbundnum samræmingarstöðvum. (3. mgr. 40. gr.). Þegar flutningskerfisstjóri sinnir verkefnum sem vísað er til í i-lið 1. mgr. 40. gr. skal hann kaupa „jöfnunarþjónustu“ [balancing services] með fyrirvara um:

(a) gagnsæjar, og markaðsbundnar verklagsreglur án mismununar;

(b) þátttöku allra hæfra raforkufyrirtækja og markaðsaðila, þar með taldir markaðsaðilar sem bjóða orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, markaðsaðilar sem taka þátt í eftirspurnarstýringu [demand response], rekstraraðilar orkugeymslna og markaðsaðilar sem taka þátt í samsöfnun [aggregation].

Að því er varðar b-lið 4. mgr. skulu eftirlitsyfirvöld [Landsreglari] og flutningskerfisstjórar, í nánu samstarfi við alla markaðsaðila, setja tæknilegar kröfur um þátttöku á þessum mörkuðum, á grundvelli tæknilegra eiginleika markaðanna.

            Í 5. mgr. 40. gr. kemur fram að ákvæði 4. mgr. skuli gilda um veitingu þjónustu sem ekki er tíðniþjónusta (non-frequency ancillary services) hjá flutningskerfisstjórum, nema eftirlitsyfirvaldið hafi metið að slík markaðsbundin stoðþjónusta, sem ekki er tíðniþjónusta, sé ekki efnahagslega skilvirk og hafi veitt undanþágu. Regluverkið skal einkum tryggja að flutningskerfisstjórar geti aflað slíkrar þjónustu frá veitendum eftirspurnarstýringar (demand response) eða orkugeymslum og stuðla að ráðstöfunum til orkunýtingar, þar sem slík þjónusta dregur á hagkvæman hátt úr nauðsyn þess að uppfæra eða skipta út raforkuframleiðslu, og styðja skilvirka og örugga notkun flutningskerfisins.

            Samkvæmt 6. mgr. skulu flutningskerfisstjórar, með fyrirvara um samþykki eftirlitsyfirvalda, eða eftirlitsyfirvöld sjálft, í gegnsæju og þátttökuferli sem nær til allra viðeigandi kerfisnotenda og dreifikerfisstjóra, setja upp forskriftir fyrir keypta þjónustu sem er ekki tíðniþjónusta, eftir því sem við á, og staðlaðar markaðsafurðir fyrir slíka þjónustu í það minnsta á landsvísu.

            Forskriftirnar skulu tryggja skilvirka þátttöku, án mismununar, allra markaðsaðila, þ.m.t. markaðsaðilar sem bjóða orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, markaðsaðilar sem taka þátt í eftirspurnarstýringu, rekstraraðilar orkugeymslna og markaðsaðilar sem taka þátt í samsöfnun (aggregation).

            Flutningskerfisstjórar skulu skiptast á öllum nauðsynlegum upplýsingum og samræma við dreifiveitur til þess að hámarka nýtingu auðlinda, til að tryggja öruggan og skilvirkan rekstur kerfisins og auðvelda markaðsþróun.

            Flutningskerfisstjórar skulu vera nægilega launaðir vegna kaupa á umræddri þjónustu, til þess að gera þeim kleift að endurheimta að minnsta kosti hæfilegan samsvarandi kostnað, þar með taldan nauðsynlegan kostnað vegna upplýsinga- og samskiptatækni og innviðakostnað.

            Kvöðin um að afla stoðþjónustu, sem ekki er tíðniþjónusta, og um getur í 5. mgr. gildir ekki um fullkomlega samþætta nethluta. (7. mgr. 40 gr.). Aðildarríki, eða tilnefnd lögbær yfirvöld þeirra, geta heimilað flutningskerfisstjórum að sinna annari starfsemi en um getur í þessari tilskipun og í reglugerð ESB 2019/943, þegar starfsemin er nauðsynleg fyrir flutningskerfisstjóra til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun (2019/944) eða reglugerð ESB 2019/943, að því gefnu að eftirlitsyfirvöld hafi metið nauðsyn undanþágu.

            Þessi málsgrein skal ekki hafa áhrif á rétt flutningskerfisstjóra til þess að eiga, þróa, stjórna eða reka önnur netkerfi en raforkunet þegar aðildarríki eða tilnefnd lögbær yfirvöld hafa veitt slíkan rétt. (8. mgr. 40. gr.).

  • Að lokum

            Enn verður haldið áfram í næstu grein að rekja innihald tilskipunar 2019/944 ESB um raforku. Þeir sem ekki hafa þegar gefist upp á lestri þessara greina um tilskipunina geta huggað sig við það að nú styttist mjög í umfjöllun um Landsreglara en um hann er fjallað í kafla VII, gr. 57-64. Þar kemur fram hvaða hlutverk þessum nýja „landstjóra“ í orkumálum er ætlað að hafa. Þar er vert að skoða mjög vel sértaklega 58. og 59. gr. tilskipunarinnar [General objectives of the regulatory authority; Duties and powers of the regulatory authorities].

