"VANDAMÁL" SEM Á SÉR ANDLEGAR ORSAKIR
29.06.2015
Reykjavíkurflugvöllur
Hin svokallaða „Rögnunefnd“, og kennd er við Rögnu Árnadóttur, hefur nú skilað af sér skýrslu um möguleg flugvallarstæði í stað núverandi Reykjavíkurflugvallar. Í stuttu máli má segja að skýrslan staðfesti það sem var vitað, að núverandi staðsetning er langsamlega best og ljóst að menn „finna ekki upp hjólið“ í þeim efnum.Um hvað snýst hið „raunverulega vandamál“?
Sumir stjórnmálamenn hafa sagt að deilur muni ávalt verða um núverandi flugvöll. Þá er vert að kanna hvaða ástæður gætu legið þar að baki. Eru það faglegar ástæður? Nei, allar skýrslur sýna svo ekki verður um villst að ekki fæst heppilegra flugvallarstæði, hvort sem um ræðir veðurfar, aðflug, fráflug eða aðra mikilvæga þætti. Getur ástæðan verið sú að fólk sem býr í hverfi hundrað og einum láti flugumferð fara í taugarnar á sér? Jafnvel þeir sem starfa í Ráðhúsi Reykjavíkur og heyra þegar Fokker F-50 flýgur aðflug yfir ráðhúsið? Já, sú skýring verður að teljast mjög sennileg. En er það „vandamál“ leyst með því að færa það til annara? Nei, að sjálfsögðu ekki. Gæti ástæðan verið þrýstingur frá græðgisfólki sem vill byggja rándýrar íbúðarblokkir á núverandi flugvallarstæði? Já, sú skýring á sér traustar stoðir eins og komið hefur fram undanfarið. En hvað með andlegu hliðina, er andstaðan við flugvöllinn ekki byggð á ákveðinni hugrænni afstöðu fremur en vísindalegri? Er ekki eðlilegra að breyta andlegri afstöðu með upplýsingu fremur en milljarða framkvæmdum? T.a.m. hefur fyrrverandi ráðherra, Guðni Ágústsson, viðurkennt hreinskilnislega að hann hafi skipt um skoðun í flugvallarmálinu eftir að hann fékk uppfræðslu frá flugmönnum, um þau atriði sem máli skipta í þessu samhengi, og væri því hlyntur núverandi staðsetningu.Í öllu falli virðist ljóst að „flugvallarvandamálið“ er af hugrænum/andlegum toga[i] en ekki tæknilegum og vísindalegum. Snýst um afstöðu (skoðun) sem ekki er undirbyggð með haldbærum rökum. Flestum samgöngum nútímans fylgja einhver „óþægindi“ það er óhjákvæmilegt. Nægir að nefna ískur í sporvögnum og járnbrautalestum víða um heim, umferðarhávaða af völdum bíla, mótorhjóla, hávaða vegna flugtaka og lendinga svo helstu atriði séu nefnd. Þessum afleiðingum samgangna verður ekki vísað í „önnur bæjarfélög“ þótt þær kunni að fara í taugarnar á einhverjum. Ef ráðist verður í flugvallarframkvæmdir í Hvassahrauni er enn einni spurningu ósvarað. Nefnilega þeirri hvert á síðan að flytja flugvöllinn í Hvassahrauni þegar íbúar í nálægum hverfum „fá þá hugmynd“ að hávaðinn frá vellinum fari í taugarnar á þeim eða að byggja verði á svæðinu. Hvað á að hindra að sú staða komi ekki upp? Þá má hugsa sér að „vandamálið“ verði flutt til Akureyrar og síðan til Egilstaða.
En ef íbúar á Akureyri og Egilstöðum fá sömu „hugmynd“ og þeir sem búa í hverfi hundrað og einum er hægt að byrja uppá nýtt og skipuleggja nýjan flugvöll á Lönguskerjum. Þannig má halda áfram þangað til menn komast í þrot, enda enginn hörgull á hagsmunum og pirringi fólks út í margvíslegustu fyrirbæri. Það hlýtur þó ævinlega að vera áleitin spurning hversu miklum fjármunum má verja til þess að þjóna hugrænum þáttum og „afstöðu“ sem þessari. En þar sem Keflavíkurflugvöllur hefur af og til verið nefndur í þessu sambandi fer vart á milli mála að hann verður ekki bæði notaður sem flugvöllur fyrir innanlandsflug og varaflugvöllur þegar ekki er hægt að lenda í Keflavík. Hins vegar koma stundum upp þau tilvik að hægt er að lenda í Reykjavík (BIRK) þótt ekki sé hægt að lenda í Keflavík (BIKF).
Lausn flugvallarmálsins
Lausnin á þeirri sérkennilegu deilu sem flugvallarmálið er virðist helst fólgin í aukinni upplýsingu (hugarfarsbreytingu) þeirra sem telja núverandi flugvöll eitthvert vandamál. Þar geta menn farið að dæmi Guðna Ágústssonar og tekið sönsum. „Vandamálið“ er fyrst og fremst hugarfarslegt, snýst um órökstudda afstöðu sem oft yfirskyggir vísindi, flugöryggi og almannahagsmuni. Eru þá ótalin kostnaðarrökin sem tvímælalaust ganga gegn lagningu nýs flugvallar með öllu því sem slíkum framkvæmdum tilheyrir s.s. flugstöð, aðflugsbúnaði og fleiru. Ætla má að ódýrara væri að „flytja“ Háskóla Íslands, og fyrirtæki í grennd, í Hvassahraun en ráðast í lagningu flugvallar þar. „Stækkunarmöguleikar“ vísindastarfs ættu að vera nægir í hrauninu. Heimild.[ii]
[i] Sjá einnig „Motivated reasoning“: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/2270237
[ii] http://www.culturalcognition.net/blog/2013/7/16/proof-of-ideologically-motivated-reasoning-strong-vs-weak.html