„Samningar milli Trumps og Pútíns verði á kostnað Úkraínu“ segir úkraínski sósíalistinn Denys Pilash
Á norska vefnum Vi som støtter den nye venstresida i Ukraina má finna viðtal við úkraínska sósíalistann Denys Pilash, sem er félagi í vinstri flokknum Sotsialnyi Rukh og ritsjóri tímaritsins Сommons.
Viðtalið birtist á ensku á vefritinu LINKS International Journal of Socialist Renewal 13. mars.
Í viðtalinu ræðir Pilash það sem hann lítur á sem bandalag milli Trumps og Pútíns, sem sé í raun bandalag hægriöfgaaflanna sem sósíalistar um allan heim þurfi að sameinast gegn. Hann telur samninga milli þeirra alltaf verða á kostnað Úkraínu.
Það má vera að ýmsum þyki sumt sem Pilash segir, m.a. um skilyrði fyrir friðarsamningum, umdeilanlegt, en þar sem áhugavert er að kynnast sjónarmiðum úkraínsks sósíalista, hvort sem menn eru sammála öllu eða ekki, hef ég snarað útdrætti úr viðtalinu á íslensku en hvet lesendur til að gefa sér tíma til að lesa það í heild á ensku eða í norsku þýðingunni sem finna má gegnum þá tengla sem ég hef sett á það hér að ofan.
Hafa verður í huga í þeirri hröðu atburðarás, sem nú er, að það er að minnsta kosti vel á aðra viku síðan viðtalið var tekið.
Pilash er spurður um viðbrögðin í Úkraínu við fundinum umtalaða milli Zelenskís og Trumps. Hann segir viðbrögðin almennt einkennast af reiði, Trump og Vance, utanríkisráðherra, hafi ekki bara reynt að auðmýkja Zelenskí heldur alla úkraínsku þjóðina. Fólki finnst eiga að knýja það til að samþykkja óviðunandi samning sem feli í sér að afhenda auðlindir landsins gegn engu. Þetta sé í algerri mótsögn við það sem Sotsialnyi Rukh og vinstrihreyfingin í Úkraínu hafi barist fyrir, sem hafi krafist að skuldir Úkraínu verði afskrifaðar og nota eigi ránsauð úkraínskra og rússneskra ólígarka, sem er geymdur í vestrænum skattaskjólum og að hluta frystur af vestrænum stjórnvöldum, til að byggja upp landið.
Hann segir marga hafa fyllst bjartsýni þegar Trump lofaði að ljúka stríðinu á sólarhring en nú hafi hann afhjúpað sig í þeirra augum og þeir sjái hin beinu tengsl milli harðrar hægristefnu Trumps og Pútíns.
Pilash er spurður um hvernig hann skýri algeran viðsnúning Bandaríkjanna í stefnunni varðandi Úkraínu.
Hann segir erfitt að sjá eitthvert samhengi en þó megi greinilega sjá hugmyndafræðilegan boðskap. Í grófum dráttum gefi Trump, Vance og Musk til kynna að þeir ætli sér styrkja öfgahægri og fasíska stefnu hvarvetna og vilji bara starfa með fasískum og valdsæknum stjórnmálamönnum og leiðtogum. Trump komi sér hjá að kenna Pútín um stríðið eða kalla hann einræðisherra. Nýr öxull sé að verða til sem samanstandi af Trump, Pútín, Netanyahu, öfgahægrinu í Evrópu og allskonar einræðissinnuðum og valdsæknum stjórnvöldum víðsvegar um heiminn. Í sameiginlegri sýn Trumps og Pútíns felist að Rússland hafi frjálsar hendur í póst-sovéska heiminum meðan Bandaríkin hafi frjálsar hendur í hinum vestræna hluta hans. Og í þessu kerfi verði alþýðan og minni þjóðir svipt öllu valdi.
Pilash gagnrýnir marga vinstri menn á Vesturlöndum fyrir að líta á heiminn sem skiptan milli pró-bandarísks og and-bandarísks heimsvaldahluta (stundum kallað kampismi (campism)), en í raun þýðir slíkur „fjölskauta“-heimur að fáein stórveldi fái frjálsar hendur á sínum svæðum. En það sé ekki nóg að líta á bandalag Trumps og Pútíns út frá „geopólitík“, það megi ekki gleyma stéttagreiningunni. Trump og Pútín eru fyrirmyndir fyrir hið alþjóðlega öfgahægri sem vill rústa arfinum frá upplýsingaöldinni. Og þetta bandalag hefur með stéttir að gera. Afturhaldssinnaðasti hluti valdastéttarinnar í vestri grípur tækifærið til að rústa velferðarríkinu og þeim sigrum sem verkalýðsstéttin og aðrar félagslegar hreyfingar hafa náð á 20. öldinni og þar öfundar bandaríski milljarðamæringurinn Rússland af ólígarkíska kerfinu þar sem auðmennirnir hafa frelsi til að raka að sér auði svo fremi þeir skipti sér ekki af pólitískum ákvörðunum.
