STÓRA RÁNIÐ UNDIRBÚIÐ – FRAMHALDSUMRÆÐA - RAFORKUTILSKIPUN 2019/944 - ORKUPAKKI 4
Hér á eftir verður haldið áfram þar sem frá var horfið síðast, fyrir áramót, að rekja í stuttu máli innihald raforkutilskipunar ESB nr. 2018/944. Síðast var fjallað um 9. gr. tilskipunarinnar og endað þar. Er þá komið að 10. gr., III kafla. Sá kafli fjallar um „valdeflingu neytenda“ [consumer empowerment] og „neytendavernd“.
Í 1. mgr. 10. gr. segir efnislega að aðildarríki [ESB] skuli tryggja að lokakaupendur (viðskiptavinir) hafi rétt til þess að fá rafmagn frá veitu, samkvæmt samningi hennar, óháð því í hvaða aðildarríki veitan er skráð, að því gefnu að veitan (supplier) fylgi þeim reglum sem gilda um viðskiptin og tæknileg atriði (balancing rules[i]). Í því sambandi skulu aðildarríki gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að stjórnsýslulög mismuni ekki gagnvart veitum sem þegar eru skráðar í öðru aðildarríki.
Í 2. mgr. 10. gr. segir að með fyrirvara um reglur sambandsins um neytendavernd, einkum tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins 2011/83/ESB[ii] og tilskipun ráðsins 93/13/EBE,[iii] skulu aðildarríkin sjá til þess að lokakaupendur hafi réttindi sem kveðið er á um í 3. til 12. mgr. 10. gr.
Í 3. mgr. 10. gr. eru talin þau atriði sem tilgreina skal í samningum á milli viðskiptavinar og veitu:
- a) auðkenni og heimilisfang rafveitu;
- b) þjónustan sem veitt er, gæði þjónustu, svo og tímasetning fyrstu tengingar;
- c) hvers konar viðhaldsþjónusta er í boði;
- d) hvernig hægt er að fá nýjustu upplýsingar um alla viðeigandi gjaldtöku, viðhaldsgjöld og „pakkavörur“ eða þjónustu;
- e) tímalengd samningsins, skilyrðin fyrir endurnýjun og uppsögn samningsins og þjónustu, þ.m.t. vörur eða þjónusta sem tengjast þjónustunni, og hvort uppsögn samnings án gjalds er leyfð;
- f) allar bætur og endurgreiðslufyrirkomulag sem við á ef ákvæði um gæði umsaminnar þjónustu eru ekki uppfyllt, þ.m.t röng eða síðbúin innheimta;
- g) hvernig hefja skal málarekstur vegna deilumála utan dómstóla [Right to out-of-court dispute settlement] í samræmi við 26. gr. umræddrar tilskipunar;
- h) upplýsingar sem snerta rétt neytenda, þar með taldar upplýsingar um það hvernig taka skal á kvörtunum og allar upplýsingar sem vísað er til í þessari málsgrein og skýrlega koma fram á rafmagnsreikningi eða á heimasíðu veitufyrirtækis.
- gr. tilskipunarinnar fjallar um breytilega raforkusamninga. Í 1. mgr. 11. gr. er fjallað um skyldur aðildarríkja til þess að tryggja að „Landsreglari“ [the national regulatory framework] geri veitum fært að bjóða raforkusamninga með breytilegu verði (dynamic electricity price contract[iv]).
Aðildarríkin skulu tryggja að lokakaupendur sem hafa „smartmæla“ geti farið fram á að gera samning um breytilegt raforkuverð, við að minnsta kosti eina veitu, og hjá hverri veitu þar sem lokakaupendur eru fleiri en 200.000.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. skulu aðildarríkin tryggja að veitur upplýsi lokakaupendur um tækifæri, verð og áhættu slíkra breytilegra raforkusamninga og skulu tryggja að veitum sé gert skylt að gefa lokakaupendum upplýsingar þar að lútandi. Þar fellur m.a. undir upplýsingagjöf vegna viðeigandi rafmagnsmæla. Landsreglari skal fylgjast með þróun markaða og meta áhættur sem kunna að felast í nýjum búnaði og þjónustu og taka á misnotkun á markaði (abusive practices).
Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skulu veitur fá samþykki hvers lokakaupanda (viðskiptavinar) áður en skipt er yfir í breytilegan raforkusamning. Í 4. mgr. kemur síðan fram að aðildarríkjum eða Landsreglara þeirra ber að fylgjast með þróun slíkra samninga í 14 ár eftir að þeir bjóðast. Skal birta ársskýrslu um meginþróun samninganna, þar með talin tilboð á markaði og áhrif á rafmagnsreikninga kaupenda, sérstaklega verðsveiflur (price volatility).
Í 12. gr. er fjallað um um rétt neytenda (kaupenda) til þess að skipta um veitu og gjöld fyrir skiptin. Í 1. mgr. 12. gr. segir að skipti skulu taka eins skamman tíma og mögulegt er. Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptavinur sem hyggst skipta um veitu (þjónustuaðila), enda virði hann samningsbundnar skyldur sínar, hafi völ á skiptum innan þriggja vikna að hámarki, frá því að beiðni um skiptin barst. Eigi síðar en árið 2026, skulu skipti ekki taka lengri tíma en sólarhring og vera möguleg á sérhverjum virkum degi.
- mgr. kveður á um skyldu aðildarríkja til þess að tryggja að minnsta kosti heimilum og smáfyrirtækjum skipti án endurgjalds. Í 3. mgr. er þó tekið fram að aðildarríki mega heimila veitum (eða markaðsaðilum) að innheimta gjald vegna slita á samningum, þegar viðskiptavinir kjósa að slíta samningi sem gildir til ákveðins tíma, eða inniheldur fast verð, áður en samningstími er útrunninn, að því gefnu að slíkt verð sé hluti samnings sem viðskiptavinur gerði af fúsum og frjálsum vilja og að verð sé gert viðskiptavini ljóst áður en hann gerir samninginn. Gjaldið skal vera „hóflegt“ og eigi hærra en það beina efnahagslega tap sem rafveita verður fyrir vegna samningsslitanna, þar með talinn kostnaður vegna fjárfestinga eða þjónustu sem veitan hefur þegar lagt í vegna viðskiptavinarins og sem hluta samningsins. Sönnunarbyrði þess að sýna fram á beint efnahagslegt tap (tjón) skal hvíla á rafmagnsveitunni eða þjónustuaðila. Landsreglari (eða önnur viðeigandi stjórnvöld) skal hafa eftirlit með gjöldum vegna samningsslita.
Í 4. mgr. 12. gr. er aðildarríkjum gert skylt að tryggja að réttur til skipta um veitu eða þjónustuaðila sé til staðar án mismununar hvað snertir verð, fyrirhöfn og tíma. 5. mgr. mælir fyrir um rétt viðskiptavina (kaupenda) til þess að taka þátt í sameiginlegu skiptifyrirkomulagi [collective switching schemes]. Aðildarríki skulu afnema allar hindranir, af lagalegum og stjórnsýslulegum toga, fyrir því að hægt sé að skipta, sameiginlega, um veitu en jafnframt skapa umhverfi sem tryggi „neytendavernd“ og komi í veg fyrir misnotkun á markaði.
- gr. tilskipunarinnar fjallar um „samsöfnunarsamninga“ [Aggregation contract[v]]. Þar er um ræða ákveðna gerð „hópkaupa“, þar sem t.d. bæjarfélög gera samninga um raforkukaup við ákveðnar veitur, fyrir hönd bæjarbúa. Í 1. mgr. 13. gr. segir að aðildarríki skuli tryggja að allir viðskiptavinir séu frjálsir að kaupum og sölu á raforkuþjónustu, þar með talin samsöfnun [aggregation], önnur en framboð, óháð raforkusamningi og veitufyrirtæki að eigin vali. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skulu aðildarríki tryggja, þegar lokakaupandi kýs að gera „samsöfnunarsaming“, að hann geti gert það án samþykkis rafveitu sinnar. Aðildarríkjum ber að tryggja að þeir sem bjóða „samsöfnun“ upplýsi viðskiptavini um skilmála og skilyrði samninga sem þeir bjóða.
