Bandaríkin, Evrópa, Tyrkland og Írak
Það er ekki endilega gaman að vera Evrópubúi í Bandaríkjunum um þessar mundir! Um helgina var ég staddur á bensínstöð og beið meðan að var verið að skipta um olíuna á bílnum mínum. Afgreiðslumaðurinn byrjaði að spjalla við mig um daginn og veginn. Eins og stundum gerist í slíkum aðstæðum tekur viðmælandinn eftir því að ég er ekki með hreinræktaðan amerískan hreim. Hann spurði mig þess vegna hvaðan ég væri. Svarið mitt kom svolítið flatt uppá hann og hann spurði "Iceland? Where is that?" Þegar ég sagði að það tilheyrði Evrópu sagði hann "Oh!? Is it in Old Europe or New Europe?" Þetta er vitaskuld erfið spurning (!) (hverju átti ég eiginlega að svara?) og ég hikaði smá. En hann beið ekki eftir svarinu og sagði "Oh it doesn´t matter. The Europeans messed up the world anyway." Þar sem hann var Ameríkani af afrísku bergi brotinn var það sannarlega ekki tilefni né ástæða fyrir mig að reyna afsaka framkomu Evrópubua á liðnum öldum. En þetta samtal var þó að eitt dæmi um fjölmargar spurningar sem ég hef fengið, bæði frá nemendum mínum og á hinum ýmsu fyrirlestrum sem ég hef haldið síðustu vikurnar nefnilega,"hvað eru eiginlega Evrópubúar að hugsa? Hvað hafið þið á móti okkur? Af hverju hafið þið ekki það hugrekki sem þarf til að standa uppí hárinu á einræðisherrum og hryðjuverkamönnum þessa heims? Hvernig getið þið sýnt okkur þessa vanvirðingu þegar við björguðum ykkur úr valnum ("saved your ass") í seinni heimstyrjöldinni?"
Þetta væri kannski fyndið ef ekki lægi mikil alvara að baki þessum spurningum og hugrenningum. Fram hefur komið umræða þess efnis að það sé töluverð gjá á milli heimsálfanna (sbr. grein Robert Kagan) og það liggur við að fólk sé nú farið að endurmeta kenningar Samuel Huntington um átök siðmenninga "clash of civilizations" á þann veg að þessi átök séu ekki á milli vesturs og austurs heldur milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameriku. Þið þekkið væntanlega vel til þess af hverju sumir í Evrópu eru á öndverðum meiði sérstaklega í málum tengd Írak. Þar er eitt atriði sérstaklega sem kannski er ekki mikið rætt um heima, en sýnir þó vel hin ólíku viðhorf, en það er varðandi málefni Tyrklands.
Tyrkland er nú þungamiðjan í umræðunni um Írak. Eins og þið vitið eru Tyrkir að semja við Bandaríkjamenn um efnahagsaðstoð fyrir að veita Bandaríkjaher aðgang að tyrkneskum flugvöllum og herstöðvum. Það hefur komið verulega á óvart hversu harðir samningamenn Tyrkir hafa verið. Á síðustu árum hefur verið mjög, mjög náið samband milli Bandaríkjastjórnar og Tyrklands. Almennt líta Bandaríkjamenn mun jákvæðari augum til Tyrklands en Evrópubúar og skilja einfaldlega ekki í því af hverju Evrópubúar hafa tekið umsóknum Tyrklands í Evrópusambandið svo illa. Tyrkir eru semsé Evrópubúar frá bæjardyrum Bandaríkjanna þó svo að velflestir Evrópubúar taki ekki undir það. Þetta nána samband stafar vitaskuld af því að Bandaríkjamenn töldu að Tyrkir hefðu leikið mjög mikilvægt hlutverk í kalda stríðinu. Tyrkland hefur líka verið mjög vinveitt Ísrael á undanförnum árum og tyrkneska ríkisstjórnin hefur fjármagnað margar prófessorsstöður við virta háskóla (eins og Princeton) og haldið uppi frekar öflugum hagsmunasamtökum og hugmyndabönkum (Think Tanks). Til að mynda eru margir fræðimenn í minu fagi (og þetta er sorglegt) sem neita því að fjalla um helför Armena 1915 hvorki í ræðu né riti, en sennilega létu a.m.k. um nokkur hundruð þúsund Armenar þá lífið. Það er því passað vel uppá það að umræðan um Tyrkland sé frekar á jákvæðum nótum.
Það er margt sem þarf að athuga varðandi Tyrkland og hugsanlegt stríð í Írak. Fyrir það fyrsta eru yfir 90% af Tyrkjum gegn stríðinu sem útskýrir kannski að einhverju leyti af hverju Tyrkir hafa verið frekar ófúsir að semja nema fyrir verulega háa fjárhæð. Í öðru lagi hafa þeir áhyggjur af flóttamannastraumi eins og var raunin á í stríðinu 1991.
