FYRIRGEFNING, GLÆPUR OG REFSING
Okkur er uppálagt að sýna góðvild og fyrirgefa þeim sem gert hafa á okkar hlut. Okkur er sagt að það sé heilbrigt að menn fái uppreist æru, jafnvel þótt eftir brautum klíkunnar sé farið. Okkur er kennt í æsku að best sé að bjóða vinstri vangann þeim sem hefur löðrungað okkur á þann hægri. Fyrirgefningin er þannig athöfn heiðarleikans og hún gerir þá kröfu að við horfum á verk manna, metum þau og reynum að trúa því að brotamaðurinn muni aldrei framar brjóta af sér. En okkur er hvergi bannað að efast.
Um leið og okkur er kennt að trúa á mátt fyrirgefningarinnar getum við ekki annað en vonað að þjófar og lygarar sýni bót og betrun. En við getum aldrei treyst því fullkomlega að dæmdur þjófur muni aldrei framar stela. Við getum ekki treyst því fullkomlega að dæmdur lygari ljúgi aldrei framar.
Ég hugleiði þetta með fyrirgefninguna, glæpinn og refsinguna þegar mér er það ljóst að Árni Johnsen muni, að öllum líkindum, komast aftur á þann stað sem hann notaði sem vettvang áralangrar glæpasögu. Árni segist sjálfur vera þekktur fyrir að fylgja málum fast eftir, hann segist ætla að gera einsog hann segir að Páll postuli hafi sagt að menn ættu að gera – líta til framtíðar og gleyma því sem liðið er.
Árni vill að við gleymum því að hann var dæmdur fyrir margan glæpinn. En við eigum væntanlega að gleyma til þess eins að geta verið blekkt í framtíðinni. Við eigum að bjóða Árna að seilast í hinn vasann, við eigum að ljá honum hitt eyrað svo hann geti haldið áfram að ljúga.
Þótt um það sé ritað í bókum að okkur beri að fyrirgefa mönnum misgjörðir, þá er ekki hægt að ætlast til þess að við treystum í blindni þeim mönnum sem gert hafa okkur marga skráveifuna. Og þegar alhæft er útfrá kennisetningum ævafornra bóka þá er það nú ekki svo í dag, að menn séu gerðir höfðinu styttri fyrir það eitt að liggja vel við höggi, jafnvel þótt sú aðferð hafi einhverju sinni verið færð í letur.
Sá maður er siðlaus sem krefst þess að fá traustsyfirlýsingu þeirrar þjóðar sem hann hefur blekkt. Sá maður er siðlaus sem krefst þess að fólk gleymi misgjörðum hans, en minnist hans sem framtakssamrar hetju.
Ég fyrirgef með ást og yl
öllum sem ég þekki
en þegar allt ég tíni til,
þá treysti ég þeim ekki.
Kristján Hreinsson, skáld