Er Írak að breytast í Líbanon?
Irak Pistill - 25 Juli 2003
Það er orðið nokkuð langt síðan að ég skrifaði ykkur síðast en þar með er ekki sagt að það hafi verið tíðindalaust á vígstöðvunum í Írak. Þvert á móti fer ástandið síversnandi og sumir segja að borgarastyrjöld sé í uppsiglingu.
Eins og margir voru búnir að vara við áður en stríðið hófst verður mun erfiðara að halda uppi friði en að ná að sigra stjórn Saddam Hussein. Það eru fjölmörg vandamál sem Írakar standa frammi fyrir en þau eru: 1)
Hernám erlenda herja, 2) áframhaldandi ítök og áhrif Baath flokksins, 3) niðurníðsla stjórnkerfisins og stofnanna 4) algjört öryggisleysi og pólítísk ringulreið, 5)hrun efnahagskerfisins.
Þó að Írakar standi frammi fyrir þessum alvarlegu vandamálum eru það aðrar spurningar sem hafa haldið athygli vestrænna fjölmiðla. Eins og þið hafið tekið eftir hefur spurningin um gjöreyðingarvopn verið eitt helsta mál síðustu vikna. Eins og þeir segja í Washington, í anda Watergate, “it is not the crime but the cover-up” sem fólk lítur alvarlegum augum. Þetta mál er nú farið að hlaða utan á sig enda hefur verið ósamræmi í svörum framkvæmdavaldsins. Það er sennilegt að það sé
tímaspurning hvenær þingið fer að skoða þetta mál frekar. Ég hef orðið var við það að þetta mál er nú meira rætt meðal almennings hér. Enn er sagt, að meðalið hafi helgað tilganginn (já þetta er öfugt hjá mér), þ.e. að úr því að tókst að steypa Saddam Hussein, skiptir kannski ekki svo miklu máli hvaða rök voru færð fyrir því hvers vegna það væri nauðsynlegt að heyja stríð.
Ef fleiri bandarískir hermenn láta lífið í Írak, mun það veikja forsetann. Þá munu demokratar og aðrir að auka gagnrýni sína á hann. Nýleg skoðanakönnun meðal demókrata í Kaliforniu gefur til kynna að þeim frambjóðendum sem hafa gagnrýnt stríðsreksturinn (Howard Dean og nú nýlega John Kerry) sé að vaxa ásmegin (Dean fékk 22%) meðan
fylgi Gephart og Liberman (sem hafa stutt Bush í Íraksmálinu) sé að hrynja. En þó að velflestir væru á því að hugsanlega hafi verið einhver
vopn í landinu, og enn sé möguleiki á því að slík vopn finnist, álitu flestir meint tengsl Hussein við al-Qaeda vera ákaflega ósannfærandi. Áður en stríðið hófst var það gefið margoft í skyn að ein megin réttlæting þess að fara út í þennan stríðsrekstur væru bæði hin formlegu og óformlegu tengsl þar á milli. En nú þegar Bandaríkjamenn hafa hernumið landið og handtekið marga af yfirmönnum þess hefur ekkert spurst til þessara tengsla. Er þetta þá annað dæmi um að veruleikinn/sannleikurinn var teygður til að réttlæta pólitísk markmið? Ef farið væri að rannsaka túlkun Hvíta húsins á upplýsingum leyniþjónustunnar varðandi gjöreyðingarvopn, hvað þá með tengslin við al-Qaeda?
Í gær hélt Bush ræðu þar sem hann hélt því fram að nú hafi átt sér stað ákveðin kaflaskipti í kjölfar þess að Uday og Qusay Saddamsynir voru drepnir. Persónulega hefði ég talið æskilegra að ná þeim lifandi og draga þá fyrir rétt. Það er einkennilegt að þeir voru saman því sennilega hefði verið betra fyrir þá að vera í sitt hvoru lagi. En úr því að búið er að ná þeim er hugsanlegt að ekki sé langt þangað til að þeir ná Saddam Hussein. Það eru alls konar vangaveltur, sem fyrr, hvar hann sé niðurkominn og jafnvel gengur sú saga manna á milli að hann hafi sjálfur svikið syni sína til að dreifa athyglina frá sér. Meðan hersveitirnar voru uppteknar af ná strákunum hans hafi hann notað tækifærið til að flýja. Þetta eru vitaskuld getgátur.