Samkvæmt 3. mgr. skulu aðildarríki tryggja lokakaupendum öll gögn sem varða eftirspurn, eða gögn um boðna og selda raforku, án endurgjalds, að minnsta kosti einu sinni á hverju innheimtutímabili, ef viðskiptavinur óskar slíkra gagna. Þá skulu aðildarríkin, skv. 4. mgr., tryggja lokakaupendum að réttur sem vísað er til skv. 2. og 3. mgr. sé þeim veittur án mismununar, hvað snertir verð, fyrirhöfn eða tíma. Sérstaklega skulu aðildarríkin tryggja að viðskiptavinir þurfi ekki að þola mismunun sem byggist á tæknilegum og stjórnsýslulegum kröfum, málsmeðferð eða gjöldum af hálfu veitna, á grunni þess hvort viðskiptavinur hefur samning við þjónustuaðila sem býður „samsöfnun“ [aggregation].
Er þá komið að 14. gr. umræddrar tilskipunar. 14. gr. fjallar um „samanburðartæki“ (Comparison tools). Þar segir í 1. mgr. að aðildarríkjum beri að tryggja, að minnsta kosti heimilum og smáfyrirtækjum, þegar árleg rafmagnsnotkun er minni en 100.000 kílóvattstundir, aðgang, án endurgjalds, að einu tæki, að minnsta kosti, til þess að bera saman tilboð veitna. Þar falla undir tilboð um breytilega raforkusamninga.
Viðskiptavinir skulu upplýstir um völ slíkra tækja á rafmagnsreikningum eða með öðru móti. Tækin skulu uppfylla að minnsta kosti eftirtalin skilyrði:
- a) tækin skulu óháð þeim sem starfa á umræddum markaði og tryggt að raforkufyrirtæki njóti jafnræðis þegar leitað er [tilboða];
- b) þau skulu skýrlega sýna eigendur sína, einstaklinga eða lögaðila sem stýra þessum tækjum, ásamt upplýsingum um það hvernig tækin eru fjármögnuð;
- c) þau skulu tilgreina skýrlega og hlutlægt á hvaða forsendum samanburður þeirra byggist;
- d) þau skulu nota venjulegt og ótvírætt orðalag;
- e) þau skulu gefa nákvæmar og nýjustu upplýsingar og sýna hvenær þau voru síðast uppfærð;
- f) þau skulu aðgengileg fólki með fötlun, með því að vera skynjanleg, „nothæf“, skiljanleg og áreiðanleg,
- g) þau skulu gera fært að tilkynna rangar upplýsingar um auglýst tilboð; og
- h) þau skulu bera saman en jafnframt takmarka persónupplýsingar við það sem nauðsynlegt er fyrir samanburðinn.
Aðildarríki skulu tryggja að minnsta kosti eitt slíkt tæki nái yfir gervallan markaðinn. Þegar mörg tæki ná yfir markaðinn, skulu tækin innihalda úrval tilboða á rafmagni sem nær yfir umtalsverðan hluta markaðarins. Þegar tækin ná ekki yfir allan markaðinn skal það tekið skýrlega fram áður en niðurstöður eru birtar.
Í 2. mgr. er vísað til 1. mgr. og tekið fram að tæki henni samkvæmt megi reka af hvaða aðila sem er, þar með töldum einka- og opinberum aðilum eða yfirvöldum. Í 3. mgr. segir að aðildarríki skulu skipa lögbært yfirvald sem ábyrgð ber á útgáfu „traustmerkja“[vi] fyrir samanburðartæki sem standast kröfur sem skilgreindar eru í 1. mgr. 14. gr. og tryggi að tækin haldi áfram að standast þær kröfur sem þar eru settar fram. Yfirvaldið skal vera sjálfstætt frá aðilum á markaði og þeim sem reka samanburðartækin. Í 4. mgr. 14. gr. segir að aðildarríkjum sé heimilt að krefjast þess tækin og vísað er til í 1. mgr. innihaldi samanburðarviðmið sem tengjast sérstaklega eðli þeirrar þjónustu sem um ræðir. 5. mgr. mælir fyrir um það að hægt sé að sækja um „traustmerki“ fyrir samanburðartæki, sem notuð eru til þess að bera saman tilboð á markaði, án mismununar. Samkvæmt 6. mgr. er aðildarríkjum heimilt að víkja frá ákvæðum 3. og 5. gr. um útgáfu traustmerkja, ef opinber stjórnvöld eða aðilar bjóða samanburðartæki sem uppfylla kröfurnar sem skilgreindar eru í 1. mgr.
