VIÐ FREISTINGUM GÆT ÞÍN
Mikið óskaplega er þetta nú vandræðalegt hjá blessuðum V-listanum í borgarmálunum. Fólk sér þá leið eina, að leggjast enn og aftur uppí hjá framsóknarmönnum, bjóða þeim aðgang að öllu sem þeir hafa haft aðgang að og tryggja þeim það að þeir geti áfram ausið úr brunnum borgarinnar til að kæla flokksmaskínuna sem malar og malar, alltaf á kostnað þeirra sem minna mega sín.
Það á að sitja áfram í borgarstjórn, sama hvað það kostar. Og við erum enn að tala um þennan græna vinstrimannaflokk sem nefnir það alltaf annað slagið að nú verði að gera eitthvað nýtt, breyta til, standa á bremsum, ekki selja orku til fleiri álvera. En um leið og einhver býður atvinnupólitíkusunum, annaðhvort að hætta að vinna eða samþykkja enn eina vitleysuna, þá hefur V-listinn sýnt og sannað að sá flokkur er engin undantekning.
Það er að sýna sig, að menn ætla að fara enn og aftur í samstarf með Framsóknarflokki. Stolt og döngun eru ekki lengur til í herbúðum vinstrimanna – allt skal gert fyrir mjúka stóla undir rasskinnarnar. Og er það ekki örugglega stefnan að stilla upp okkar dugmiklu framvarðasveit; verða það ekki örugglega Árni Þór Sigurðsson og Björk Vilhelmsdóttir sem stýra áfram þessum undirlægjuhætti. Þau hafa nú aldeilis æfinguna í að koma fram með mótmæli sem síðan eru kæfð um leið og þau eru opinberuð.
Á sama tíma og menn í Vinstrihreyfingunni grænu framboði eru stöðugt að raða púðum undir afturenda framsóknarmanna, má heyra Vg-menn væla undan stórveldi Samfylkingarinnar. Menn hafa það enn hugfast að það var fyrst og fremst Samfylkingin sem gekk í lið með Landsvirkjun þegar ábyrgðir lána fengu samþykki í borgarstjórn hér í eina tíð. Alltaf heyrir maður Vg-liðið setja útá allt sem Samfylking gerir og menn tala jafnvel um að nýr formaður flokksins hafi fært fylkinguna lengra til hægri. Vg-nötrar af ótta við stærsta vinstriflokk Íslands, en á sama tíma eru biðilsbrækurnar pressaðar svo leggjast megi í bælið hjá framsókninni.
Það er kannski kominn tími til að sameina Vg og Framsóknarflokkinn þá gætum við allavega fengið hallærislegasta nafn á stjórnmálaflokki í veraldarsögunni: Framsóknarflokkur vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Það hlýtur að vera kominn tími til að vinstrimenn átti sig á því að ef þeir ætla áfram að fylgja málstað Framsóknarmanna, þá munu þeir áfram ausa vatni á myllu Kölska. Sumar freistingar eru einfaldlega þannig að þeim er gott að gleyma.
Kristján Hreinsson, skáld