Fara í efni

Leiðtogafundur skinhelgi og hræsni

 

Leiðtogar Evrópu komu stormandi á þotunum á leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík. Verkefni fundarins er að „draga Rússa til ábyrgðar“ fyrir dauða og eyðileggingu af völdum innrásar þeirra í Úkraínu, gefa út „tjónaskrá“ og síðan „senda Rússum reikninginn“.

Geópólitíkin slær í gegn á einum vettvangi af öðrum

Í Úkraínudeilunni tekur Evrópuráðið beinni og virkari afstöðu í geópólitík/stórveldapólitík en það á vanda til. Opinbert hlutverk Evrópuráðsins er að „styrkja lýðræði og mannréttindi“ fremur en stjórnmál og stórveldapólitík. En ástæða svo skýrrar afstöðu í þessari deilu er væntanlega sú að samkvæmt vestrænni orðræðu standa átök stórvelda dagsins í dag á milli lýðræðis og alræðis, milli vestrænna gilda og austrænna, milli góðs og ills. Í átökum NATO-ríkja og Rússlands hefur Evrópuráðið reyndar alltaf tekið mjög skýra afstöðu. Rússland fékk inngöngu í ráðið 1996 en var svipt atkvæðisrétti 2014 eftir innlimun Krímskaga og svo sparkað aftur úr ráðinu 2022.

Nú um stundir slær stórveldapólitík og geópólitík í gegn og ryður sér til rúms á einum vettvangi af öðrum. Norðurlandaráð og Norðurskautsráðið eru vettvangar sem áttu að heita hlutlausir og pólitískt óháðir. En nú eru öll aðildalönd þeirra orðin eða að verða NATO-lönd sem opnar þeim leiðina til að taka skýra afstöðu í stórveldapólitíkinni, sem þau sannarlega gera. Sama þróun birtist hjá Evrópuráðinu. Ekki þarf að gæta neins „jafnvægis“ þar lengur.

Aukin geópólitísk stöðutaka Evrópuráðsins birtist sem aukin samsömun þess við ESB, og var hún þó mikil fyrir. Ursula von der Leyen mætir auðvitað á fundinn í Reykjavík. Merki um samsömunina er að Evrópuráðið og ESB hafa sama fánann. Á kynningarsíðum Evrópuráðsins er samband þess og ESB skilgreint: “Evrópusambandið er helsti stofnanalegi félagi (partner) Evrópuráðsins á pólitísku, lagalegu og fjármálalegu sviði.“ Þessi tvö batterí skipta með sér hlutverkum, Evrópuráðið fæst sem sé helst við lýðræði og mannréttindi en ESB er stjórnmálabandalag („ever closer union“ samkvæmt Rómarsáttmálanum). Ekki bara það: Á sömu kynningarsíðum Evrópuráðsins er samband þess við ESB skilgreint sem „strategic partnership, which has developed in recent years”. Þau mynda með sér „öryggismála-félag“. Þar með erum við komin úr stjórnmálunum yfir í hermálin.

En forsjá ESB í öryggismálum er ekki í höndum ESB sjálfs. Hún er hjá NATO. ESB skilgreinir nú samband sitt við NATO á sama hátt: sem «strategic partnership». Bandalögin tvö gáfu t.d. í vetur út „Joint Declaration on EU-NATO Cooperation“. Þar segir m.a.: „Öryggismála-félag [strategic partnership] NATO og ESB er grundvallað á sameiginlegum gildum, á einsetningi okkar að ráða fram úr sameiginlegum áskorunum… Gagnkvæmt styrkjandi öryggismála-félag okkar stuðlar að styrkingu öryggis í Evrópu og út fyrir hana.“

Allt eru þetta merki um stigmögnun Evrópðusamrunans. Evrópuráðið samsamar sig ESB meir en áður, sem að sínu leyti samsamar sig NATO enn meira en áður. Sem þýðir að Evrópa þjappar sér upp að verndaranum í Washington enn meir en áður. Þróunin hjá Evrópuráðinu er fyrst og fremst merki um að NATO-vestrið kemur fram sem æ harðari pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg blokk.

Draga þyrfti fleiri til ábyrgðar

Það hafa verið háð stríð víðar en í Úkraínu á þessari öld – og geisa enn. Stríð sem að vísu eru ekki í álfunni okkar en koma þó Evrópu og helstu Evrópuveldum við í hæsta máta. Við skulum skoða þetta aðeins. Verðum örugglega sökuð um „whataboutisma“, en það er einmitt hér sem „whataboutismi“ á við.