Í 15. gr. er fjallað um „virka viðskiptavini“ (active customers). [Virkir viðskiptavinir eru skilgreindir þannig að þeir hafi keypt framleiðslu (þjónustu) fyrirtækis einu sinni á tólf mánaða tímabili].
Fram kemur í 1. mgr. 15. gr. að aðildarríkjum ber að tryggja lokakaupendum ákveðinn rétt, sem „virkum viðskiptavinum“, án þess að þurfa að lúta óhóflegum kröfum eða kröfum sem valda mismunun tæknilega, vegna stjórnsýslukrafna, verklagsreglna og gjalda, eða vegna aðgangsgjalda [network charges[vii]] sem ekki endurspegla kostnað. Samkvæmt 2. mgr. skulu aðildarríki tryggja að „virkir viðskiptavinir“ geti:
- a) annað hvort beint eða í gegnum „samsöfnun“ [sbr. 13. gr. hér að framan];
- b) selt rafmagn, sem þeir framleiða sjálfir, þ.m.t. með raforkusamningum;
- c) tekið þátt í sveigjanlegum áætlunum og orkunýtingaráætlunum;
- d) falið þriðja aðila að framkvæma stjórnun stöðva sem krafist er vegna starfseminnar, þ.m.t. uppsetning, rekstur, gagnaafgreiðsla og viðhald, án þess að sá þriðji aðili teljist vera virkur viðskiptavinur. Aðildarríkin tryggi að þeir greiði;
- e) kostnaðartengd, gagnsæ aðgangsgjöld [network charges], án mismununar, vegna rafmagns sem hleypt er inn á netið [grid], og vegna rafmagns frá netinu, í samræmi við 9. mgr. 59. gr. þessarar tilskipunar og 18. gr. reglugerðar (ESB) 2019/943, og tryggi að þeir taki fullnægjandi og sanngjarnan þátt í kostnaði við kerfið. Þá tryggi aðildarríkin að „virkir viðskiptavinir“ séu;
- f) fjárhagslega ábyrgir fyrir ójafnvæginu sem þeir valda í raforkukerfinu; að því marki skulu þeir vera ábyrgir fyrir jafnvægi, eða framselja jöfnunarábyrgð [balancing responsibility[viii]] sína í samræmi við 5. gr. reglugerðar (ESB) 2019/943.
Í 3. mgr. 15. gr. segir að aðildarríkjum sé heimilt að láta gilda mismunandi ákvæði um einstaklinga og viðskiptavini sem starfa sameiginlega, samkvæmt landslögum, að því gefnu að öll réttindi og skyldur samkvæmt þessari lagagrein [Article 15] gildi um „virka viðskiptavini“. Allur mismunur í meðhöndlun virkra viðskiptavina, sem starfa sameiginlega, skal vera hóflegur og vandlega rökstuddur.
Aðildarríki sem hafa kerfi þar sem ekki er gerður greinarmunur á rafmagni sem fer inn á net og rafmagni sem tekið er útaf neti, skulu ekki veita ný leyfi samkvæmt slíku fyrirkomulagi eftir 31. desember 2023. Í öllu falli skulu viðskiptavinir sem lúta núverandi kerfum hafa tækifæri til þess, hvenær sem er, að velja um nýtt kerfi þar sem greinarmunur er gerður á rafmagni inn á net [net, „grid“ samanstendur af flutnings- og dreifikerfum] og út af því, sem grundvöll aðgangsgjalda [network charges].
Aðildarríki skulu sjá til þess að virkir viðskiptavinir sem eiga orkugeymslu [energy storage facility]:
- a) eigi rétt á tengingu við net [raforku] innan hæfilegs tíma eftir að beiðni berst, að því tilskildu að öll nauðsynleg skilyrði, s.s. um jöfnunarábyrgð [balancing responsibility] og fullnægjandi mælingar séu uppfyllt;
- b) að þeir þurfi ekki að lúta tvöföldum gjöldum, þ.m.t. netgjöldum, fyrir „geymslu rafmagns“, sem eftir verður á þeirra landareign eða þegar þeir veita kerfisstjóra „sveigjanlega þjónustu“ [flexibility services[ix]].[„Geymsla“ (AC) sem þarna er vísað til er t.d. á formi vatns í miðlunarlónum En í þeim er fólgin framtíðarorkuframleiðsla, eins og flestir gera sér ljóst. Nærtækasta dæmið um geymslu rafmagns er auðvitað rafhlaða (DC)].
