UNDRAVERÖLD EINKA-VÆÐINGARINNAR
Í framhaldi af umræðu í samfélaginu, undanfarnar vikur og mánuði, um náttúrupassa og gjaldtöku við ferðamannastaði, er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvernig þessi mál kunna að þróast í náinni framtíð. Hin svokallaða „einkavæðing" hefur lengi verið töfraorð frjálshyggjunnar sem ætlað er að leysa sérhvern vanda. Byggja þær „lausnir" flestar á því að þrengja að hagsmunum almennings til hagsbóta fyrir fáa útvalda. Ekki er sjálfgefið að fólk þurfi að sætta sig við þá þróun. Vitund og árvekni almennings skipta þar öllu máli, ekki síst áður en gengið er til kosninga. En það er kunnara en frá þurfi að segja að margs konar veitingarvald skipar stóran sess í íslenskum stjórnmálum. Í gegnum það hafa ákveðnir stjórnmálaflokkar löngum tryggt sér fylgi og fjármuni. Má þar nefna úthlutanir á aðgangi að gæðum jarðar, embætti, verktakastarfsemi, „eignatilfærslu" á ríkisfyrirtækjum og margt fleira.
En á móti fyrirgreiðslu stjórnmálanna kemur fjárhagslegur og pólitískur stuðningur þeirra „útvöldu", sem gæðanna njóta, við stjórnmálaflokkana sem úthlutunarvaldið hafa. Það er í stuttu máli hin „eitraða blanda" viðskipta og stjórnmála sem margir Íslendingar þekkja vel, enda þótt blandan sé ekki eingöngu bundin við Ísland. Almennt má segja að græðgin, í bland við valdafíkn, sé helsti drifkraftur samspils pólitískra valda og fyrirgreiðslu. Mikilvægt er talið að fá einokunaraðstöðu af einhverju tagi og geta í krafti hennar hagnýtt almenning og auðlindir. Í frétt frá 12. mars árið 2008 segir t.d.:
„Þann 11. mars 2008 undirrituðu Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar (HAB) og Frumherji hf. samning um eignarhald og umsýslu sölumæla fyrir heitt vatn á orkuveitusvæði HAB. Fyrir á Frumherji alla mæla á veitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur." (http://www.frumherji.is/Frett/6729/).
Þá segir m.a. á heimasíðu Forsætisráðuneytisins (Auðlindaskýrsla 2000 - 2. kafli): „Mikill hluti auðlinda er í einkaeign og eigandinn hefur þá hag af því að nýta þær sem best. Að sama markmiði geta opinberir aðilar stefnt með því að leigja auðlindir sem þeir ráða yfir til einkaaðila með kjörum sem hvetja til hagkvæmrar nýtingar. Sérstakur vandi fylgir hins vegar stjórn þeirra auðlinda sem frjáls aðgangur er að og því ekki um umráðarétt einstakra aðila að ræða. Dæmi um þetta eru fiskistofnar, sem margir aðilar sækja í, andrúmsloftið og ýmsir aðrir þættir umhverfisins."
(http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/Audlindaskyrsla/nr/848)
Þarna er því lýst sem „sérstökum vanda" ef ekki er hægt að nýta auðlindir í krafti einokunaraðstöðu. Meira að segja ýjað að einkavæðingu andrúmsloftsins í leiðinni. Markmiðið með einkavæðingu aðgangs að auðlindum er augljóslega ekki skynsamleg nýting auðlindanna, það blasir við. Meginmarkmiðið er að tryggja sérhagsmunina. Að græðgin fái sitt, og vel það, sem aftur styrki stjórnmálin í staðinn. Það er ævinlega kjarni málsins.
„Lögin" sem hér birtast, ásamt „greinargerð", eru útfærsla á ákveðinni tegund „einkavæðingar". Græðgin þekkir engin takmörk og því ekkert sem tryggir að þessi verði ekki raunin á Íslandi og víðar nema pólitísk vitund almennings - kjósenda; að fólk sé á verði og mótmæli yfirgangi af þessu tagi, kröftuglega, hvenær og hvar sem slík áform birtast og í hvaða „dulargervi" sem þau kunna að leynast.