Fyrst skal tilgreina nýkomna skýrslu frá Watson Institute við Brown University um það sem hún kallar „Stríð Bandaríkjanna eftir 11. september“. Skýrslan nefnist einfaldlega Kostnaður stríðs, „Costs of War“. Þarna má lesa:

„A.m.k. 929 þúsund manns hafa verið drepin í beinum stríðsátökum í Írak, Afganistan, Sýrlandi, Jemen og Pakistan. Fjöldi þeirra sem særst hafa eða veikst vegna átakanna er miklu hærri sem og fjöldi almennra borgara sem dáið hafa óbeint vegna eyðileggingar sjúkrahúsa og innviða og umhverfismengunar og annarra stríðstengdra vandamála… Mjög stór hluti fallinna eru almennir borgarar. Meira en 387 þúsund almennir borgarar hafa verið drepnir frá 2001.“

Skýrslan áréttar að þetta séu aðeins tölur um drepna í beinum hernaðarátökum en dauðsföll almennra borgara sem leiði óbeint af hernaðinum séu „margfalt hærri. Um flóttamenn segir:

„Milljónir manna á stríðssvæðum hafa líka hrakist á flótta. Styrjaldir Bandaríkjanna eftir 11. september hafa hrakið á flótta a.m.k. 38 milljón manns innan og frá Afganistan, Írak, Pakistan, Jemen, Sómalíu, Filipseyjum, Líbíu og Sýrlandi. Sá fjöldi fer fram úr fjölda flóttamanna af völdum sérhverrar styrjaldar frá 1900 að frátalinni seinni heimsstyrjöldinni“

Það er vert að minna á að það er hvorki Vladimír Pútín né þolendur nefndra árásarstríða sem koma með þessar tölur heldur virtur bandarískur háskóli.

Árið 2018 birti Nicolas JS Davies m.a. í Consortium News, Common Dreams og víðar skýrslu sína „How Many Millions of People Have Been Killed in America’s Post-9/11 Wars?“ Davies fékk út enn hærri tölur. Hann byrjar á Írak. Þar voru gerðar góðar tölfræðilegar rannsóknir þar sem beitt var faraldsfræðiegum aðferðum, meðan stríðið geysaði (sbr. skýrslu sem birt var í breska The Lancet 2006 og aðra frá hinu breska ORB-Polling, virtu fyrirtæki um alþjóðlegar tölfræðirannsóknir, árið 2007):

Davies skrifar: „Grein sem ég skrifaði ásamt Medea Benjamin, „Dauðagjald Íraks fimmtán árum eftir innrásina“, mat dauðsföllin í Írak eins nákvæmlega og heiðarlega og við gátum í mars árið 2018. Mat okkar var að líklega hafi 2,4 milljónir manna verið drepnar í Írak sem afleiðing af hinni sögulegu árás Bandaríkjanna og Bretlands árið 2003.“

Ekki hefur samt Evrópuráðið enn þá séð ástæðu til að „draga til ábyrgðar“ árásaraðila þess stríðs. NATO var að vísu ekki aðili að innrásinni í Írak 2003 eins og t.d. Danmörk, Pólland, Spánn og Ítalía o.fl. en gerðist svo aðili að hinu blóðuga hernámi landsins frá öðru ári stríðsins, 2004, og var það stríðið á enda.

Fleiri mikil mannfórnastríð hafa verið háð á öldinni. Samkvæmt skýrslum Nicolas Davies höfðu (árið 2018) 1,2 milljónir verið drepnar í Afganistan og Pakistan vegna Afganistanstríðsins. Enn fremur metur hann það svo að um 250 þúsundir hafi verið drepnar í Líbíu 2011, í því stríði, ofbeldi og öngþveiti sem NATO og arabískir bandamenn þess stofnuðu þar til – og eyðilögðu með því eina „velferðarríki Afríku“.

Og hverjir háðu þessi stríð? Voru það kannski Evrópuráðsríki? Jú, Bandaríkin hófu árásarstríðið gegn Afganistan undir eigin stjórn 2001. En árið 2003 yfirtók NATO stjórn þess. Uppistaðan í innrásarahernum kom frá Bandaríkjunum og Kanada ásamt hátt á fjórða tug Evrópulanda. Það var í öllum meginatriðum norðuramerískt/evrópskt árásarstríð og lauk með skömm. Herbandalagið sem réðist gegn Líbíu og Gaddafi var samsett á líkan hátt. Það var árásarstríð háð af NATO með þátttöku 17 NATO-ríkja (ásamt Katar).

Davies reiknar út að u.þ.b. ein milljón geti verið drepin í stríðinu gegn Sýrlandi. Hernaðaríhlutunin var og er borin uppi, vopnuð og kostuð af Bandaríkjunum, Evrópuveldum og bandamönnum þeirra í Miðausturlöndum.

Ef ætti að „draga til ábyrgðar“ árásaraðilana í þessum styrjöldum yrði líka að búa til „tjónaskrá“, telja upp efnahagslegar og félagslegar afleiðingar styrjaldanna. Þessi lönd sem Norður-Ameríka og Evrópa tóku að sér að „frelsa“ hafa hrapað áratugi niður á við í lífskjörum og eru eftirá sárþjökuð af ofbeldi trúarhópa, félagslegri upplausn og eymd.