Svo er það spurning um Kúrdana. Að öllum líkindum koma Tyrkir til með að hernema norðurhluta Íraks og koma á "demilitarized zone" til að koma í veg fyrir að átökin breiðist út.
Þó að við fyrstu sýn mætti ætla að þetta sé gert til að fyrirbyggja sjálfstæðistilhneigingar Kúrda er það alls ekki eina ástæðan. Sameiningarviðleitni Kúrda beggja megin landamæranna hefur verið í algjöru lágmarki undanfarin ár og áratugi. Írakskir Kúrdar eru miklir írakskir þjóðernissinnar um þessar mundir og telja að framtíðin sé mun glæstari nái þeir að tryggja stöðu sína innan efnahags- og stjórnkerfis Íraks en að reyna að sameinast þeim Kúrdum sem eru í Tyrklandi. Leiðtogar helstu flokka Kúrda í Írak eru mjög innstilltir að starfa innan ramma Írak. En það sem þó brennur ekki síst mjög á Tyrkjum eru afdrif Turkomana í Írak.
Turkomanar eru, eins og nafnið gefur til kynna, tyrkneskumælandi hópur sem hefur búið í Írak um aldaraðir. Þetta er þriðja stærsta þjóðarbrotið (á eftir Aröbum og Kúrdum) í Írak og eru um 5% eða svo af heildinni. Kúrdar hafa lýst því yfir að í framtíðinni þegar komið verður á ný stjórn í Írak, en heitasta hugmyndin í Washington gerir ráð fyrir sambandsríki þar sem Kúrdar komi til með að vera með sjálfdæmi í norðurhluta landsins, að höfuðborg þess svæðis verði Kirkuk. Hún er vel staðsett en í kringum hana er mjög öflugur olíuiðnaður. Hún er semsé mjög verðmæt. En Turkomanar hafa haldið því fram að Kirkuk sé þeirra "Jerúsalem", enda hafa þeir verið í meirihluta lungann úr sögunni en hlutfallið fór að breytast á sjötta áratugnum. Þeir hafa einmitt sóst eftir aðstoð Tyrklands til að frelsa þessa borg úr hendur Kúrda.
Tyrkir hafa tekið mjög vel í þessa bón enda líta þeir á sig sem tals- og forystumenn tyrknesku mælandi fólks í Mið-Asíu. Það er sannarlega ekki góðs viti ef norðurhluti Íraks snýst upp í að verða vettvangur stríðsátaka milli hinna ólíku þjóðbrota. Er "Balkanskagavæðing" framundan þar?
Svo er það mikilvæga hlutverk sem vatn kemur til með að hafa á þessu svæði. Tyrkir stjórna að mestu vatnsflæði Efrat og Tigris en þær eiga báðar upptök sín í suður-hluta Tyrklands en renna svo í gegnum Írak. Tyrkir eru með sína Kárahnjúkavirkjun og þar af leiðandi hefur vatnsmagnið í þessum ám minnkað verulega sem er ekki er góðs viti á þessu svæði þar sem vatnskortur er töluverður. En til að byggja upp öflugt efnahagslíf í Írak í framtíðinni þarf að auka til muna framboð á vatni. Tyrkir eru því í lykilstöðu til að hafa áhrif á gang mála í framtíðinni og því ekki að furða að Bandaríkjamenn vilji vinna náið með þeim.
Að lokum tvennt, mjög stutt.
1.
Hér er ræða Bin Laden á ensku. http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/middle_east/2751019.stm
Ég var að lesa hana aftur. Það sem er óþægilegt við
hana er að Bin Laden, sem fyrr, í sínum opinberu
umælum er mjög "mainstream" og róttækar hugmyndir hans
koma ekki berlega í gegn. Hann er semsé að staðsetja
sjálfan sig þar til að ná til breiðari hóps og
sérstaklega að vera með nægilega stóran faðm
nú þegar óánægjan í garð Vesturlandabúa er mikil.
2.
Háttsettir embættismenn Arabaríkjanna hittust nú um
helgina. Það var ekki gert mikið úr því en þeir
samþykktu ályktun, sem hin ýmsu smærri ríki
við Persaflóann eins og Kúveit voru ekki ánægð með.
Þeir lýstu því þar yfir að Arabaríkin kæmu
ekki til með að aðstoða Bandaríkjamenn í þessum
hernaði með einum eða öðrum hætti. Það er mikil óánægja
og óeining nú milli Arabaríkjanna um hvernig eigi að
taka á þessum málum. Það er þó líklegra
heldur en hitt að þegar á hólminn er komið munu þeir
starfa með Bandaríkjamönnum.