            Flestir, ef ekki allir, stuðningsmenn þriðja orkupakkans á Alþingi virðast ekki hafa gert sér nokkra grein fyrir því hvað þeir raunverulega voru að innleiða. Það varð strax ljóst af tali þeirra í þinginu en einnig af lestri blaðagreina sem sumir þingmenn skrifuðu á meðan á umræðum stóð.

            Sumir þeirra héldu því jafnvel blákalt fram að það væri á sama tíma hægt að eiga köku og éta. Vel má vera að „Raspútín“ sá sem fenginn hefur verið til þess að laga stjórnarskrána að hagsmunum braskara og fjárglæframanna, gæti komist að því í 40 blaðsíðna „greinargerð“ að bæði sé hægt að „eiga og éta sömu kökuna“ svo lengi sem eitthvað er skilið eftir af kökunni. En allar slíkar æfingar eru bara hundakúnstir til þess fallnar að þjóna „djúpríkinu“ sem aftur launar fyrir sig með stöðuhækkun þess sem kúnstunum beitir.

            Það er með öðrum orðum ekki hægt að innleiða reglugerðir og tilskipanir ESB en hafa áfram full og óskoruð völd samkvæmt íslenskum lögum á sama sviði. Með innleiðingunni afsalar þingið þjóðinni ákveðnu valdi (ríkisvaldi) [og það án þess að spyrja þjóðina álits].

            Þau sjónarmið hafa komið fram að auðlindaákvæði í stjórnarskrá myndi breyta þessu, því þá gætu Íslendingar sjálfir stjórnað raforkuverðinu. Það er rangt. Í fyrsta lagi er Evrópurétturinn ævinlega rétthærri en réttur einstakra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), komi til árekstra þar á milli. Í öðru lagi er það auðvitað svo, að þegar búið er að innleiða reglugerðir/tilskipanir sem lúta að markaðsvæðingu, og innri markaði með raforku, er ekki hægt á sama tíma að „handstýra“ raforkuverði. Markaðurinn ræður einfaldlega verðinu. Það mun aftur hafa í för með sér stórfelldar hækkanir á innlendum raforkumarkaði, en ekki lækkanir eins og sumir stuðningsmenn orkupakka þrjú héldu fram.

            Braskararnir og fjárglæframennirnir, sem hafa Alþingi í vasanum, styðja ekki markaðsvæðingu raforkunnar vegna þess að þeir ætli að borga með sér. Þeir ætla þvert á móti að græða á kostnað neytenda, með stórhækkuðu verði, sem almenningi og fyrirtækjum er ætlað að greiða. Menn sjá einmitt fyrir sér að geta margfaldað raforkuverðið. Eftirspurn í flestum Evrópuríkjum, eftir rafmagni, er viðvarandi meiri en framboð. Afleiðingin af því er ekki hvað síst hátt raforkuverð.

            Hugmyndin með sæstreng [og aftur er í umræðunni vegna málefna álversins í Straumsvík] er sú að gera út á hátt raforkuverð í Evrópu. Um leið og sú tenging er komin [og Landsvirkjun hefur rætt áratugum saman] mun raforkuverð á Íslandi að sjálfsögðu stórhækka líka, enda Ísland þá orðið virkur þátttakandi á innri orkumarkaði Evrópu. Orkupakkarnir ganga út á slíkt samstarf. Þar liggur mótsögnin mikla í því að hægt sé að innleiða pakkana en samt ekki taka þátt í samstarfinu!

[i]      https://wallbox.com/en_us/ev-charging-stations-in-the-service-industry

[ii]    Sjá t.d.: https://www.edsoforsmartgrids.eu/home/why-smart-grids/

[iii]   Sjá einnig: European Commission. Access to infrastructure, exemptions and derogations. https://ec.europa.eu/energy/topics/markets-and-consumers/wholesale-energy-market/access-infrastructure-exemptions-and-derogations_en?redir=1

[iv]    Sjá: Council of European Energy Regulators (CEER). http://icer-regulators.net/icer-members/council-of-european-energy-regulators/

[v]     Sjá t.d.: European Commission. Energy storage. https://ec.europa.eu/energy/topics/technology-and-innovation/energy-storage_en

[vi]    Sjá t.d.: https://ec.europa.eu/energy/sites/ener/files/documents/eg3_final_report_demand_side_flexiblity_2019.04.15.pdf

[vii]  Sjá enn fremur: ENTSO-E Member Companies. https://www.entsoe.eu/about/inside-entsoe/members/

[viii] Sjá t.d.: Emissions-EUETS.com European Union Emissions Trading Scheme – legal point of view. https://www.emissions-euets.com/internal-electricity-market-glossary/1465-unbundling