NOKKRIR ÞANKAR UM HÁEFFUN OR
Það er margt sem veldur heilabrotum vegna hlutafélagavæðingar OR. Meginrökin sem hafa verið færð fram eru eftirfarandi: Borgarsjóður losnar undan ábyrgð lána. Minni skattur greiddur af OR sem hlutafélagi (18%) en þegar það er sameignarfélag (26%). Auðveldara sé að OR sé hlutafélag þar sem fyrirtækið ætli sér í útrás á samkeppnismarkaði. Loks er nefnd væntanleg eða öllu heldur hugsanleg kæra eftirlitsstofnunar EFTA vegna þess að fyrirtækið njóti ábyrgðar eiganda sinna á lánum sem leiði til ójafnrar samkeppnisstöðu „fyrirtækja á markaði“.
Það er rökrétt að opinberir aðilar, hvort sem er ríki eða sveitarfélög eða stofnanir og fyrirtæki þeirra, njóti betri kjara á lánum hjá lánastofnunum, enda eru slík lán mun tryggari en lán sem einkafyrirtæki taka. Þessara kjara njóta allir íbúar samfélagsins í raun í formi lægri tilkostnaðar samfélagsins. Þessi staðreynd er hins vegar einkafyrirtækjum mikill þyrnir í augum og kæra þau iðulega til „eftirlitsstofnana“. Þessir átakapunktar eru hins vegar ein birtingarmynd helstu átaka sem eiga sér stað í nútímanum, viljum við samfélag með velferðarþjónustu þar sem opinberar stofnanir og fyrirtæki hafa „frelsi“ á við það sem einkaðilar krefjast, til að veita samborgurunum góða þjónustu, eða viljum búa á markaði þar sem lög og reglur fjármagnins eru þær einu sem gilda? Og opinber þjónusta er sett í spennitreyju sem spunnin er af kröfum markaðins? Um það verður ekki fjallað frekar að sinni, en minnt á að þær reglur sem eftirlitsstofnanir starfa eftir eru alls ekki óumdeilanlegar.
Ef hærra skatthlutfall á sameignarfélögum en hlutafélögum er talið óeðlilegt má taka það til skoðunar undir skattalögum. Það er ekki sjálfstætt tilefni til að breyta OR í hlutafélag. Á hinn bóginn er það jákvætt ef fyrirtæki í eigu samfélagsins getur greitt í sameiginlega sjóði í formi skatta og ekki sérstakt keppikefli út frá sjónarhóli Reykvíkinga að OR borgi minna í samneysluna.
Röksemdin um að nauðsyn sé á að breyta OR í hlutafélag vegna þess að fyrirtækið ætli í útrás, gefur hins vegar tilefni til bollaleggina, þó svo henni sé einnig fljótsvarað: Það er ekkert í núverandi rekstrarformi OR sem hamlar útrás fyrirtækisins, enda er því heimilt að stofna og rekur í dag dótturfélög sem eru bæði í útrás og eru hlutafélög.
Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi stjórnarformaður OR lýsti því yfir í mars við stofnun Reykjavík Energy Invest, dótturfélags OR, að það útrásarfélag skyldi vera hlutafélag. (http://www.or.is/Forsida/Frettastofan/Nanar/1026 ) Þá fellur niður „röksemdafærslan“ um að OR þurfi að vera hlutafélag til að geta tekið þátt í útrásinni með „frjálsum hætti.“ Enda ekkert því til fyrirstöðu að dótturfélög OR séu hlutafélög í dag, sbr. Enex hf.
Hins vegar segir í reglugerð um OR að „Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttarstarfsemi eða verndaðri starfsemi.“ OR má sem sagt ekki notfæra sér einkarétt sinn á rafmagni, heitu og köldu vatni, til að efla útrásarstarfsemi dótturhlutafélags síns.
Hvers vegna er þá verið að breyta OR í hlutafélag? Til þess að selja fyrirtækið? Til þess að selja það að hluta til einkafyrirtæka? Í dag má OR bara sameinast sambærilegum rekstri sveitarfélags: „Heimilt er að sameina Orkuveitu Reykjavíkur við sambærilega starfsemi annarra sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila eða félaga í þeirra eigu.“ Fullyrðing Vilhjálms Egilsonar framkvæmdastjóra SA á RÚV í gær, (3. september) um að það „mætti selja allan skrattann“ og þar með talið OR þó hún sé í formi sameignarfélags, er því misvísandi, það er mun auðveldara að selja OR eða hluta fyrirtækisins þegar það er orðið að hlutafélagi.
