Fara í efni

GRÆÐGIN MUN EKKI FÆRA OKKUR FRAM Á VEGINN

Við sem alin erum upp við spakmælið, “græddur er geymdur eyrir” og vorum í skóla um 1960, fengum að reyna að þessi meinta speki stóðst ekki. Hinum geymda eyri var hreinlega stolið af okkur. Sjálfur á ég bankabók sem er heimild um þessa tíma, en innihald hennar sem eru 500 kr gamlar voru fengnar með því að bera út blöð, selja flöskur og gjafir frá ömmu gömlu sem ekkert átti.

Ef til vill varð þetta til þess að ég fór að velta fyrir mér hvað væru peningar og hvað lægi á bak við þá. Þetta er flókið fyrirbæri en ég held að Marx og félagar hafi opnað augu mín og margra annarra, um að peningar sem slíkir eru ávöxtun á vinnu og framleiðslu annarra. Glæsileg verksmiðja þar sem ekkert er fólkið er verðlaus eins og húsið þar sem enginn vill búa og engin er atvinnan.

Það er bankanna og fjármálastofnananna að sjá til að sparnaður okkar ávaxtist þannig að við getum lifað sómasamlegu lífi þegar við eldumst. Aðal sparnaður almennings er í gegnum lífeyrissjóðina og er hann umtalsverður.

Því miður er það svo að kapíalistunum, sem stjórna fjármálakerfum heimsins er ekki treystandi og heldur ekki á þeirra valdi að hafa þar áhrif á nema að litlu leyti. Ástæðurnar eru margar. Sumt er fyrirséð um annað ríkir óvissa:

  • Mun meiri peningar eru í umferð en innistæða er fyrir.
  • Glannalegar fjárfestingar og spákaupmennska, meðal annars  hérlendra braskara.
  • Einkavæðing grunnþjónustu.
  • Einkavæðing náttúruauðlinda og ofnotkunn þeirra, dæmi: olían og fiskurinn.
  • Aukin mengun og kostnaður vegna hennar.
  • Réttindabarátta kúgaðra og vonandi minnkandi arðrán, ásamt aukinni einkaneyslu í Kína og Indlandi svo eitthvað sé nefnt.
  • Styrjaldir vegna minnkandi auðlinda og sóun á verðmætum.
  • Þegar við sem erum í stóru árgöngunum, sem eiga rétt á fullum lífeyri, förum að fá greitt út, er ekki víst að innistæða verði fyrir hlutabréfunum eða skuldabréfunum. Ríkistjórnin búin að selja mjólkurkýrnar og á ekki fyrir ríkiskuldabréfunum eða lífeyrisskuldbindingunum. Fyrirtækin eignalaus, allt rekið með rekstrarlánum eða hvað það heitir. 
  • Kolvitlaus stefna í húsnæðismálum sem mun setja fjölda fólks á hausinn. Allt er þanið til hins ítrasta. Ekkert má út af bera þá er voðinn vís. Ef fólk skilur eða annar aðilinn fellur frá skulda viðkomandi meir en þeir eiga, ég tala ekki um ef húsnæðisverð fellur, sem raunar hlýtur að gerast, hvað þá?
  • Gjaldþrot stórfyrirtækja.
  • Ævitýralegur hallarekstur Bandaríkjanna.     

Í raun get ég haft listann mun lengri en ég vona að þetta vekji einhverja til umhugsunar um að það eru stórbrotin verkefni framundan, sem kapítalisminn er ófær um að leysa. Ástæðan er einföld, hagkerfi sem byggir á lægstu hvötum mannsins, græðginni mun ekki færa okkur fram á veginn. Sósíalismi þar sem hagsmunir heildarinnar ganga ávallt fyrir hagsmunum einstaklingsins er lausnin. Snúa verður vörn í sókn, því miður er hætt við að þar dugi ekki umbætur eða reglugerðir. Eignaupptaka og þjóðnýting verða að hafa mun meira vægi í framtíðinni. Einstaklingur á ekki að geta á örfáum árum safnað tugum milljarða á braski. 

Rúnar Sveinbjörnsson