Fara í efni

UM VIÐEY, CIA OG VINSTRI GRÆNAN FINNA

Sæll Ögmundur
Ég hef lítið látið heyra í mér að undanförnu, enda gekkst ég undir aðgerð og er að jafna mig eftir hana. Nú þegar ég tek mér í hönd "hinn frjálsa penna" hér í dálkinum kemur mér fyrst í hug hvort ekki sé rétt að nota tækifærið og þakka Sighvati Björgvinssyni, krata og fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þeim félögum í Viðeyjarstjórninni fyrir að auka kostnaðarvitund sjúklinga. Eins og menn muna felldi Sighvatur niður niðurgreiðslur af sýkla- og verkjalyfjum. Þær rúmu 50 þúsund krónur sem ég hef greitt í sýklalyf hafa vissulega kennt mér að ekki borgar sig að vera veikur. Alltaf þegar heilsunni hrakar – og á það ekki síst við í þessum hremmingum mínum að undanförnu – hefur mér orðið hugsað til Viðeyjarstjórnarinnar. Hún innrætti sjúkum nefnilega raunsæja vitund um hlutskipti sitt. Af þessari vitundarvakningu hef ég notið sérstaklega góðs að undanförnu.

Að öðru, kona mín lenti í því láni að vera boðið til Finnlands, en eins og þú veist er hún frábær myndlistarmaður (Anna Gunnlaugsdóttir). Einhvern vegin hefur þetta boð farið framhjá elítunni hér heima, sem kallar sig því geðslega nafni CIA   http://www.cia.is/styrkir/7.html   “Valnefnd úthlutar styrkjum með hliðsjón af fylgigögnum og umsókn. Áætluð gæði og umfang verkefnisins í alþjóðlegu samhengi hefur ákaflega mikið vægi.” Í valnefnd eru 3 menn.

Þessi háleitu markmið koma fram á heimasíðu CIA en hvernig er þetta framkvæmalegt? Er hægt að ákveða hvað er gæðalist á heimsmælikvarða og hvað ekki. Allavega vissu þeir í Finnlandi ekkert af þessu þannig að Anna var valin í hóp sýnenda og boðið far og gisting.

Hvað um það þrátt fyrir veikindi og slappleika skrapp ég til Finnlands og var viðstaddur opnun sýningarinnar. Fyrir sýningu var okkur boðið í gufubað á finnskan máta. Meðan konurnar böðuðu sig ræddi ég við bóndann, sem reyndist vera vinstri grænn Finni. Hann sagði mér hvernig einkavæðingin var framkvæmd í Finnlandi og hvernig hún hefði leitt til hækkana þegar fram leið og minni manna á loforðin var farið að minnka. Þá töldu stjórnarherrar óhætt að hækka  rafmagnið, lyfin og annað; allt að hætti þeirra Viðeyjarfélaga og nú síðar Valgerðar, Halldórs og Co.

Við ræddum um Evrópusambandið, sem hann sagði að sjálfsögðu væri af því góða, ef það væri til þess fallið að sameina Evrópu, en væri ekki einungis samband ríkra þjóða, fyrirtækja og einstaklinga til að einkavæða almannaeignir og kúga almenning.

Rúnar Sveinbjörnsson