Og hvað verður þá um einkarétt OR – færist hann án frekari umræðu yfir á einkafyrirtækin? (Sjá 5. gr. reglugerðar OR hér að neðan.) Þarf eigandinn, sem að stærstum hluta er Reykjavíkurborg, ekki að taka sjálfstæða ákvörðun um það meginatriði, að undangenginni ítarlegri umræðu í þjóðfélaginu?
Hefur einkarétturinn verið verðlagður í 300 milljarða ágiskun Hauks Leóssonar stjórnarformanns OR á virði fyrirtækisins, eða er bara verið að slá á fasteignir, veitukerfið, virkjanir, hús, viðskiptavild o.þ.h.? Eða er þetta útspil stjórnarformannins bara ætlað til að færa umræðuna til í huga almennings, að venja fólk við tilhugsunina um að OR verði seld og spila um leið á hversu mikill ágóði það yrði fyrir Reykvíkinga að fá þessa fjármuni, (sem þeir eiga sjálfir í dag,) „í vasann“. Það verða hins vegar aðrir sem munu stinga öllum framtíðararði af sölu á vatni, rafmagni og hita til fyrrum eiganda, okkar Reykvíkinga, í eigin vasa. Hverjir verða það? Það eru ekki neinir smákarlar sem reiða fram 300 milljarða króna, þó svo Kbbanki, Björgúlfur Thor og fleiri séu orðnir sleipir í að ná sér í eignir með skuldsettri yfirtöku, þ.e. borga smáupphæð út en setja eignir fyrirtækisins síðan að veði fyrir afganginum.
Eða gengur plottið lengra, er hugsunin að ýta á að öll einkaleyfi/einkaréttur verði felld niður? Að til verði „frjáls markaður“ með vatn, hita og rafmagn á Reykjavíkursvæðinu þar sem að OR verði sjálfstætt hlutafélag og risi miðað við samkeppnisaðila? Og af því leiði síðan að fyrirtækinu OR hf verði frjálst að leggja til þá fjármuni sem sprottnir eru úr sameiginlegum sjóðum Reykvíkinga, í dótturfélag sitt Reykjavík Energy Invest, til að gambla með þá fjármuni að vild úti í hinum stóra heimi?
Það á að fara burt með pólitík út þessum rekstri OR, þar eiga bara að gilda rekstrarlegar forsendur, sagði Vilhjálmur Egilsson í sama spjalli í síðdegisútvarpi RÚV og áður var vitnað til. Pólitískar forsendur hafa hingað til þýtt að allir hafa átt rétt á heitu vatni til húshitunar, hreinu vatni til drykkjar og hreinlætis og rafmagns á viðráðanlegu verði. Og Orkuveitu Reykjavíkur hefur tekist mjög vel upp í rekstri sínum að uppfylla þessar grunnþarfir íbúanna og mannréttindi. Að taka tillit til rekstrarlegra forsendna þýðir hins vegar einfaldlega að það eru aðeins þeir sem borga uppsett gjald sem fá, hinir verða að éta það sem úti frýs.
Það er nefnilega grundvallarmunur á því hvort fyrirtæki er rekið í almannaþágu eða í ágóðaskyni fyrir hlutahafa sína. En hér virðumst við hins vegar vera að nálgast þá martröð að draumur Valgerðar um „samkeppni“ á grunnþarfamarkaði sé að verða að veruleika.
Páll H. Hannesson
Ítarefni:
Reglugerð um Orkuveitu Reykjavíkur 2006: Úr 5. gr.
„Orkuveita Reykjavíkur hefur einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu á eftirtöldum svæðum: Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Álftanes, Akranes, Borgarnes, Þorlákshöfn, Hveragerði, Stykkishólmur og Grundarfjörður.
Orkuveita Reykjavíkur hefur einkarétt til sölu og dreifingar rafmagns á eftirtöldum svæðum: Reykjavík, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær norðan Hraunholtslækjar og Akranes.
Orkuveita Reykjavíkur ber skyldur Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Álftaness, Stykkishólms og Grundarfjarðar, til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtekur þá samninga sem sveitarfélögin hafa gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga. Ennfremur ber Orkuveita Reykjavíkur skyldur Borgarbyggðar til starfrækslu vatnsveitna í Borgarnesi og á Bifröst.
Orkuveita Reykjavíkur ber skyldur Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar vegna Borgarness, Bifrastar og Varmalands og Borgarfjarðarsveitar vegna Hvanneyrar og Reykholts til starfsrækslu fráveitna samkvæmt sérstöku samkomulagi við hvert sveitarfélag.“
HÉR er viðtal við höf., Pál H. Hannesson, alþjóðafulltrúa BSRB um þetta efni í Spegli RÚV.