Vestræni fjölmiðlaheimurinn á 21. öld er gríðarlega miðstýrður, og upplýsingaflæðið er hvergi eins ofanstýrt og á hermálasviðinu. Hin vestrænu stríð eru hljóðlát, falin og vernduð fyrir fjölmiðlum. Almenningur veit lítið af þeim. Davies skrifar: „Fólkið í Mósúl, Raqqa, Kobane, Sirte, Fallúja, Ramadi, Tawergha og Deir Ez-Zor hafa dáið eins og fallandi tré í skógi þar sem engir vestrænir fréttamenn eða sjónvarpsteymi voru nálæg til að skrásetja fjöldamorðin.“

Aftur á móti ef Rússar hefja árásarstríð

Þetta síðasta atriði umbreyttist á samri stundu þegar Rússar hófu löglaust árásarstríð á Úkraínu í febrúar 2022. Ég tek fram að ég hef fordæmt árás Rússa frá fyrstu stundu. En nú mættu sannarlega fjölmiðlarnir á svæðið. Og nú giltu allt önnur siðferðislögmál. Þar voru það nefnilega ekki hinir „góðu“ sem gerðu árás heldur hinir „vondu“. Fórnarlömbin eru nú „verðug“ ekki „óverðugt“ fólk í Austurlöndum nær. Enda mun Evrópuráðið nú „miskunnarlaust draga Rússa til „ábyrgðar“ og senda þeim reikning. Þetta er tvöfalt siðgæði. Þetta er hræsni hinna skinhelgu.

Hinir skinhelgu halda því náttúrlega fram að Rússar heyi stríð alveg í sérflokki fyrir villimennsku sakir. Terrorstríð gegn almennum borgurum. Stríðið í Úkraínu er ljótt og grimmilegt, fjarri mér að gera lítið úr því. Varðandi hina sérstöku grimmd má þó bera saman við eitthvert af þeim „vestrænu“ stríðum sem hér voru nefnd. Watson Institute reiknar drepna almenna borgara í beinum hernaðarátökum í stríðunum í Írak, Afganistan og Sýrlandi (eftir 11. september) upp á „meira en 387 þúsund“ eins og áður sagði.

En í Úkraínu? Mannréttindaskrifastofa Sameinuðu Þjóðanna (OHCHR) telur og skráir þar mannfall almennra borgara og birtir jafn óðum. Þann 8. maí sl. var sú tala í 8791. Það er mikið mannfall. Það er samt ekki meira en 1/44 partur af því sem fallið hefur í síðastnefndu „vestrænu“ stríðunum þremur. Það er vel líklegt að raunverulegt mannfall í Úkraínu sé hærra. Hins vegar er fjölmiðlastaða, upplýsingarstig og aðrar aðstæður þess stríðs þannig að hvorki Úkraínumenn sjálfir né SÞ eru líkleg til að vantelja stórlega fall almennra borgara (um mannfall í Úkraínuher gildir öðru máli). Og eftir því er stríð Rússa fjarri því að vera í sérflokki fyrir grimmd.

Tvöfalda siðgæðið

Tvöfalda siðgæðið blasir við í ljósi þess að öll málsmetandi ríki Evrópuráðsins eru jafnframt NATO-ríki og hafa sem slík tekið þátt í flestum þeim „hljóðlátu“ styrjöldum sem fjallað var um hér að framan. Það þarf varla að taka það fram að Ísland hefur stutt þau öll. Stríðin eru fleiri, en þessi eru valin af því hvað þátttaka hinna skinhelgu hefur verið þar bein.

Við þetta bætist sú staðreynd að NATO-blokkin er ekki allsendis laus við ábyrgð á stríðinu í Úkraínu. Pólitík BNA og NATO á svæðinu vestan Rússlands á 21. öld hefur verið ein löng sería ögrunaraðgerða sem hafa verið til þess fallnar að vekja viðbrögð Rússa. NATO og NATO-veldin hafa verið furðu samstíga um að stigmagna þau átök frekar en leita eftir friði. Hverjir eiga þarna í stríði? Þar er ekki Rússland á móti heiminum. Það er Rússland á móti NATO (og örfáum bandamönnum NATO) með Úkraínu sem staðgengil. Í vetur sagði varnarmálaráðherra Úkraínu: „Nú vinnum við ætlunarverk NATO. Þeir fórna ekki blóði sínu, við fórnum okkar blóði. “ Önnur ríki heims kjósa að standa utan við stríðið. Þetta er sem sagt enn eitt norðuramerísk/evrópska stríðið.

Vesturblokkin, þessi skinheilagi, sjálfskipaði fulltrúi lýðræðis og mannréttinda, er besti fulltrúi árásarstefnu og hernaðarhyggju í heiminum í dag, að öllum öðrum ólöstuðum.

Þessi grein birtist einnig á Neistum: neistar.is