- c) séu ekki háðir óhóflegum kröfum um leyfi eða gjöld;
- d) sé heimilt að veita nokkrar þjónustur samtímis, ef það er tæknilega mögulegt.
Er þá komið að 16. gr. umræddrar tilskipunar. Hún fjallar um „orkusamfélög almennings“[x] (Citizen energy communities[xi]). Í 1. mgr. 16. gr. segir að lagaumhverfi skuli vera til staðar í aðildarríkjum, fyrir orkusamfélög almennings, sem tryggi að:
- a) þátttaka í orkusamfélögum almennings sé opin og valfrjáls;
- b) aðilum að orkusamfélögum og hluthöfum skal frjálst að enda slíka aðild. Í þeim tilvikum gilda ákvæði 12. gr.;
- c) aðilar eða hluthafar orkusamfélaga missa ekki réttindi og skyldur sem viðskiptavinir heimila eða sem virkir viðskiptavinir;
- d) með fyrirvara um sanngjarnar bætur samkvæmt mati eftirlitsstofnunar, vinna stjórnendur dreifiveitna með orkusamfélögum almennings til að auðvelda raforkuflutninga innan slíkra orkusamfélaga;
- e) orkusamfélög almennings eiga að sæta sanngjarnri og hóflegri málsmeðferð, og gjöldum án mismununar, þ.m.t varðandi skráningar og leyfisveitingar, og gagnsæum aðgangsgjöldum [network charges], án mismununar, í samræmi við 18. gr. reglugerðar (ESB) 2019/943, sem tryggir að þau leggi sitt af mörkum á fullnægjandi og sanngjarnan hátt til heildar kostnaðarþátttöku kerfisins.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. geta aðildarríkin kveðið á um það í regluverki fyrir orkusamfélög almennings, að:
- a) þau séu opin fyrir þátttöku yfir landamæri;
- b) eigi rétt á að eiga, stofna, kaupa eða leigja dreifikerfi og stjórna þeim sjálfstætt, með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 4. mgr. þessarar greinar;
- c) njóti þeirra undanþága sem kveðið er á um í 2. mgr. 38. gr.;
Í 3. mgr. kemur fram að aðildarríki skulu tryggja að orkusamfélög almennings:
- a) hafi aðgang að öllum raforkumörkuðum, annað hvort beint eða með samsöfnun, með jafnræði að leiðarljósi;
- b) meðhöndluð án mismununar og í réttu hlutfalli við eðli starfseminnar, réttindi og skyldur lokakaupenda, framleiðenda, veitna, stjórnenda dreifiveitna eða markaðsaðila sem taka þátt í samsöfnun;
- c) beri fjárhagslega ábyrgð vegna ójafnvægis sem þau valda í raforkukerfum, að því marki skulu þau bera jöfnunarábyrgð eða framselja hana í samræmi við 5. gr. reglugerðar (ESB) 2019/943;
- d) að orkusamfélög almennings séu meðhöndluð eins og virkir viðskiptavinir, með tilliti til notkunar raforku sem menn framleiða sjálfir (self-generated electricity), í samræmi við e-lið 2. mgr. 15. gr.;
- e) eigi rétt á að skipuleggja innan slíkra orkusamfélaga, samnýtingu raforku sem framleidd er af framleiðslueiningunum í eigu orkusamfélaganna, með fyrirvara um aðrar kröfur sem mælt er fyrir um í þessari grein og með fyrirvara um að samfélagsaðilar haldi rétti sínum og skyldum sem lokakaupendur.