Hinsvegar er ég ekki jafn sannfærður og Bush um að dauði Uday og Qusay marki mikilvæg tímamót. Við höfum heyrt sí ofaní æ að þeir sem bera ábyrgð á árásunum gegn Bandaríkjamönnum séu aðilar eða sveitir hollar Saddam Hussein. Ég held að þetta sé einum of mikil einföldun. Þetta er
þó þægileg skýring fyrir bandaríska fjölmiðla því “við” erum góðu gæjarnir sem eru enn að frelsa landið en “þeir” eru vondu gæjarnir sem hljóta því að vera menn Saddam Hussein. En vandinn er sá að það eru mörg pólítísk öfl í landinu. Það er því ekki endilega rökrétt að eina ástæðan fyrir því að einhverjir eru gegn hernámi Bandaríkjana sé vegna þess að þeir séu fylgismenn Hussein. En með því að leggja áherslu á að
þetta séu “Saddam Hussein loyalists” er ekki ekki tekið með í reikninginn að meirihluti Íraka, skv nýlegri könnun sem bresk stofnun stóð fyrir, eða um 75% líta gagnrýnisaugum á hernám Bandaríkjanna.
En með dauða Uday og Qusay munu margir Írakar anda léttar. Myndir af líkum þeirra verða væntanlega sýndar í öllum fjölmiðlum heims (vandinn er þó að enn er enginn fjölmiðlill með mikla útbreiðslu í Írak og margir hafa lítinn aðgang að ljósvakamiðlum vegna rafmagnsleysis). En meðan á hernáminu stendur munu árásir á hersveitir Bandaríkjanna halda áfram þó að Uday og Qusay séu látnir. Blaðamaðurinn Muhammad Bazzi skrifaði athyglisverða grein fyrir bandaríska dagblaðið Newsday um daginn þar sem hann tók viðtal við ónafngreindan hermann sem sagði að hann hafi verið meðlimur í sérsveit Uday (“Fedayee Saddam”)sem nú kallar sig “Frelsisher Íraka”. Hann segir að þetta sé vel skipulögð hersveit og ætli sér að halda uppi skæruhernaði eins lengi og þörf sé á. Þeir þekki landið betur en bandaríski herinn og þeir hafi þolinmæðina sem bandaríski herinn hefur ekki (bandaríski herinn er semsé enn með Víetnam veikina). Það er ekki ljóst hver og hvort einhver stjórnar þessari sveit og hvort það séu margar slíkar sveitir eða hvort þar séu einhver pólítísk markmið en ljóst er hinsvegar að andspyrnan gegn hernáminu er skipulögð.
Eins og þið vitið hefur verið skipað ráð (guardian council) sem er tímabundin stofnun sem á að koma á varanlegri stjórnskipun í landinu. Það er margt frekar athyglisvert við þetta ráð en það var vandlega sett saman af Bandaríkjamönnum. Fyrir það fyrsta sitja 25 manns í þessu ráði þar af einungis 3 konur. Þetta er skammarlega lágt hlutfall. Í öðru lagi eru um 9 aðilar fulltrúar trúarlegra hópa (velflestir frekar róttækir), sem er ekki jákvæð þróun, og einum of hátt hlutfall að mínu mati. Í þriðja lagi eru of margir útlagar í henni, þeirra frægastur Ahmad Chalabi, sem hafa engan stuðning í Írak en eru einungis fulltrúar útlendinga. Og í fjórða lagi eru allavega tveir aðilar sem voru og eru kannski enn, meðlimir kommúnistaflokks Íraka. Þrír aðilar hafa ákveðið að skipta forsætinu á milli sín, þeir Adnan Pachahchi, súnníti sem er um áttrætt og var eitt sinn utanríkisráðherra (hann talaði fyrir hönd ráðsins hjá Sameinuðu þjóðunum um daginn) Ayatollah Muhammad Bahr al-Ulum, sem er hófsamur sjíiti, einnig um áttrætt og Ayatollah Adbul Aziz al-Hakim, sem er sjíiti en ekki hófsamur.