Jörðin er staður allra. Enginn hefur meðfæddan meiri eða sterkari rétt til gæða jarðar en annar. Enda ófær leið að sýna fram á það með rökum hvar og hvernig slíkur einkaréttur ætti að hafa myndast. Því er eðlilegt að gengið sé út frá þeirri forsendu að allir hafi sama rétt við fæðingu - að sumir séu ekki bornir til sérréttinda. Það er og hugmyndin að baki mannréttindum, sem byggja á náttúrurétti [sbr. droit de l'homme]. „Einkavæðing", s.s. á auðlindum, gengur hins vegar út á aukinn rétt sumra á kostnað annara. „Verðleikar" eru heldur ekkert sem menn verðskulda, eða hafa gefið sér sjálfir, þótt þá megi rækta, heldur eru þvert á móti þegnir sem arfur kynslóðanna. Á „verðleikum" verður því ekki byggt við ráðstöfun sérréttinda. Þannig verður alls ekki séð að nokkur maður verðskuldi yfirleitt forréttindi af neinu tagi. Vonandi hafa margir vaknað til vitundar um þessi mál, sem og önnur brýn hagsmunamál almennings, eða gera það fljótlega.
Lög um einkavæðingu útsýnis og náttúrufyrirbæra
2014 nr. 500 17. júní
I. kafli. Gildissvið, markmið og gjaldtaka
Lög þessi taka til útsýnis og áhorfs á náttúrufyrirbæri á Íslandi sem sjást kunna frá eignarlandi einkaaðila, sveitarfélaga og ríkis, sem og innan þjóðlendna, eins og þær eru skilgreindar í lögum um þjóðlendur nr. 58/1998.
2. gr. Lögin eru ófrávíkjanleg.
Ekki er heimilt að skipa málum með öðrum hætti en greinir í lögum þessum. Ráðherra er þó heimilt að útfæra nánar í reglugerð atriði sem snerta 1. og 3. mgr. 7. gr. laganna.
Of lengi hefur viðgengist að almenningur nýti sér náttúrufyrirbæri án endurgjalds. Það hefur haft í för með sér að íslenskir fjárplógsmenn hafa orðið af milljörðum króna í formi tapaðra áhorfs- og afnotagjalda. Markmið laga þessara er að hindra áhorfsrányrkju á náttúrufyrirbærum, svo sem norðurljósum, tunglsljósi, stjörnum, sólsetri, skýjum og myndum, sem birtast kunna sjónum manna á himinhvolfinu, og tryggja eðlilega gjaldtöku og arðsemi fyrir áhorf sem beinist að nefnum fyrirbærum. Áhorf á náttúrufyrirbæri á jörðu niðri fellur einnig undir lög þessi, svo sem á fjöll, vötn, hafið og öldur þess.
4. gr. Gjaldtaka.
Svo gjaldtaka fyrir áhorf á náttúrufyrirbæri megi ganga snurðulaust fyrir sig verður öllum Íslendingum, frá sjö ára aldri, gert skylt að leigja sérstök gleraugu. Í þeim er rafeindabúnaður sem greinir á hvað er horft og hversu lengi. Áhorf mælist í sekúndum en þó aldrei fyrir fyrstu þrjár sekúndur hvers áhorfs. Með því móti er gefið svigrúm, kjósi áhorfandi að beina sjónum sínum annað, innan þessara tímamarka. Greiðsla vegna áhorfs skal skuldfærast rafrænt af bankareikningi áhorfanda.
Gjaldtaka nær einnig til erlendra ferðamanna sem dvelja á Íslandi til lengri eða skemmri tíma.
II. kafli. Gleraugnaskylda, framkvæmd og eftirlit
5. gr. Gleraugnaskylda.
Skylda til þess að bera gleraugu utanhúss skal miðast við tímabilið á milli kl. 17:00 og kl. 10:00.
Það er á ábyrgð notanda gleraugna að halda þeim ávalt í fullkomnu lagi og tryggja að áhorfsmæling truflist ekki, t.d. vegna ónógra rafhlöðuskipta eða annara orsaka sem rekja má til notandans. Komi upp ágreiningsmál, hvílir sönnunarbyrðin á notandanum sem ber að sanna að ekki sé um vanrækslu að ræða í viðhaldi og notkun gleraugna.
6. gr. Framkvæmd.
Einkaaðilum, sveitarfélögum og ríki ber að tryggja framkvæmd laga þessara. Verði vart við brot gegn lögum þessum ber að tilkynna það þegar í stað til lögreglu, enda sé til staðar rökstuddur grunur á brotum samkvæmt 244. gr. eða 2. mgr. 259. gr. alm. hgl. nr. 19/1940.