Að því er varðar e-lið 1. mgr., þar sem rafmagni er deilt, skal það ekki hafa áhrif á gildandi aðgangsgjöld, gjaldtöku og álögur, í samræmi við gagnsæja greiningu á kostnaði og ávinningi (við dreifðar orkulindir) sem þróuð er af lögbæru yfirvaldi. [Með „dreifðum orkulindum“ er átt við staðbundna orkuframleiðslu, í smáum stíl, og tengist dreifikerfi[xii]].
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. geta aðildarríkin ákveðið að veita orkusamfélögum almennings rétt til að stjórna dreifikerfi á starfssvæði sínu og koma á viðeigandi verklagsreglum, með fyrirvara um IV. kafla eða aðrar reglur og reglugerðir sem gilda um stjórnendur dreifiveitna. Ef slíkur réttur er veittur, skulu aðildarríkin sjá til þess að orkusamfélög almennings
- a) hafi rétt á að gera samning um rekstur net síns við viðkomandi stjórnanda dreifiveitu eða flutningskerfisstjóra sem net þeirra er tengt við;
- b) greiði viðeigandi aðgangsgjöld, vegna tengipunkta milli þeirra eigin neta og dreifikerfis utan orkusamfélaga almennings, og að haldið sé aðskildum aðgangsgjöldum fyrir rafmagn sem fer inn á dreifikerfið og rafmagn sem notað er út af dreifikerfi, utan orkusamfélags almennings, í samræmi við 7. mgr. 59. gr.
- c) mismuni ekki eða skaði viðskiptavini sem enn eru tengdir dreifikerfinu.
Lokaorð
Áfram verður haldið í næstu grein að rekja ákvæði raforkutilskipunar 2019/944. Eins og flestum ætti þegar að vera ljóst, þá er um að ræða gríðarlega mörg skilyrði sem uppfylla þarf samkvæmt orkupakka 4 og umrædd tilskipun einungis einn hluti þess pakka. Það er auðvelt að sjá fyrir sér fjölda kærumála, fyrir íslenskum dómstólum, en ekki síður fyrir EFTA-dómstólnum, enda álitaefnin mörg sem þessu regluverki fylgja.[xiii]
Flókið regluverk sem þetta er mjög í andstöðu við kenningar þeirra manna sem telja mikilvægt að „einfalda regluverkið“! Sumir þeirra sem styðja orkustefnu og orkupakka ESB í öðru orðinu telja í hinu orðinu mikilvægt að regluverkið sé einfalt. Ekki verður séð að umræddir pakkar séu leið að því markmiði – öðru nær. Flækjustigið vex með hverjum pakka sem bætist við íslenska löggjöf.
Það er líka rétt að hafa í huga að þeir sem manna mest hagnast á flóknu regluverki orkupakka ESB eru braskarar og fjárglæframenn. Því má aldrei gleyma.
[i] Með „balancing rules“ er átt við reglur sem lúta að tæknilegum atriðum, s.s. tíðni í raforkukerfum (50 Hz í Evrópu) og mælingar á þessum atriðum.
[ii] https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=celex%3A32011L0083
[iii] https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=celex%3A31993L0013
[iv] Sjá einnig: https://www.eurelectric.org/media/2453/dynamic-pricing-final.pdf
[v] Sjá einnig: https://masspowerchoice.com/aggregation-basics
[vi] Sjá t.d.: https://ico.org.uk/for-organisations/guide-to-eidas/becoming-a-qualified-trust-service-provider/
[vii] Sjá enn fremur: https://www.cleanenergywire.org/factsheets/power-grid-fees-unfair-and-opaque
[viii] Sjá einnig: https://www.emissions-euets.com/-balance-responsible-parties-brp
[ix] Sjá t.d.: https://www.ofgem.gov.uk/electricity/retail-market/market-review-and-reform/smarter-markets-programme/electricity-system-flexibility
[x] Sjá einnig: https://www.compile-project.eu/wp-content/uploads/Explanatory-note-on-energy-community-definitions.pdf
[xi] Sjá einnig: https://www.emissions-euets.com/internal-electricity-market-glossary/2095-energy-community
[xii] Sjá enn fremur: https://www.ferc.gov/CalendarFiles/20180215112833-der-report.pdf
[xiii] Sjá einnig: https://asset-ec.eu/wp-content/uploads/2019/07/ASSET-Energy-Comminities-Revised-final-report.pdf