Fréttaflutningur á “kúbunni”
Oft er fróðlegt að hlusta á fréttir Sjónvarpsins. Ekki endilega vegna þess að Sjónvarpið matreiði áhugaverðar fréttir. Þvert á móti hefur Sjónvarpinu einhverra hluta vegna einmitt tekist að sneiða hjá mörgu því sem fréttnæmast hefur verið að gerast í heiminum á síðustu árum. Þannig höfum við til dæmis fengið fréttir af heimsvæðingu kapítalismans en minna hefur farið fyrir andófi milljóna manna gegn þessari markasðvæðingu á heimsvísu.Og ekki minnist ég þess að fréttaskýrendur hafi lagt sig í líma við að segja okkur frá þeim rökum sem teflt hefur verið fram fram gegn heimsvæðingu fjármagnsins, hvað þá að tíundaðar hafi verið afleiðingar þess að einkavæða velferðarþjónustu, vatn og rafmagn í fátækum ríkjum heimsins. Nei, það eru ekki fréttirnar sem eru fróðlegar heldur er hitt áhugavert að fá innsýn í hugarheim fréttamanna.
Innsýn í pólitískan þankagang
Í vikunni gafst prýðilegt tækifæri til að kynnast pólitískum þankagangi Ólafs Sigurðssonar og félaga á Sjónvarpinu. Frá því var greint að fellibylurinn Ívan grimmi stefndi á Kúbu. Nú bar vel í veiði enda fylgdu nákvæmar lýsingar á hve húsakostur væri bágborinn á Kúbu. Húsum á hinni sósíalísku Kúbu væri illa viðhaldið og því búist við miklu tjóni. Það var fremur létt yfir þeim sjónvarpsmönnum þegar þeir lýstu því fyrir okkur hve Kúba væri illa í stakk búin til að taka á móti Ívan grimma. Ekki varð Ólafi Sigurðssyni og félögum þó að ósk sinni. Kastró kom fram og sagði að Kúbumenn hefðu ekkert að óttast og myndu afþakka stuðning frá Bush Bandaríkjaforseta (sem reyndar var ekki í boði). Kúbumenn ættu marga góða vini sem væru traustsins verðir.
Við þetta létti pólitísku þunglyndi mínu. Og viti menn : Fellibylurinn sem stefnt hafði á Kúbu tók nú sveig, krækti framhjá eynni, og tók stefnu beint á Bandaríkin. Nú bregður hins vegar svo við að fréttastofa Sjónvarps hefur ekki lengur áhuga á bágbornum húsakosti og minnist ég þess ekki að eitt aukatekið orð hafi verið látið falla um ástand húsa eða hjólhýsa í Florida eða annars staðar sem fellibylurinn kynni að fara um. Hins vegar kom á daginn að tjón varð mikið.
..."en hann er að eldast"
Á sama tíma gerir brælu í Skaftafelli. Hús fýkur þar út í buskann. Ekki var minnst á að húsum umhverfisráðuneytisins væri illa viðhaldið. Eða hafa menn heyrt því hreyft í fréttum Ríkisútvarpsins að Þjóðminjasafni hafi verið illa viðhaldið eða öðrum byggingum? Hefur það verið sérstaklega tíundað að brunavarnir hafi verið slæmar í illa stæðum frystihúsum? Nei menn halda sig við Kúbu þegar kemur að lélegu viðhaldi á húsakosti. Og hvað aðrar fréttir frá Kúbu áhrærir þá eru þær alltaf botnaðar. Ef Ríkissjónvarpið neyðist til dæmis til að segja okkur að Kastró sé hress þá gleymist ekki að botna þá frétt: ...en hann er að eldast!
Rúnar Sveinbjörnsson