Fara í efni

PALLI EINN Í HEIMINUM

Eftir að ohf-ið kom sem skraut aftan við nafn okkar ágæta Ríkisútvarps hefur það gerst að yfirstjórn fyrirtækisins hefur nú aðsetur í Valhöll, á meðan það er einsog Gróa í Efstaleiti sé einvörðungu kjaftatík sem kemur illafengnum upplýsingunum til skila.
Það merkilegasta sem Palli litli gerði þegar hann var orðinn einn í heiminum, var að hækka eigin laun.
Það þarf engum manni að dyljast að óæskilegu starfsfólki var fækkað hjá stofnuninni þegar RÚV var breytt í hlutafélag. Og þá erum við fyrst og fremst að tala um fólk sem er óæskilegt þegar ætlunin er að fegra Helmingaskiptaveldið.
Daglega heyrum við þá síamstvíbura Geir og Jón mærða í því sem ranglega hefur verið uppnefnt útvarp allra landsmanna. Það er meira að segja náð í afdankaða ónytjunga til að mæra tvíeykið. Nú í vikunni lögðust menn á RÚV svo lágt að kalla til sögunnar Halldór Ásgrímsson en þann mann nefnir maður vart ógrátandi. Og hver skyldu tíðindin hafa verið?  Jú, hann mætti á staðinn til að segja þjóðinni að það fylgi sem Vinstri-grænum er spáð í skoðanakönnunum sé bara loftbóla og svo kom hann með auglýsingu frá Framsókn, þess efnis að fylgi við þann sóðaskap sem Framsókn nefnist mældist alltaf meira eftir kosningar en fyrir.
Og hin japlaða tugga um fylgi Framsóknar er sett í trant hvers og eins einasta dillibossa sem hugsast getur. Núna í gær mætti okkar ástsæli menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín, sem var svo ljúf að leyfa Palla litla að tvöfalda launin sín. Og Þorgerður var mætt að hljóðnemanum til að flytja þjóðinni það fagnaðarerindi að sjálfstæðismenn þyrftu á stuðningi við Framsókn að halda – að Framsókn væri fræg fyrir slæma útkomu í skoðanakönnunum en fengi alltaf vel úr kjörkössunum.
Ríkisútvarpið stundar í dag það sem kalla má skoðanahönnun. Því er markvisst troðið í þjóðina að ríkisstjórn Helmingaskiptaveldisins sé það besta sem fundið hefur verið upp. Okkur er markvisst kennt að gleyma því að dómskerfið, rannsóknavaldið og yfirleitt allt opinbert vald lýtur lögmálum spillingar. Olíufurstarnir sem stálu af þjóðinni milljörðum og sluppu með skrekkinn eru dæmi um þá gengdarlausu spillingu sem Helmingaskiptaveldið vill ekki að við fáum fréttir af.
Og núna, þegar Palli litli er orðinn einn í heiminum þá munum við fá fleiri fallegar fréttir af þeim óþjóðarlýð sem hérna hefur ráðið ríkjum síðustu 12 árin. Núna þarf að kalla á Davíð Oddsson, Finn Ingólfsson, Árna Johnsen og fleiri snillinga til að vera með fréttaskýringaþátt. En þegar sá þáttur fer í loftið – þá verður Palli litli loksins farinn að vinna fyrir laununum sínum.
Kristján Hreinsson, skáld