Varðandi tilraunir Trumps til að ná auðlindum Úkraínu segir Pilash að það sé alls óvíst að það yrði endanlegur samningur og þar að auki sé alls ekki víst að þær auðlindir sem um sé að ræða séu yfirleitt nándar nærri svo miklar að þær geti uppfyllt hann. Niðurstaðan gæti orðið yfirtaka annarra auðlinda og annarra hluta efnahagsins, þar á meðal innviða Úkraínu. Samningur um efnahagslega nýlendustefnu sem gæti orðið hættulegt fordæmi fyrir lönd í suðri.
Varðandi samninga milli Bandaríkjanna og Rússlands segir Pilash að þeir geti haft voveiflegar afleiðingar fyrir allan heiminn, sérstaklega lönd í suðri. Heimsvaldastefna rússneska nágrannans hefur farið illa með Úkraínu. En nú lítur út fyrir að landið verði líka bandarísku heimsvaldastefnunni að bráð. Samningar milli þeirra verði augljóslega á kostnað Úkraínu. Vinstrihreyfingin þar hefur ekki borið neitt traust til Bandaríkjanna, en eins og allir sem ráðist er á þarf Úkraína stuðning alls staðar að til að berjast gegn árásaraðilanum. En vinstrihreyfingin í Úkraínu hefur líka gagnrýnt ráðandi stétt sem skilur ekki að þetta er ekki samtal milli jafningja, að stórveldi hagi sér alltaf út frá eigin hagsmunum. Þessi nýja staða færir þeim enga afsökun sem telja að Rússland Pútíns sé eitthvert mótvægi við vestræna og bandaríska heimsvaldastefnu. Þarna gildir engan veginn að óvinur óvinar míns sé vinur minn. Og þessi nýja staða sýnir líka að þetta er ekki bara staðgengilsstríð (proxy war).
Pilash er spurður hvað Úkraínumenn sjái fyrir sér að komi út úr samningum. Hann bendir á að bæði Pútín og Lavrov hafi sagt að Rússar vilji ekki bara halda þeim svæðum sem Rússar hafa náð heldur fá meira. Vissulega óska engir frekar eftir friði en íbúar Úkraínu en það þýðir ekki að þeir vilji gefast upp fyrir Rússum. Ef Úkraínu verður skipt upp þýðir það að milljónir manna, sem eru á hernumdu svæðunum eða hafa þurft að flýja, hafa engan stað að fara til. Slíkt þýðir bara að alræðisstjórn Pútíns mun styrkjast, sérstaklega á hernumdu svæðunum. Úkraínumenn hafa tvennt einkum í huga þegar þeir hugsa um samninga: örlög fólksins á hernumdu svæðunum og hvernig megi koma í veg fyrir að Rússland hefji stríðið að nýju.
Það eru nokkrar hugsanlega leiðir í friðarsamningum. Til dæmis hefur ríkisstjórn Úkraínu gert það ljóst að hún mun ekki viðurkenna ólöglegt hernám Rússlands, þar sem það gæti skapað hættulegt fordæmi fyrir Úkraínu og heiminn. En Úkraína hefur gefið í skyn að það væri hugsanlegt að fallast á tímabundna tilhögun þar sem hún haldi að minnsta kosti einhverju af hernumdu svæðunum eftir vopnahlé og síðan verði samið um það sem eftir er. Annað mikilvægt skilyrði er trygging fyrir öryggi. Hvaða trygging er fyrir því að Rússar noti ekki vopnahlé til að auka styrk sinn? Stöðugt fleiri sjá að það er ekkert útlit fyrir aðild að NATO og við sem vinstrimenn sjáum líka gallana við NATO, en einhverja tryggingu verðum við að hafa, segir Pilash.
Pilash gagnrýnir þá vinstrimenn sem ásaka Úkraínu fyrir að vera treg til að ganga til friðarsamninga. Að reyna að róa árásaraðilann og gefa eftir fyrir honum, að láta heimsvaldasinnana skipta upp minni löndum og skipta heiminum upp í sín áhrifasvæði, sé aðeins til hins verra. Þeir sem tala fyrir þessari leið lenda á sömu línu og afturhaldsöflin sem fylgja hinu nýja fasíska heimsbandalagi undir forystu Bandaríkjanna og Rússlands. Þessir svokölluðu „friðar“-samningar milli Pútíns og Trumps snúast um að hygla árásaraðilanum og búa í haginn fyrir frekari árásarstefnu. Í staðinn fyrir þessa „realpólitík“, sem sjá má víða meðal vinstri manna, þurfum við að endurnýja alþjóðahyggju gegn Trump-stjórninni sem hefur forystu fyrir árás hægri öfgaaflanna gegn framsæknum öflum og félagslegu ávinningum um allan heim.
Ef alþjóðlega vinstrihreyfingin vill hjálpa úkraínsku þjóðinni þarf hún fyrst og fremst að halda áfram baráttunni gegn ríkjandi stéttum og afturhaldsöflum heima fyrir en jafnframt sameinast um allan heim gegn yfirgangs- og kúgunaröflum og heimsvaldasinnum.
„Það er nú eða aldrei,“ segir Pilash að lokum. „Ef við látum ekki til okkar taka nú höfum við kannski enga möguleika á morgun. Við gætum þess í stað þurft að lifa undir hælnum á alræðissinnuðum fasískum stjórnvöldum sem reyna að breyta heiminum að eigin vilja – í fínan stóran leikvöll handa heimsins ruddalegustu og ríkustu mönnum.“
Einar Ólafsson gerði útdrátt.