Fara í efni

REYNDAR KAUS ÉG FRAMSÓKN...

Ég var einu sinni Framsóknarmaður. Ég kaus flokkinn tvisvar en það segir ekki alla söguna þar sem ég hafði stutt hann frá því áður en ég fékk kosningarétt. Þetta gengur í fjölskyldunni minni. Það er þó þannig að yngsta kynslóðin hefur átt töluvert auðveldara með að sleppa undan þessu en þeir eldri.
Nú má sjá Jón Sigurðsson lýsa því hvernig hann fór í Keflavíkurgöngur áður en hann varð eldri og þroskaðri. Merkilegt nokk þá fór ég í hina áttina. Einu sinni hugsaði ég þannig að Íslendingar ættu fyrst og fremst að hugsa um efnahagslegan ávinning af því að hafa bandarískan her. Ég var semsagt ekki á bandi barða þrælsins heldur feita þjónsins.
Ég man eftir að hafa orðið vitni af deilum ungra hægri manna og ungra vinstri manna sem enduðu á því að þeir sættust á að allavega væru þeir allir skárri en Framsókn. Ég leit einmitt á flokkinn sem hógværan flokk, lausan við öfgar sem reyndi alltaf að finna bestu lausnina í hverju máli. Reynsla mín sýnir annað.
Stærsti þátturinn í umbreytingu minni var líklega afleiðing þess að Framsókn kaus að halda áfram í ríkistjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningarnar 1999. Ég hélt að Framsóknarflokkurinn væri þá orðinn leiður á að verja velferðarkerfið gegn árásum samstarfsflokksins. Svo var greinilega ekki. Það er líka þannig að meirihluti þess sem hinn almenni kjósandi skilur sem andóf Framsóknarflokksins gegn yfirgangi Sjálfsstæðisflokksins er bara leikrit. Það er hins vegar hentugt fyrir ráðandi öfl í Sjálfstæðisflokknum að geta skellt skuldinni á Framsókn þegar þeir ganga ekki jafn langt og hægri sinnuðustu meðlimirnir vilja. Framsókn eignar sér slíkt sem stóra sigra.
Það hjálpaði mér líka að ég prufaði að vera fátækur, atvinnulaus og veikur á Íslandi. Það er ekki öfundsvert hlutskipti. Framsóknarmenn í Félagsmálaráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneytinu en það hjálpaði ekki neitt, þeir voru ekkert skárri en að hafa íhaldið. Þegar Geir H. Haarde talar um að Framsóknarflokkurinn sé ekki að njóta góðu verka ríkisstjórnarinnar þá vantar það inn í myndina að kjósendur Framsóknar hafa allt aðrar hugmyndir um hvað telst vera árangur. Ég veit að þegar ég kaus Framsókn þá vildi ég félagslegt réttlæti en slíkt hefur mætt afgangi hjá ríkisstjórninni sem hefur setið síðustu tólf ár.
Umsnúningur minn í pólitíkinni var ekki snöggur. Ég færðist til. Á tímabili hugsaði ég um Samfylkinguna sem vænlegan kost en ég fékk fljótt leið á hægri krötunum.
Í kringum árásina á Írak þá varð ég loks sannfærður um að VG væri rétti kosturinn. Ég áttaði mig á því að Íslendingar mega ekki bara hugsa um eigin rass heldur þurfa þeir að taka ábyrga afstöðu á alþjóðavísu. Sagan hefur sýnt að við sem sýndum andstöðu okkar við innrásina höfðum rétt fyrir okkur. Núna koma aðrir og tala um mistök og "þær upplýsingar sem lágu fram á sínum tíma". Við stríðsandstæðingar höfðum rétt fyrir okkur þrátt fyrir að hafa sömu upplýsingar og aðrir. Hverjum ætti að treysta fyrir svona ákvörðunum í framtíðinni?
Það er augljóslega þannig að stuðningur íslenskra stjórnvalda við árásarstríð Bandaríkjanna tengdist ekki á nokkurn hátt þeim upplýsingum sem lágu fyrir á þeim tíma. Þetta var stuðingur feita þjónsins sem vildi fá meira brauð. Það er nógu slæmt að selja samvisku sína en að fá ekki einu sinni borgað er bara aumkunarvert. Jón Sigurðsson virðist ekkert hafa lært af þessu og montar sig af því hve þroskaður hann er orðinn. Ætli það sé ekki bara best að vera óþroskaður og berjast fyrir félagslegu réttlæti og friði.
Óli Gneisti Sóleyjarson