Samsetning þessa ráðs virðist mjög einkennileg, jafnvel íronísk. Fóru Bandaríkjamenn virkilega í stríð til að bola Saddam Hussein frá völdum til að koma á stjórn aldraða ofstækiskarla sem sumir hverjir eru kommúnistar??!
Eins og þið sjáið er þetta ráð ekki vænlegt til árangurs til að koma á friðsælu lýðræðisríki í Írak. Bandaríkjamenn virtust fylgja ákveðinni uppskrift þar sem allt á að vera svo slétt og fellt. En með því að hafa ráðið samansett af þessum ein
Sumir kollegar mínir hafa haldið því fram að nýleg heimsókn Paul Wolfowitz til Írak hafi verið til að binda endi á þátt Pentagon í Írak og að auka hlutverk utanríkisráðuneytisins(State department). Þar af leiðandi sé Chalabi á útleið og ekki langt þangað til að Bremer hætti störfum. Ég veit ekki hvort að þetta sé áreiðanlegt en þetta er athyglisvert í ljósi þess að bandaríski herinn telur væntanlega að stríðinu sé lokið og þar með sé engin ástæða fyrir veru þeirra í Írak. Þeir leita nú logandi ljósi eftir aðilum sem gætu tekið yfir friðargæslu í Írak. Ýmsir héldu reyndar að þeir gætu leitað til bandalags viljugra þjóða og fengið friðargæslusveitir frá Solomon eyjum, Lettlandi og Íslandi en svo er greinilega ekki. Indverjar hafa sagt nei sem og Frakkar (Frakkar hefðu verið upplagðir í þetta verkefni enda hafa þeir bæði mannafla og reynsluna). Og ég hef ekki heyrt Wolfowitz eða Rumsfeld tala lengur um nauðsyn þess að “refsa Frökkum” vegna þess að þeir andmæltu stríðinu. Sennilega er verið að undirbúa það að Sameinuðu þjóðirnar komi þangað inn fljótlega. Hafa ber í huga að hernámið kostar um fjóra milljarða dollara á mánuði sem bandarískir skattborgarar þurfa að borga(þar á meðal ég). Og nú er fjárlagahallinn upp á 455 miljaðra dollara og í þeirri tölu er Íraksdæmið ekki reiknað með. Þetta er því sannarlega líka spurning um fjármagn.
Að lokum: Það hefur ekki verið mikið rætt um það í fjölmiðlum að staða kvenna í Írak hefur farið síversnandi. Þær hafa orðið mest fyrir barðinu á því ástandi að ekki er haldið uppi lögum og reglu. Til dæmis hafa nauðganir aukist til muna eins og New York Times skýrði frá um daginn. Það er almennt öryggisleysi á götum úti. Kvenstúdentar og kennarar eru ragar við að fara í skólann. Eins og fyrr sagði eru einungis þrjár konur í hinu nýskipaða ráði enda hefur átt sér stað á vissum stöðum ákveðin islamvæðing eins og ég hef bent á áður. Í því
öryggisleysi sem ríkir hafa nokkrir trúarlegir hópar tekið að sér öryggisgæslu. Þessar “öryggissveitir” eru byrjaðar að skipta sér af velsæmi almennings. Til dæmis ganga nú kristnar konur í Basra um
með slæðuna til að verða ekki fyrir sífelldu áreiti. Um daginn var haldin kvennaráðstefna í Baghdad sem var sótt af um 90 konum sem lýstu sig tilbúnar að taka þátt í uppbyggingu landsins. Einn kollegi minn hefur velt því fyrir sér hvort að Bandaríkjamenn ættu ekki að beita sér fyrir því að koma á einhverskonar kynjakvótakerfi, eins og er til staðar í Pakistan, þar sem viss þingsæti eru tekin frá fyrir konur. Í umræðunni hefur verið lögð mikil áhersla á að tryggja hið lýðræðislega ferli en þá er spurningin er hvort að útkoma þess yrði þá hagstæð með tilliti til stöðu kvenna sem skipa vitaskuld meir en helming þjóðarinnar. Bætt hlutfall kvenna á þingi er ein besta vörn gegn islamvæðingu í Írak enda myndu konur væntanlega beita sér gegn innleiðingu sjaría laganna. Ætti því að fórna ferlinu til lýðræðis til að tryggja góða útkomu fyri konur? Á að stofna Kvennalista Írak?