Skylt er að draga gluggatjöld fyrir glugga á tímabili gleraugnaskyldu, sé dvalið innan dyra, og svo háttar til að náttúrufyrirbæri sjást inn um glugga íbúðarhúss, verslunarhúss eða annars húsnæðis sem jafna má til dvalar- eða atvinnuhúsnæðis.
Tilkynningarskyld brot eru m.a. útivera án gleraugna, á því tímabili sem gleraugnaskyldan tekur til, breytingar á gleraugum, auk vanrækslu á notkun gluggatjalda á tímabili gleraugnaskyldu. Um almenn refsiskilyrði vísast til II. kafla laga nr. 19/1940.
7. gr. Eftirlit.
Lög þessi gera ráð fyrir að samið verði við öryggisfyrirtæki um sérstakt eftirlit, til að hindra og uppræta brot gegn ákvæðum laga þessara. Til þess að tryggja sem skilvirkast eftirlit, munu öryggisverðir aka um hverfi þéttbýlis á Íslandi og kanna reglulega möguleg lögbrot. Í þeim tilgangi verða öryggisverðir búnir sjónaukum og myndavélum, svo fylgjast megi sem best með meintum brotum sem varða sérstaklega 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga þessara.
Vakni grunur um afbrot, ber öryggisvörðum að skrá vandlega hjá sér götuheiti, götunúmer, hæð fjölbýlishúss og númer íbúðar, ásamt dag- og tímasetningu. Skal kæra meint brot til lögreglu svo fljótt sem verða má. Kæru skulu fylgja ljósmyndir sem sanni afbrot.
Í dreifbýli er gert ráð fyrir sérstökum eftirlitsaðilum, auk þess sem lögregla skal fá aukið fé á fjárlögum svo kosta megi fjölgun lögreglumanna vegna eftirlitsins. Allt eftirlit skal kostað af skattfé.
8. gr. Undanþáguákvæði.
Þegar svo háttar til að náttúrufyrirbæri og landslag sjást ekki, sökum þess að veður eru sérstaklega válynd, eða skilyrði að öðru leyti þannig að útsýni er mjög takmarkað, er heimilt að vera utanhúss án gleraugna á tímabili gleraugnaskyldu.
Heimilt er að horfa á náttúrufyrirbæri innan húss, s.s. í sjónvarpi eða tölvu, en þó aldrei ef um beina útsendingu er að ræða sem sýni eitthvert þeirra náttúrufyrirbæra sem lög þessi taka til.
Sönnunarbyrði þess að skilyrði skv. 1. og 2. mgr. eigi við hvílir á þeim sem nýtir sér undanþágu. Komi upp ágreiningur um skilyrði þess að undanþáguákvæði megi beita skal reka slík mál að hætti sakamála.
Gleraugnaskylda tekur ekki til forseta lýðveldisins, ráðherra, þingmanna, eða opinberra embættismanna s.s. lögreglustjóra, saksóknara og dómara.
Erlendir þjóðhöfðingjar, ráðherrar, sendiherrar og sendiráðsstarfsmenn sem dvelja á Íslandi eru undanþegnir gleraugnaskyldu.
III. kafli. Gildistaka o.fl.
9. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2014.
10. gr. [Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um afmarkaða framkvæmd laga þessara, sbr. 1. mgr. 2. gr.]
Greinargerð með frumvarpi til laga um einkavæðingu
útsýnis og náttúrufyrirbæra [lög nr. 500/2014]
Um frumvarpið
Frumvarp þetta er samið að undirlagi ráðherra, vegna þrýstings frá hagsmunaöflum á Íslandi, hópi fjárplógsmanna í samvinnu við embættis- og stjórnmálamenn. Hafa samtök fjárplógsmanna mjög þrýst á Alþingi og stjórnvöld við gerð þessa frumvarps, undanfarin ár, og haldið reglulega fundi með þingmönnum og ráðherrum vegna málsins. Fjölmargir álitsgjafar og sérfræðingar hafa komið á fundi þingnefndar um frumvarpið s.s. fræðimenn í hagfræði frá hagfræðistofnun Háskóla Íslands og fræðimenn frá Háskólanum í Reykjavík. Flestir þeirra hafa lýst eindreginni nauðsyn þess að einkavæða útsýni og náttúrufyrirbæri á Íslandi. Hafa þeir sýnt fram á með útreikningum að íslenskir fjárplógsmenn hafi orðið af háum fjárhæðum vegna mikillar lausungar sem ríkt hafi í þessum málum og skorts á löggjöf sem bjóði heim hættu á áhorfsrányrkju og sóun. Telja þeir að skatttekjur ríkissjóðs muni einnig aukast umtalsvert verði frumvarpið samþykkt sem lög frá Alþingi. Með lögunum er gert ráð fyrir því að þröngur hópur manna fái einkaleyfi á áhorfi og útsýni á Íslandi, sbr. 3. gr. frumvarpsins, til allt að tuttugu ára í senn, með möguleika á framlengingu. Ekki er gert ráð fyrir opnu útboði á áhorfsleyfunum heldur verði flokkshollusta, og framlög í stjórnmálaflokka, fyrst og fremst látin ráða því hverjir fá úthlutað áhorfsleyfum.
