Kursk-herferðin flýtir ósigri Úkraínu og NATO
Innrás/ sókn Úkraínuhers inn í Kursk-hérað, sem hófst 6 ágúst, kom Rússum í opna skjöldu, 10-15 þúsund manna her glefsaði til sín allstórt illa varið rússneskt svæði. Það er fyrsta innrás í Rússland frá lokum seinna heimsstríðs. Sem er vissulega auðmýkjandi fyrir stjórnvöld í Kreml.
Innrásin skóp vonarbjartar yfirskriftir um öll Vesturlönd. Vonir um að auðmýkja mætti Pútín frekar og grafa undan honum. Fjölmiðlar reyndu jafnvel að fella fréttina inn í «sigurgöngu»-frásögnina gömlu um að Úkraína geti sigrað Rússland. Á Íslandi er áróðursstaðan sú að «sérfræðingar» RÚV á þessu sviði klappa sjálfkrafa fyrir öllu sem frá NATO og Zelensky kemur. Ekki síður í þetta sinn.
Áhrifin á stríðið urðu samt önnur en vonast var til. Árásin varð ekki til að létta á eða draga úr sókn Rússa á víglínunni í Donbass. Rússar fluttu enga heri þaðan. Allsenga. Það var hins vegar Úkraínuher sem flutti dýrmætar sveitir sínar einmitt frá Donbass og veikti mjög varnirnar, þar sem þær síst máttu veikjast.
Mikilvægt atriði: Rússneskum stjórnvöldum er ekki heimilt lögum samkvæmt að senda herskylduhermenn til stríðsins í Úkraínu en þau mega senda þá á sérhvern orustuvöll innan Rússlands. Og það er einmitt það sem nú gerist.
Smám saman hafa vestrænir fjölmiðlar líka gert sér grein fyrir að Kursk-innrásin hefur ekki breytt málunum í þá átt sem hún átti að gera. Hið gagnrýna og vel upplýsta bandaríska vefrit Moon of Alabama gerði 21. ágúst góða samantekt á stöðurapportum bandarískra fjölmiðla af hernaðarstöðunni austur þar í kjölfar Kursk-sóknarinnar.
Meginstraumsmiðlar viðurkenna misheppnaða herferð
Við skulum þá vitna í nokkrar nýlegar umsagnir meginstraumsmiðla samkvæmt samantekt Moon of Alabama.
- Russia Seeks to Turn Humbling Incursion Into Military Gains (archived) - New York Times
„Eftir að hafa í byrjun verið rómað sem stórsnjallt hernaðarlegt bragð gæti Kursk-aðgerðin endað sem gildra fyrir úkraínska herinn, sögðu þessir greinendur. Þegar allt kemur til alls mun þessi útvíkkun stríðsins til nýrra svæða, með tímanum, gagnast þeim stríðsaðila sem hefur meira bolmagn.“
- Has Zelensky Walked Into Putin's Trap? – Newsweek
„Hættan á að yfirteygja sig er þarna fyrir hendi, hættan á að dýrmætur mannskapur og búnaður tapist og að Pútín geti notað þetta sem átyllu til frekari stigmögnunar,“ sagði Michael A. Witt, prófessor í alþjóðaviðskiptum og strategíu við King's Business School í London.
„Þessi glæfralegi gabbleikur, sem líkist meira örvæntingsarfullri brellu frá annarsflokks leikara en reyndum stjórnvitringi, beinir lífsnauðsynlegum kröftum frá aðalvígvellinum en býður upp á hverfandi hernaðarlegan ávinning.
Þetta kastar ekki rýrð á hugrekki þeirra úkraínsku hersveita sem hafa áreiðanlega mætt miklum áskorunum í þessari innrás – en hugrekki án strategískrar leiðsagnar er uppskrift að óförum. Spurningin sem þarf að spyrja er hvort mögulegur ávinningur vegi upp áhættuna. Eins og er benda gögnin yfirgnæfandi til hins neikvæða.“
Þannig er þá myndin sem nú dregst upp af Kursk-herferðinni – í umræddum meginstraumsmiðlum. Jafnvel meginstraumsmiðlar gera sér grein fyrir að innrásin var mistök. Eftir þá þessa yfirferð vitnar Moon of Alabama í nokkra aðila sem ganga gegn meginstraumnum. Þar nefni ég tvo menn sem ég tek mark á flestum öðrum fremur á þessu sviði. Það eru norski fræðimaðurinn Glenn Diesen og bandaríski fyrrv. ofurstinn Douglas Macgregor.
Glenn Diesen um hættuna af að einblína á landvinninga
Glenn Diesen skrifar á Substack:
„Blaðamennirnir sem hafa sagt frá kyrrstæðum átökum og fagna sérhverri sókn herja Úkraínu (sem lenda þá oft í stórskota-sjálfheldu) eru helteknir af landvinningum
Eftir að hafa þurrausið úkraínska herinn og vopnabirgðir NATO opnar Rússland nýja víglínu í Kharkov til að teygja frekar á útteygðum Úraínuher. Kursk-sóknin er afskaplega áhættusamur leikur af því fyrir hann er fyrirsjáanlega greitt gríðarhátt gjald þar sem mönnum og vélbúnaði er ljóslega fórnað án öruggra aðfanga og svæðinu verður ekki haldið. Því dýpra sem Úkraína kemst inn í Rússland því veikari verða aðflutningsæðarnar.