Á nefndarfundi hafa einnig komið aðilar frá náttúruverndarsamtökum og mannréttindasamtökum. Hafa fulltrúar þeirra lýst miklum áhyggjum af því frumvarpi sem hér liggur fyrir og bent á að lögin verði mjög íþyngjandi fyrir almenning og alla íslenska ríkisborgara sem búsettir eru á landinu. Sérstaklega hefur þar verið bent á margs konar vandkvæði sem kunni að skapast vegna gleraugnaskyldunnar sem skilgreind er í 5. gr. frumvarpsins. Íslenskir fræðimenn á sviði lögfræði haft hins vegar bent á það að um þriðjungur Íslendinga hafi sjóngalla þess eðlis að þeir þurfi gleraugu vegna þeirra hvort sem er. Gleraugnaskylda, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, verði því að teljast lítið íþyngjandi fyrir þennan hluta fólks. Hins vegar hafa rithöfundar, bæði íslenskir og erlendir, lýst vandlætingu á frumvarpinu og hvatt Alþingi til þess að fella frumvarpið í atkvæðagreiðslu.
Erlendir prófessorar og fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar og mannréttinda, eignarréttar, Evrópu-og alþjóðaréttar, hafa bent á að frumvarpið brjóti mjög sennilega gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, s.s. á sviði mannréttinda. Telja þeir að eftirlitið, sem skilgreint er í 7. gr. frumvarpsins, stríði gegn friðhelgi einkalífsins eins og hún er skilgreind í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá orki það mjög tvímælis að gera fólki skylt að draga gluggatjöld fyrir glugga híbýla sinna á ákveðnum tíma sólarhrings og kunni það einnig að stríða gegn eignarréttindum fólks. Er í því sambandi sérstaklega bent á 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé ljóst að skilyrði þess að víkja megi frá ákvæðum sáttmálans, á grundvelli 15. gr. hans, séu ekki uppfyllt. Ekki sé um að ræða ógn við almannaöryggi sem réttlætt geti svo mikið inngrip í einkalíf fólks og almannarétt eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
Enn fremur er gerð alvarleg athugasemd við 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að forseti Íslands, ráðherrar, þingmenn og ákveðnir embættismenn, verði undanþegnir gleraugnaskyldunni. Er það talið brjóta gegn jafnræðisákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, enda skorti alla lagalega réttlætingu fyrir þessum undanþágum og því um að ræða handahófskennda mismunun. Íslenskir embættismenn hafa á hinn bóginn bent á það að 12. viðauki við mannréttindasáttmálann hafi enn ekki verið fullgiltur af hálfu Íslands en 1. mgr. 1. gr. hans gerir ráð fyrir banni við allri mismunun á hvers konar lagalegum réttindum, jafnvel þótt þau séu ekki tryggð sérstaklega í mannréttindasáttmálanum, svo fremi að réttindin sem um ræðir séu tryggð samkvæmt lögum einstakra samningsríkja.
Hafa íslensk stjórnvöld brugðist við þessum athugasemdum með því að bjóða erlendu gestunum í rútuferð um „gullna hringinn" og snæða síðan kvöldverð í Þjóðmenningarhúsinu. Með því móti telja stjórnvöld sig hafa eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um einstaka þætti frumvarpsins og frumvarpið í heild. Er það von þeirra sem að frumvarpinu standa að það leiði af sér miklar réttarbætur til handa fjárplógsmönnum. Eru þingmenn hvattir til þess að kynna sér frumvarpið vel, sem og greinargerðina sem því fylgir, áður en þeir greiða um það atkvæði.
[Heimasíða framleiðanda gleraugnanna, www.google.com/glass/start/what-it-does/:].