Þreytistríðið hefur náð nýju stigi þar sem úkraínski herinn er þegar útkeyrður og víglínur hrynja saman án mikillar mótstöðu. Hin vanhugsaða innrás Úkraínu/NATO í Kursk-hérað gerði stöðuna ennþá verri þar sem mikilvægir aðfangapunktar eru ekki lengur nægilega varðir.“
Macgregor: Þetta getur breytt gangi Úkraínustríðsins
Loks er það Douglas Macgregor ofursti, en á meðfylgjandi myndbandi ræðir við Daniel Davis við hann: Ukraine BufferZone in Kursk? Disaster Awaits Macgregor metur Kursk-innrásina á svipaðan hátt og Diesen, sem hernaðarlegt glapræði, já, hernaðarlega hafi hún nú þegar breyst í katastrófu fyrir Úkraínu. Macgregor álítur þar að auki að þessi aðgerð geti breytt gangi stríðsins, en að það muni ekki verða Úkraínu í hag.
Frá rússneskum sjónarhól er um að ræða NATO-innrás, og þannig er hún túlkuð í Kreml. Og ofurstinn fyrrverandi telur líka að með þessu hafi stróiðsrekstur NATO færst yfir línuna milli staðgengilsstríðs og beins stríðs. Vopnin eru flest frá NATO-ríkjum. Síðan í vor hafa NATO, Bretland, Bandaríkin og Þýskaland hvert af öðru veitt Úkraínu heimild til að beita nýju vestrænu vopnunum til árása á skotmörk innan Rússlands. Ennfremur segir Macgregor:
Í viðbót hef ég heyrt mat og áætlanir um að það séu a.m.k. 2000 menn í þessum innrásarher sem augljóslega séu ekki úkraínskir. Þeir virðast vera breskir, bandarískir, og hve margir þeirra gætu verið pólskir er einfaldlega ekki vitað.
Þá tilgreinir hann tvíþætt áhrif sem innrásin hafi á Rússland innan lands:
- a) Áhrif hennar á viðhorf almennings í Rússlandi: „Landsmenn eru núna sameinaðir á þann hátt sem enginn hefur séð í áratugi, fólk er reitt, krefjandi Pútín um að marséra vestur eftir Úkraínu allt að landamærum Póllands, annars hætti þetta stríð aldrei,“ segir Macgregor. Allt frá 2014 eftir að Bandaríkin skipulögðu valdaránið í Kiev hefur Pútín sagt að hin nýju stjórnvöld þar opni fyrir hernaðarógn og árás úr vestri. Og hér eftir verður stórum auðveldara fyrir Pútín að halda því fram (fyrir rússnesku þjóðina hefur Kursk auk þess sögulegt og táknrænt gildi af því skriðdrekaorustan mikla þar 1943 snéri gangi heimsstyrjaldarinnar).
- b) Innrásin í Kursk-hérað verður ekki síður til að herða afstöðu rússneskra stjórnvalda, árásin sýni að hinn stríðsaðilinn ætli augljóslega aldrei að semja um frið ótilneyddur. Málið er að Kremlverjar hafa smám saman hert skilmála sína fyrir friðarviðræðum. Fyrst eftir innrásina 24. febrúar (í friðarviðræðum í Istanbul) voru þeir tilbúnir að bakka allt að landamæralínunni fyrir innrás, ef aðeins Úkraína gengist inn á hlutleysi. NATO kom í veg fyrir þá samninga. Í næsta skipti sem Pútín setti skilmála gagnvart friðarviðræðum var í júní sl. (í sambandi við D-daginn 6. júní): að Úkraína í viðbót við hlutleysi yrði að láta af hendi rússneskumælandi héruðin 4 (oblöstin fjögur) í Donbass. En nú, eftir Kursk, telur Macgregor að búast megi við miklu harkalegri afstöðu, nú dugi Rússum ekkert minna en fullur hernaðarlegur sigur og að reka sitjandi stjórnvöld frá völdum.
Tilgangur Kursk-innrásar?
Innrásin tók Rússa í bólinu. Hún var ósigur og auðmýking fyrir Pútín. Hernaðarlegur ávinningur gat þó aldrei staðist lengi, og er þegar að mestu horfinn. Úkraínska þjóðin mun gjalda fyrir með nýjum tugþúsundum mannslífa og rústuðum innviðum, jafnvel á stærri skala en áður. Hver var þá tilgangurinn?
Zelensky hefur verið brúða á snærum NATO síðan hann gekkst inn á stríðslínuna í apríl 2022, svo innrásin hlýtur eiginlega að hafa verið ákveðin með NATO. Stríðsmarkmið NATO í Úkraínustríði er augljóslega ekki að vernda Úkraínumenn (hlutverk þeirra er að vera sláturfé) heldur að þreyta og veikja Rússland. Og Kursk-innrás fellur bærilega inn í þá mynd ef hún stuðlar að því að veikja stöðu Pútínstjórnar.
Frá sjónarhóli Zelensky og Kievstjórnar er áætlunin væntanlega að vinna ákveðinn áróðurssigur, hafna áfram öllum samningum við Rússa en freista þess að breikka stríðið og framlengja það. Þannig mætti sannfæra Vestrið um áframhaldandi fjármögnun, sem rennur annars vegar til her-iðnaðar samsteypu BNA og hins vegar í rétta spillta vasa í Úkraínu.
Allt er þetta gambul og glæfraspil um örlög Úkraínu, spil sem mögulega virkar að einhverju leyti skv. áætlun. En ekki verður það til að koma í veg fyrir eða seinka ósigri Úkraínu í stríðinu. Það flýtir honum. En þá heldur stríðið bara áfram í breyttri mynd. Kannski á öðrum stað. Hnignandi hnattveldi sem berst fyrir stöðu sinni er mjög hættulegt.
Greinin birtist einnig á vefritinu neistar.is